Við skiljum þennan líkama okkar ekkert alltof vel stundum. Við erum til dæmis stundum örþreytt þegar við ættum að vera úthvíld og full af orku þegar við ættum að vera uppgefin – og helsti styrkur þessarar stuttu og snaggaralegu hrollvekju Hildar Knútsdóttur er að byggja hrollinn upp á einhverju jafn kunnuglegu og hversdagslegum áhyggjum okkar af okkar eigin líkama.
Iðunn vaknar nefnilega alltaf örþreytt, þrátt fyrir eðlilegan svefn að hún heldur – og ekki bara einstöku sinnum, heldur alltaf. Hún hefur leitað til tveggja lækna og gúglað allt sem henni dettur í hug og er hvergi nær lausninni. Vinkona hennar stingur upp á meiri hreyfingu svo hún sofni þreytt. Það hjálpar ekki heldur – nema það verður til þess að hún kaupir GPS-úr sem telur skrefin hennar, sem verður til þess að hún áttar sig á því sem lesandinn áttar sig á nánast strax: að hún liggur sannarlega ekki kyrr þessar nætur. Hún vaknar og úrið hefur talið 47.325 skref um nóttina – fyrir þá sem eru ekki vanir skrefateljurum er þetta ígildi þess að labba sleitulaust í 7–8 tíma. Svefngenglar stunda ekki slíka kraftgöngu, eru líklegri til að labba í tíu mínútur eða í mesta lagi í hálftíma.
Hvað hún er að gera á nóttinni veit hún hins vegar ekki en lesanda dettur ýmislegt í hug. Titill bókarinnar, Myrkrið milli stjarnanna, fær mann til að gruna að hún sé mögulega einhvers konar geimfari á nóttunni, jafnvel ofurhetja af einhverju tagi – en fljótlega fer mann að gruna að hún sé frekar ofurskúrkur eða jafnvel andsetin.
Strax á upphafssíðum bókarinnar förum við að verða vör við að nóttin bærir stundum á sér á daginn, eins og þegar hún talar við spegilmynd sína: „Og mér til undrunar birtist vísir að illgjörnu glotti við annað munnvikið.“
Þessir stuttu kaflar
Lífið heldur samt áfram þótt maður eigi erfitt með svefn. Sem í tilfelli Iðunnar þýðir að mæta í vinnuna, hanga með vinkonunum, forðast fyrrverandi hjásvæfuna sem vinnur með henni, átta sig á nýja ástarævintýrinu, heilsa öllum köttunum í hverfinu og kljást við foreldra sem sífellt bjóða henni í mat og gleyma alltaf að hún er grænmetisæta.
Þarna liggja kannski stærstu veikleikar sögunnar; Iðunn er að mörgu leyti autt blað sem persóna, mig rekur varla minni til að það komi fram við hvað hún vinnur né hvaðan hún kemur. Vinkvennahópurinn er sömuleiðis hálf tilviljanakenndur og flatur. Samskiptin við foreldrana eru vissulega oft skondin og sömuleiðis lýsingarnar á Má, nýja ástmanninum. Þá er köttunum satt best að segja oftast lýst af meiri innlifun og væntumþykju en manneskjunum sem hún á í samskiptum við. Enda lykilpersónur sögunnar.
Fljótlega áttum við okkur þó á því að lykilpersóna sögunnar er látin systir Iðunnar. Hver tengslin eru er samt áfram órætt. Henni hugkvæmist þó að virkja GPS hnitin í úrinu, sem hún hafði upphaflega slökkt á af því hún vildi ekki taka sénsinn á að stórfyrirtæki njósni um hana. Þá fer hún hægt og rólega að fá skýrari mynd af næturferðum sínum þegar hún getur sett þær inn á kort í tölvunni og leitað að mynstri.
Þegar á líður fer hún svo að missa tökin á hversdagslífinu og næturlífið – í bókstaflegri merkingu – tekur yfir. Kaflarnir taka að styttast mjög, sem býr til ansi óvenjulegan takt. Bókin telur hundrað kafla á innan við tvö hundruð síðum – en sumir kaflarnir eru aðeins ein setning, jafnvel bara örfá orð.
Þessum stuttu köflum fjölgar þegar líður á bókina, stundum koma nokkrir í einu – jafnvel sama setningin endurtekin. Einföld dæmi eru kaflar á borð við:
„Ég þori ekki að fara að sofa.“
„Ég vakna í rúminu mínu.“
„Ég þori ekki að hringja í hann.“
„Hann svarar mér ekki.“
Það óvenjulega við þetta stílbragð er hvernig það sameinar eiginleika spennusögunnar og ljóðrænunnar. Þetta gerir tempóið í bókinni hraðara og örara – en um leið verða einföldustu setningar hlaðnar merkingu við að standa svona aleinar á blaðsíðu.
Þessi setning er það eina sem Iðunn getur hugsað um í heilan kafla.
Kannski heilan dag.
Kannski heila viku.
Við þekkjum þetta flest, þegar hugsanir okkar festast í lúppu, þegar eitthvað eitt veldur okkur slíkri þráhyggju að það er sem afgangurinn af veröldinni leysist upp, hætti að skipta máli. Allt okkar líf kjarnast í einni setningu – stundum setningu sem við skiljum samt ekki sjálf.
Sem verður stundum til þess að fólk lokar sig af, eins og Iðunn gerir þegar ástandið verður hvað verst – verður ein með ástandi sínu, þessu ástandi sem heimurinn skilur ekki, þessu ástandi sem hún hefur gefist upp á að reyna að útskýra fyrir nokkrum manni. Enda skilur hún það ekki almennilega sjálf. Eða vill ekki skilja.
Það er rétt að mæla með að lesendur berjist aðeins gegn þessum hraða takti, reyni að stoppa aðeins við þessar gildishlöðnu setningar – fara inn í hana, inn í áráttuna. Þá kemst maður að því að þetta er sumt ansi kunnuglegt.
Hráleikurinn styrkur og veikleiki bókarinnar
En um leið finnst manni eitthvað vanta. Hráleikinn er styrkur bókarinnar sem og veikleiki, þetta er um margt berstrípuð saga um afskaplega hversdagslega konu – og það hefur sína kosti. Hver veit, kannski var einmitt mikið skorið niður í ferlinu, skorið inn að beini svo tilfinningin ein væri eftir. En maður saknar aðeins meiri persónusköpunar á köflum, að kafa dýpra í vissa þætti – en veltir samt um leið fyrir sér hvort sagan væri endilega betri með kröftugri baksögu.
Það eru möguleikar þarna á miklu dýpri fjölskyldusögu til dæmis og jafn skemmtilega órætt og tvífaraminnið er hérna vantar kannski að glæða það meira og skýrara erindi. Manni verður til dæmis hugsað til Fight Club, þar sem tvífaraminni er notað til þess að afhjúpa tryllta neyslumenningu og firringu samfélagsins – og þegar betur er að gáð þá á Iðunn alveg sitthvað sameiginlegt með aðalpersónu Fight Club; hún er almennt almennileg við fólk í orði en ansi dómhörð í huganum – sem hún getur illa falið fyrir okkur, enda sagan öll í fyrstu persónu.
Þannig er spurning hvort dómharkan raungerist á nóttunni, hvort einmitt þar neyðist hún til að vera hreinskilin við sjálfa sig, sem er ekki alltaf góð hugmynd.
Ljóðrænn titillinn er aldrei útskýrður nákvæmlega, en þó er ýjað að honum á stöku stað, við vitum samt ekki hversu bókstaflega ber að taka hann – hvaða myrkur þetta er, þetta myrkur sem reynir að troða sér inn í vitund hennar. En svo áttar maður sig. Við erum föst á milli þeirra. Nánast allt þetta myrkur sem við þurfum að horfast í augu við er á milli stjarnanna.
Niðurstaða: Sálfræðiþriller og hrollvekja sem sækir styrk sinn í hið kunnuglega. Spennandi og ljóðræn bók og afskaplega stuttorður og snarpur stíll eru bæði styrkleiki bókarinnar og veikleiki; stundum vill maður kafa meira á dýpið, en um leið er heilmikill styrkur í þessum óræða söguheimi.
Hildur Knútsdóttir hefur skrifað rúmlega bók á ári á rúmlega áratugslöngum rithöfundarferli. Frumraun hennar var skáldsagan Sláttur en þekktustu verk hennar eru annars vegar tvíleikurinn Vetrarfrí og Vetrarhörkur og svo þríleikurinn Ljónið, Nornin og Skógurinn sem hún lauk við fyrir síðustu jól. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Vetrarhörkur og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur fyrir Ljónið. Þá hefur hún sent frá sér ljóðabókina Orðskýringar og samið þrjár barnabækur með Þórdísi Gísladóttur um annars vegar strákinn Dodda og hins vegar stelpuna Vigdísi Fríðu. Þá mun sjónvarpssería byggð á Vetrar-tvennunni vera í vinnslu.
Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 11. desember 2021.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson