Kvikmyndahátíðin RIFF er nú nýhafin í sextánda sinn og eftir að hafa legið yfir hátíðarbæklingnum þá er Menningarsmyglið búið að taka saman fjórtán myndir sem bráðnauðsynlegt er að sjá á hátíðinni. Rétt er að geta fram að smyglari hefur séð þrjár fyrstu myndirnar á listanum og getur mælt með þeim – en leyfir sér að vera bjartsýnn með hinar ellefu. En svo fylgja líka í lokin tvær sem má alveg vara við, þrátt fyrir góða leikstjóra …
Sníkjudýr / Parasite / Gisaengchung – Bong Joon-Ho
Einfaldlega ein albesta mynd ársins, eða svo ég rifji upp umfjöllun mína frá því í sumar:
„Sú þriðja er svo Gullpálmamyndin frá síðustu Cannes-hátíð, Sníkjudýrin, Parasite, sem fjallar um Kim-fjölskylduna, bláfátæka fjögurra manna fjölskyldu sem búa fyrir neðan sjávarmál í kóreskri borg, vinna við að brjóta saman pizzakassa og eru svo fátæk að þau þurfa að leita að rétta staðnum í íbúðinni til þess að ná netsambandi frá nærliggjandi fyrirtækjum.
En gæfan virðist vera að snúast þeim í vil þegar sonurinn fær vinnu við að kenna táningsstúlku ríkra hjóna ensku, með því að hagræða aðeins sannleikanum um menntun sína. Í kjölfarið kemst hann að því að Park-hjónin auðugu hafa áhuga á að ráða myndlistarkennara fyrir yngri soninn og mælir með systur sinni í starfið, án þess þó að segja þeim frá ættartengslunum. Park-hjónin eru þegar með einkabílstjóra og húshjálp, en fljótlega tekst systkinunum að koma þeim úr starfi svo foreldrar þeirra geti tekið við, aftur þó án þess að geta neinu um raunveruleg fjölskyldutengsl þeirra.
Skyndilega eru því tvær fjögurra manna fjölskyldur í glæsihýsi Park-hjónanna, þótt önnur fjölskyldan sé algjörlega ómeðvituð um fjölskyldutengsl hinnar. Manni verður óljóst hugsað til Tímavélar H.G. Wells, þar sem stéttskiptingin í óræðri framtíð hefur þróast þannig að morlokkarnir eru skuggaverur sem búa neðanjarðar og elóarnir eru saklausar ljósverur sem búa ofanjarðar – þeir eru auk þess trúgjarnir og auðveld bráð fyrir morlokkana þegar þeir laumast upp á yfirborðið á næturna. Kim-fjölskyldan býr bókstaflega undir sjávarmáli, sem getur reynst hættulegt á þessum slóðum – þau eru undirskipaðar neðanjarðarverur sögunnar, morlokkarnir, sem nærast á saklausum og bláeigum elóunum sem búa ofanjarðar, en Park-fjölskyldan býr ofarlega í háum hæðum borgarinnar og reynist þar að auki með eindæmum trúgjörn. Þegar á myndina líður verður svo þessi speglun enn skarpari – en það er best að segja sem minnst frá því.
Það eru þó í raun engar hetjur eða skúrkar í þessari mynd, fyrst og fremst bara fólk að reyna að bjarga sér, út frá þeirri samfélagsstöðu sem það lendir í. Vellauðug Park-fjölskyldan, sem getur í reynd séð fyrir tveimur fjögurra manna fjölskyldum á einum launatékka, er oftast ósköp almennileg og helst hægt að telja henni til lasts hve trúgjörn þau eru. Herra Kim orðar aðstöðumuninn ágætlega þegar hann segir: „Það er auðvelt að vera almennilegur þegar maður er ríkur. Peningar eru eins og straujárn, það er hægt að nota þá til þess að strauja í burtu allar misfellur.“
Hins vegar koma Park-hjónin þó regulega upp um stéttasnobb sitt, eins og þegar herra Park hrósar herra Kim í eyru konu sinnar fyrir að „fara aldrei yfir mörkin“ og eins þegar hann kvartar yfir því að helsti galli herra Kims sé lyktin – sem minni hann á, og haldið ykkur núna, fólkið í neðanjarðarlestunum. Sumsé almúgann. Almúgann sem er ekki með einkabílstjóra. Almúgann sem hann þarf sjaldnast að finna lyktina af.“
Ferðalangur að nóttu / Midnight Traveler – Hassan Fazili
Hassan Fazili er afgangskur leikstjóri sem talibanar hafa lagt fé til höfuðs, eftir að hann dirfðist að opna kaffihús sem var opið konum jafnt sem körlum. Hér fylgjumst við með honum og fjölskyldunni ferðast flóttamannaleiðina til Evrópu, vopnuð tveimur símamyndavélum. Þetta er fjögurra manna fjölskylda, hjónin Hassan og Fatima og dæturnar Nargis og Zahra, og öll eiga þau eitthvað myndefni í myndinni.
Myndin er fantavel gerð þrátt fyrir augljósar takmarkanir sem fylgja því að hafa ekkert tökulið, engan til að lýsa eða neitt slíkt – myndin er heimaiðnaður fólks sem er í raun heimilislaust. Hún er tekin yfir langan tíma, sem sýnir hversu langt þetta ferli getur verið, og maður finnur fyrir tímanum þegar stelpurnar eldast – og sú eldri, Nargis, er einfaldlega ein eftirminnilegasta kvikmyndastjarna ársins.
Faðirinn / The Father / Bashtata – Kristina Grozeva & Petar Valchanov
Búlgörsk sigurmynd síðustu Karlovy Vary hátíðar er ójöfn og lágstemmd mynd um samband föður og fullorðins sonar, þar sem óljóst er hvort pabbinn sé enn með fullum sönsum eftir andlát móðurinnar. En þótt myndin sé ójöfn eru stöku augnablik í myndinni, þar sem sonurinn þarf að bjarga pabba gamla og takast á við það hvernig hlutverk þeirra og ábyrgð hafa snúist við, sem eru afskaplega falleg og hjartnæm. Feðgarnir eru vel að merkja báðir jafn gráhærðir – ef sonurinn myndi einfaldlega láta sér vaxa skegg og breytti aðeins um fatastíl gæti hann auðveldlega leikið pabbann.
Vitinn / The Lighthouse – Robert Eggers
Ég var svosem ekki sérstakur aðdáandi The Witch, frumraunar Eggers, en stiklan fyrir Vitann er einfaldlega frábært listaverk ein og sér og Willem Defoe verður einfaldlega skemmtilegri og forvitnilegri leikari með hverju árinu.
Marianne & Leonard – ástarorð / Marianne & Leonard – Words of Love – Nick Broomfeld
Ef það er arða af alvöru rómantík í manni þá verður maður vitaskuld að sjá þessa mynd. Ef þið eruð ekki sannfærð getiði lesið þessa heillandi grein í Guardian til að sannfærast:
Guð er til, hún heitir Petrunya / God Exists, Her Name is Petrunya – Teona Strugar Mitevska
Ég missti af Petrunyu á Berlinale, þar sem var gerður afskaplega góður rómur að henni og hún þótti raunar frekar sigurstrangleg í keppninni um gullbjörninn, en myndin sem leikstýran Mitevska gerði næst á undan – When the Day Had No Name – var dimm og drungaleg, falleg og groddaleg mynd um týnda æsku í Makedóníu, með einhverjum eftirminnilegusta fatlaða leikara síðari ára.
Íslenskar stuttmyndir I & II
Af því hvergi er betri staður til að skoða grasrótina og uppgötva framtíðina en á góðu stuttmyndaprógrammi.
Um óendanleikan / About Endlessness / Om det oändliga – Roy Andersson
Bíóheimurinn sem Roy Andersson skapar er einfaldlega svo ljóðrænn, sérviskulegur og skemmtilegur að það er alltaf gaman að fara þangað.
Jóhanna af Örk / Joan of Arc / Jeanne – Bruno Dumont
Af því loksins lætur einhver leikstjóri alvöru barn leika hina barnungu Jóhönnu.
Transnistría / Transistria – Anna Eborn
Transnitría er ríki í ríkinu, örlítil landræma meðfram moldóvsku landamærunum sem hefur heilmikla sjálfstjórn og miðað við kitsaða Sovétminnisvarðanna sem ég sá þar dreymir þá marga heitt um gamla Sovétið. Transnistría gefur út sína eigin peninga sem hvergi annars staðar er hægt að skipta og aðalfótboltalið svæðisins, Sheriff Tiraspol, er stórveldi í moldóvskum fótbolta. Þessi heimildamynd Önnu Eborn birtir hins vegar mynd af nokkrum unglingum sem alast upp á svæðinu.
Aatos og Amine / Gods of Molenbeek / Aatos ja Amine – Reetta Huhtanen
Molenbeek-hverfið í Brüssel varð alræmt þegar í ljós kom að flestir hryðjuverkamennirnir í hryðjuverkaárásunum á Bataclan og fleiri staði í París haustið 2015 væru aldir upp þar. Þessi heimildamynd fjallar hins vegar um tvo sex ára stráka frá gjörólíkum menningarheimum (annar af finnsku og chilesku bergi brotinn og hinn múslimi) sem leika sér saman á milli þess sem þeir ræða um guði heimsins.
Varda eftir Agnesi / Varda by Agnés / Varda par Agnes
Agnes Varda tókst einhvern veginn að stimpla sig rækilega aftur inní meginstraum listabíósins síðustu æviárin, þetta gæti góð mynd til þess að kveðja magnaða leikstýru.
Litli Jói / Little Joe – Jessica Hausner
Jessica Hausner mætti á RIFF árið 2009 með Lourdes – og ég stjórnaði Q&A með henni, þar sem ég gerði þau skelfilegu mistök að spyrja hvort einhver væri með eina lokaspurningu. Sem er vel að merkja standard endalok á svona spurt og svarað sýningum, en í þetta skiptið var það Moggabloggarinn alræmdi Jón Valur Jensson sem rétti upp hönd. En Hausner til hróss þá svaraði hún agressívri spurningu bókstafstrúarmannsins af mikilli fimi og hefur alltaf verið í töluverðu áliti síðan – og sló svo rækilega í gegn með næstu tveimur myndum, þessari og Amour Fou.
Koko-di Koko-da – Johannes Nyholm
Hef heyrt mjög góða hluti um þessa sænsku hrollvekju það eru mjög skemmtilegar teiknaðar senur í stiklunni sem mig langar að vita meira um. Svo er dagskrárbæklingurinn alveg að selja manni þetta með eftirfarandi orðum: „Þau festast í súrealískri martröð með blóðþenkjandi fjöllistamanni og skuggalegu fylgdarliði hans.“
Og svona til þess að minna fólk á að ég get alveg verið úrillur gagnrýnandi líka, tvær slappar í lokin.
Hinir dauðu deyja ekki / The Dead Don‘t Die – Jim Jarmusch
Sko, Jim Jarmusch er einn minn uppáhaldsleikstjóri. Kannski myndi ég alveg fíla þessa mynd ef það væri annað nafn á kreditlistanum. En hérna er hann, bæði sem leikstjóri og handritshöfundur, á algjörri sjálfsstýringu og leikararnir flestir sömuleiðis. Það hefur alveg gengið upp stundum að hæfileikafólk slái upp góðu partíi og geri bíó í leiðinni, en hérna finnur maður bara fyrir letilegu handriti og letilegum leik langar leiðir og aulahúmorinn er ekki nema örsjaldan að virka.
Hátt uppi / High Life – Claire Denis
Það eru alveg ófáar senur í High Life sem vekja forvitni – en svo kemur iðullega í ljós að svörin við spurningunum sem hún vekur eru fullkomlega óáhugaverð. Juliette Binoche er vissulega mögnuð í undirskrifuðu hlutverki og aðrir leikarar eru sömuleiðis fínir, en myndin er einfaldlega drepleiðinleg á löngum köflum.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson