Sjöundi og síðasti þáttur af Ljóðamála á almannafæri fer í loftið klukkan 20.30 á N4 í kvöld, þriðjudagskvöldið 10. ágúst. Já, þetta er að verða búið! En fyrst, síðasta upphitunin – þetta verða gestir kvöldsins:

Sesselía Ólafs er fyrra ljóðskáld þáttarins. Hún er líklega þekktust fyrir að vera annar helmingur Vandræðaskáldanna, en hér syngja þau um baráttuna við Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Hér má svo sjá hugleiðingar Svikaskálda um útilegur sumarsins.

Kári Liljendal Hólmgeirsson leikstýrir fyrra myndbandi kvöldsins. Hann nam kvikmyndagerð í New York Film Academy og er núna tækni- og útsendingarstjóri hjá N4 og hefur þar með einnig komið að lokaklippi þáttanna. Hann mætti í föstudagsþáttinn til að ræða hátíðina.

Hér má sjá örlítið brot af því sem Kári hefur verið að kvikmynda síðustu árin.

Það er svo sjálfur myndatökumaður þáttanna, Darrell Jónsson, sem líkur Ljóðamála þetta árið fyrir okkur. Darrell er vestur-íslenskur fjölllistamaður, hefur helst fengist við vídjólist, tónlist og ljóðlist undanfarin ár, auk þess að vinna að pokarottum í leirlist, grímugerð og klippiverkum. Sem skýrist betur í kvöld.

En hér má sjá 4 mínútna heimildamynd um Darrell, þar sem þið sjáið líka loksins aðeins hvernig stúdíó Ljóðamála lítur út svona dags daglega.

Hér má svo sjá sjaldgæfa upptöku af Darrell án nokkurra myndbandaverka í bakgrunninum – enda erfitt að koma tjaldi fyrir á dekkinu á bát. En þið þurfið að bíða þangað til í kvöld til að sjá vídjólistaverkin …

Fyrir utan þau kemur hefðbundið fastagengi Ljóðamála að útsendingunni; áðurnefndur Darrell Jónsson sér um upptöku í myndveri MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána.

Það er Ásgeir H Ingólfsson sem hefur yfirumsjón með þáttaröðinni. Framleiðendur eru Menningarsmygl og Urban Space Epics.

Carl Warwick samdi stef þáttanna út frá broti úr Völuspá.

Styrktaraðilar eru Miðstöð íslenskra bókmennta, Akureyrarbær og Landsbankinn. Sem og auðvitað allir áskrifendur smyglsins!

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.