Ég bjóst ósjálfrátt við eyðimörk. En eftir því sem við fjarlægðumst Kænugarð varð allt grænna. Eftir því sem við nálguðumst Tsjernobyl og Pripyat. Ég var í hópi með nokkrum Finnum, það var tilviljun, það var einfaldlega safnað í þessar ferðir. Það var líka erfitt að komast í þær, skriffinnskan í kringum þær var töluverð, en ég komst að því eftir krókaleiðum að norskur hosteleigandi í Kyiv sæi um að bóka fólk í svona ferðir – það hljómaði eins og auðveldasta lausnin, að gista þar og skoða borgina og geta fengið upplýsingar beint frá þeim norska, í staðinn fyrir að standa í endalausum símtölum. Það hafðist á endanum að fá staðfesta dagsetningu – viku seinna. Og þar sem sá norski var frekar leiðinlegur rasistadurgur og þar sem Kyiv var á minna en þremur árum skyndilega orðin einhver dýrasta borg Austur-Evrópu ákvað ég að skreppa til Moldóvu í millitíðinni.

En núna vorum við alveg að koma. Skógurinn varð grænni og grænni og ég áttaði mig á því að sagan um Tsjernobyl var ekki byggð á heimsendabíómyndunum sem voru vinsælar undir lok kalda stríðsins, heldur var hún byggð á Öskubusku. Hér vafðist gróðurinn utan  um öll mannanna verk, á fáeinum öldum myndi hann mögulega hylja þau öll. Þetta var heimurinn mínus mannskepnan, þarna fengum við að sjá í beinni hvernig náttúran brást við þegar maðurinn hvarf skyndilega.

Mynd: Paweł ‘pbm’ Szubert, CC BY-SA 3.0 með leyfi Wikimedia Commons

Ekki með öllu vissulega. Sumir frumbyggjar svæðisins, aldraðir bændur helst, sættu sig ekki við að flytja og sneru einfaldlega aftur þrátt fyrir hættuna. Þá höfðu ótal tækifærissinnar komið, oftast á mótorhjólum, og hirt allt það verðmætasta úr húsunum í Pripyat fyrir margt löngu. Eins þurfti mannskap til þess að sjá um kjarnorkuverið og hafa eftirlit með því – en það voru strangar reglur um hversu lengi þeir gætu verið inni á svæðinu.

Og svo við, túristarnir. Ég hafði lesið að gestir þyrftu að vera í sérstökum öryggisgalla, sem virtist þó vera hálfgert leikrit, þar sem starfsmenn voru allir hversdaglega klæddir. Líklega hafa starfsmennirnir verið búnir að lesa sömu tímaritsgrein, enda var leikritinu með öryggisgallana hætt. Þegar við vorum komin inn á svæðið fengum við bara strangheiðarlegan úkraínskan mat sem við vorum sérstaklega fullvissuð um að væri upprunninn utan svæðisins og sama gilti um vatnið sem notað var við að elda matinn. Þá vorum við sett á sérstaka vigt sem mældi ekki þyngd heldur geislavirkni, bæði fyrir og eftir heimsóknina. Svo fengum við öll geiger-mæli með okkur í kynningarleiðangur um svæðið – en hann hreyfðist satt best að segja varla neitt, maður varð nánast fyrir vonbrigðum með hvað allt virkaði öruggt – náttúran virtist vera mun sneggri að hreinsa geislunina í burtu en menn höfðu spáð.

Mynd: Clay Gilliland, CC BY-SA 2.0 , með leyfi Wikimedia Commons

Þegar komið er að kjarnorkuverinu sjálfu sést risastór stytta af þeim slökkviliðsmönnum sem komu fyrstir á vettvang – og svo sjáum við kjarnakljúfinn sjálfan, í líklega um tvö hundruð metra fjarlægð. Nær fáum við ekki að fara. Þetta er ólögulegt mannvirki, umvafið verndarhjúpi sem var hálfgert skítamix sem þurfti að gera í flýti. Hann var hins vegar eingöngu hugsaður til fáeinna áratuga, enginn vissi hve lengi – það átti alltaf eftir að byggja nýjan, almennilegan hjúp. En núna var úkraínska ríkið bláfátækt og enginn peningur til fyrir slíkri framkvæmd, það var helst að menn bæru vonir til þess að kjarnorkufyrirtæki heimsins myndu veita fé til slíkra bygginga, enda þeirra hagur að kjarnorka væri talin örugg. Þannig var þó þessi verndarhjúpur öfugsnúin huggun – hann verndaði mann og ef hann myndi bresta myndi líklega litlu skipta hvort maður væri við hliðina á honum eða í Kyiv, þetta væri búið spil hvort sem væri.

Auðvitað kann það að vera orðum aukið, það eru ótal sögusagnir um Tsjernobyl – sem helgast kannski helst að því að óvissan um afleiðingar kjarnorkuslyssins þar er ennþá heilmikil, sem og óvissan um stöðuna á kjarnakljúfi númer fjögur.

Draugaborg og gleymdir harmleikir

En ég kom samt ekki hingað  til að skoða Tsjernobyl, það var draugaborgin við hliðina sem togaði mig til sín. Pripyat, þar sem starfsmennirnir og fjölskyldur þeirra bjuggu. Draugaborg allra draugaborga, þar sem mannfjöldinn fór úr 49.360 manns í núll manns, nánast á einni nóttu. Þar fylla iðagræn tré öll stræti og torg og skyggja á húsin, vaxa upp úr húsunum, moldinni, malbikinu. Þarna er yfirgefið Parísarhjól í yfirgefinni borg, og gólf sem brátt munu bresta, í húsum þar sem má finna tuskubangsa sem urðu eftir og fjölskyldualbúm sem gleymdust. Held ég, við máttum ekki fara inn, ólíkt þeim sem höfðu komið þarna ári fyrr, einmitt af því menn höfðu áhyggjur af því að gólfin myndu brátt bresta. Enda hafði ekkert viðhald átt sér stað þarna í 32 ár.

Mynd: Alternat.iiva, CC BY-SA 4.0 með leyfi Wikimedia Commons

Þessi ferð var nefnilega farin fyrir ellefu árum, í maímánuði 2008, vorið fyrir hrun. Áratug seinna var svo loksins byggður öruggari verndarhjúpur utan um kjarnorkukljúf númer fjögur, við getum öll andað léttar, næstu aldirnar að minnsta kosti. Við sem enn munum. Ég hafði heimsótt Sarajevo og Kósóva fyrr um vorið og hef í undrun horft upp á þessa harmsögulegustu viðburði síðustu áratuga tuttugustu aldar falla í gleymsku, þar sem kynslóðirnar sem á eftir koma þekkja venjulega stríð langömmu og langafa betur en stríð foreldra sinna.

Ég fékk svo óvænta staðfestingu á þessari tilfinningu minni þegar Tsjernobyl kom skyndilega með krafti aftur inn í meginstraumsumræðuna þegar samnefndir sjónvarpsþættir slóu í gegn, fólk heimtaði að enginn kjaftaði frá endinum og það var eins og sjónvarpsáhorfendur heimsins stæðu á öndinni yfir að uppgötva það sem allir fréttatímar fjölluðu um fyrir 33 árum síðan. Þetta birtist ágætlega í orðum Áslaugar Torfadóttur, sjónvarpsgagnrýnanda Rásar 1, sem saknaði persónulegri nálgunar í þáttunum en taldi ástæðuna vera þessa: „Aðrir hryllilegir atburðir heimssögunnar á borð við seinni heimstyrjöldina og helförina eru það stór hluti af sammeðvitundinni að það er auðveldlega hægt að segja fallegar og harmrænar persónulegar sögur úr þeim því langflestir skilja rammann utan um þær, sjá stóru myndina.“

Það segir sína sögu að þótt hún segi „atburðir“ í fleirtölu þá nefnir hún í raun bara einn, seinni heimsstyrjöldina, enda var helförin hluti af heimsstyrjöldinni, bara svo skelfilegur atburður að hann þarf að nefna sérstaklega. Auðvitað er seinni heimsstyrjöldin mikilvæg – en þessi ofuráhersla á hana þýðir einfaldlega að aðrir lykilviðburðir í mannkynssögunni gleymast, sem þýðir svo aftur að okkur skortir samhengi og hildarleikirnir sem við þekkjum best eru órafjarri okkur, annaðhvort í tíma eða rúmi.

Kjarnorka og loftslagsmál

Tsjernobyl-þættirnir sýna þó að þessi gleymska er ekki endilega til komin af áhugaleysi – ef sagan er vel sögð og er nógu mögnuð er áhuginn alveg fyrir hendi. Vissulega eru þetta leiknir sjónvarpsþættir en af slíkum þáttum að vera fylgja þeir sögulegum heimildum nokkuð nákvæmlega, þótt vissulega séu ákveðin skáldaleyfi tekin – eins og að búa til hana Ulönu Khomyuk, samsettan karakter úr öllum þeim vísindamönnum sem að málinu komu, auk Valery Legasov, sem var raunveruleg manneskja og eiginleg aðalpersóna þáttanna. Hann deilir sviðinu með Boris Shscherbina, sérlegum erindreka flokksins, ásamt áðurnefndri Ulönu. Þættirnir eru alls fimm og það er til marks um hversu langt þættirnir eru lengstum frá hefðbundinni Hollywood-frásögn að engin þessara þriggja aðalpersóna kemur við sögu fyrr en í bláendann á fyrsta þættinum, ef undan er skilið örstutt forspil. Fyrsti þátturinn snýst einfaldlega um hina fyrstu nótt, þegar enginn vissi neitt, þegar íbúar Pripyat söfnuðust saman á brúnni til þess að dást í sakleysi sínu að fegurð kjarnorkuhiminsins. Og hver veit, kannski voru einhverjir áhorfendur grunlausir líka. Yfir öllu heyrum við svo magnaða tónlist Hildar Guðnadóttur og eins eiga búninga- og leikmunadeildirnar hrós skilið fyrir að fara með mann í sannfærandi ferð til Sovétríkjanna sem maður heimsótti aldrei – en það hversu kunnugleg öll tískan var sýndi manni þó fram á að það var styttra á milli vesturs og austurs en kaldastríðsklisjurnar héldu fram, það var kannski helst að austrið væri aðeins á eftir og Úkraína ársins 1986 leit svona nokkurn veginn út eins og Norðurlöndin 1981.

Erindi þáttanna vitrast manni þó fljótlega. Hér sjáum við gerspillt kerfi sem gerir allt til að viðhalda sjálfu sér – og örvæntingarfulla baráttu vísindamanna við að sannfæra kerfiskarlana um að til þess að viðhalda sér þurfi kerfið að viðurkenna alvarleika málsins, til þess að tortímast ekki með landinu sem fóstraði það. Dramað snýst um stigveldi og það að halda kúlinu ekkert síður en kjarnorkuvána, hér er hugmyndafræði sett ofar mannviti og hentistefnuhugmyndir stjórnmálamanna eru rétthærri en ígrundaðar athuganir vísindamanna. Fyrir 30 árum hefðu flestir lesið þessa þætti sem leið Bandaríkjamanna til þess að berja á Sovétkommúnistunum, kaldhæðni örlaganna er sú að nú eru þeir miklu frekar að berja á sjálfum sér – núna eru efasemdir um samdóma álit vísindamanna í nafni pólitískrar hentistefnu ekki síður bandarískt sport og þættirnir snúast í augum nútímafólks ekki síður um loftslagsvána en kjarnorkuógnina.

Hvort tveggja er ógn sem ríkisstjórnir heimsins eiga í erfiðleikum með að takast á við, fyrst og fremst vegna blöndu hugleysis og getuleysis. Áróður fyrir hugmyndafræðinni er líka fyrir löngu orðinn hugmyndafræðinni sjálfri yfirsterkari – það er fyrir öllu að enginn sjái hvað er bak við Pótemkin-tjöld valdsins.

En sumt er öðruvísi. Hér er til dæmis enginn Trump. Ef slysið hefði gerst áratugum fyrr hefði mögulega verið hægt að nota Stalín sem Trump-ígildi en Tsjernobyl-slysið átti sér ekki stað fyrr en 1986, mitt í Perestrojku Gorbatsjevs. Þættirnir eru vel að merkja á ensku og blessunarlega tala persónurnar ekki með rússneskum hreim. Vissulega hefði verið um margt skemmtilegra að þeir töluðu einfaldlega úkraínsku og rússnesku, þótt mögulega hefði það komið niður á vinsældunum, en þetta gengur þó merkilega vel upp – nema helst þegar kemur að Gorbatsjev sjálfum. Það er eitt að heyra óþekkt fólk eða lítt þekktar persónur úr mannkynssögunni tala ensku eins og innfæddir, en það er dálítið annað að heyra Gorbatsjev gera það. Það er kannski ástæðan fyrir því að hann er ekki meira í þáttunum en raun ber vitni, hann sést á nokkrum fundum en er annars ekki í forgrunni sögunnar.

En seinna meir átti Gorbatsjev eftir að ýja að því að Tsjernobyl hafi í raun valdið falli Sovétríkjanna. Yfirlýst ætlun Gorbatsjev var að koma lýðræði og manneskjulegri kommúnisma á í rólegheitum – og það má vissulega alveg velta fyrir sér hvort það hefði verið betra plan en ýmsar þær óaldir sem Jeltsín og Pútín hafa fært yfir Rússland, sem og Úkraínu. Þar eru einmitt átök enn á milli Rússa og Úkraínumanna, þótt heimurinn sé nú þegar byrjaður að gleyma þeim erjum. Sum átök hverfa úr heimsfréttunum löngu áður en þau klárast. Og þegar maður ferðaðist niður Krímskagann til að taka sjóleiðina í burtu frá Úkraínu, þegar það stríð var ekki enn byrjað, þá blasti hvarvetna við manni áminningar um Krímstríð 19. aldar, fyrsta nútímastríðið, hálfgerða upphitun fyrir heimsstyrjaldir tuttugustu aldarinnar, enn einn harmleikinn sem fallinn er í gleymsku samvitundarinnar.

Ormaviður

Slíkir harmleikir eru ófáir. Í Tsjernobyl er stutt sena þar sem hermaður reynir að sannfæra gamla konu um að núna þurfi hún að yfirgefa jörðina sem hún hefur búið á alla sína tíð. Í örstuttri tölu fræðir hún hermanninn (en í raun fyrst og fremst áhorfandann) um hörmungar Úkraínu á tuttugustu öldinni, heimsstyrjöldina og hörmungar hennar, vitaskuld – en líka um Holodómor. Þetta dularfulla orð er heiti Úkraínumanna á manngerðri hungursneyð sem Stalín leyddi yfir þá í upphafi fjórða áratugarins, hungurnsneyð sem tókst að halda að mestu leyndu fyrir vestrinu þangað til velski blaðamaðurinn Gareth Jones fletti ofan af henni.

Um Jones og ævintýralega för hans til Úkraínu var einmitt gerð myndin Mr. Jones nýlega, kvikmynd sem rétt eins og Tsjernobyl rifjar upp hryllilega atburði úr sögu Sovét-Úkraínu, atburði sem hefur farið miklu minna fyrir en Tsjernobyl nokkru sinni og því miður virðist það vera að endurtaka sig, því þótt Mr. Jones sé engu síðra verk en Tsjernobyl virðist hún ekki ætla að öðlast sömu verðskulduðu vinsældirnar.

Hún væri engu að síður tilvalið framhald af Tsjernobyl, mannkynssagan sögð afturábak í gegnum tuttugustu aldar sögu Úkraínu. Sögð í gegnum för hins unga Jones, þar sem hann stekkur út úr lest og þrammar svo í óleyfi í gegnum hungursneyðina miðja – og borðar líklegast óvart mannakjöt á leiðinni.

Hermenn í stríði við hið ósýnilega

Tsjernobyl fjallar vissulega um ýmislegt fleira. Sumir hafa bent á þá þversögn að þótt þetta slys hefði bara getað átt sér stað í Sovétríkjunum þá hefði líka bara verið hægt að koma böndum á það þar og forða þannig frekari harmleikjum. Svo mikill var aginn – eða ættjarðarástin, eftir því hvernig maður túlkar mannfórnirnar. En í raun eru þessar mannfórnir þó ekki svo ólíkar því sem tíðkast hefur í stríðum um aldir, menn hætta lífi sínu fyrir óljósa hagsmuni ríkis og stundum er um hreina sjálfsmorðsleiðangra að ræða. Munurinn er einfaldlega sá að annars vegar er óvinurinn ósýnilegur og eins er þetta ólíkt göfugra en flest stríðsbrölt sökum þess hve fórnfýsin er tær; þeir eru ekki að fara að drepa neina nema sjálfa sig og mikilvægi gjörða þeirra er ótvírætt fyrir almannaheill. Engu að síður liggur svipuð hugsun að baki, einhvers konar blanda af heraga og þjóðernisást. Eitthvað sem getur stöku sinnum verið beitt til góðs, þótt hið gagnstæða sé því miður mun algengara í gegnum mannkynssöguna.

Hér sjáum við menn eyða 90 sekúndum í að hreinsa einn eða í mesta lagi tvo steina af þaki kjarnakljúfsins, við sjáum menn synda í geislavirku neðanjarðarvatni, við sjáum kviknakta námuverkamenn og kolsvarta námuverkamenn, með „blackface“ af kolum. Við sjáum lífsþreytta hermenn slátra geislavirkum gæludýrum og við heyrum hið skelfilega orð biorobots – lífræn vélmenni – þegar hið eiginlega vélmenni hefur brugðist. Það er ekki verið að kalla á Robocop, það er verið að kalla eftir meiri mannfórnum.

Og þótt margir staldri mest við samtímaspeglun sögunnar þá eru jafn margir sem tala um kjarnorkuna sem hinn ósýnilega djöful sögunnar, þessa hryllingsmynd þar sem hryllingurinn er alltaf ósýnilegur en þó banvænn. Hann sjóngerist þó að einhverju leyti í einu fórnarlambinu, Vasily, slökkviliðsmanni sem dvelur afskræmdur á spítala og er hjúkrað af Ljúdmílu, ófrískri eiginkonu hans. Ljúdmíla er nokkurs konar staðgengill almennings í þáttunum og fórnir hans, saga hennar er nánast tekin beint upp úr upphafskafla nóbelsverðlaunabókar Svetlönu Aleksíevítsj, Tsjernobyl-bænin.

Þótt almenn ánægja hafi verið með þættina þá eru sumir talsmenn kjarnorku sem vistvænnar orku gagnrýnir, tala niður fjölda látinna og gagnrýna sérstaklega sögu hinnar óléttu Ljúdmílu, sem sögð var hafa misst fóstur út af geisluninni. Meðal þeirra sem draga þá sögu í efa er bandaríski læknirinn Robert Gale, sem starfaði á spítala í Moskvu um þetta leyti við beinmergsaðgerðir. Í viðtali við Michael Shellenberger gagnrýnir hann þáttastjórnendur fyrir að byggja á „skáldsögu“ og virðist þar ekki bara ómeðvitaður um að bók Alexievich er blaðamennskubók með frásögn sjónarvotta, heldur líka ómeðvitaður um að hann er persóna í einmitt þessari sögu. Hann er nefndur sem læknirinn sem gerir misheppnaða beinmergsaðgerð á slökkviliðsmanninum Vasily, þegar hann flytur beinmerg úr systur hans yfir í Vasily. Aðgerðin gerði ekkert gagn en olli því hins vegar að systirin, sem fyrir aðgerð var stálhraust, varð hálfgerður sjúklingur í kjölfarið. En Shellenberger þessi, sem tók viðtalið, er ötull talsmaður kjarnorku sem vistvænasta orkugjafans nú á dögum vaxandi loftslagsbreytinga – og þótt hann virki á mann sem einfaldur lobbíisti breytir það því ekki að umræðan um kjarnorku gæti verið að ganga í endurnýjun lífdaga núna þegar ljóst er að endurskoða þarf öll orkumál heimsins.

Langt í austri liggur svo draugaborg og við hliðina á henni er geislavirkur Ormaviður. Þannig þýðist Chernobyl nefnilega upp á íslensku: Ormaviður. Orðið bergmálaði í hausnum á mér á meðan ég gekk um gróðursæla eyðimörkina í kringum slysið og rifjaði upp orð Opinberunarbókarinnar um Chernobyl. Í íslensku útgáfunni er ormaviðurinn að vísu af einhverjum ástæðum orðin „Remma“, en það breytir því ekki að spádómurinn hljómar nógu ískyggilega til að jafnvel við guðleysingjarnir fáum hroll við lesninguna:

„Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna. / Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Greinin birtist upphaflega í Stundinni þann 31. ágúst 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Forsíðumynd: Jorge Franganillo from Barcelona, Spain, CC BY 2.0 með leyfi Wikimedia Commons