Hrafnagaldur Óðins. Þið þekkið söguna, enda er þetta klassísk saga um endurkomu, saga sem spannar aldir; aftur í grárri forneskju er ævafornt kvæði ort, kvæði sem svo gleymist – en uppgötvast á ný og Sigur Rós, stærsta hljómsveit Íslands árið 2002, fer í tónleikaferð með kvæðið um heimsbyggðina ásamt Steindóri Andersen kvæðamanni og Hilmari Erni Hilmarssyni tónskáldi.

Verkið fékk auðvitað mikla umfjöllun, enda draumur hvers menningarblaðamanns – sagnaarfurinn og stærsta hljómsveitin – en samt eitthvað nýtt, sem fæstir vissu áður.

Nú vita þetta hins vegar flestir. En ein aðalpersónan gleymist oftast. Það vantar millikaflann í þessa sögu – og þann kafla þekkja sárafáir. Það er kaflinn sem ég ætla að segja ykkur örlítið frá núna.

„Þessi vefsíða er tilraun til þess að kynna lítt þekkt fornt norrænt kvæði, Hrafnagaldur Óðins (Forspjallsljóð) á ítarlegan hátt. Við, höfundarnir, viljum taka skýrt fram að við erum áhugamenn, ekki fræðimenn. Við erum ekki tengdir Háskóla Íslands eða nokkrum öðrum háskóla. Háskólasamfélagið hefur hunsað Hrafnagaldur Óðins í meira en öld og við lítum á það sem skyldu okkar að birta rannsókn okkar, í þeirri von að í framtíðinni verði þetta kvæði tilefni alvarlegra fræðilegra rannsókna.“

Þessi inngangstexti er á ensku, þýðingin er mín, og undir rita þeir William P. Reaves og Eysteinn Björnsson. Þessi texti birtist á internetinu í árdaga þess, árið 1998, og vakti litla athygli. Þetta var í afkimum internetsins, jafnvel fyrir þá sem snemma voru komnir með góða nettengingu. En ef síðan er skoðuð hefur greinilega mikil vinna verið lögð í hana, þessir meintu amatörar eiga án nokkurs vafa skilið að vera kallaðir alþýðufræðingar þótt þeir hafi ekki státað af akademískum titlum. Og líklega er Hrafnagaldurinn sem við þekkjum flest þeirra galdur, sú útgáfa sem þeir púsluðu saman í meintum amatörisma sínum.

Hins vegar vildi svo vel til að Eysteinn og Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld voru aldavinir og án þess að ég kunni söguna til hlýtar varð það einhvern veginn til þess að Hilmar og Steindór og Sigur Rós tóku verkið upp á sína arma og gerðu þetta nánast gleymda kvæði heimsfrægt.

Amatörarnir, hinir lítillátu alþýðufræðingar, eru vissulega nefndir hér og þar í umfjöllun um Hrafnagaldur Óðins. En í framhjáhlaupi, þeir urðu fyrst og fremst neðanmálsgrein – í raun jafn óþekktir og hinn óþekkti höfundur Hrafnagaldursins. Enda héldu þeir sig til hlés og samstarfsmenn þeirra hafa vafalaust skynjað að þeir höfðu lítinn áhuga á óhóflegri athygli.

Og líkur hér sögu af Hrafnagaldri Óðins í bili – það eru miðaldafræðingar þarna úti sem geta útskýrt þá sögu alla mun betur en ég. Ég ætla hins vegar að segja ykkur aðeins betur frá honum Eysteini.

Árið 1998 byrjaði ég í háskólanámi í bókmenntafræði og átti það sameiginlegt með nánast öllum samnemendum mínum að hafa ekki hugmynd um hvað Hrafnagaldur Óðins væri. Fæst vissum við heldur hver Eysteinn Björnsson væri. En samt hafði hann pantað nánast allar bækurnar sem við vorum að lesa. Já, nærri hverja eina einustu. Ekki bara fyrir okkur bókmenntafræðinemana, heldur líka fyrir viðskiptafræðinemana og sálfræðinemana og alla hina. Það var meira að segja oft honum að þakka að þær voru ekki dýrari en þær voru, hann sá um að semja um afslátt við erlenda birgja og útgefendur. Með samstarfsfólki sínu, vitaskuld.

Ég komst að þessu öllu þremur árum seinna, búinn með allt nema ritgerðina í bókmenntafræði og loksins kominn með starf sem kom bókum eitthvað við; orðinn virðulegur búðarstarfsmaður í Bóksölu stúdenta.

Þar hafði ég verslað bækur alla mína háskólatíð. Fannst starfsfólkið sem afgreiddi mig bera með sér góðan þokka, maður vissi að þetta fólk skyldi bækur og bar virðingu fyrir þeim – og var vitaskuld fyndið og skemmtilegt, frjótt og frótt, eins og slíkt fólk er ævinlega. Þannig að ég varð strax spenntur fyrir því að komast í sjálft Bóksölu-gengið.

En þegar ég byrjaði hafði ég aldrei komið í kjallarann. Á lager gömlu Bóksölunnar, sem í þá daga var við Hringbraut, við hliðina á Gamla garði þar sem ég hafði búið fyrsta veturinn minn í Háskólanum. En svo spyr viðskiptamaður um bók, bók sem var ekki lengur á sínum stað í hillunni – og þá þurfti maður niður á lager. Í kjallarann. Þar sem ég ímynda mér að Hrafnagaldur Óðins hafi verið uppgötvaður.

Verkefnið virtist einfalt. Fara niður á lager og finna bókina með hjálp nýtísku tölvukerfis, ef þurfti. En stundum fann maður bókina bara alls ekki, sérstaklega ekki þegar maður var nýr og rataði illa – enda lagerar alvöru bókabúða dularfullir staðir þar sem þeir sem eru ekki kunnugir staðháttum munu fljótt týnast og ekki finnast aftur fyrr en að vori.

En ég var greinilega tilbúinn í starfið og rataði alltaf út af lagernum – en til þess að komast inná lagerinn þurfti ég að fara framhjá Eysteini, hinum virðulega innkaupastjóra erlendra bóka.

Hann sat þarna í helli sínum, helli sem hann hafði sjálfur búið sér til úr eigin bókum, plötum og dvd-diskum – bækur sem voru ekki til sölu í miðri bókabúð. Örugglega verðmætustu bækurnar í búðinni margar. Og ef ég fann ekki bókina var fljótlegast að spyrja Eystein. Hann vissi auðvitað allt. En ef spurningin var óvenju heimskuleg og nýliðaleg, ef ég hafði jafnvel klúðrað einhverju, nýbyrjaður og vitlaus – þá hvæsti hann á mig. Eysteinn var skapstyggur – það var engin tilviljun að hann var aldrei að sinna afgreiðslu. Og þótt Bóksölustarfsmenn hafi í gegnum árin verið hinir mestu harðjaxlar og hefðu getað kveðið alla orðljóta sjóara og verkstjóra heimsins í kútinn þá höfum við örugglega öll verið pínulítið hrædd við Eystein, alla vega fyrsta mánuðinn okkar. Við vorum öll eins og Mannie í Black Books að reyna að læra inná dynti Bernards Black, þess vegna segi ég öllum að Black Books séu ekki sjónvarpsþættir heldur fundin heimildamynd. Og hver veit, kannski var Bernard Black bara listamannsnafnið sem Eysteinn notaði á dularfullu Lundúnaárunum sem hann segir engum frá?

En svo lærir maður hægt og rólega á lagerinn, á búðina og á tölvukerfið. Og það sem mestu máli skiptir; á Eystein.

Maður lærði vissulega að halda honum góðum – en maður lærði líka hversu merkileg sál var á bak við þetta mjög svo hrjúfa viðmót. Eysteinn var auðvitað ofboðslega feiminn. Mesti einfari sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. En samt vinmargur. Enda komst ég seinna að því að hann hefði ekki alltaf verið svona. Þarna lá einhver harmur að baki – en það er saga fyrir þá sem þekktu hann lengur en ég. Og félagsfælni er kannski betra orð en feimni. Hann átti sína gömlu vini, hann átti vinnuna sem hann sinnti með eindæmum vel. En hann fór sárasjaldan á mannamót og nýju fólki kynntist hann helst í gegnum vinnuna, þar sem hann byrjaði á að hræða líftóruna úr nýjum starfsmönnum.

Félagsfælnin lýsir sér líka best í Hrafnagaldrinum; hann var lykilmaður í að hefja þetta kvæði til vegs og virðingar á ný – en nafn hans er algjör neðanmálsgrein í flestöllum greinum um Hrafnagaldurinn, af því þar leið honum best. Neðanmáls. Eða hafði að minnsta kosti valið sér þann stað í lífinu. Að vera maðurinn á bak við galdrana, en leyfa öðrum að sjá um að galdra. Gefa Sigur Rós sínar galdraskræður til að galdra upp úr.

Og hann gaf okkur flestum sínar galdraskræður að viðskilnaði.

Hann var nefnilega fróður, einhver fróðasti maður sem ég hef þekkt. Á besta mögulega hátt. Fyrir ungan gutta sem dreymdi um að verða skáld og menningarblaðamaður einn daginn er fátt betra en að hitta mann sem getur bent manni á ótal fjársjóði sem jafnvel fróðustu fræðimenn vita oft ekki af, líkt og raunin var með Hrafnagaldurinn. Sjálfur á ég margar svona sögur af Eysteini, en ætla að láta þrjár nægja.

Sú fyrsta var þegar hann bauðst til að lána mér bíómynd á DVD diski. En þetta er svo snemma á tuttugustu og fyrstu öldinni að ég átti ekki ennþá DVD spilara, heldur bara VHS vídjótæki. En hann mælti heils hugar með myndinni og talaði svo fallega um hana að ég bara varð að sjá hana. Þetta kunni Eysteinn nefnilega – að tala um listaverkin sem hann elskaði þannig að allir aðrir vildu kynnast þeim líka.

Þannig að ég fór á næstu hverfisleigu og fann myndina, vel falda. Afgreiðslumaðurinn hafði aldrei heyrt um hana, bíónördavinir mínir ekki heldur og hennar var hvergi getið í bíóblöðunum sem ég las þegar internetið var ennþá vesen. Enda var tímasetningin óheppileg – hún var frumsýnd um það leyti og ég var að afgreiða í Bóksölunni og í tölvunni við hliðina á mér voru tvíburaturnarnir að hrynja. Í myndinni hrynur flugvélarhreyfill úr skýjunum og myndin hvarf strax úr bíó. Þetta var Donnie Darko og ég varð strax ástfanginn, ennþá algengt svar þegar ég er spurður um mínar uppáhaldsbíómyndir. Þarna var líka stórkostleg lag – eitthvað það fallegasta sem ég hafði heyrt. Vitskerta veröld. Mad World. Upphaflega flutt af Tears for Fears en hafði fundið sína endanlegu útgáfu í meðförum Gary Jules.

Jules var nánast óþekktur tónlistarmaður árið 2001, diskinn var bara hægt að finna hjá pínulítilli geisladiskabúð á internetinu og líklega voru þetta mín fyrstu innkaup á alnetinu. Þeir voru svo glaðir að fá pöntun að þeir skrifuðu mér fallegt handskrifað bréf með sendingunni og þegar ég kvittaði undir á MySpace-síðu söngvarans, þakkaði hann mér perónulega fyrir kveðjuna. Svona eins og tónlistarmenn gera áður en þeir fá sér umboðsmann.

Ári seinna var myndin svo frumsýnd í breskum bíóum og gagnrýnendur lofuðu hana í hástert og skyndilega varð hún instant költ. Ekki nóg með það, við sáum öll Love Actually sama ár, þið munið söngvarann sem vildi eiga topplagið um jólin – og auðvitað var planið að lagið úr Love Actually færi í alvörunni á toppinn þau jólin. Sem hefði undir venjulegum kringumstæðum gerst – nema hvað, Gary Jules kom fljúgandi og hirti toppætið með Mad World, heilum tveimur árum eftir að myndin var fyrst frumsýnd.

Myndin og lagið orðin heimsfræg á einni nóttu – löngu eftir að Eysteinn uppgötvaði það. Rétt eins og Hrafnagaldurinn. Rétt eins og Game of Thrones. Löngu áður en sjónvarpsþættirnir urðu vinsælir þá voru bækurnar í hillum Bóksölunnar. Þetta tók dýrmætt hillupláss og seldist ekki neitt. En Eysteinn var staðfastur á sínu. Þetta voru frábærar bækur. Einn daginn myndi heimurinn fatta það. Og jafnvel ef hann gerði það ekki ættu góðar bækur skilið sinn sess í bókabúðum.

Hann á líka sinn sess skilið í íslenskri fantasíubókmenntasögu. Af hverju? Jú, hver haldiði að hafi þýtt sjálfa Hringadróttinssögu? Þorsteinn Thorarensen heyri ég kallað aftast úr salnum, og jú, vissulega þýddi hann bækurnar sjálfar – en Eysteinn og vinur hans hófu verkið kornungir áður en Þorsteinn tók við keflinu og Eysteinn þýddi nafnið sjálft fyrstur manna. Sagði einhver mér, einhver annar en Eysteinn. Hann kunni ekki að grobba sig af svona löguðu.

Hann hafði ekki bara vit á bókmenntum og bíómyndum, hann hafði líka næmt eyra. Einhvern tímann var ég að spila það gullfallega lag She Brings the Rain með Can í Bóksölunni. Lágt, ég vildi ekki trufla Eystein við vinnu. En hann kemur beint til mín þegar hann heyrir lagið. Man skyndilega eftir gullfallegri löngu gleymdri bíómynd. Deep End, bresk mynd eftir Jerzy Skolamowski, bekkjarfélaga Polanskis frá Póllandi. „Skolimowski var alveg jafn góður og Polanski, hann gleymdist bara,“ fullyrti Eysteinn, þessi varðmaður hinna gleymdu lista. Svo pantaði hann myndina að utan, í ört stækkandi DVD safn, og lánaði mér hana. Og hann hafði engu logið, þetta er gullfalegt listaverk, skrítið og ögrandi og óþægilegt, með frábærri tónlist Can og Cat Stevens. Gerist að mestu í skrítinni gamalli Sundhöll og fjallar um ungan sundlaugarvörð og æskuástina – en líka um giftingarhring sem ber feigðina í sér, hring sem týnist og finnst á ný, þótt það kosti mannslíf. Já, þetta er eiginlega Hringadróttinssaga líka. Eysteinn vissi nefnilega hvað list snérist um, hún snérist um fjársjóðsleit, að finna fegurðina, jafnvel þótt maður myndi farast á leiðinni.

Líklega eru þetta ágætis kveðjuorð, þetta síðasta. Eysteinn dó nefnilega um daginn, 67 ára og eins dags gamall ef ég reikna þetta rétt. Þið hafið séð allar bíómyndirnar þar sem einstæðingar heimsins deyja, jarðarförin er sárust af öllu, af því gestina má telja á fingrum annarar handar.

En það var ekki þannig með Eystein. Ég mætti ekki af því ég er staddur í öðru landi í miðjum heimsfaraldri – en kirkjan var full veit ég og fjórir rithöfundar og eitt tónskáld fóru með minningarorð. Ég efast um að hann hafi vitað það, en fólki þótti vænt um hann. Af því hann gaf af sér. Á vinnustað þar sem ótal manns fóru í gegn með listamannadrauma falda djúpt í hjartanu þá nærði hann þá drauma. Flestir fundu sér á endanum eitthvað til að tala við Eystein um. Tónlistarmaður sem vann með mér gat talað við hann um obskúr Bítlalög löngu eftir að búið var að loka, rithöfundur sem starfaði eitt sinn í Bóksölunni trúði mér fyrir því að hann hefði fengið mjög hjálplegan yfirlestur hjá Eysteini fyrir sína fyrstu bók og þeir voru örugglega fleiri sem hann las yfir hjá, og skömmu áður en ég byrjaði að vinna þarna vann Jóhann Jóhannsson heitinn í búðinni og maður sér bara á forvitninni og sérviskunni í verkum Jóhanns að Eysteinn hefur á einhvern dularfullan hátt haft einhver áhrif á hann.

Lager bókabúða eru dularfullir staðir, flestum huldir. En á Bóksölulagerinn rötuðu ósjaldan sumir merkustu listamenn okkar og töluðu lengi, lengi við Eystein. Þegar það gerðist þá sló hann samt ekkert af vinnu og vann bara fram eftir þessa klukkutíma sem spjallið tók. Við að panta bækur, fylla búðina, bæði af kennslubókum og göldrum.

Sum ykkar hafið kannski fundið einhverja erlenda uppáhaldsbók í Bóksölunni, jafnvel bók sem breytti lífi ykkar – og kannski þakkað mér eða einhverjum sýnilegum samstarfsmanni í afgreiðslunni í huganum. En ég verð að afþakka þær þakkir og beina þeim annað. Jú, jú, kannski varð ég til þess að bókin var pöntuð inn. Það er alveg smá séns, það gerðist. En það eru samt yfirgnæfandi líkur á að þið ættuð að þakka Eysteini – því þótt aðalstarfinn væri að panta inn kennslubækur þá vissi hann að bókabúð er ekki bókabúð nema þar sé að finna alvöru kræsingar, fjársjóði héðan og þaðan úr heiminum sem innkaupastjórinn finnur fyrir fjársjóðsþyrsta lesendur.

Þannig mun Eysteinn lifa áfram. Í bókaskápum flestra Íslendinga, í göldrum sem aðrir framkölluðu, en kannski líka hér og þar í munnmælasögum um huldufólk. Og auðvitað í sögum af mannætukanínunni Eysteini Skorða sem ég bjó til sögur um fyrir pínulítinn son vina minna sem núna er alveg að verða fullorðinn, en vill samt ennþá alltaf vita hvað Eysteinn Skorði er að gera núna. En Eysteinn var engin mannætukanína þótt maður haldi það kannski fyrst – hann var einfaldlega alltaf að gefa, miðla ástríðu, halda smyglleiðum listarinnar opnum. Kannski hefði Menningarsmyglið aldrei orðið til án hans? Hann var nafnlaus smyglari, það þekktu hann engir nema lykilfólk, fólk sem var ekki að fara að gaspra um leyndardómsfulla huldumenn. Eysteinn sóttist nefnilega aldrei eftir því að fá kredit fyrir verk sín, hann virtist nánast forðast það, vildi vera eins og höfundur Hrafnagaldursins, nafnlaus og óþekktur.

En fyrirgefðu mér innilega Eysteinn minn, þú átt þetta kredit skilið. Þú átt inni allar þakkir heimsins fyrir að hafa gert líf svo margra betra með listinni sem þú kynntir okkur fyrir og í staðinn get ég lítið gert annað en að laumast til að segja heiminum hver þú varst, jafnvel þótt ég þekki ekki nema brot af þeirri sögu.

P.S.: Til að forðast misskilning finnst mér rétt að taka fram að ég er ekki að fjalla um rithöfundinn og þýðandann sem er alnafni Eysteins, hann er að ég best veit enn á lífi. Ég komst þó að því að þeir eru ekki alveg alnafnar lengur – Eysteinn hafði ekki hátt um það en hann hafði tekið upp nafn móður sinnar og kvaddi því þessa jarðvist sem Eysteinn Sigrúnar Björnsson.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson