Skáld þjóðarinnar virðast nú liggja umvörpum í jazz og blús, ef marka má internetið – og það er náttúrulega það eina sem er að marka þessa dagana, það er ekki eins og maður fái að hitta fólk og bréfdúfurnar eru komnar í verkfall sökum smithættu, eftir að þær fréttu af smituðu tígrisdýrunum í New York.
Samt er auðvitað ekkert að marka internetið, þetta viðsjárverða tól – en nú höfum við ekkert annað. Nema bækur auðvitað og jafnvel geisladiska, vídjóspólur og málverk – en jafnvel þeim er ekki hægt að miðla til almennings nema með internetinu.
En sumsé, í ráðlögðum dansskammti er kominn tími á að plögga aðra. Annars vegar Ráðlagðan jazzskammt, sem Hrafnhildur Bragadóttir heldur úti og hafði verið í nokkurra ára pásu en hefur gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfar þess að tveir gestabloggarar úr rithöfundastétt hafa mikið þurft að tjá sig um jazzinn, nánar tiltekið þau Bragi Ólafsson og Þórdís Gísladóttir.
Bragi fór svo bratt af stað að hann fékk jazzeitrun af of mikilli jazz-hlustun – en fann þar prýðilegt móteitur í Kraftwerk. Ég treysti því bara að hann sé við það að finna móteitur við öðrum eitrunum núna. Þórdís skrifaði svo sérstaka grein helgaða skandinavískum húsgyðjum – og svona til þess að halda rithöfundaþemanu er ein þeirra af rússneskum ættum, nánar tiltekið Viktoriu Tolstoy. Þið hafið mögulega heyrt um langa-langaafa hennar.
Þá var Eiríkur Örn Norðdahl að byrja með Blúsbloggið, í kjölfar ótal gítarævintýra á hversdagsbloggi höfundar. Þar má lesa ágrip af upprunasögu blússins, um hvernig planetkruþrælar „kölluðu menn – sungu hátt – milli „akreina“ svo heyrðist í þeim og svöruðu svo aftur.“
Eiríkur byrjar svo á byrjuninni, á fyrsta blúslaginu, Crazy Blues, sem var auðvitað langt í frá það fyrsta – bara það fyrsta sem var hljóðritað. En þetta allt getið þið lesið um ítarlega með að smella hér.
Og svo fylgist þið auðvitað vandlega með Blúsblogginu og Ráðlagða jazzskammtinum og hellið ykkur jafnvel í arkívurnar á því síðarnefnda – og ef þið fáið jazzeitrun, þá er smá kraftverk hérna til öryggis. Jafnvel lag sem á einkennilega vel við þessa samskomulausu tíma.
Þetta var Ráðlagður dansskammtur í sóttkví # 11
Það er vitaskuld mikilvægt fyrir almenna lýðheilsu að fólk hreyfi sig eitthvað örlítið þótt það sé mest innivið, hvort sem um er að kenna veirum og/eða snjó. Þannig að smyglið mun hér eftir reyna að sjá fyrir reglulegum ráðlögðum dansskammti í sóttkví. Það er ráðlagt að dansa þetta í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir mjög vel, svo þú dansir alveg örugglega jafn asnalega og nauðsyn krefur.
* Sóttkví er hér samheiti yfir hefðbundna sóttkví, sjálfskipaða sóttkví, einangrun, útivistarbann eða aðra mis-þvingaða inniveru vegna kófsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson