Agnieszka Holland er einn frægasti leikstjóri Póllands. Hún hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir myndirnar Angry Harvest, Europa, Europa og Í myrkri og leikstýrt sjónvarpsþáttum á borð við The Wire og Burning Bush. En það eru viðsjárverðir tímar í Póllandi þessi misserin, þjóðernishyggja ræður ríkjum og vald kirkjunnar hefur sjaldan verið meira í þessu kaþólskasta landi Evrópu.

Með öðrum orðum, akkúrat rétti tíminn fyrir mynd eins og Pokot. Bæði pólski titillinn og enski titillinn, Spoor, eru illþýðanleg hugtök úr tungutaki veiðimanna, mætti mögulega þýða sem Slóð. Myndin er byggð á skáldsögu Olgu Tokarczuk, Keyrðu plóg þínum yfir bein hinna látnu, og fjallar um eldri konu í fjallahéröðum Póllands, dularfulla dauðdaga veiðimanna, karlrembu og dýravernd. Aðalpersónan er leikin af nöfnu leikstýrunnar, Agnieszku Mandat, og þegar ég spyr Holland hvort hún sjái líkindi með sjálfri sér og aðalpersónunni er hún fljót til svars.

„Auðvitað, ég er hún. Ég hef auðvitað ekki gert það sem hún gerði, en hver veit hvað maður gerir af sér í framtíðinni? Pólski blaðamaðurinn sem skrifar fyrir ríkismiðlana sagði að þetta væri rækilega and-kristin mynd sem styddi umhverfisverndarhryðjuverkamenn. Ég held þetta sé alveg rétt hjá honum, nema ég held þetta sé mjög kristileg mynd í raun, en sýn okkar á kristnina er líklega gjörólík,“ segir hún mér og útskýrir málið betur.

„Kaþólska kirkjan heldur fram tveimur stórum lygum. Annars vegar að Jörðin sé gjöf Guðs til mannsins, að Guð hafi gefið okkur eignarrétt yfir allri plánetunni, sem ég held að sé einfaldlega rangt, en ýmsir vafasamir guðfræðingar halda því fram. Hin lygin er að dýrin séu ekki með sál. Francis af Asisi fullyrti hins vegar að dýrin væru okkar litlu bræður og það væri skylda okkar að hugsa vel um þau. Ég er alveg sammála Francis í þessu.“

Þetta er falleg sveit en það gerast ansi svakalegir atburðir í fegurðinni miðri.

„Þessi þversögn náttúrunnar er alltaf til staðar. Sérstaklega í hinni villtu náttúru en líka í manngerðri náttúru. Kvikmyndirnar ljúga oft, til dæmis með því að sýna iðnaðarsvæði og mögulega er einhverja óvenjulega fegurð að finna þar. En þarna er líka reykur og mengun og þegar þú kemur nær og getur ekki andað þá drepur þessi náttúra þig. Náttúran getur verið uppspretta yndislegra jákvæðrar orku en hún getur líka drepið þig.“

Gamlir hippar og nýir þjóðernissinnar

Þegar jafnaldri gömlu konunnar kemur í heimsókn rennur upp fyrir manni að þau eru bæði gamlir hippar. Er mögulega tímabært að endurvekja sumar hugmyndir blómabarnanna?

„Líklega þurfum við að endurnýja þessar hugmyndir. Vegna þess að þær kynslóðir sem nú eru við völd í lýðræðisríkjum heimsins eru hippakynslóðin og næsta kynslóð á eftir. Kynslóðin eftir 1968, sumir þeirra er sósíaldemókratar og sumir kristilegir demókratar, en í raun er ekki mikill munur á þeim. Munurinn er helst að sumir eiga gott samband við Rússland og aðrir eiga í erfiðu sambandi við Rússland. En ástæðurnar fyrir því að þeir fóru í pólitík, þær ástæður eru löngu horfnar og þeir eru orðnir spilltir. Allir af minni kynslóð eru spilltir – nema þeir sem eru utangarðs,“ segir Holland og er uggandi yfir þróuninni.

The Wire

„Það merkilega er að nú á sér stað einhvers konar gagn-gagnbylting. Vegna þess að lýðræðiskjörnir fulltrúar eru víða gerspilltir og eigingjarnir þá glatar fólk þeirri trú að lýðræðið sé tæki sem geti mögulega gert líf þess betra. Það kallar á gagn-gagnbyltingu eins og þá sem kom fyrst í Póllandi með Kacynsky-bræðrum, í Bandaríkjunum með Trump og í Frakklandi með Marie Le Pen. Þessar popúlísku, þjóðernissinnuðu raddir eru að einhverju leyti svar við raunverulegum vandamálum, raunverulegum spurningum og raunverulegum mistökum og talar til fólks sem höfðu upplifað sig sem raddlaust í þjóðfélaginu. Þannig að vandamálin eru raunveruleg en þetta eru verstu mögulegu viðbrögðin við þeim. Vegna þess að þetta er viðbragð sem við höfum þegar séð leiða til ótrúlegra hörmunga á 20. öldinni og það gæti gerst aftur og orðið miklu verra því vopnin eru orðin miklu skilvirkari.“

En hver eru helstu skotmörk þessara afla?

„Kvenréttindi og umhverfismál, það eru fyrstu skotmörkin, af því þeim finnst valdefling kvenna og náttúrunnar ógna þeirra eigin valdi. Valdi hvíta mannsins sem vill vera skapari og eigandi heimsins.“

En á meðan stuðningur við Trump og Brexit hefur verið hvað mestur meðal eldra fólks er því öðruvísi farið í Póllandi.

Agnieszka Mandat í Pokot

„Margir af minni kynslóð, þeir sem eru ekki hátt settir í stjórnmálaflokkum eða viðskiptum, eru utangarðs. Sumir eru hættir að vinna, en þau varðveita mörg innra með sér ákveðna hugmynd um frelsi. Og þetta fólk er fremst í flokki í andstöðunni við ríkisstjórnina. Og þetta eru aðallega konur, eldri konur sérstaklega. Þegar ríkisstjórninni var mótmælt í hittifyrra voru 60 prósent mótmælenda konur yfir fimmtugu. Það sama átti sér stað þegar kvennamótmælin gegn Trump áttu sér stað – þar voru eldri konur líka í meirihluta. Þannig að gömlu konurnar eru að koma til baka.“

Týnda kynslóðin

En þessar gömlu konur eru samt ekki að fara að stýra byltingunni.

„Við getum barist fyrir einhverju, en þú getur ekki breytt heiminum – þú þarft nýja kynslóð til þess. En unga kynslóðin veit ekki hvað hún vill. Í Póllandi er til dæmis unga kynslóðin höll undir afturhaldsöfl og þjóðernishyggju, þau hafa aðallega verið að kjósa hægri flokka og það virðist vera best að ná til þeirra með fölskum þjóðernisfagurgala.“

En af hverju?

„Ég held að umskiptin úr kommúnísku alræðissamfélagi yfir í kapítalisma hafi verið of harkaleg að mörgu leyti.  Nýnasistar, eins og voru fyrir seinna stríð, þeir eru alls staðar.“

Hún segir þennan hóp oft algjörlega ómeðvitaðan um innri mótsagnirnar sem þau boða.

„Auðvitað er ómögulegt að skilja hvernig sumum nýnasistunum tekst að gera hetjur úr þeim sem börðust gegn Þjóðverjum í heimsstyrjöldinni en hampa samt gildum Adolfs Hitler. En þeim tekst það. Þetta eru vitleysingar en það er ekki þeim að kenna, það er vondri menntun að kenna. Og ég tel að pólska kirkjan beri mikla ábyrgð á því hversu margir fá slæma menntun. Sem er ástæðan fyrir því að ungmennin eru svona ringluð. En aðalástæðan er sú að frjálslyndir stjórnmálamenn sem voru við völd eftir kommúnismann, og voru oftast frekar alþjóðlega þenkjandi, mistókst að láta Evrópusambandið virka. Hugmyndir þeirra voru stundum of útópískar. Ég vil taka fram að Evrópusambandið er það besta sem hefur komið fyrir Evrópu, en það er ekki að virka lengur sem skyldi, því hefur mistekist að skilja lítilmagnann í löndum álfunnar og núna finnst þessum lítilmagna að þeim stafi ógn af Evrópusambandinu. Skyndilega er staðan þessi: ungt fólk fer til Englands eða Þýskalands til að vinna, því þar eru launin betri, en það er komið illa fram við þau, þau fá ekki sömu meðferð og heimamenn, þannig að þeim líður eins og þau séu annars flokks borgarar, þau upplifa niðurlægingu. Stundum koma þau aftur og stundum ekki, og eina fróunin sem þau finna er í þessari þjóðernishyggju sem kennir þeim að Pólverjar séu bestir.

Þannig að við erum fátækari og þið haldið að við séum vitlausari og ekki jafn vel með á nótunum og þið. En við eigum okkar merku sögu og við teljum okkur stærstu fórnarlömb mannkynssögunnar. Og gyðingar og blökkumenn og arabar eru minna virði fyrir þeim,“ segir hún og dæsir: „Rasískasta fólkið sem maður hittir í London eru Pólverjar. En það er af því að þeir þurfa hughreystinguna, vegna þess að þeim finnst þeir annars ekki neitt mikilvægir, þannig að þeir þurfa að finna einhvern sem er fyrir neðan þau í mannvirðingarstiganum.“

Þetta er þó ekki töpuð barátta.

„Þetta getur breyst. Fyrrverandi ríkisstjórnir bera líka sína ábyrgð á þessu. Ég talaði mikið við fyrrverandi valdhafa, þar á meðal Donald Tusk, og þeir bjuggu til einhvers konar hugmyndafræðilegt tómarúm. Allir áttu að berjast fyrir sjálfa sig og þá myndu kapítalistarnir veita þér frelsi. Og ef þú ert góður í því sem þú ert að gera mun þér farnast vel. En hvað ef þú ert ekki nógu góður í því sem þú ert að gera, eða jafnvel ef þú ert góður í því en gengur samt ekki vel? Það þýðir að þjóðfélagið segir að þú sért ómerkilegur, að þú skiptir ekki máli.

Og þá kemur þetta þjóðernissinnaða sjálf í staðinn, sem einhvers konar sárabót, leið til að sætta sig við tilveruna. Vegna þess að mannleg náttúra á erfitt með tómarúm, þetta tómarúm var fyllt mjög snemma af andstyggilegri þjóðernishyggju og þess vegna er staðan eins og hún er.

En í Ameríku var það ekki unga fólkið sem var að kjósa Trump. Í Englandi var það ekki unga fólkið sem var að kjósa með Brexit. Þannig að unga fólkið í heiminum er um margt stefnulaust og það þarf nýjar hugmyndir sem geta sameinað kynslóðirnar á ný.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Viðtalið birtist upphaflega í Stundinni þann 15. apríl 2018.