Hér er bókarkápa. Baðönd með myndarlegan hatt syndir um í Reykjavíkurtjörn, tregafull og glettinn í senn. Fyrir ofan stendur Einlægur Önd og enn ofar stendur Eiríkur Örn Norðdahl, með mun stærri stöfum. Enda menn töluvert stærri en baðendur, 198 sentimetrar í tilfelli Eiríks, eins og kemur fram í bókinni. En það má alveg spyrja sig hver titillinn sé, er þetta Einlægur Önd eftir Eirík Örn eða Eiríkur Örn eftir Einlægan Önd?
Bæði gengur upp á sinn hátt, aðalpersóna bókarinnar er Eiríkur Örn – Andarviðurnefnið er bara bernskuminning. Kápumyndin er eftir Jóhann Ludwig Torfason og bakgrunnurinn vísar í myndskreytingar í Hjarta Reykjavíkur, búðinni sem hann rekur, og myndin og titillinn slá strax tóninn fyrir bókina; þetta er grínaktug einlægni, einlægni leiksins. En um leið bók sem er líkleg til að tala um alvarlega hluti án nokkurs hátíðleika.
Bókin inniheldur líka tvær titilsíður – á annarri stendur ævisaga og hinni skáldsaga. En hvor síðan er skáldskapur? Þeir sem hafa lesið blogg Eiríks og fylgst með honum í gegnum tíðina sjá strax að hér er margt skáldað en líka margt satt, það má kannski ímynda sér að einhver möguleg útgáfa skáldsins sé hérna keyrð í botn. Eiríkur Örn bókarinnar er rithöfundur sem beið harkalegt skipbrot eftir bókina Hans Blæ, sem vissulega olli ákveðnu fjaðrafoki en ekkert í líkingu við það fjaðrafok sem er magnað upp í bókinni, svo mjög raunar að síðasta bók Eiríks, Brúin yfir Tangagötuna, er aðeins orðin hugmynd að bók sem enn er óskrifuð – enda var Eiríki sögunnar rækilega slaufað eftir Hans Blæ og hann hefur varla getað skrifað stafkrók síðan.
Sem gerðist sumsé ekki í raunveruleikanum, bókin var umdeild en ekki svona umdeild – og eins er ýmislegt skáldað um persónulega hagi skáldsins. Sem býr til dæmis ekki í Reykjavík, blessunarlega:
„Því ef það var nokkuð undir himninum sem Eiríkur hataði meira en að vera blankur, einn og ærulaus var það að vera blankur, einn og ærulaus í Reykjavíkurborg, þessari ömurlegu slabbsósa húsaþyrpingu sem blasti nú við honum út um þrjá stóra stofuglugga í hvert einasta sinn sem hann steig upp úr sófanum (til allrar hamingju voru rúðurnar afar skítugar).“
En svo er auðvitað mögulegt að bloggið sé skáldskapur og bókin sjálf játningin, hver veit?
En það er líka margt kunnuglegt hérna, maður þekkir sumar persónurnar alveg úr reykvískum bókmennta- og bóhemakreðsum, sumar undir nafni og aðrar ekki. Eða jafnvel undir þekktu nafni sem tengist persónunni lítið, samanber sálfræðinginn Hjörvar Hafliðason. En bókin er fyrst og fremst stórskemmtileg lengi vel, þessi hrakfallabálksútgáfa af skáldinu er drepfyndin í sínu aumkunarverða skipbroti – en um leið hugvekjandi og forvitnileg; hvernig endaði hann þarna? Og hverjum er það til gagns?
Af því þetta er fyrst og fremst bók um slaufunarmenningu. Skáldið tekur á sig slaufanir annarra til að rannsaka ákveðið þjóðfélagsástand, ákveðna umræðu.
Hann fær örlítið haldreipi í annars vonlausri tilveru þegar hann fær starf sem ritlistarkennari og nemendurnir, margir hálfri eða heilli kynslóð yngri, spegla ágætlega þau viðhorf sem sagan gagnrýnir og er eitur í beinum skáldsögu-Eiríks. Hér ræða þau um innsæi rithöfunda í gegnum fjarfundarbúnað:
„En hvers konar innsýn á það að vera? Hvað veit gagnkynhneigður millistéttarkarl um hvað það þýðir að vera fátæk kona?“
Þessu svarar ritlistarkennarinn Eiríkur með klassísku dæmi.
„Hvað veit Halldór Laxness um að vera Salka Valka, meinarðu? Í svo til öllum sögum eru persónur sem bæði njóta meiri og minni forréttinda en sá sem sagði þær. Starf höfundarins er að sjá inn – hafa innsýn – í annað fólk.“
„En ber sá sem heldur um pennann enga ábyrgð á að sýna þær ekki í slæmu ljósi?“ spurði Marta.“
Og skyndilega fallast manni hendur, lesanda, ritlistarkennara og sjálfsagt öllum sem er annt um alvöru skáldskap, þegar komin er upp krafa um að rithöfundur sé kynningarfulltrúi sögupersóna sinna, frekar en skapari sem lætur lögmál sögunnar ráða örlögum karakteranna.
Um leið er þetta auðvitað ævagömul saga, ungdómurinn að pönkast á kennaranum – sem er ýmist of óheflaður eða of dannaður, allt eftir því hvernig vindar tíðarandans blása.
Hin handahófskennda smánun
En rithöfundurinn Eiríkur Örn er þó ekki alveg dauður úr öllum æðum, mitt í öllu þessu byrjar hann að skrifa nokkuð stefnulaust um dr. Felix Ibaka, sem er rithöfundur og lektor í ritlist við Angursháskóla í Arbítrea. Landinu þar sem allt er handahófskennt, samanber nafnið, en þó sérstaklega smánunin, sem er táknuð með múrsteinum sem lagðir eru fyrir utan hús fólks – en Eiríkur hefur einmitt verið að fá múrsteina inn um gluggann, með óræðum hótunum um að halda sig til hlés. Skilaboðum á borð við þessi:
„Það eru ekki mannréttindi að sinna kennslu. Það eru ekki mannréttindi að gefa út bækur. Það eru forréttindi. Forréttindum verður maður að vinna fyrir og þau eru forgengileg.“
Á meðan er dr. Felix Ibaka að vinna að sínum eigin bókum, dóttir hans semur myndasögu og allt þetta birtist í bókinni – hér er bók inni í bók inni í bók, til hliðar og fyrir ofan og neðan. Allar sögurnar fjalla þó í grunninn um svipaða hluti, smánun og hvernig mismunandi samfélög takast á við hana. Arbítrea er nánast mannfræðilegt dæmi, tilbúið dæmi um land þar sem aldagamlar hefðir um smánun kallast á við nýlegar hefðir okkar um smánunina, þetta er forneskjulegt land og við virðumst því stefna í þessa sömu forneskju, Arbítrea er framtíð okkar frekar en fortíð, þótt hún sé forn. Enda slaufunarmenning vitaskuld ekkert nýtt, heldur aðferð sem gengur reglulega aftur í mismunandi myndum og hverfur í raun aldrei alveg. En lífið getur nú samt ráðist töluvert á staðsetningunni.
„Staðsetning á korti stýrir sálarástandi. Þetta vita allir. Sá sem elst upp í hringiðu mannkynssögunnar hefur aðra sýn á heiminn en hinn sem vex úr grasi í útnára. Sýn manna í hinum ólíku útnárum er þess utan misjöfn. Það skiptir máli hvort mannkynssagan gerist manni á hægri hönd eða vinstri, hvort og hvernig afleiðingarnar hafa snert viðkomandi í gegnum tíðina. Á vissum stöðum hefur mannkynssagan eitt sinn farið fram en síðan hætt því og flutt sig annað. Annars staðar er einsog mannkynssagan sé rétt að hefjast en svo hefst hún aldrei, það gerist aldrei neitt nema biðstaðan.“
Arbítreu-kaflarnir eru þó veikleiki bókarinnar. Þeir hafa ákveðinn tilgang og skapa bókinni víðara samhengi, vissulega – og inn á milli má finna þar gullmola og forvitnilegar pælingar – en yfir það heila eru þeir bara ekki nærri jafn skemmtilegir og andríkir og hrakfallasögur Eiríks Arnar, þetta skáldaða land lifnar aldrei við á sama hátt og Reykjavík aðalsögunnar. Arbítrea er einfaldlega of fast í veröld dæmisögunnar til að frelsast í átt að breiðari og andríkari skáldskap. Hún er kenning frekar en skáldskapur, skáldað mannfræðidæmi frekar en sannfærandi hvergiland.
Kannski er vinnusiðferði skáldsins um að kenna, kannski fannst honum þessi útgáfa af sannsögu of auðveld, en vinnusiðferði vestfirskra skálda er lýst svo snemma í bókinni:
„Þetta reyndist auðvitað á nokkrum misskilningi byggt hjá skáldinu, sem tók vinnusiðferðið úr rækjunni óvart með sér yfir í bókmenntirnar og stundaði ritstörf einsog yfir honum stæði blóðrjóður verkstjóri sem krefðist þess hvínandi raustu að Eiríkur bjargaði öllum verðmætum úr hausnum á sér áður en þau skemmdust og ynni sér ekki minnstu hvíldar fyrren allt væri örugglega mergsogið úr kúpunni og hann sjálfur ekki nema innanholt skjálfandi hismi.“
Eins hefði verið gaman að fá miklu meira af ritlistartímum – nemendurnir lofa góðu sem persónur en hefðu bara þurft meiri tíma, og Eiríkur reynist lúnkinn ritlistarkennari, svona þegar hann kemst fram úr rúminu. Og stundum eru einföldustu spakmælin þau bestu, eða eins og hann segir nemendunum: „Að skrifa vel er fyrst og fremst að sjá vel.“
Upplifun af ákveðinni orðræðu
Og Eiríkur er að reyna að miðla ákveðinni orðræðu, eða kannski öllu heldur upplifununum sem henni fylgir – af því þær eru margar og mismunandi eftir því hvorum megin borðs þú ert og hvaða stöðu þú ert í. Það er nefnilega ekki sama Jón og séra Jón þegar kemur að grimmd almenningsálitsins, sumir eru nógu teflonhúðaðir til að geta gert skandala í Ásmundarsal og Panama án afleiðinga, þrátt fyrir háværa umfjöllun.
„Þannig má frægur maður eiga von á meiri smánun en ófrægur, en sömuleiðis má hann eiga von á heiftúðugra andsvari – að jafnvel ókunnugt fólk taki til varna fyrir hans hönd – og að smánunin hafi takmarkaðri áhrif á ytri aðstæður hans, svo sem atvinnu eða fjölskylduhagi. Fer þetta þó eftir því hvort viðkomandi hafi brotið á velsæmi „síns hóps“ – líkt og áðurnefndur glæpamaður getur hreykt sér af húðflúri getur viss tegund listamanns hreykt sér af því að ganga gegn almennu velsæmi, einmitt vegna þess að hópurinn sem hann á allt sitt undir samsamar sig ekki þessu velsæmi, heldur setur sig upp á móti því. Þá getur stjórnmálamaður einnig þurft að draga sig í hlé vegna hneykslis, en ef hneykslismálið brýtur ekki á grunngildum kjarnakjósenda hans er líklegra en ekki að hann snúi aftur í sitt kjörna embætti.“
Þetta er snúin umræða sem endar iðulega í skrítinni og eitraðri blöndu af hávaða og þögn á internetinu. En einmitt þá getur skáldsagan komið til bjargar, náð utan um ástandið og umræðuna, greint ástandið passlega ábyrgðarlaust, með fjarlægð og fjarvistarsönnun hins skáldaða – þetta eru ekki mínar skoðanir, þetta er ekki raunverulegt dæmi, þetta er bara raunveruleiki skáldaðra persóna – og þá loksins er hægt að ræða hlutina af viti. Því til sönnunar fáum við bara þessi jól bæði þessa bók og Merkingu Fríðu Ísberg, sem báðar takast á við slaufunarmenningu og útilokunarmenningu, þótt bók Fríðu vísi vissulega í fleiri áttir og megi yfirfæra á fleiri hitamál. En það er þó óvíst að þetta skáldaleyfi endist að eilífu – kannski verður kröfu sumra ritlistarnema Eiríks svarað og tennurnar verða dregnar úr skáldskapnum líka, þannig að við fáum bara bækur sem læðast. Eða eins og dr. Felix Ibaka orðar það:
„Bókina skorti allan skáldskap. Hún fylgdi öllum reglum sem hún átti að fylgja – hvert einasta orð í henni var sannleikanum samkvæmt og það var hægt að fletta því upp og sannreyna. Það var engin spenna, hvorki traust né vantraust. Hún var handan þess að biðja um traust og þar með eiginlega handan þess líka að eiga í eiginlegu sambandi við lesanda sinn – sem þurfti hvorki að láta bókina grípa sig og bera sig út úr þessum heimi, né gat hann grýtt henni í gólfið og lýst því yfir að þetta væri nú meiri þvælan. Sá sem hafði skrifað hana – hver sem það var – hafði tiplað á tánum einsog maður sem læðist í gegnum hús að nóttu til með það eitt að markmiði að vekja engan, vera engum til ama og engum til gagns og engum til gleði. Síst af öllu sjálfum sér. Og læðist svo bara út aftur.“
Niðurstaða: Drepfyndin og þrælskemmtileg bók um alvarleg málefni. Slaufunarmenning, ritlistarkennsla og virkni skáldskaparins eru til umræðu, sem og mörk skáldskapar og veruleika. Fyrirferðarmiklar hliðarsögur draga bókina þó töluvert niður, en það er til marks um hvað aðalsagan er skemmtileg og hugvekjandi að bókin er engu að síður fjandi mögnuð heild þrátt fyrir útúrdúrana.
Ísafjarðarskáldið Eiríkur Örn Norðdahl hefur sent frá sér átta skáldsögur og sjö ljóðabækur, auk ritgerðasafna, Plokkfiskbókarinnar og fjölda þýðinga. Hann fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Illsku og Rauðu fjöðrina, erótísk stílverðlaun lestrarfélagsins Krumma, fyrir Brúna yfir Tangagötu. Þar á undan gaf hann út Hans Blæ, sem kemur töluvert við sögu í nýjustu bókinni. Hann var á sínum tíma einn af stofnendum Nýhils og kom þar að skipulagningu alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhil og hefur sjálfur lesið upp á ljóðahátíðum víða um heim.
Dómurinn birtist upphaflega í Stundinni þann 12. desember 2021.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson