Heimurinn er á heljarþröm. Það er stríð í Úkraínu sem virðist engan enda ætla að taka, þetta er pattstaða sem gæti enst lengur en lengsta þráskák skáksögunnar, lengur en erkifjendur elda grátt silfur saman. Því þessar þjóðir hafa verið í alls kyns pattstöðum síðustu aldirnar, nokkrir áratugir í viðbót skipta ekki öllu, já, nema fyrir fólkið sem býr þarna og fyrir fólk eins og okkur, í langtíburtistan frá Sovétinu gamla, sem hefur kannski léttvægari áhyggjur eins og möguleikann á kjarnorkustyrjöld og útrýmingu tegundarinnar, sem yrði væntanleg afleiðing.
Í Palestínu hefur pattstaðan varað í um öld en nú gæti henni farið að ljúka. Ísraelar virðast með hverjum deginum nær því takmarki sínu að tortíma einfaldlega öllum palestínskum íbúum Vesturbakkans og þótt stríð klárist vissulega oftast með uppgjöf eða friðarsamningum þá geta þau líka klárast ef ein þjóð nær bókstaflega að tortíma annarri. Eða í skásta falli hrekja hana alla, með manni og mús, í útlegð. Því lentu gyðingar vissulega í fyrir mörgum öldum og við vitum hvernig það endaði, fyrir um 80 árum. Auschwitz, Terezín, Varsjáar-gettóið og hvítu bátarnir, það væri bókstaflega klámfengið að segja stærsta orðið núna – þið vitið þetta allt.
Á þessu tóku aðstandendur Skjaldborgar með því að bjóða heiðursgestum sem höfðu nýlega gert heimildamynd um píslarvottinn Alexei Navalny og með því að hafa sérstakt prógramm með þremur palestínskum stuttmyndum. Sú besta af þeim sýndi okkur ótal hjartahrein og lífsglöð börn á Gaza sem máttu ekki vera að því að hafa áhyggjur af öllu fólkinu sem vildi drepa þau, þau ætluðu nefnilega að setja heimsmet í flugdrekum á sama himni. Stjarna prógrammsins var þó kynnirinn Fahad Jabali – sem er af palestínsku bergi brotinn. Ég náði ekki að spjalla við hann til að heyra meira um hans sögu en hver sem hans persónulega saga kann að vera skiptir mestu máli að hann ræddi við okkur á fallegri, hljómfagurri og skýrri íslensku, miklu skýrari og fallegri en minni norðlensku (og sannaði þar með að það verða aldrei útlendingar sem tortíma íslenskunni, það geta bara hin innfæddu gert. Hin aðfluttu munu hins vegar mögulega halda henni á lífi). Hann fræddi okkur af þeirri visku og mildi sem aðeins sá getur sem syrgir horfið heimaland, sem hann geymir í hjartanu og vill deila með okkur.
En hvað voru íslenskir heimildagerðarmenn að gera á meðan? Skáldkonan Kristín Eiríksdóttir, mín gamla vinkona, er líka spákona og gaf okkur svarið fyrir um 20 mánuðum.
Kreditlistinn rennur niður tjaldið með nöfnum fyrirtækja og ástvina sem ber að þakka en þegar ljósin kvikna er það bara ég sem sit á sviðinu. Í salnum eru áhorfendur rauðeygðir og miður sín en spyrillinn, sem rétt eins og hátíðin sjálf er sænsk, virðist ósnortin. Hún er klædd í hvíta skyrtu sem hún hefur hneppt upp í háls, svarblá jakkaföt og nýja hvíta strigaskó. Augnaráð hennar er greindarlegt og á milli setninga tónar hún lágt, ööö. Hún byrjar á að kynna sjálfa sig. Eins og flestir þarna inni vita þá heitir hún Sara Hults og er ein af aðstandendum heimildarmyndahátíðarinnar sem í ár hefur kvenleikstjóra í brennipunkti. Því næst hrósar hún myndinni minni og telur upp viðurkenningar sem ég hef hlotið fyrir hana.
Svo segir hún frá mér. Ég er íslensk, heiti Villa Dúadóttir og lærði í Kvikmyndaskólanum í Reykjavík þar sem ég kenni nú auk þess að leiðbeina með handritaskrif við ritlistardeild Háskóla Íslands. Dimmi/Dimitri er fyrsta heimildarmyndin mín í fullri lengd. Við horfumst í augu og Sara ráðfærir sig við pappíra sem hún heldur á. Ég þorna í munninum, fæ mér sopa af vatni og þegar ég kyngi berst hljóðið í hátalarana.
Sara spyr um tengsl mín við viðfangsefni myndarinnar: Hvalveiðimanninn.
Þetta er fyrsta síðan í skáldsögunni Tól. Hana las ég þegar ég flaug frá meginlandi Evrópu, frá þarnæsta landi við Úkraínu, til að drífa mig á Skjaldborg. Og ekki renndi mig í grun að bókin, sem fyrir tilviljun var efst á lista kindilsins, skyldi bókstaflega vera um gesti Skjaldborgar.
Heimildarmyndagerðarkonan Villa er mögulega skálduð persóna en allir heimildarmyndagerðarmenn kannast við að þrá velgengni. En jafnvel þegar hún kemur viltu alltaf meira; þú vilt húrrahróp salarins í sænska bíóinu og veist að þau horfa á þig dæmandi, alveg þangað til þú sannar þig upp á nýtt. Og vindáttin getur breyst á svipstundu og þá ertu komin aftur í gömlu skotgrafirnar.
En um hvað er heimildarmyndin hennar Villu? Það get ég ekki fullyrt um, bæði af því að hún er ekki til í alvörunni (held ég) og af því að ég er bara rúmlega hálfnaður með bókina. Flugið var einfaldlega ekki nógu langt. En ég veit samt eitt: hún er fyrst og fremst um næntís; níuna og tíunda áratuginn, þennan síðasta áratug tuttugustu aldarinnar þegar ég og Villa, og önnur börn níunnar, gengum sjálfala. Síðustu lyklabörnin sem eru núna í miðaldrakrísu. En við getum huggað okkur við að hafa tekið yfir heimildarmyndabransann.
Og af því að við höfum hvorki hugrekki né fjármagn til að fara til Úkraínu og Gaza til að gera bestu íslensku heimildarmyndina um baráttu sem er á allt öðru tungumáli, tja, þá verðum við að syngja eitthvað íslenskt. Nútíminn með sínum fáfengilegu forsetakosningum og júrovisjón-deilum virkar ansi léttvægur við hliðina á stríðum úti í heimi og því er bara eitt í stöðunni: að flýja til fortíðarinnar. Til áratugarins þar sem allt okkar tráma má finna. Til aldamótanna.
Nían var á sínum tíma endalok sögunnar. Eina áhyggjuefni okkar fyrir aldamótin var tölvuskekkja sem var svo leiðrétt áður en nokkuð gerðist. Fukuyama hafði rangt fyrir sér um endalok sögunnar en þetta var samt satt hjá honum, svona rétt á meðan við trúðum þessu.
Þá var ekkert nálægt stríð til að fara í (nema í Júgóslavíu, þar sem heimspressan var of sein að ákveða skúrkana, þannig að það stríð varð aldrei sérlega vinsælt í listgreinum og fjölmiðlum). Við gátum ekki einu sinni farið í sveit eða klifrað yfir háskaleg fjöll. Við vorum öll flutt á mölina og eina áhættuhegðunin sem við vorum fær um var að graffa á veggi, teika bíla, stökkva fram af einhverju háu á næsta byggingasvæði, verða viljandi meðvitundarlaus með aðferðum sem allir strákahópar þekktu og alls konar fleira sem við getum ekki útskýrt fyrir börnum nýs árþúsunds nema með orðskýringum eða sýnidæmum úr bíómyndum.
Þegar ég sá aldamótamyndina Turn of the Century, sem má einfaldlega þýða sem Aldamótin, sat ég við hliðina á rúmlega tvítugum syni jafnaldra míns. Í myndinni eru brettastrákar og aðrir brjálæðingar að gera alls konar heimskulega en skemmtilega hluti sem hefur örugglega kostað einhverja þeirra lífið. Og þegar þeir gerðu eitthvað óvenju heimskulegt eða hættulegt þá hvíslaði ég að stráknum: „Núna loksins geturðu séð með eigin augum hvað við pabbi þinn vorum að gera af okkur þegar við vorum á þínum aldri.“
Fyrr um daginn höfðu Göngin verið sýnd, um graffara níunnar og, enn frekar, verndara þeirra og guðföður í níunni, Jóa í göngunum. Jói er huldumaður, hann neitar að tjá sig um fortíð sína eða einu sinni gefa upp kennitölu, það eina sem ég veit er að hann er miklu eldri en strákarnir sem hann verndar og hann er bæði þeirra listræni ráðgjafi og fyrirmynd en líka faðirinn sem þeir aldrei áttu, faðirinn sem kenndi þeim að þótt þeir væru að flosna úr skóla skipti það ekki máli. Þeir voru ekkert vitlausir, þeirra viska braust bara fram þegar spreybrúsinn fór á loft og þeir gerðu örlítið horn í heiminum fallegra með list sinni. Þessir strákar eru sjálfsagt enn sömu villingarnir og áður, sumir meira að segja látnir langt fyrir aldur fram (þar af tveir sem koma fram í myndinni) – en núna, öllum þessum árum seinna, vita þeir að þeir voru settir á þessa jörð til þess að leiða andspyrnuna gegn gráum og ljótum veggjum, að gera byltingu með því að gera fleiri og fleiri veggi fallega og litríka. Og gleðja þar með fleiri og fleiri hjörtu.

Þessar tvær myndir eru tvíburamyndir, tvíburar sem kynntust loksins núna fyrir tilviljun, aldarfjórðungi síðar. Þær mætti báðar ræða í miklu lengra máli en í bili læt ég duga að segja ykkur að þær sýna okkur týnda kynslóð, x-kynslóðina, síðustu lyklabörnin, og sýna þessa krakka – 90 prósent stráka, vissulega – stunda áhættuhegðun sem virkar vissulega stjörnubrjáluð en er þó það litla sem færir þeim einhverja gleði í þessu lífi.
En þetta tráma kemur samt einhvers staðar frá. Þessir strákar eru allir á mölinni en sjálfsagt líka allir synir mæðra og feðra sem flúðu fjöllin. Fjöllin hans Bubba sem hafa vakað fyrir vestan öll þessi ár, vakað og beðið eftir að öskra og gleypa nokkur saklaus líf í viðbót. Fjallið það öskrar heitir ein sigurmynd Skjaldborgar. Hún hlaut Einarinn, áhorfendaverðlaun hátíðarinnar, og um leið og hún kemst í almennar sýningar eða verður sýnd í sjónvarpinu (Stöð 2 framleiðir myndina) þá mun gervöll þjóðin ræða hana fram og til baka.
Því læt ég duga að segja þetta; hún fjallar um Súðavíkursnjóflóðin, er uppgjör sem er löngu tímabært – en það sem skiptir þó kannski mestu máli er þetta, við sem höfum aldrei komið til Súðavíkur skiljum þetta líka. Af því fjallið, það er þarna fyrir ofan hausinn á okkur. Þetta er fjall æsku okkar. Það eltir okkur út um allan heim, situr fyrir okkur á Tene, gnæfir yfir Eiffel-turninum þegar við ætlum að taka Parísar-klisjuna alla leið og jafnvel þótt við skorum trámað okkar á hólm með því að fara í alvöru stríð, með því að marsera í gin ljónsins á Krímskaga eða í landinu helga, þá skiptir það ekki máli; fjallið fylgir okkur á alla þessa staði. Það er ættarfylgja hvers Íslendings, drekinn sem bíður alltaf í launsátri bak við næsta horn.
Fjöllin og snjóflóðin þeirra eru áföll sem hafa mótað okkur, og líka mömmu og ömmu og ömmur þeirra og langömmur, alveg aftur til þeirra fjarlægu alda þegar þessi fjöll upgötvuðu fyrst tilvist mannapanna. Þetta er sorgleg mynd, sorgin er óumflýjanleg, og þess vegna vann hún; þegar það er ekki þurrt auga í salnum eru úrslitin ráðin. Og hún er myndin sem útskýrir hinar tvær, trámað á bak við þá ákvörðun að stökkva eins og blábjáni fram af næsta þaki, ekki til að drepa þig, heldur af því að þú hefur engu að tapa.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni 22. maí 2024.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson