„Ég er hræddur af því ég er byrjaður að vona.“ Þetta er ótti óvirks alkóhólista, líklega ótti flestra sem eru haldnir sjálfseyðingarhvöt á háu stigi, hvort sem sú hvöt birtist í fíkn í vímugjafa eða einhverri annarri hugvitsamlegri leið okkar til að tortíma sjálfum okkur. Nánar tiltekið er þetta ótti trúðsins, Syracuse sem er uppnefndur Sirkus, mannsins sem allir treysta að klúðri hlutunum fyrr en síðar, líka hann sjálfur.

Syracuse er fiskimaður í írskum smábæ, leikinn af síðhærðum Colin Farrell, sem veiðir mest lítið þangað til hann veiðir óvænt fáklædda unga stúlku í net sitt. Sú biður hann að kalla sig Ondine í höfuðið á hafgúuni frægu (íslensk útgáfa sögunnar er Selshamurinn sem má lesa hér) og hægt og rólega koma fleiri vísbendingar um að það kunni jafnvel að vera raunin að hér sé um raunverulega vatnadís að ræða. Hún syngur undurfagra söngva sem tryggja Syracuse óvænta mokveiði og loks er sambandið komið á þetta hættulega stig, stig vonarinnar – augnablikið áður en skýjaborgin hrynur – eða hvað? Það er á þeim tímapunkti sem oftar sem hann leitar til prestsins góða sem er staðgengill AA-samtakanna – Syracuse lætur raunar eins og hann sé á AA-fundi þegar hann sest í skriftastólinn, hversu oft sem presturinn leiðréttir hann. Og það er við prestinn sem hann tjáir óttann sem minnst var á í upphafi, og hér er rétt að geta þess að presturinn er miklu meira en bara prestur, hann er leikinn af hinum eina sanna Stephen Rea, en eins og allir almennilegir áhugamenn um írska kvikmyndagerð vita þá hefur ekki verið gerð almennileg írsk bíómynd síðustu 30 árin án þess að annað hvort hann eða Colm Meaney bregði fyrir á einhverjum tímapunkti.

Og Rea er reffilegur að venju og hið sama gildir um Farrell sjálfan sem og hina pólsku Alicja Bachleda sem Ondine – en þau Farrell lifðu sig nægilega vel inní hlutverkin til þess að grafa selshaminn í sameiginlegum bakgarði í raunheimum. En það er þó Alison Barry sem stelur myndinni sem Annie, veik dóttir Syracuse, og það er eitthvað merkilega heillandi (og sorglega sjaldgæft) að sjá fatlafól á borð við Önnu sem aldrei leyfir sér að vera í fórnarlambshlutverki of lengi, þvert á móti er stúlkan jafn ævintýragjörn, forvitinn og djörf og hver annar tíu ára krakki þar sem hún þvælist um allt á rafknúna hjólastólnum sínum – og augnablikið sem hún fær hann loksins í staðinn fyrir þann gamla handknúna verður til þess að dæmigerður æsingur unglingspilta yfir nýfengnu bílprófi bliknar í samanburðinum.

Þá er rétt að nefna prýðilega tónlist Kjartans Sveinssonar úr Sigur Rós (það er raunar einn Sigur Rósar brandari í myndinni þar sem Syracuse ruglast á söng hafgúunnar og söng Jónsa í sjónvarpinu), og raunar kallast ákveðið atriði í sögunni skemmtilega á við The Good Heart Dags Kára.

En það sem gefur myndinni þó mesta vigt er hvernig snúið er upp á þessa ævafornu sögu til þess að segja merkilegri sögu af flóttamönnum, alkóhólisma og örlagatrú en maður bjóst nokkurn tímann við, en Neil Jordan er líka leikstjóri sem er gjarn á að koma manni á óvart. Hann er mikill sagnamaður og merkilega vanmetinn, það liggur við að manni finnist helsti gallinn hve auðvelt þetta er, maður hefur alltaf sterklega á tilfinningunni að hann þurfi ekkert að hafa fyrir þessu – sem er erfiðasta blekking sérhvers listamanns.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Pistillinn birtist upphaflega á Kistunni þann 5. maí 2010, og er rifjaður upp vegna nýjustu kvikmyndaútgáfu sögunnar.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson