Skjaldborg er hátíð íslenskra heimildamynda – og þar er aldrei spurt um lengd. Myndirnar geta verið þrjár mínútur, þær geta verið tveir tímar, og allt þar á milli. Eða öllu heldur, þangað til kemur að verðlaunaafhendingunni. Ég kaus einu sinni fimm mínútna mynd, af því mér fannst hún langbest það árið – en hún átti aldrei séns, stuttmyndirnar vinna aldrei. Þannig að það var löngu tímabært að bæta við stuttmyndaverðlaununum Skjaldan, svo stuttmyndirnar yrðu loksins metnar að verðleikum. Það besta var samt að í ár var einhver albesta stuttmynd sem ég hef séð á Skjaldborg frumsýnd. Og hún var heilar þrjár mínútur – en sagði samt miklu lengri og dýpri sögu en margar þriggja tíma bíómyndir.
Kirsuberjatómatar eftir Rakel Andrésdóttur er teiknimynd, enda eru þetta bernskuminningar frá tíma sem hún hefur væntanlega ekki getað skrásett með myndavél – en svo er hún líka teiknari að mennt. Til hvers að filma þegar maður getur teiknað? Myndinni er lýst svona í dagskrárbæklingi: „stutt teiknimynd um sumarið sem ég var send í sveit til þess að týna og flokka kirsuberjatómata.“
Þessu er hægt að segja frá á þremur sekúndum – en líka þremur mánuðum, af því sumur æskunnar liðu löturhægt, við dagdrauma, við að ímynda sér hvað lífið verður miklu betra þegar maður verður stór, við að ímynda sér hvað lífið verður miklu betra þegar maður sleppur úr sveitinni, eða að kvíða því hvernig verði að koma heim. Við að dreyma um sæta stráka eða stelpur á næsta bæ, við að týna kirsuberjatómata og finna hvernig þeir bragðast þegar maður laumast til að borða einn sjálf. Fyrir heitustu fylgjendur íslenskra teiknimynda, þá má kannski segja að teikningar Rakelar minni helst á Unu Lorenzen, en húmorinn er dálítið í ætt við hina óskarstilnefndu Söru Gunnarsdóttur.
En löngu gleymt sumar í sveit er fyrst og fremst tilfinning, skreytt fáeinum minningarbrotum, og einhvern veginn tekst Rakel að fanga akkúrat þessa tilfinningu. Og það er það sem öllu máli skipti.
Purrkurinn og kóngurinn
En afsakið þennan útúrdúr yfir í 21. öldina. Þegar ég kvaddi ykkur síðast var ég að segja ykkur frá níunni. Þær myndir voru allar sýndar á laugardeginum, en á Hvítasunnudag sveif andi áttunar yfir vötnum; pönk og kántrí, nánar tiltekið. Ég myndi vissulega alla daga hlusta frekar á Purrk Pillnikk en kántríhetjur frá Skagaströnd – en bíómyndir eru stundum allt öðruvísi en músík. Og mér leiddist aldrei beinlíns á myndinni um Purrkinn, sem ber þann skemmtilega undirtitil sofandi vakandi lifandi dauður. Það eru þarna góðar senur af bandinu og hún leyfir tónlistinni að tala sínu eigin máli. Eftirlifandi meðlimir hafa líka ýmislegt að segja. En það er alltof mikið af talandi hausum, þar á meðal fólki sem uppgötvaði Purrkinn löngu seinna, sem er góðra gjalda vert, en bætir litlu sem engu við myndina, hægir bara á henni. Þetta hefði þó getað virkað ef við virkilega myndum skilja af hverju þetta fólk tengdi – af því þau, sem og bandið sjálft, er filmað í hreinlegum og líflausum stúdíóum, meira og minna. Og ef þú ætlar að gera heimildarmynd um pönkband þarf að vera smá pönk í bakgrunninnum, ekki tómir veggir. Þarna vantar einhverja sögn, að finna einhverja sem fíla ekki bara pönkið, heldur lifa í pönki – pönkumhverfi, pönkklæðnaði, pönkhugarfari. Sem eru með pönk á veggnum.
Hallbjörn Hjartarson lifði vissulega fyrir kántrí – og fyrir nokkrum árum sá ég Kúreka norðursins, var nýbúinn að heyra af kynferðisbrotum Hallbjörns gegn ungum drengjum, sem hann hafði verið dæmdur fyrir – og fannst myndin þar með hálfkláruð. Auðvitað gat Friðrik Þór ekki vitað þetta, en ég hugsaði að einhver þyrfti að bæta við myndina eftirskriftinni sem þurfti. Jú, og svo tók ég eftir þessum Johnny King, hinum kúrekanum, sem virtist vera meira töff en þessi vemmilegi Hallbjörn.
Og þar komum við að sigurmyndinni, Kúreki norðursins, sagan af Johnny King. Árni Sveinsson og Andri Freyr Viðarsson fá þá flugu í höfuðið að gera mynd um hann eftir að sá síðarnefndi fær hann í viðtal, einmitt hérna í útvarpshúsinu, og í kjölfarið spyr maður sig: hvernig munu þeir takast á við fílinn í herberginu? Og maður finnur sannarlega að það fylgir þessum kúreka mikill og djúpur harmur. Hann fer ekki í neinar felur með það – en fáum við að vita meira? Og nú er mjög freistandi að tala af mér, en ég ætla ekki að gera það – nema bara að segja ykkur þetta; við fáum að vita meira, á óvæntan og sláandi hátt. Það er margt fleira í þessari mynd. Hún segir okkur til dæmis ýmislegt um hvernig það er að vera gleymd rokkstjarna á eftirlaunum, með lítil lífeyrisréttindi. En ástæðan fyrir því að hún vann – og það verðskuldaðan sigur – er mjög einföld: Það er ein sena í þessari mynd sem er sterkari, þversagnakenndari og óvæntari en nokkur sena sem þið eigið eftir að sjá í bíó í ár – og um leið átakanlega sönn.
Listhneigður útibússtjóri Búnaðarbankans
En jæja, nóg um nítjánhundruðáttatíu og eitthvað. Nú er tímbært að fara enn þá lengra aftur. Jafnvel aftur í seinni heimstyrjöld, þótt vissulega sé bara ein sena í myndinni þaðan. Ég skal viðurkenna að fáum myndum var ég minna spenntur fyrir en Hanna, She is a Rebel. Öldruð kona sem tekur upp pensilinn þegar hún fer á eftirlaun? Krúttlegt, en ekkert meira en það.
En svo rifjar myndin upp æsku Hönnu á Skinnastöðum í Norður-Þingeyjarsýslu – og skyndilega kviknar ljós; þetta er systir Sigga Páls, míns gamla uppáhaldskennara og franskasta skálds Íslandssögunnar, sem birtist hér í nýjum upptökum, sjálfsagt í fyrsta sinn frá því hann lést árið 2017.
Nokkru síðar fer svo prestdóttirin Hanna í Menntaskólann á Akureyri og kynnist þar honum Jóni sínum. Ég þekki strax svipinn – tæpum 60 árum yngri vissulega en þetta var augljóslega Jón Bjarman, presturinn sem gifti bróður minn. Sem ég vissi ekkert um þegar ég þurfti að skutla einhverju til þeirra í giftingarundirbúningnum og nennti því varla, finnst flestir prestar oftast frekar leiðinlegir. Með heiðarlegum undantekningum, vissulega – og þetta var strangheiðarleg undantekning. Því það að koma heim til Hönnu og Jóns og spjalla við þau í korter var upplifun sem ég man enn þá vel, nær aldarfjórðungi síðar. Við ræddum um Hemingway, sem frændi hans, Stefán, hafði þýtt, ræddum Geirfinnsmálin – Jón var fangaprestur á þeim árum – en fyrst og fremst man ég hlýjuna og viskuna á heimilinu, þessi öldruðu hjón sem virtust einfaldlega kunna að lifa með hlýju og reisn.
En nú er ég í bobba. Kona sem var í skugga eiginmanns og bróður – hver var þessi Hanna? Myndin leiðir það hægt og rólega í ljós. Á meðan Jón kláraði menntaskólann saumaði hún kjóla á bekkjarsystur hans og hafði vel upp úr því og þegar þau fóru suður fór hún að vinna í Búnaðarbankanum. Og þar vann hún lengi og leið vel. Það er hins vegar endurtekið stef í myndinni að hún sé nánast andstæða þess sem fólk gerði sér í hugarlund þegar það heyrði orðið bankastarfsmaður – eldklár, hlý og skapandi. Núna sér maður skýrt að ef hún hefði fæðst seinna – eða fæðst sem karlmaður – þá hefði það verið hún sem hefði orðið skáld eða prestur, já, eða sá listmálari sem hún varð á gamals aldri.
Myndin er á ensku, sem manni fannst skrítið en gleymdi svo. En eftir á mætir svo leikstýran Laura Andrea López Estrada frá Mexíkó – eins og mig grunaði, erlendur leikstjóri. En svo talar hún lýtalausa íslensku – og þá kemur sagan á bak við myndina í ljós. Það hafði vissulega komið fram í myndinni að Hanna hafði verið dugleg að hjálpa erlendum skiptinemum hérlendis – og fyrir þeim var hún ekki bara kona sem aðstoðaði þá í ókunnu landi. Hún var þeim nánast sem andleg móðir, fjallkonan, kona sem þeir héldu sambandi við ævina á enda – og einn þessara skiptinema var pabbi leikstýrunnar. Það varð til þess að hún kynnist Hönnu og gerir myndina. Tökum á henni lauk 2017. En svo segir Laura – „hennar vegna flutti ég hingað.“ Hún útskýrir það ekki nánar, en einhvern veginn var Hanna slík galdrakona að hún fékk stelpu hinum megin á hnettinum til að flytja til Íslands, læra íslensku og setjast hér að, þótt henni væri alltaf kalt. Sem er ágætis lexía; hver þarf norðurljós, eldgos og jökla þegar við höfum náttúruundur eins og Hönnu?
Tæplega sextug framúrstefna
En núna er tímabært að ljúka þessu – með því að segja ykkur frá langbestu myndinni á Skjaldborg. Fallegustu og framúrstefnulegustu myndinni – sem fékk engin verðlaun, af því hún var ekki í keppni. Þetta er meira en 60 ára gömul mynd sem ég hafði aldrei heyrt um og heitir einfaldlega Flug 401. Hún var sýnd út af því það var verið að heiðra Reyni Oddsson, frumkvöðul sem fæstir þekkja í dag nema sem leikstjóra Morðsögu. Löngu áður fékk hann sér far með Flugi 401 og gerði heimildarmynd um flugfreyjurnar sem þar unnu. Við sjáum lífið um borð, en þó mest líf flugfreyjanna í rúmlega sólarhringsstoppi í New York.
Myndin er fallega tekin og birtir heillandi mynd af veröld sem var, og er líka sú eina sem leyfir sér að hafa enga talandi hausa – bara líkamslausa rödd flugfreyjanna, þar sem þær tala inn á myndina eftir á – og í því skapast einkennilegur galdur. Þetta hafa vafalaust verið mömmur eða ömmur einhverra í salnum. Þarna fáum við að heyra hugsanir þeirra, hversdagslegar mest. Þær eru varar um sig en við finnum samt hvernig þeim líður þegar þær fleygja sér úrvinda upp á hótelherbergi, þegar þær borða á kínverskum stað og drekka í sig heimsborgina, þegar Ísland var miklu meira sveitaþorp en núna, þegar þær horfa út um gluggann á kaffihúsinu á allt þetta mannhaf og spyrja sig; hvert er allt þetta fólk að fara? Við sitjum við eftir í salnum og spyrjum okkur: hvert fóru þær sjálfar?
Ég veit það ekki. Það er líklega viðfangsefni skáldskaparins, því sú heimildamynd er ekki til. Skjaldborg er búin þetta árið en heldur samt alltaf áfram; nú munu menn klára verkin sem kynnt voru sem verk í vinnslu, klára myndirnar sem við sjáum næsta ár og öll árin þar á eftir. Og aðrir skálda í eyðurnar, skálda allt sem þeir söknuðu á hátíðinni, það sem ekkert myndefni er til um og engar heimildir. Þannig haldast skáldskapurinn og heimildamyndirnar í hendur, því allt eru þetta sögur sem þarf að segja vel og heiðarlega – og ég bíð eftir að heyra hvað flugfreyjurnar á Flugi 401 gerðu næst.
Pistillinn var upphaflega fluttur í Lestinni 27. maí 2024.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson