Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Þriðjudagsbíó

Að myrða eða þykjast myrða

Þegar dagskráin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum var kynnt haustið 2023 þá kom á óvart að sjá tvær myndir sem virtust keimlíkar, Hit Man og The Killer, en eftir tvo gjörólíka leikstjóra – Richard Linklater og David Fincher. Báðir frábærir leikstjórar, en mann grunaði óneitanlega að þarna yrði Fincher frekar á heimavelli. Hans sérsvið hefur verið að gera þrillera fyrir hugsandi fólk, á meðan Linklater er meira í því að hugleiða tímann, ástina og forgengileika lífsins, og hefur sáralítið reynt sig við hasar.

En svo kom The Killer á Netflix og það kom í ljós að Fincher var einfaldlega of fastur á heimavellinum– þetta var of þægilegt, varð að klisju, mynd sem Fincher gat leikstýrt með vinstri. Myndin lifnaði við þegar Tilda Swinton mætti, enda ómögulegt annað en að gera gott bíó þegar Michael Fassbender og Tilda Swinton deila tjaldinu saman – en annars var þetta andlaus launmorðingjamynd sem tikkaði í öll formúluboxin.

En einmitt sökum þess að Linklater kann ekki formúluna utan af er Hit Man allt öðruvísi mynd – og umturnast raunar nokkrum sinnum, úr gamanmynd í tælandi rökkurmynd og loks í smá hasar. Það hjálpar vissulega til að ólíkindaleg en þó að einhverju leyti sönn sagan hverfist um Gary Johnson, sem er heimspeki- og sálfræðikennari á daginn og dulbýr sig sem launmorðingja á kvöldin. Hann er þó ekki að drepa fólk, heldur í dulargervi að góma þá sem vilja panta launmorðingja til að myrða maka, óvini eða jafnvel eigin mæður.

Og jú, Gary Johnson var til í alvörunni og hann gerði einmitt þetta – en ég hvet ykkur til að geyma það að gúgla Johnson þangað til eftir mynd til að komast að því hvað er satt og logið í myndinni. En hún leikur sér sannarlega með sannleikann (og gengst við því), en hér er þó meira satt en logið.

Myndin birtir okkur mann sem lifir fyrst og fremst í bókum – sem skyndilega fær tækifæri til nýs lífs í raunveruleikanum – en þar fær hann þó að sannreyna ýmislegt úr fræðunum. Myndin sýnir hann vitna í Jung og fleiri spekinga í tímum – hugleiðingar sem eiga skyndilega merkilega vel við hans tvöföldu tilveru.

Hvað er sjálfið, hið sanna sjálf? Þetta hefur auðvitað verið kannað í ótal myndum, í Memento og flestum verkum Charlie Kaufman og á sinn hátt hefur Linklater sjálfur rannsakað þetta – og niðurstaðan er oft að besta leiðin til að rannsaka sjálfið er að finna rétta karakterinn til þess, og persóna Gary smellpassar í þetta hlutverk. Þetta tengist leiklistinni auðvitað sterkum böndum – og örugglega engin tilviljun að aðalleikarinn Glen Powell samdi handritið með Linklater. Gary lætur sér nefnilega ekki nægja að mæta bara á fundi með verðandi kúnnum, hann kynnir sér þá ítarlega og sekkur sér í hlutverkið áður en hann mætir – er búinn að skapa þann launmorðingja sem hann ímyndar sér að þessi tiltekni kúnni þrái að hitta.

Launmorðingjar eru að vísu ekki til, eins og Gary þreytist ekki á að endurtaka, og það er vel að merkja alveg satt – nema þeir séu þeim mun betri í að hylja slóð sína. Jú, mafían og önnur glæpasamtök eru með menn í vinnu sem vinna alls kyns skítverk, þar á meðal að myrða fólk, sem og utanríkisþjónustur vissra ríkja – en leigumorðingjar sem almenningur getur leitað til og drepa fólk fyrir fé? Það eru allavega engin dæmi um slíkt skrásett í Bandaríkjunum síðustu öldina og virðast því nánast algjörlega vera hugarburður afþreyingaiðnaðarins – sem gerir raunar þær aðgerðir sem lögreglan sendir Gary út í óneitanlega siðferðislega vafasamar: þetta fólk trúir á launmorðingja og vill ráða þá í vinnu, en ef þeir eru ekki til, er þá einhver raunveruleg hætta við það að þau leiti að þeim?

Gary Johnson var vissulega ekki eini maðurinn sem hefur sinnt þessum starfa – en hann sökkti sér svo rækilega í hin mismunandi hlutverk að hann var kallaður Laurence Olivier löggæslunnar – og Powell nýtir þetta tækifæri út í ystu æsar, mörg atriðin eru eins og stuttir sketsar þar sem hann bregður sér í mismunandi gervi og sýnir mismunandi persónleika, allt til að veiða bráðina í net sitt.

Myndin hefði því getað orðið ansi brotakennt sketskasafn, en Linklater gleymir aldrei sögunni og á endanum hittir Johnson jafnoka sinn, Madison, sem hann fær samúð með – og verður svo bullandi ástfangin af, vitaskuld. Adria Arjona skapar hér eina ferskustu femme fatale sem maður hefur séð í langan tíma – og Johnson ekki jafn vanur slíkum klækjakvenndum og Bogart og félagar, þannig að hann veit illa hvað ber að varast.

Og þótt Linklater hafi alltaf verið rómantískur leikstjóri þá kemur skemmtilega á óvart að þetta reynist vera hans erótískasta mynd til þessa. Og það er fyrst þá, þegar sjálf myndarinnar fer á flot, sem sjálf Gary sjálfs fer rækilega á flot og hann og Ray, hans launmorðingjasjálf, fara að renna saman.

Og meira er eiginlega ekki hægt að segja, nema kalla til alla Höskulda heimsins …

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

E.S.: Eftir mynd er svo tilvalið að lesa samnefnda grein eftir Skip Hollandsworth – en Linklater hefur áður leiktýrt mynd byggðri á greinum Hollandsworth – Bernie árið 2011.