Sjakalinn er nýjasta Lukku-Láka bókin sem kemur út á íslensku, þótt hún sé nærri hálfrar aldar gömul (frá 1972), sem skýrist af því menningarslysi þegar myndasöguútgáfa hérlendis lagðist nánast af upp úr 1990, þótt enn ætti eftir að gefa út stóran hluta sumra vinsælla sería á borð við Ástrík og Lukku-Láka, menningarslys sem Froskur útgáfa hefur verið duglegur undanfarin ár að leiðrétta. Þetta var 39. bókin í röðinni á frönsku, en sú 37. í stopulli íslenskri útgáfusögu, þar af sú fjórða hjá Froski.

Mannaveiðarinn Rebbi rykfrakki er í aðalhlutverki bókarinnar ekkert síður en Láki. Þeir sinna í raun sama starfa, munurinn er aðeins sá að Rebbi gerir allt fyrir peninga á meðan Láki neitar stórum fjárhæðum ítrekað fyrir unnin störf og handtekna ribbalda.

Þetta er í raun fyrst og fremst bók um gildi áhugamennsku, sem var furðu lífseigt sem gildi lengi framan af tuttugustu öldinni, þar sem ótal íþróttasambönd settu þau skilyrði að allir sem fyrir sig kepptu væru áhugamenn – og því eru ótal dæmi um það í íþróttasögunni að heimsmeistaramót hafi farið fram án bestu íþróttamanna heims, þar sem þeir bestu voru farnir að taka við greiðslu fyrir störf sín.

Þetta er problematískt prinsipp. Nú skila færir áhugamenn ósjaldan jafngóðu eða betra starfi en atvinnumenn (svona rétt eins og Lukku-Láki) en það þýðir bara að téðir áhugamenn ættu sannarlega skilið að fá greitt fyrir sína vinnu. Áhugamennska sem prinsipp lifir enn þann dag í dag gagnvart listamönnum – frekar en meðal þeirra – þar sem listamenn eru sífellt beðnir um að gera eitthvað „vegna listarinnar,“ í góðgerðarskyni eða „af því það er svo góð kynning.“

Mannaveiðarar eru vissulega ansi ólík stétt – en það má vissulega alveg spyrja sig hvort sama prinsipp eigi að gilda? Það fer mikið púður í það í bókinni að smá þá starfstétt og jafnvel ef við samþykkjum að löggæsla eigi að vera í höndunum á ríkisvaldinu þá er augljóst að í heimi Lukku-Láka bókanna er það ekki raunin, riddaraliðssveitin mætir oftast bara til að klára unnin stríð og skerfarnir eru sjaldnast til mikilla afreka án aðstoðar Láka síns. Þannig er nokkuð ljóst að mannaveiðararnir gegna lykilhlutverki í löggæslukerfi villta vestursins, en eru þó engu að síður forsmáðir fyrir störf sín.

Sannarlega eru Rebbi og kollegar hans töluvert ófyrirleitnari en Láki – og eru tilbúnir til að vinna fyrir ýmsa aðra en réttkjörin yfirvöld, og sú saga sem hér er sögð, af grunuðum hestaþjófi meðal indjána sem gæti annað hvort fengið eðlileg réttarhöld (ef Láki nær honum) eða verið hengdur án dóms og laga (ef Rebbi nær honum og færir honum auðkýfingi í hefndarhug). Í gruninn eru þeir samt að sinna sömu störfum og Láki, að hafa hendur í hári glæpamanna. Munurinn er bara sá að Láki gerir það ókeypis.

Hvers vegna er forvitnileg spurning. Nýtur Lukku-Láki þess bókstaflega að vera arðrændur? Eða er hann heimspekilega þenkjandi og sér fyrir hvernig peningar myndu spilla göfugu starfi og gera hvatann til að glæpavæða ólíkustu hluti sterkari, þegar heill iðnaður myndi snúast um að ná og refsa glæpamönnum? Og hvernig hefur hann efni á viskísjúss á kránni? Er hann kannski fæddur með silfurskeið í munni og silfurkúlur í byssubeltinu og hefur aldrei þurft að vinna launað handtak á ævinni? Eða er hann með einhvern svartan bransa handan bóka?

Mögulega er forsaga Láka reifuð einhvers staðar eða tekjulindir hans, en ekki þó svo ég muni – en þar sem bókasöfn landsins eru lokuð get ég því miður ekki flett því upp – nema mér fróðari Lukku-Láka spekingar hafi svör við því.

Svo er vitaskuld rétt að geta þess að bókin er drepfyndin. Uppvöxtur Rebba rykfrakka stendur þar upp úr, drepfyndin saga af því hvernig ungur drengur elst upp í það að verða samviskulaus mannaveiðari og Léttfeti stendur sig vel í að setja ofan í við Láka þegar þarf, enda ötull talsmaður sjálfsagðra hestréttinda. Þá er þýðing Anítu K. Jónsson og Sverris Arnar Björnssonar prýðilega læsileg og indjánarnir fá bæði sanngjarnari meðhöndlun og skarpari greiningu en í mörgum vestrum – enda sá tími liðinn þarna þar sem tilhlýðilegt þykir að skipa þeim bara í hlutverk einfaldra barbara.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson