Við erum í lest á leiðinni til Berlínar. Árið er 1928 og ung stúlka af góðum Kölnar-ættum, Marthe Müller, er á leiðinni til Berlínar í listnám, í óþökk föður síns. Í lestinni hittir hún Kurt Severing, blaðamann fyrir Die Weltbühne, sem var helsta málgagn vinstrisinnaðra menntamanna á tímum Weimar-lýðveldisins.

Þau munu verða okkar helstu leiðsögumenn í gegnum Berlín, sem er ekki bara borg heldur líka titillinn á miklu verki Jasons Lutes um borgina, sem kom út í þremur bindum. Lutes vann heimavinnuna sína svo vandlega að níu ár liðu á milli bóka, þannig að þessi þríleikur sem ég byrjaði að lesa árið 2001 kláraðist ekki fyrr en í fyrra.

Hins vegar fjallar Lutes aðeins um rúm þrjú ár í sögu borgarinnar, flestir kaflar taka einn mánuð fyrir – og megnið af bálknum fjallar um árin áður en nasistar taka völdin. Þetta er myndasaga um örlög þjóðar og sýnir okkur Berlín sem að var ekki síður sundruð en á árum kalda stríðsins, á milli stríðandi pólitískra fylkinga. Kommúnistar og nasistar takast á á götum úti, á síðum blaðanna og á kaffihúsum borgarinnar.

Og þótt ég hafi minnst á þau Marthe og Kurt hérna áðan þá er þetta margradda saga og margt í stílnum kallast á við mynd Wim Wenders, Himininn yfir Berlín, þar sem englarnir hlustuðu á hugsanir fólks á götum úti – hér sjáum við þessar sömu hugsanir aukapersóna í hugsanablöðrum.

Og þótt það sé rauður þráður viðburða í sögunni snýst þetta ekkert síður um að birta okkur svipmynd af Berlín Weimar-lýðveldisins, þar sem Josephine Baker og bandarískir djassarar leika fyrir dansi, þar sem frjálslyndi í kynferðismálum, jafnvel gagnvart samkynhneigð, var langt á undan sínum samtíma – en líka þar sem heimssagan átti eftir að ráðast.

Dyrnar sem lokuðust

Sagan gerist um áratug eftir lok fyrri heimstyrjaldar, um áratug eftir stofnun Weimar-lýðveldisns – og maður skynjar sterka tengingu við nútímann í henni, við okkur núna, rúmum áratug  eftir hrun gætu örugglega einhverjir haldið svipaða ræðu og hún Berthe Apfelbaum gerir í viðtali við blaðamanninn Kurt Severing árið 1929:

„Nóvemberbyltingin og stofnun lýðveldisins eru mestu kraftaverkin sem ég hef orðið vitni að á mínum 46 árum. Mér finnst eins og við höfum endurfæðst sem þjóð árið 1919.

En eftir því sem árin líða hef ég tekið eftir því að margir Þjóðverjar deila ekki þessari tilfinningu með mér.“

Þeir sakna svipunnar, sakna þess að fá skýrar skipanir frá óumdeildu yfirvaldi, þeir sakna hins sterka leiðtoga – og bráðum átti þeim eftir að verða að ósk sinni.

Sagan sýnir okkur þó líka hversu litlu mátti muna, eða svo ég vitni í annan viðmælanda Kurts:

„Hlutirnir hafa skánað, en dyrnar eru að lokast. Við þurfum að finna leið til að halda þeim opnum.“

Og, eins og við öll vitum, áttu þessar dyr eftir að lokast með skelli. Okkur er gjarnt að skilgreina þjóðir eftir leiðtogum þeirra, jafnvel þegar minnihluti landsmanna kýs viðkomandi leiðtoga, mannkynssagan getur snúist á einu eða tveimur prósentum, tilviljunum og löngu gleymdum sögulegum aðstæðum.

Hér birtist okkur átök nasista og kommúnista skýrast í blóðbaði þann 1. maí, þar sem tvær andstæðar fylkingar mættust – en vandi kommúnistanna var að lögreglan var óbeint með nasistunum í liði, þótt yfirvöld hafi á þeim tíma verið sósíal-demókratar, eða eins og lögreglustjórinn segir við sína menn rétt fyrir óeirðirnar: „Við þurfum einnig að hafa viðbúnað gagnvart öðrum hópum, eins og nasistunum. Þeir gætu hjálpað til við að valda usla í röðum kommúnistanna.“

Yfirvöld veðjuðu einfaldlega á að nasistarnir væru síður líklegir til vandræða í framtíðinni en kommúnistar, og mögulega valdinu frekar þóknanlegir, miðað við orð eins gyðings í sögunni: „Kommúnisminn er of stórt skref fyrir ríkið, svona rétt eftir að hafa misst keisarann. Þýskaland getur ekki séð kommúnismann sem lausn, þannig að ríkið sér hann sem vandamál.“

Þessi síbreytilegu andlit

Sagan gleymir sér þó aldrei alveg í pólitíkinni. Þetta er ekki síður ástar- og örlagasaga, sem og saga af borg. Þetta er myndasaga til þess að lesa hægt, og fyrir því eru helst tvær ástæður. Annars vegar til þess að sökkva sér ofan í öll smáatriðin sem birtast á víðmyndum af borginni, veröld sem var í borg sem hefur gerbreyst, þótt sumt sé enn kunnuglegt. Hin ástæðan eru andlitin. Sérstaklega andlitið á Marthe, sem er síbreytilegt, jafnvel á sömu síðu. Maður týnist alveg í að átta sig á þessum andlitum – og í því ferli, heillast maður algjörlega af aðalpersónunum – óháð því hvað þær segja nákvæmlega og gera.

Svo er þetta fólk ekkert endilega í pólitík út af pólitíkinni sjálfri. Einn fátæklingur mætir alltaf á kommúnistafundi af því þar eru menn gjafmildir á mat, drykk og félagsskap, á meðan yfirstéttarpían vinkona þeirra styður á endanum nasistana, einfaldlega af því hún telur það einu leiðina til þess að njóta ljúfa lífsins áfram í borg hinna frjálsu ásta – sem eru auðvitað fyrst og fremst frjálsar fyrir þá sem hafa efni á því.

Þegar einn kommúnistinn bankar reiðilega á gluggann á kaffihúsinu þeirra eru þau svo minnt harkalega á að þau eru sjálf af burgeisum komin, þrátt fyrir vinstrisinnaðar hugsjónir og þegar Kurt fer að sjá hvert stefnir hugsar hann:

„Þarf ég að sætta mig við að – óháð mótmælum fjöldans, jafnvel óháð byltingum, muni sömu öflin alltaf græða á að afvegaleiða almenning? Eins og bakaraofnar úr Grimmsævintýrunum sem blindur múgurinn hendir brennandi hjörtum inn í, bara svo þau umbreytist í svart sót sem blindar alla?“

Enda höfðuðu nasistarnir til verkalýðsins ekkert síður en kommúnistarnir, með ræðum á borð við:

„Af hverju eruð þið hér? Af því bankarnir brugðust ykkur! Gangið til liðs við nasistaflokkinn.“

Á meðan rífast vinstrisinnaðir menntamennirnir og þegar einn þeirra vill blóðuga uppreisn setur annar ofan í hann með að vitna í gamla grein eftir hann sjálfan:

„Var það tilviljun að talsmenn villtustu ofbeldishugmyndanna – Nietzche, Barrés, Sorel – voru ófærir um að gera tuttugu hnébeygjur sjálfir?“

En skrifstofum Die Weltbühne er lokað þegar nasistar taka völdin. Þeir félagarnir hittast enn þá á kaffihúsum og ræða sömu hugmyndir, en raddirnar hafa glatað sannfæringu sinni. Þeir viðhalda rútínunni þótt vonin sé farin – þeirra heimssýn varð undir og bráðum fær heimurinn að borga fyrir það dýru verði.

Mikki mús og helförin

Kurt brennir öll sín gögn þegar hann sér í hvert stefnir og eftir að dagblöðin eru öll komin í hendur nasista birtist eftirfarandi klausa í þýsku blaði árið 1939:

„Mikki mús er ömurlegasta fyrirmynd barna sem til er. Heilbrigðar tilfinningar sérhvers manns segja honum að þetta skítuga meindýr, mesti sjúkdómsberi dýraríkisins, geti ekki verið neitt fyrirmyndardýr. Burt með sníkjulíf júðanna á fólkinu! Niður með Mikka mús! Beriði hakakrossinn!“

Fjórum árum áður hafði Hitler bannað músina fræknu í Þýskalandi og sjálfur sagði hann gyðinga vissulega vera kynþátt en sannarlega ekki mennska.

Allt þetta nýtti Art Spiegelman sér í myndasögunni MAUS, sem er vísun í þýska orðið fyrir mús. Þar segir Spiegelman sögu föður síns, Vladeks, sem fæddist í Póllandi og lifði helförina af þrátt fyrir dvöl í Auschwitz sem fangi númer 175113. Þetta er söguleg saga og frásagnarhættir raunsæisins eru notaðir með einni mikilvægri undantekningu, gyðingarnir eru teiknaðir sem mýs og nasistarnir sem kettir. Já og Pólverjarnir sem svín, Bandaríkjamenn sem hundar, Svíar sem hreindýr, sígaunar sem flugur og Frakkar sem froskar.

Spiegelman leikur sér með þá einkennilegu hefð að á meðan kettir eru elskuð gæludýr og mýs réttdræp meindýr þá er þessu iðulega öfugt farið í teiknimyndunum sem börn alast upp með, þar sem Tommi eltir Jenna. Með þessu gerir hann lesandann að nokkru samsekan – því á meðan við þykjumst ekki skilja helförina á hendur gyðingum finnst okkur meira en sjálfsagt að hringja beint í meindýraeyðinn þegar mýsnar fara að færa sig upp á skaftið.

Það voru svo oft gyðingarnir sjálfir sem þurftu að taka til eftir að skrúfað var frá gasinu skelfilega. Einn vinur Spiegelmans eldri segir honum að „Stærsta hrúgan af líkum var við hurðina, fólk að reyna að komast út. Við aðskildum líkin með krókum, þetta voru stórar hrúgur, þar sem hinir sterkustu voru efst, gamalmenni og börn kramin neðst, oft voru hauskúpurnar brotnar.“

En þótt MAUS sé saga um helförina og aðdraganda hennar, er hún ekkert síður saga eftirlifenda og barnanna sem ólust upp við sögur af helförinni og stríðinu, eins og tilfellið er með höfundinn. Í seinna bindinu eru hans eigin aðstæður orðnar breyttar, enda hafði fyrra bindið slegið í gegn, og þá verður sagan um sumt meðvitaðri. Spiegelman er orðinn maður með músargrímu, og situr á hrúgu af líkum og teiknar. Raunverulegir hundar og kettir sálfræðingsins hans rugla metafóruna í rýminu og hann rífst við franska kærustuna um hvort hann eigi að teikna hana sem mús eða frosk, en lætur á endanum undan þar sem hún hafði snúist til gyðingdóms.

Sterkust er þó bókin þegar þessir tveir heimar mætast, þegar pabbinn segir frá því hvernig hann sá gamla vini hverfa og sést svo uppgefinn á hlaupahjólinu, jafnt andlega sem líkamlega, og þegar við sjáum hans unga sjálf speglast í hans gamla hrukkótta sjálfi að horfast í augu við fortíðina. Honum blæðir bókstaflega mannkynssögu, eins og undirtitill fyrra bindisins er til marks um, My Father Bleeds History, en mögulega er vandinn sá að honum hefur blætt út, þeir sem lifðu af Auschwitz lifa ekki ellina af frekar en aðrir og nú er þessi mannkynssaga nánast orðin blóðlaus – og þegar lífsmarkið er horfið virðumst við dæmd til að endurtaka hana. Og ef svo fer þurfum við kannski bara að rifja upp huggunarorð Spiegelmans eldri við konu sína í fangabúðunum:

„Nei, elskan. Það er auðvelt að deyja. Þú þarft að hafa fyrir því að lifa.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni á Rás 1 þann 22. september 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson