Kvöld eitt á áttunda áratugnum var John Lennon að horfa á Top of the Pops og bregður heldur betur í brún. Svo mjög að hann hringir samstundis í Ringo Starr og segir uppveðraður: „Marc Bolan er að syngja með Hitler í sjónvarpinu!“

Þessi saga hefur aldrei verið staðfest – en hún er of góð til þess að endurskapa hana ekki með leikbrúðum í The Sparks Brothers, nýrri mynd Edgar Wright um uppáhaldsbandið sitt – Sparks, hljómsveitina sem hefur stundum verið kölluð uppáhaldshljómsveit uppáhaldshljómsveitarinnar þinnar.

Og ef uppáhaldshljómsveitin þín er Duran Duran, Red Hot Chili Peppers, Franz Ferdinand, Joy Division, New Order, Depeche Mode eða Sonic Youth, eða uppáhaldstónlistarmennirnir þínir Beck, Giorgio Moroder eða Weird Al Yankovic, þá er líklega eitthvað til í því – en einn eða fleiri meðlimir allra þessara sveita mæta í myndina og lofa sveitina, segja af henni sögur og hvernig hún hafi haft áhrif á þá.

Þetta gæti líka átt við um Nirvana, Kurt Cobain ku sömuleiðis hafa verið mikill aðdáandi, og Pet Shop Boys, sem að sögn eins viðmælanda eru mjög viðkvæmir fyrir því hve líkt þeir hljóma stundum og Sparks.

Það er nóg af þekktum viðmælendum öðrum líka. Neil Gaiman er fulltrúi rithöfunda,  Jonathan Ross fulltrúi fjölmiðlamanna, leikararnir Jason Schwartzmann, Mike Myers og Patton Oswalt mæta á svæðið sem og Amy Sherman-Paladino, best þekkt sem skapari Gilmore Girls þáttana. Leikstjórinn sjálfur fyllir svo í eyðurnar og bregður sér fyrir framan myndavélina þegar þarf.

Björk er ekki í mynd, kannski kófinu um að kenna, en við heyrum hljóðbút þar sem hún lýsir rödd söngvarans Russells sem rödd sem var „lítillega kvenleg, fíngerð,“ og bætir svo við – og meinar það vel: „Þetta var sko alls ekki rokk og ról.“

Af því þeir Ron og Russell Mael, bræðurnir sem mynda Sparks, eru alltaf á skjön. Náttúrulega á skjön. Þeir eru 76 og 72 ára, söngvarinn sá yngri, sá eldri er þessi skrítni með yfirvaraskeggið, þessi sem minnir suma á Hitler eða Chaplin.

Þeir eru Ameríkanar frá Kaliforníu sem dýrkuðu breska tónlist, fengu sinn fyrsta skammt af skammlífri frægð í Bretlandi – þar skyldi fólk þá betur. Þeir hafa verið að í 50 ár og oft staðið við dyragátt frægðarinnar, jafnvel verið pínulítið frægir í pínulítinn tíma – en voru alltaf of sérlundaðir til að spila leikina sem þurfti að spila.

Einn viðmælanda segir raunar frá skammlífu ástarsambandi sem hún átti í við Russell áratugum fyrr – og það eru stórfréttir, einkalíf þeirra er nefnilega almennt ekki til umræðu. Þeir eru skemmtilegir og húmorískir viðmælendur – en fókusinn er á músíkina og ferilinn og örlítið um æskuárin. Það virðist hins vegar enginn vita neitt um ástarmál þeirra eða aðra persónuhagi, hvorki í nútíð né fortíð. Og þannig vilja þeir greinilega hafa það.

Kvikmyndagerðarmenn í líkama tónlistarmanna

En nú er rétt að viðurkenna eitt: á pappírunum hljómar þetta eins og bræðingur tveggja anga heimildamynda sem ég á afskaplega erfitt með; tónlistarheimildamyndir sem ómögulegt er að njóta ef þú ert ekki jafn heitur aðdáandi og leikstjórinn og viðmælendurnir, og heimildamynd full af talandi hausum.

En það merkilega er að myndin þrælvirkar, líka fyrir okkur sem uppgötvuðum bræðurna bara fyrr í sumar, ekki fyrir hálfri öld. Fyrir því eru nokkrar ástæður helstar: viðmælendurnir eru svo fjandi skemmtilegir (og þar með vel klipptir, vitaskuld), Edgar Wright reynist svo fjandi flinkur heimildamyndaleikstjóri, bræðurnir eru náttúrutalentar á bak við myndavélina og uppbrotin, hvort sem það eru gamlar upptökur eða teiknimyndir, eru svo vel unnin eða fundin.

Eitt uppáhalds Sparks-lagið mitt er einmitt „Edith Piaf (Said it Better Than Me)“ – og myndbandið við það er jafnvel enn betra, enda er það sami teiknimyndasmiður, Joseph Wallace, sem sér um brúðurnar hér og er raunar orðaður við eitt af mögulegum framtíðar kvikmyndaverkefnum bræðranna.

Þau hafa nefnilega verið nokkur – eða eins og Alex Kapranos úr Franz Ferdinand orðar það: „Þú þarft að horfa á þá í gegnum bíómyndir til að skilja þá.“ Sparks-bræður voru nefnilega bíónördar ekki síður en tónlistarnördar í æsku – og voru báðir í kvikmyndatengdu háskólanámi. Og það mætti kannski nefna að einn af fáum veikleikum myndarinnar er að kafa ekki dýpra í bíóið, yfirheyra þá um Ingmar Bergman og félaga – en um Bergman sömdu þeir eitt sinn söngleik.

Sá persónuleiki bræðranna sem birtist okkur í myndinni er líka eins beint út úr eldgömlu bíói – tvíeyki á borð við Laurel & Hardy og Abbott & Costello, sem gerðu út á andstæðupör sem voru samt eins og samvaxnir tvíburar – þeir falla eins og flís við rass við þá hefð; sá þögli og sá syngjandi, eða sá myndarlegi og sá skrítni, svo vísað sé í nokkrar algengar lýsingar á bræðrunum. Og þeir kunna þessa rullu upp á tíu, hún er hluti af listræna pakkanum sem Sparks eru. Hún er skemmtilega þversagnakennd; þótt öðrum þeirra hafi stundum verið líkt við Hitler fylgdi því engin ógn, þvert á móti bara einkennileg hugrenningatengsl, dagfarsprúður maður með sérviskulegt og mögulega smekklaust skegg.

Þeir hafa líka oft ætlað að gera bíó – mynd með Jaques Tati var til dæmis lengi á teikniborðinu og önnur með Tim Burton, en það tókst loksins núna, þegar þeir kláruðu Annette með Leos Carax, sem fjallað er betur um hér og hér.

25 plötur og skyggna stelpan

Myndin er vel yfir tvo tíma, enda fer hún í tímaröð yfir hverja einustu plötu (en leyfir þér þó ítrekaða útúrdúra) og það einhvern veginn bara virkar – og er raunar ágætlega í takt við það uppátæki bræðranna að flytja allar plöturnar í heild sinni, 20 kvöld í röð, eitthvað sem reyndist aðeins flóknara en nokkurn hafði grunað.

Plöturnar eru núna orðnar 25 og afköstin stöðug í öll þessi ár, nema þegar þeir eyddu bróðurpartinum af sex árum í að vinna að kvikmyndahandriti eftir manga-sögunni Mai: The Psychic Girl. Tim Burton átti að leikstýra – og þetta var á þeim árum í kringum Batman og Edward Scissorshands þegar Burton var heitasti leikstjóri Hollywood.

Það verkefni datt á endanum uppfyrir – en það sem mér fannst raunar allra athyglisverðast við myndina er hvernig þessi krónólógíska nálgun varð til þess að maður áttaði sig á því að það var samt einmitt þarna sem þeir fundu sinn rétta tón, í gegnum þetta verkefni sem aldrei varð. Einn fyrsti hittarinn eftir það felur svarið í titlinum: When Do I Get to Sing My Way? Og svarið er: Núna.

Í kjölfarið komu nefnilega allar undirliggjandi bíó- og leikhúspælingarnar af fullum krafti inní tónlistina, þeir ná loks að sameina bíónördismann og tónlistarnördismann grímulaust, á þann hátt að eiginlega finnst manni oft bestu lögin þeirra séu þau sem eru eins og samin fyrir söngleik sem er ekki til.

Nema auðvitað söngleikurinn sé bara ekki tilbúinn – eða sé tilbúinn og fari aldrei á svið?

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson