Við erum stödd í afskekktri sveit með Hraundranga vofandi yfir. Fyrir neðan er bóndabær og í hlöðunni er lamb að fæðast. Hjón taka á móti lambinu – en taka það svo með sér inn í bæinn og ala gimbrina upp sem sína eigin dóttur. Það er aðfangadagskvöld og jólalög í útvarpinu – og allt gerist þetta í upphafi Dýrsins, fyrstu myndar Valdimars Jóhannssonar í fullri lengd.

Kvikmyndin rataði á topplista í Bandaríkjunum með yfir milljón dollara tekjur frumsýningarhelgina, hlaut frumleikaverðlaun í Cannes og var tilnefnd sem uppgötvun ársins á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Í Variety er myndinni lýst sem þjóðsögulegri sveitasælu-hrollvekju, Cineuropa segir myndina hjartnæma þrátt fyrir geggjunina og Hollywood Reporter talar um sláandi sterka frumraun. 

En hvernig byrjaði þetta allt saman?

„Ég bjó mér til svona skissubók, þar sem ég var búinn að klippa út alls konar myndir og málverk og var búinn að teikna og búa til svona klippimyndir. Ég var að klippa saman alls konar myndir og senur – og var kominn með mjög óljósa sögu,“ segir Valdimar þar sem hann situr á útikaffihúsi í Karlovy Vary og sýnir mér 140 ára málverk eftir lítt þekktan dansk-franskan málara, August Friedrich Schenck. Málverkið kallast Angist og sýnir á nokkra sem stumrar yfir lambinu sínu efst í snjóskafli á meðan krákur umkringja hana. Sem kallast sannarlega á við myndina, það er ekkert sældarlíf að vera sauðfé.

Hrönn Kristinsdóttir, einn framleiðenda myndarinnar, situr líka hérna með okkur – en þau Valdimar búa saman og Hrönn og dóttir hennar, Sara Nassim, eru aðalframleiðendur Dýrsins. Það voru svo þær sem kynntu Valdimar fyrir Sjón, sem átti eftir að semja handritið í samvinnu við Valdimar.

„Við hittumst í kaffi og ég sýndi honum úrklippubókina. Honum leist vel á þetta og eftir það byrjuðum við að hittast einu sinni-tvisvar í viku – og gerðum það í nokkur ár. Við byrjuðum að reyna að móta þessa sögu og svo vannst þetta áfram. Við vorum alltaf að reyna að búa til einhverjar senur, sem kannski tengdust einhverju málverki, sem tengdust svo mögulega þemanu. Við fórum stundum í bíó og lásum einhverjar bækur sem okkur grunaði að gætu skipt máli fyrir söguna. Og svo þekkir Sjón þjóðsögurnar svo vel og það hafði maður séð í bókunum hans, hvernig hann leikur sér þar með þjóðsagnaminni, út af því var ég alveg viss um að hann væri rétti maðurinn í þetta.“

Og samstarfið gekk prýðilega. „Þetta var mjög skemmtilegt ferli og gekk mjög vel. Þegar við vorum svo búnir að skrifa uppkastið eftir nokkur ár þá tók Sjón við og skrifaði handritið. Þetta voru ekki mörg drög og það voru bara örlitlar breytingar á milli mismunandi útgáfna af handritinu.“

En hvað sóttu þeir í þjóðsögurnar?

„Engin af þessum verum sem koma við sögu þekkjum við úr þjóðsögunum. Allavega ekki úr neinu sem við þekkjum. Við nýttum okkur í raun bara mörg lítil element, eins og með jólanótt, það er algengt í mörgum ævintýrum að eitthvað afdrifaríkt gerist á jólanótt,“ segir hann og ég minnist á að kvikmyndaaðlögun eins þessara ævintýra muni deila sölum með Dýrinu í kvikmyndahúsum þessi misserin – Græni riddarinn. Þannig að það borgar sig að hafa augun opin næstu jólanótt, ef dularfullir gestir banka á dyrnar.

En hvernig gekk að vinna svona náið með fjölskyldunni að bíómynd?

„Þetta er búið að ganga mjög vel. Þetta er búið að taka langan tíma, en við vissum öll að hverju við vorum að stefna. Við vorum bara í þessu, það var ekkert annað sem komst að,“ segir Valdimar og Hrönn skýtur inn í: „Við fengum alla fjölskyldumeðlimina með í þetta, Sigrún Sayeh, hin dóttir okkar, sá um skipulagið (production co-ordinator) og unglingurinn okkar, hún Elsa Sóllilja, fékk ekki að tala um neitt í þrjú ár nema Dýrið. Og hún kom líka og vann með okkur í þessu.“

Valdimar samsinnir. „Það voru allir í þessu. Og fjölskyldur okkar beggja hjálpuðu líka til,“ og Hrönn bætir við: „Það eru alveg ókostir líka, en það mikilvæga er að vera með svona þekktar boðleiðir. Við þekkjumst svo vel og þess vegna var svo auðvelt að samstilla okkur þannig að við værum að stefna í sömu átt.“

Dýr og dökkhærðar manneskjur

Kynjaverur myndarinnar þýddu að hér má finna öllu meiri tæknibrellur en oftast í íslenskum myndum. Fyrir utan að nóg er um dýr, mest kindur en þó líka virðulegan fjárhund. Hvernig gekk að hafa taumhald á öllum þessum skepnum?

„Það gekk mjög vel. Við vorum með tvo menn sem sáu um dýrin og svo fengum við mikla hjálp frá öllum bændunum í kringum okkur. Ég hélt eiginlega að þetta yrði erfiðara. Svo vorum við með svo frábært tökulið sem hjálpaði líka til ef það voru stórar kindasenur.“

En hvernig voru svo brellurnar unnar?

„Við notuðum brúður og svo vorum við með tíu börn á misjöfnum aldri sem skiptust á að leika.“

En lömbin þurfa auðvitað sína hvíld og Hrönn rifjar upp hvernig „þessi lömb voru heimalningar, þau voru með okkur allan tímann. Það var verið að svæfa þau fram og til baka.“

„Já, við vorum að gefa þeim pela og strjúka þeim,“ segir Valdimar. „Fyrir sumar senur þurfti allt kvikmyndatökuliðið að bíða í hálftíma á meðan það var verið að gefa lambinu pela og strjúka því. Svo þegar það sofnaði læddust leikararnir inn, þá vaknaði lambið, og þá þurfti að fara aftur að reyna að svæfa það.“

En það þurfti líka tölvubrellur til seinna meir. En grunnurinn var lagður á setti. „Við vorum komin með grunninn,“ segir Hrönn og bætir við: „Við vorum með Peter Hjorth með okkur á setti, mann sem hefur unnið mikið með Lars von Trier og vinnur við að hafa yfirumsjón með tæknibrellum. Hann kom og hafði yfirumsjón með verunni. Allt sem sneri að henni, hvort sem það voru börn eða dýr eða að gera tæknibrellur á setti. Eftir að við vorum búin að taka þetta upp tók svo við mjög langt ferli í brellum, sem var unnið af fyrirtæki sem heitir Chimney, undir stjórn Fredrik Nord.“

„Fredrik Nord og hans teymi voru alveg ótrúleg,“ skýtur Valdimar inn í og svo heldur Hrönn áfram: „Við sátum yfir þessu í smáatriðum. Fórum yfir hvert einasta skot, þar sem er verið að skoða augu og var verið að setja inn svipbrigði og hreyfingar. En það sem var mikilvægast var að finna út hvenær við ætlum að sjá veruna, hvenær við sýnum hana fyrst og í hvaða senum væri mikilvægt að hún kæmi við sögu. Því hún er sannarlega ekki aðalpersóna myndarinnar.“

Og þeim senum fækkaði í ferlinu. „Það voru fleiri senur í handriti,“ segir Valdimar mér. „En svo sjáum við að það var betra að hafa færri senur, þannig að hún væri að gera eitthvað mismunandi í hverri senu. Þannig að þetta væri ekki bara endurtekning, að sýna aftur og aftur það sama.“

Valdimar var þó ekki að öðlast sína fyrstu innsýn í sálarlíf sauðfjár.

„Já, ég hef verið í sauðburði og lömb og kindur eru ótrúlegar verur. Ég hálfpartinn óx upp hjá afa mínum og ömmu, sem voru með fjárbú og þar voru mjög gæfar kindur. Og ég átti kind sem hét Grábotna.“

Grábotna er töluvert lengra nafn en lambið sem hjónin taka í fóstur, hún Ada. Sem blasir við okkur hérna á veggspjaldi myndarinnar – af því Tékkarnir ákváðu að kalla myndina einfaldlega Ada.

„Hún var með önnur nöfn, en okkur fannst þetta yrði að vera mjög stutt nafn. Ada er ekki algengt, en það er til á Íslandi, en það eru bara örfáar Ödur. Eitthvað sem væri hægt að bera fram sæmilega. Við vorum svolítið að vandræðast með enska titilinn á myndinni. Dýrið er á milli þess að vera „animal“ og „beast,“ við fundum aldrei rétta titilinn – vinnuheitið var Lamb og það festist síðan, þegar við vorum komin út í miðja á var ekki hægt að fara að breyta. Eins og þeir gera hérna í Tékklandi, að láta myndina heita Ada, við vorum líka að hugsa að það væri svo fallegt grafískt.“

En verður ekkert mál að stimpla Dýrið inn fyrir Íslandsfrumsýningu? Myndin er jú orðin töluvert betur þekkt sem Lamb. „Við þurfum bara að fara að stimpla það inn, hægt og rólega.“

Ég minnist á að ég hjó sérstaklega eftir því að íslenski titillinn er notaður í upphafi myndarinnar, þar sem Dýrið stendur með stórum stöfum – eitthvað sem er ósjaldan breytt þegar myndir eru sýndar utan heimalandsins.

„Já, það var mikil pæling með titilinn og hvernig grafíkin á honum væri. Heillangur tími sem fór í það, hvort það ætti að vera aðeins meiri fjöður í ð-inu og svo framvegis,“ segir Hrönn mér.

En nóg um dýr og börn, ræðum aðeins um allar þessar manneskjur. Þær eru svo sem ekki margar; Noomi Rapace og Hilmir Snær Guðnason leika aðalhlutverkin og Björn Hlynur Haraldsson leikur einnig stórt hlutverk, auk þess sem Ingvar E. Sigurðsson kemur lítillega við sögu.

„Við vorum búin að hugsa um Noomi svolítið lengi. En við vissum alveg að það gæti orðið erfitt, jafnvel ef hún hefði áhuga, að finna tíma og slíkt, þannig að við vorum rosalega glöð þegar hún ákvað að vera með. Og Hilmir Snær og hún pössuðu ótrúlega vel saman,“ segir Valdimar.

Það er líka ákveðinn svipur með þeim sem var mikilvægur. „Hugmyndin með leikhópinn var líka að það væri ákveðinn drungi yfir þeim, við á Íslandi erum föl og ljóshærð, þannig að við vildum hafa þetta fólk aðeins dekkra en meðal-Íslendinginn – með dökkt hár, en lita-pallettan hjá þeim þremur er svipuð. Það var eitthvað sem við vorum með í huga frá byrjun. Það er eitthvað svipað við þau öll. Ekki þessi týpíska íslenska heiðríkja.“

Noomi Rapace er sænsk og hefur mest leikið þar, meðal annars í þríleik Stieg Larsson um Karla sem hata konur. Þá hefur hún reynt fyrir sér í Hollywood í myndum á borð við Promotheus. En frumraunin var þó þegar henni bregður fyrir í örlitlu hlutverki í brúðkaupssenu í mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Í skugga hrafnsins, þegar hún var aðeins átta ára. Enda varði hún ófáum sumrum á Íslandi sem barn og talaði málið fyrir.

En var samt ekkert stökk fyrir hana að leika á íslensku?

