Hvenær hefst bíóárið 2020? Það má alveg segja að það hefjist fyrir alvöru 23. janúar, þegar Sundance byrjar. Fram að því eru bíóhúsin ennþá full af jólamyndum og óskarsmyndum síðasta árs – og stöku ódýrum hryllingsmyndum, sem oftast er hent á ruslahauga janúarmánaðar af góðri ástæðu.
Sundance er haldin í Park City, sjöþúsund manna borg í Klettafjöllunum, hvers íbúafjöldi margfaldast þegar hátíðin er haldin. Þetta er árshátíð amerísku indímyndanna, það er framleiddur hellingur af þeim, margar þrælgóðar – en það er blóðug barátta að koma þeim í einhverja almennilega dreifingu og gott gengi á Sundance er oftar en ekki fyrsta skrefið.
Myndirnar sem við sjáum keppa um næsta Óskar munu líka byrja að skjóta upp kollinum í Klettafjöllunum núna í janúar, eða þá í Cannes, Berlín, Feneyjum eða Toronto seinna á árinu. Whiplash, Boyhood og Get Out eru meðal stærstu hittara frá Sundance núna á síðari árum og af þessum var helst Boyhood sem talist gat fyrirsjáanlegur hittari, hinar skáru sig ekki svo mjög frá öllum hinum indímyndunum – á pappír. Sem þýðir að það er fullkominn kjánaskapur að spá fyrir um forvitnilegustu titlana – en það er nú ekki að fara að stoppa Menningarsmyglið í að reyna!
Frumraun Viggó og endursagnir á Pétri Pan
Við byrjum vitaskuld á Íslendingnum Sverri Guðnasyni, sem mun birtast í tveimur myndum á hátíðinni, á ensku og sænsku. Hann fær að spreyta sig á enskunni í Falling, leikstjórafrumraun Viggo Mortensen, þar sem Viggo og Laura Linney leika börn gamla skröggsins Lance Henriksen. Pabbinn er farinn að kalka – en er alveg jafn íhaldssamur og áður og líklega ekkert alltof hrifinn af því að sonurinn búi með öðrum karlmanni. Þá leikur Sverrir einnig í sænsku myndinni Charter, sem Amanda Kernell leikstýrir – en hún sló rækilega í gegn með frumraun sinni Sami Blood. Það er fótboltaþjálfarinn úr Heimavellinum, hún Ane Dahl Torp, sem fer með aðalhlutverkið og óljóst er með hversu stór hlutverk Sverrir fer með í myndunum – en ef marka má stiklu Charter virðist hann leika frekar dularfullan nágranna.
Svo er spurning hvort Hollywood endurgeri myndina, eins og sænsku myndina Force Majeure, sem er á þessari Sundance-hátíð orðin Downhill og með Will Ferrell og Juliu Louis-Dreyfus í hlutverki hjónanna. Leikstjóratvíeykið Nat Faxon og Jim Rash standa á bak við myndina endurgerðina, en þeir hafa hingað til verið ansi mistækir – skrifuðu frábært handrit fyrir The Descendants en leikstjórafrumraun þeirra, The Way Down, var ansi mistækt unglingadrama sem var þó ekki alls varnað, þannig að ég leyfi mér að vera skeptískur.
Fáum myndum á Sundance er hins vegar beðið eftir með jafnmikilli eftirvæntingu og Wendy, endursögn á Péturs Pan ævintýrinu út frá sjónarhóli Wendy. Ástæða eftirvæntingarinnar er þó fyrst og fremst að fólk er búið að bíða í átta ár eftir næstu mynd Benh Zeitlin, sem sló í gegn og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frumraun sína, Beasts of the Southern Wild. Samkvæmt ítarlegri grein á Indiewire virðist þó ekkert hafa komið uppá, það var einfaldlega hluti af samningnum sem gerður var að hann fengi að flýta sér hægt við að vinna myndina. Og ekki sakar að Íslandsvinurinn Sturla Brandth Grøvlen (Hrútar, Hjartasteinn og Victoria) sér um kvikmyndatökuna.
Merkilegt nokk er þetta þó ekki eina myndin sem ætlar sér að taka óvæntan snúning á ævintýrum Péturs Pan, það gerir Come Away líka, ný mynd Brendu Chapman, sem leikstýrði teiknimyndinni Brave, en í þessari mynd eru forverar bæði Lísu í Undralandi og Péturs Pan breskir blökkukrakkar sem lenda í óvæntum ævintýrum í undirheimum Lundúna.

Sverrir okkar er þó ekki sá eini sem mætir með tvær myndir á hátíðina. Andrea Riseborough, sem lék titilhlutverkið í Mandy, er í tveimur aðalhlutverkum á hátíðinni. Í Luxor leikur hún konu sem eltir uppi ungdómsárin í samnefndri egypskri borg, eingöngu til þess að flækjast inn í mitt arabíska vorið. Zeina Durra leikstýrir og ég veit svosem lítið meira um hana annað en að nafnið á frumraun hennar er frábært; The Imperialists Are Still Alive! Riseborough leikur svo líka heilaskurðlækni sem færir heila á milli fólks í Possessor – og ef þetta hljómar eins og David Cronenberg-mynd er það ekki fjarri lagi, því það er sonur hans Brandon Cronenberg sem leikstýrir – en hann vakti þokkalega athygli fyrir Antiviral fyrir nokkrum árum.
Hann er ekki eini afkomandi Hollywood-goðsagna sem verður í sviðsljósinu. Dylan Redford er einn af fjórtán leikstjórum Omniboat: A Fast Boat Fantasia, sem fjallar um bát einn og Miami – en gæti orðið kvikmyndasögulega merkileg ef þetta verður síðasta mynd Robert Redfords sjálfs, sem auk þess er stofnandi hátíðarinnar. Dylan er vel að merkja barnabarn Roberts, en pabbi Dylan, James Redford, gerði á sínum tíma heimildamynd um Dylan barnungan, Rethinking Dyslexia.
Úr leikhúsi, sjónvarpi og tónlistarmyndböndum í bíó
Það er furðu sjaldgæft að leikhúsleikstjórar slái rækilega í gegn í bíó – en það gerist nú samt. Frægustu dæmin undanfarin misseri eru líklega Kenneth Lonnergan (You Can Count on Me, Margaret og Manchester By the Sea), Martin McDonagh (Three Billboards … og In Bruges) og Julie Taymor (Frida og Titus). Sú síðastnefnda er með ansi forvitnilega mynd á Sundance, The Glorias, sem byggð er á ævisögu Gloriu Steinem og hljómar dálítið eins og I‘m Not There, þar sem fjöldi leikara lék Bob Dylan. Að minnsta kosti tvær óskarsverðlaunaleikkonur, þær Alicia Vikander og Julianne Moore, leika báðar Gloriu og Bette Midler og Timothy Hutton koma einnig við sögu.
Annar frægur amerískur essayisti, Joan Didion, kemur einnig við sögu hátíðarinnar – því hún skrifaði einnig skáldsögur og núna er verið að kvikmynda eina þeirra, The Last Thing He Wanted. Þar leikur Anne Hathaway rannsóknarblaðamann sem blandast í málefni Kontra-skæruliða í Suður-Ameríku. Þau Ben Affleck, Willem Dafoe og Rosie Perez koma einnig við sögu en aðalástæðan fyrir því að þetta er ein heitasta myndin á Sundance er þó leikstýran Des Ree, sem gerði suður-ríkjadramað Mudbound að óskarstilnefndri bíómynd fyrir þremur árum síðan.
En aftur að leikhússtjörnunum. Hinn franski Florian Zeller er eitt helsta leikskáld samtímans og frumraun hans sem leikstjóri er byggt á eigin verki, The Father, sem einhverjir hafa kallað nútímaútgáfu af Lér konungi – og ekki sakar að Anthony Hopkins og Olivia Colman fara með aðalhlutverkin.
Eitt merkasta leikskáld síðustu aldar var svo August Wilson, sem gerði tíu leikrit um hvern áratug tuttugustu aldarinnar og hvernig þeir léku ameríska blökkumenn. Eitt þeirra, Fences, var svo kvikmyndað fyrir ekki svo löngu síðan með Denzel Washington og Violu Davis í aðalhlutverkum, en á Sundance verður Giving Voice sýnd, heimildamynd þar sem sex framhaldsskólanemendur undirbúa sig fyrir að flytja mónólóga úr leikritum Wilsons.
Nýir kvikmyndaleikstjórar eru líka að koma úr sjónvarpinu. Killing Eve skipti um þáttastjórnendur á milli fyrstu og annarar seríu. Phoebe Waller-Bridge (höfundur og aðalleikkona Fleabag) var of upptekin við að skrifa næstu Bond-mynd þannig að góðvinkona hennar Emerald Fennell tók við þáttunum – og er núna að mæta á Sundance með Promising Young Woman, þar sem Carey Mulligan leikur konu sem hefur ekki beint uppfyllt þær væntingar sem gerðar voru til hennar á námsárunum.
Þá mætir sjálfur Alan Ball, skapari Six Feet Under og True Blood, já og auðvitað American Beauty sem hann fékk óskarinn fyrir. Frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóri, Towelhead, er hins vegar eitt af fáum floppum á ferli hans og nú er bara að sjá hvort Uncle Frank gangi betur, en Frank frændi býr með öðrum karlmanni í New York á áttunda áratugnum og heldur því rækilega leyndu fyrir frændfólki sínu á landsbyggðinni – eða allt þar til táningsfrænka hans kemur til New York í nám.
Svo er brasilíski tónlistarmyndaleikstjórinn Edson Oda mættur með frumraun sína, Nine Days, um sálir sem keppast um að fá að fæðast. Zazie Beetz, Benedict Wong, Bill Skarsgård og Winston Duke eru meðal leikara í mynd sem sumir segja minna helst á fyrstu verk Spike Jonze og Charlie Kaufmann.
Loks má nefna Wander Darkly eftir Töru Miele, sem gerði stuttmynd sem sló í gegn á netinu,
„Meet a Muslim,“ en er hér að leikstýra ástarsögu með Siennu Miller og Diego Luna.
Frá Járnfrúnni í sósíal-raunsæið
Svo eru auðvitað sumar myndir sem menn eru aðallega spenntir fyrir af því leikstjórarnir hafa gert magnaðar bíómyndir áður. Þar má fyrst nefna fjöllistakonuna Miröndu July, sem fékk verðlaun á bæði Sundance og Cannes fyrir myndirnar Me and You and Everyone We Know og The Future. Nú mætir hún með Kajillionaire, þar sem hjón leikin af Richard Jenkins og Debru Winger hafa þjálfað einkadótturina, sem Evan Rachel Wood leikur, í alls konar þjófnaði og svindli allt hennar líf.
Talandi um svindl, þá leika Jude Law og Carrie Coon (sem var algjörlega stórkostleg í Gone Girl) hjón sem ákveða að yfirgefa Ameríku Reagan-áranna fyrir Bretland Thatcher-áranna – en þegar heim kemur þá missir hinn breski eiginmaður sig alveg í kapítalísku græðginni og hjónabandið fer að molna enn hraðar. Leikstjóri myndarinnar er Sean Durkin, sem átti gott mændfokk með Martha Marcy May Marlene hér um árið, myndinni sem kom Elizabeth Olsen á kortið og vann þar að auki verðlaun á Sundance það árið.
Sara Colangelo fékk leikstjóraverðlaun á Sundance fyrir feikifína aðlögun á The Kindergarten Teacher og nýja myndin, Worth, fjallar um lagaflækjur í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september og þessa óþægilegu spurningu sem þeim fylgja: hvers virði eru mannslíf? Michael Keaton, Stanley Tucci og Amy Ryan fara með aðalhlutverkin í mynd sem minnir einhvern veginn óljóst á Spotlight – en það er hins vegar alls ekki hægt að segja um myndina sem Tom McCarthy, leikstjóri Spotlight, mætir með á hátíðina. Eftir að hafa leikstýrt hádramatísku blaðamannadrama til óskarsverðlauna þá hefur McCarthy nefnilega séð um unglingadrama í sjónvarpi, Thirteen Reasons Why, og mætir núna með barnungan einkaspæjara, herra Failure, í Timmy Failure: Mistakes Were Made, sem hljómar eins og of óvenjulegur kokteill til þess að tékka ekki á honum.
Annað dæmi um leikstjóra hvers ferill virðist vera að taka óvænta u-beygju er Phyllida Llloyd. Hún sló í gegn með Mamma Mia! og leikstýrði þvínæst þeirri skelfilegu Thatcher-ævisögu The Iron Lady. Nýjasta myndin hennar, Herself, hljómar hins vegar meira eins og einhvers konar syndaaflausn, og plottið er meira eins og í hefðbundnu Ken Loach-verkamannadrama.
Justin Simien sló í gegn á Sundance með Dear White People, sem seinna varð líka sjónvarpssería – og er núna mættur með næstu mynd Bad Hair. Sem gerist sjálfsögðu á níunda áratugnum og fjallar um konu sem lendir í slysi sem hefur varanleg áhrif á hárgreiðsluna.
Rodrigo Garcia er frægastur fyrir að leikstýra Glenn Close til óskarsverðlaunatilnefningar í Alfred Nobbs – og Close er aftur í aðalhlutverki í Four Good Days, þar sem þær Close og Mila Kunis leika mæðgur, nema hvað að dóttirin er illa farinn fíkill sem virðist þó komin á beinu brautina, eða er það bara móðurhjartað að blekkja?
Týndar stúlkur eru einnig umfjöllunarefni Lost Girls, þar sem Amy Ryan leikur móður sem vinnur með mæðrum ótal annarra týndra stúlkna. Ein þeirra er leikin af Thomasin McKenzie, sem var algjörlega stórkostleg í Leave No Trace og er einnig í stóru hlutverki í Jojo Rabbit. Leikstýra myndarinnar er svo Liz Garbus, sem hefur hlotið 2 tilnefningar til heimildamyndaóskara.
Nikola Tesla, Hillary Clinton og Bruce Lee
Það er töluvert af frægðarfólki sem eru viðföng mynda á hátíðinni. Oftast heimildamyndir, en nokkrar þeirra eru þó leiknar eins og áðurnefnd mynd um Gloriu Steinem.
Hryllingshöfundurinn frægi Shirley Jackson (The Haunting of Hill House) er ein aðalpersóna Shirley, sem fjallar þó enn meira um hjón sem eru skáldkonunni til aðstoðar á efri árum. Elisabeth Moss leikur aðalhlutverkið og Josephine Decker leikstýrir, en hún fékk mikið lof fyrir frumraunina Madeline‘s Madeline, og þetta er önnur mynd sem meistari Sturla Brandth Grøvlen sér um kvikmyndatökuna á hátíðinni.
Þá fetar Ethan Hawke í spor David Bowie og leikur sjálfan Tesla í samnefndri mynd, sem Michael Almereyda leikstýrir – en hann leikstýrði einmitt Hawke fyrir margt löngu í hlutverki sjálfs Hamlets danaprins. Nikola Tesla kom einmitt líka við sögu í þeirri mynd sem fór einna verst út úr Weinstein-skandalnum, The Current War, mynd um Edison sem endaði munaðarlaus og kom ekki í bíó fyrr en tveimur árum eftir áætlun.
Þá eru sjónvarpsseríur tilbúnar um bæði Hillary Clinton og Lance Armstrong og verða sýndar á hátíðinni – og heita einfaldlega Hillary og Lance. Nanette Burstein leikstýrir þáttunum um Hillary, en hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir heimildamyndina On the Ropes og hefur einnig gert mynd um Hollywood-mógúlinn fræga Robert Evans. Marina Zenovich sem leikstýrir Lance virðist dragast af umdeildum karakterum og svo gamanleikurum, en hún hefur gert myndir um Roman Polanski (tvær raunar) og Bernard Tapie, sem og Robin Williams og Richard Pryor.
Það koma fleiri vafasamir menn við sögu í heimildamyndum hátíðarinnar. Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen var fyrir tæpum tveimur árum dæmdur fyrir morð á blaðakonunni Kim Wall – en ég heyrði fyrst af honum á Skjaldborg þegar heiðursgesturinn Max Kestner sagðist vera að gera heimildamynd um hann. Þetta var árið 2012 og Kestner kláraði sína mynd, Amateurs in Space, árið 2016 – ári fyrir morðið. En það voru tvö heimildamyndateymi að kvikmynda Madsen – og Emma Sullivan og hennar teymi var enn að taka upp. Sú mynd er nú loks tilbúin og verður sýnd á hátíðinni. Into the Deep er mynduð bæði fyrir og eftir morðið og verður vafalítið með umdeildari myndum hátíðarinnar.
Fórnarlömb voðaverka fá einnig sitt pláss, en heimildamyndin Natalie Wood: What Remains Behind fjallar þó meira um líf leikkonunnar frekar en vafasaman dauða hennar og dóttir hennar, leikkonan Natasha Gregson Wagner er sögumaður okkar í gegnum ævi móðurinnar. Á meðan Wood var heimsfræg fyrir dauðann þá varð blaðamaðurinn Jamal Khashoggi á allra vörum eftir að hann var myrtur – og Bryan Fogel, sem vann Óskarinn fyrir bestu heimildamynd með Icarus fyrir nokkrum árum hefur núna gert myndina The Dissident um þennan blaðamann Washington Post.
Það eru fleiri stjörnur sem eru viðfangsefni heimildamynda þetta árið, Miss Americana fjallar um Taylor Swift og Be Water fjallar um Bruce Lee, nánar tiltekið þegar hann fór aftur til Hong Kong eftir skammlífan Hollywood-feril. Þá er alþjóðleg stjarna á bak við kameruna í heimildamyndinni Vivos, sem fjallar um mexíkönsk voðaverk og það er kínverski fjöllistamaðurinn Ali Weiwei sem leikstýrir. Svo er The Nowhere Inn á einhverjum óljósum mörkum heimildamyndar og veruleika og fjallar um spennuna á milli Annie Clark og St. Vincent, listamannsins sem hún felur sitt rétta nafn á bak við.

En það eru líka gerðar heimildamyndir um hversdagshetjur og -skúrka. Ron Howard leikstýrir Rebuilding Paradise, um slökkviliðshetjur – sem hlýtur að kveikja í öllum (pun intended) sem elskuðu skáldað brunaliðsdrama Howard, Backdraft.
Myndin Feels Good Man fjallar svo um froskinn Pepe og hvernig hann varð táknmynd alt-hægrisins og um tilraunir listamannsins Matt Furie til að frelsa hann úr klóm öfgahægrisins, svo hann fái aftur bara að vera slakur og hress myndasögufroskur. Svo gera sumir bara heimildamynd um pabba sinn að horfast í augu við dauðann, en þegar um er að ræða Kirsten Johnson þá verður myndin ein sú hæpaðasta á Sundance, enda reyndist Cameraperson ein elskaðasta heimildamynd síðari ára og menn eru að spá því að Dick Johnson is Dead gæti fyllt þann flokk líka.
Eitthvað við myndina og tragi-kómískt samband feðgina minnir raunar töluvert á Toni Erdmann – og aðalleikkona hennar, Sandra Hüller, er í einni af forvitnilegustu myndum hátíðarinnar, Exil. Sú fjallar um kósóvskan mann sem býr í Þýskalandi og er ekki viss um hvort hann verði fyrir áreiti út af þjóðerni sínu eða af því hann sé svona leiðinlegur. Þetta er sjálfskoðun, leikstjórinn Visar Morina er kósóvskur sjálfur, og Hüller hefur áður sýnt að hún ber gott skynbragð á svona tragi-kómík. Önnur mynd sem er að kveikja á mér aðallega út af plottinu er svo The Last Shift, þar sem Richard Jenkins leikur mann sem hefur unnið á skyndibitastað í 38 ár og er að taka síðustu vaktina – en lendir á erfiðum ungum rithöfundi í tilvistarkrísu, sem er að byrja að læra að steikja hamborgara.
Save Yourselves! er annað slíkt dæmi. Parið sem er á myndinni efst í greininni finnur að snjalltækin og internetið eru að eyðileggja sambandið og fara í netfrí í skála nokkrum úti í skógi – og einmitt þá gera geimverurnar árás. Dæmigert. Never Rarely Sometimes Always fjallar svo um stelpu sem fer í annað fylki í fóstureyðingu og þar er stiklan raunar alveg að selja manni myndina.
Stundum er maður svo bara að vona að efnilegar leikkonur séu loksins að finna hlutverkið sem gerir þær af stjörnum. Sylvie‘s Love er djass-drama þar sem Tessa Thompson leikur plötubúðarstarfsmann og Eva Longoria leikur mömmuna, ég er að vonast til þess að þetta verði eitthvað ferskt tvist á High Fidelity. Þá má nefna Zola, sem er lesbísk ástarsaga með Riley Keough, ansi efnilegri leikkonu sem var góð í American Honey og mögnuð í The Lodge – og jú, hún er barnabarn Elvis. Ég treysti því að hann og Redford sitji aftast í salnum á frumsýningunni.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Myndir: Sundance Institute