„Hún er alltaf svo upptekin, hún var búin að vinna í 300 daga áður en hún kom til okkar og kom bara deginum áður en tökur hófust,“ svarar Hrönn og bætir við: „Hún talar nánast án hreims, en hún hafði ekki mjög mikinn orðaforða þegar hún kom. Hún var ekki í vandræðum með hreiminn, en hún gat ekki mikið spunnið á íslensku til að byrja með.“

„En eftir viku var þetta ekkert mál, bætir Valdimar við. „Henni fannst líka stundum að þetta væri mjög gamaldags íslenska, því það er svo langt síðan hún var hérna að ráði.“

„Hún talaði íslensku sem barn, hún kann öll þau orð. Íslensku ársins 1990. En hún er líka bara svaka fljót að hugsa og fljót að aðlagast,“ bætir Hrönn við.

Og hvernig var að vinna með leikhópnum?

„Það var bara æðislegt að vera með þessa leikara í sinni fyrstu mynd. Það sem þau komu með að borðinu var svo magnað og þetta var gert í svo mikilli sameiningu og allir að hjálpast að. Það var frábært. Vegna þess að maður fann að þau voru algerlega með manni í þessu.“

Covid og Cannes

Örlög myndarinnar hafa hins vegar litast töluvert af heimsfaraldrinum – undir eðlilegum kringumstæðum væri þetta orðið ársgamalt viðtal og næsta spurning væri óþörf. En hvernig var að klára sína fyrstu mynd í miðjum heimsfaraldri?

„Allt í einu höfðum við meiri tíma. Það var enginn að bíða eftir að myndin kæmi út. Þannig að að því leyti gerði þetta myndinni gott,“ segir Valdimar en framleiðandinn skýtur inn í: „Helstu erfiðleikarnir voru að taka ákvörðun um að bíða, því það er ákveðið fjármagn sem losnar þegar þú klárar. Þannig að það er oft pressa að koma myndum út í heim.“

„Allt í einu höfðum við meiri tíma. Það var enginn að bíða eftir að myndin kæmi út.“

Undirritaður var einmitt staddur á Berlinale í febrúar í fyrra og þá var altalað á götum borgarinnar að Dýrið væri á leiðinni á Cannes. Þar sem hún keppti einmitt núna í sumar, en Cannes 2020 fór hins vegar aldrei fram – þótt nokkrar myndir hefðu hlotið stimpilinn Cannes Presents til að nota í kynningum.

En var Dýrinu boðið á Cannes í fyrra?

„Við sögðum nei áður en okkur var boðið,“ segir Hrönn mér. „Okkur var svo boðið að opna Sundance, sem hefði verið spennandi ef Sundance hefði gerst annars staðar en bara á netinu – það átti að vera bílabíó og einhver svona smá líkamleg viðvera, en svo varð það ekki og við vorum þess vegna mjög fegin að hafa sagt nei við því. Svo vissi enginn hvað myndi gerast með Cannes fyrr en nú undir vor.“

Valdimar var líka mjög sáttur við þá lendingu að frumsýna svo á Cannes núna í sumar. „Það voru allir í hópnum búnir að leggja svo mikið á sig að okkur langaði alltaf að fagna með þeim. Ég held það hafi verið 20 manns úr hópnum sem komu til Cannes til að fagna með okkur, þannig að það var ótrúlega gaman.“

„En hefði verið frekar leiðinlegt að sitja heima í Reykjavík í smóking í sófanum að horfa,“ bætir Hrönn við.

Þetta var fyrsta heimsókn Valdimars á þessa stærstu kvikmyndahátíð heims. „Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég hafði aldrei farið þarna. Það voru allir að tala um að þetta hefði verið svo rólegt og hvað það hefðu verið fáir – en ég fann ekkert fyrir því, verandi þarna í fyrsta skipti.“

Hrönn tekur undir það. „Þetta var stórkostleg upplifun, það var stórkostlegt að vera í þessum stóra sal, salurinn var rosalega lifandi og skemmtilegur og það var hlegið og grátið og klappað. Þetta var svolítið yfirþyrmandi. Góðar viðtökur að flestu leyti. Það var líka bara gaman að vera í Cannes. Þar er svo mikil virðing fyrir kvikmyndunum og forminu. Það eru allir svo meðvitaðir um hvað við erum að gera, þannig að það var mjög ánægjulegt.“

En frá Frakklandsströndum bregðum við okkur í íslensku sveitina, í Hörgárdalinn. Hraundrangi vofir yfir, ekki þó í Öxnadal, „því við vorum hinum megin. Í Hörgárdal. Þannig að við erum að horfa á tindinn öfugum megin.“

En það tók langan tíma að finna staðinn.

„Við vorum búin að keyra í kringum landið tvisvar og vorum búin að skoða helling af sveitabæjum,“ segir Valdimar og Hrönn bætir við: „Valdi var líka búinn að teikna upp bæinn, það var til módel af bænum með mjög nákvæmri uppsetningu. Þannig að við vorum ekki opin fyrir neinu nema akkúrat þessum bæ sem hann var búinn að búa til. Þannig að við vorum orðin dálítið frústeruð, hrædd um að við myndum aldrei finna það sem við vildum.“

En þá kom fjölskyldan til bjargar, í þessu fjölskylduverkefni. „En bróðir Valda, Helgi Jóhannsson, sem sér um hluta af dýrunum í myndinni og er meðframleiðandi líka, hann fann þennan bæ á sínum ferðum og svo var hann aðlagaður bænum hans Valda.“

„Það sem er áhugavert við hann er að það er næstum ekkert í kringum hann,“ skýtur Valdimar inn í og Hrönn heldur áfram: „Hann er innst í Hörgárdal, þetta er næstinnsti bærinn, þannig að þú gast tekið upp út um alla glugga án þess að sjá nein merki um mannfólk. Það er náttúran sem er ógnin. Þú ert alltaf dálítið berskjaldaður, þú sérð alls staðar út, og það var svolítið pælingin líka.“

„Þú gast tekið upp út um alla glugga án þess að sjá nein merki um mannfólk. Það er náttúran sem er ógnin.“

„Sem var það sem við vildum, svo þú fengir tilfinningu fyrir að þetta væri pínulítið einangrað,“ segir Valdimar og bætir við að bærinn hafi samt verið töluvert ólíkur þeim sem hann hafði teiknað upp.

„Ég gerði „storyboard“ fyrir alla myndina eftir fyrsta uppkast. Þess vegna var svo mikilvægt hvernig uppbyggingin á bænum væri. En hann reyndist svo frekar ólíkur því sem ég vildi. En hann var svo skemmtilega formaður að þetta varð eiginlega meira spennandi en það sem ég var búinn að hugsa.“

Í læri hjá Béla Tarr og Tildu Swinton

Og meira af framleiðendum myndarinnar. Einn af meðframleiðendum myndarinnar er sjálfur ungverski leikstjórinn Béla Tarr, en þeir Valdimar eiga sér langa sögu, hann lærði undir handleiðslu Tarr í Sarajevo.

„Það var bara frábært. Sarajevo er bara ótrúlegur staður, við værum eiginlega til í að búa þar, við urðum svo ástfangin af staðnum,“ segir Valdimar, sem var ekki síður ánægður með námið sjálft.

„Það var rosa gott að vera þarna af því Béla kom með svo frábæra kennara sem komu þarna út af honum. Þannig að við vorum með Tildu Swinton, Carlos Reygadas,  Apichatpong Weerasethakul, Cristian Mungiu og Gus van Sant. Þau komu og voru með okkur í viku. Við vorum svo með þau frá því við byrjuðum í skólanum og svo borðuðum við með þeim um kvöldið og fórum í bíó. Stundum vorum við bara að fara í göngutúra og spjalla um bíómyndir. En þá vorum við þegar byrjuð að vinna í Dýrinu þannig að það var margt sem maður nýtti sér, til að fá álit og svoleiðis, þannig að það var ótrúlega mikil hjálp í því.“

Er þá næsta mynd mögulega að fara að gerast á Balkanskaganum?

„Ja …“ segir Valdimar hikandi og virðist allavega áhugasamur um hugmyndina. „Mér finnst það mjög áhugavert, allavega landslag og byggingar finnst mér mjög heillandi.“

En það fæst ekkert upp úr þeim hvað sé næst á dagskrá.

„Við erum bara svo nýbyrjuð, við erum komin svo stutt á leið að maður getur ekki talað um það,“ segir Valdimar en Hrönn bætir leyndardómsfull við: „Jafnvel kannski eitthvað tilraunakenndara en Dýrið.“

Þegar viðtalið var tekið var búið að sýna myndina í Cannes, á Nowe Horyzonty í Wroclaw í Póllandi og svo hér í Karlovy Vary í Tékklandi. Og hún er rétt að byrja hátíðarrúntinn. „Hún er að fara á fullt af hátíðum. Ég held það sé ekki búið að kynna prógrammið formlega á flestum þeirra,“ segir Valdimar og Hrönn bætir við að hún fari líka mjög víða í almenna dreifingu. „Það er búið að selja hana um alla Evrópu nema Ítalíu, minnir mig, og A24 keyptu hana til Bandaríkjanna og hún verður frumsýnd þar  8. október. Þannig að hún verður í bíódreifingu í allflestum Evrópulöndum, Norður-Ameríku og víða í Asíu.“

„En við hlökkum samt mest til að sýna heima. Maður er pínu stressaður hvernig henni verði tekið á Íslandi,“ bætir svo Valdimar við.

En um hvað er svo myndin, svona ef maður kafar? Mér datt aðeins í hug hvort túlka mætti myndina sem grænmetisáróður, jafnvel kalla hana Hefnd lambanna?

Valdimar hlær við og segir: „Við höfum alveg fengið mjög skrítnar útskýringar á þessu öllu. Einn sagði mér að hann væri hættur að borða kjöt eftir að hafa séð myndina.“

„En þau eru að fá sér lamb á aðfangadag, eru að fá sér kótelettur rétt áður en lambið fæðist, eru að hlusta á auglýsingu frá Kjarnafæði, Heiðarlambið kryddaða,“ segir Hrönn áður en Valdimar bendir á óvæntan innblástur. „Það sem er svo fyndið í Andrés-blöðunum, þeir eru með veislu og þá er kjúklingur á borðum. Fuglar að borða fugl.“

Ég minnist á að dýraþemun í myndinni minni lauslega á Pokot eftir pólsku leikstýruna Agnieszku Holland og þá kemur í ljós hvað kvikmyndaheimurinn getur verið lítill stundum.

„Klaudia, pólski meðframleiðandinn okkar, er með Madants og framleiðir einmitt meðal annars Agniezku Holland. Hún framleiddi líka High Life,“ segir Hrönn og heldur áfram. „Sænski meðframleiðandinn okkar var meðframleiðandi á Gräns og New Europe Film Sales, dreifingaraðilinn okkar, var með Hrúta. Brandarinn varð svo auðvitað að fyrirtækið sem var með Hrúta væri næst með Lamb.“

Mikilvægasta tengingin á milli Hrúta og Dýrsins er þó fjárhundurinn í myndinni, sem var líka í Hrútum, og því augljóslega ein skærasta ferfætta stjarna íslenskra kvikmynda. Hann var verðlaunaður á Cannes, fékk hin virtu Palm Dog verðlaun og fetaði þar með í fótspor frægra kvikmyndahunda úr myndum á borð við Dogville, Inglorious Basterds, Paterson, The Artist, The Lobster og Once Upon a Time … in Hollywood.

„En hann er því miður dáinn. Dó fyrir nokkrum mánuðum,“ segir Valdimar mér og bætir við að annar hundur hafi verið fenginn til að taka á móti verðlaununum fyrir fjárhundinn Pöndu.

„En það er rosalega gaman að vinna með dýrum af því þú getur gefið þeim alls kyns tilfinningar og maður hefur tilhneigingu til að horfa á hund og hugsa: hann er sorgmæddur. Að gefa honum mannlegar tilfinningar,“ segir Hrönn og bætir við: „Það sama gerist með kindurnar, þú gefur þeim einhverjar tilfinningar sem mannfólk myndi hafa.“

Viðtalið birtist upphaflega í Stundinni 6. nóvember 2001.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson