Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

KVIFF, Kvikmyndir, Þriðjudagsbíó

Demi Moore, fílamennirnir og dauðinn

Fegurð og ljótleiki, æskuljómi og hrumleiki ellinnar, ekkert af þessu þykir fín leið til þess að dæma aðrar manneskjur – en samt gerum við það ítrekað – og dæmum okkur sjálf kannski harðast. Það voru þónokkrar nýlegar myndir sem könnuðu þessi mörk á Karlovy Vary – og þótt kvikmyndagerðarmenn hafi verið lúnknir við að finna forvitnilegar hliðar á þessum efnum reyndist merkilega erfitt að halda sig á dýptinni.

Byrjum á myndinni sem fékk handritsverðlaunin í Cannes, The Substance. Markaðsherferðin minnti dálítið á The Matrix, dularfullar pillur koma í pósti og eru í aðalhlutverki í veggspjöldum og öðru kynningarefni myndarinnar – en í grunninn er þetta þó fyrst og fremst nútímauppfærsla á Myndinni um Dorian Gray. Nema núna er myndin orðin annar líkami.

Besta atriði myndarinnar er alveg í byrjun – atriði sem verður vafalaust klassískt þegar fram líða stundir. Fyrst sjáum við verkamenn gera mót fyrir nýrri stjörnu, hægt og rólega birtist okkur– Elizabeth Sparkle. En stjarnan veðrast, lendir í öllum fjandanum, verður á endanum eins og hver önnur gangstéttarhella sem menn traðka á.

Elizabeth Sparkle þessi reynist vera fyrrum leikkona sem núna er eróbikkstjarna í vinsælum sjónvarpsþætti – og hún er leikin af Demi Moore. Það er lykilatriði – hún er leikin af leikkonu sem var kyntákn fyrir 30 árum síðan, en hefur varla sést í bíó á þessari öld.

Þau örlög bíða Elísabetar líka – fimmtugsafmælisgjöfin er uppsagnarbréf frá Harvey, sjónvarpsstjóra sem Dennis Quaid ofleikur af mikilli list. Hann er teiknimyndafígúra af hinum grunnhyggna manni – sem virðist gera hann að hinum fullkomna sjónvarpsstjóra.

Harvey ætlar auðvitað ekki að hætta með þáttinn – hann ætlar bara að yngja upp – og ákveður að halda áheyrnarprufur fyrir 18-30 ára stúlkur, miklu yngri stúlkur en Elísabetu. En svo fær hún dularfullan póst – um Efnið. The Substance. Sem getur auðvitað líka þýtt kjarna einhvers, dýptina. Eitthvað sem myndina skortir því miður þegar á líður.

Efnið gerir það þó ekki að verkum að Elísabet sjálf yngist – heldur að út úr líkama hennar sprettur 30 árum yngri kona, sem Margaret Qualley leikur. Þær þurfa svo að deila þessu lífi, viku og viku í senn, á meðan hinn líkaminn er geymdur á afviknum stað. Með fylgja nákvæmar upplýsingar um hvernig þær skuli bera sig að, því annars mun allt fara til andskotans.

Úr þessu verður óvenjulegur leikur að sjálfum, eina vikuna er hún rísandi stjarna og nýtur æskunnar í botn, hina vikuna er hún inni, hámar í sig mat og bölvar sínu yngra sjálfi. En þarna byrjar myndinni að förlast. Í fyrsta lagi verða ákvarðanir Elísabetar og Sue, eins og hún nefnir sitt yngra sjálf, kjánalegri og kjánalegri – og ekki á trúverðugan hátt. En það versta er að öll dýpt fer úr myndinni og svo virðist að gervöll veröldin eigi að vera jafn grunnhygginn og sjónvarpsstjórinn.

Það kristallast best í atriði þar sem fyrrum hjásvæfa Sue virðir Elísabetu að vettugi og vill helst aka yfir hana á mótorhjólinu sínu – en halló, þetta er samt Demi Moore. Kannski ekki alveg jafn ung og sæt og þegar hún lék í Ghost, en verum nú bara heiðarleg hérna; flestir ef ekki allir gagnkynhneigðir karlmenn myndu ná alveg gefa Demi Moore séns, þótt það séu yngri fiskar í sjónum. Þetta eru grundvallarmistök myndarinnar; hún opnar á forvitnilegar pælingar um fegurð og ljótleika, æsku og elli, en virðist ákveða mjög snemma að þetta sé einfaldasta umræðuefni í heimi. Fólk sé annað hvort fallegt eða ljótt, ungt eða gamalt, og í því felist öll grimmd og flónska veraldarinnar. En þetta er auðvitað flóknara en svo, andlit og líkamar eru síbreytileg fyrirbæri, gerbreytast jafnvel sama kvöldið, með brosi eða grettu, þreytu eða glampa í auga. En þegar sú flækja er tekin í burtu verður þetta bara einn langur og innihaldslaus eróbikkþáttur í sjónvarpinu.

Það er samt alveg hægt að mæla með myndinni fyrir áhugafólk um gróteskan hrylling, af því að hún virkar merkilega vel sem líkamshryllingur. Þegar á líður og leikar taka að æsast gerist ýmislegt afskaplega gróteskt og það verður skelfing óþægilegt að horfa upp á líkama afskræmast á fjölbreytilegan hátt, þetta verður eins og kolbrjáluð líkamsbreytingarópera í beinni útsendingu. Sumsé, um margt áhrifarík hrollvekja sem spyr hugvekjandi spurninga – en svörin eru því miður oftast heimskuleg.

Fyrrum fílamaður hittir alvöru fílamann

En bregðum okkur þá til einmanalegrar íbúðar í New York, þar sem Edward nokkur býr. Hann er leikinn af Sebastian Stan, sem þið þekkið kannski helst í hlutverki Bucky Barnes, æskuvinar Kapteins Ameríku. Edward minnir hins vegar ekki neitt á Bucky – hann er með neurofibromatosis sjúkdóminn, sem í hans tilfelli þýðir einfaldlega að hann lítur út eins og fílamaðurinn.

Edward er gæðablóð, góður við dýr og menn, fróður og hugsandi, og dreymir um að verða leikari – og hefur meira að segja fengið hlutverk í nokkrum fræðslumyndböndum. En hann er einmana, enda sest útlitið á sjálfstraustið, hann upplifir sig óverðugan ástar og vináttu. En svo flytur ung stúlka í næstu íbúð, Ingrid, sem sú prýðilega norska leikkona Renate Reinsve leikur. Og þau verða vinir, hún virðist geta séð í gegnum afskræminguna – allavega að einhverju leyti.

En læknirinn hans segir honum að það sé verið að reyna tilraunameðferð við sjúkdómnum sem gæti kannski virkað. Edward lætur til leiðast – og viti menn, á mettíma birtist Sebastian Stan, fjallmyndarleg Hollywood-stjarna með sterkbyggða kjálka, sem hafði verið falinn undir öllum fílamannsfarðanum. Edward er svo brugðið að hann tekur upp nýtt nafn í bríari, skáldar sjálfsmorð Edwards og hefur nýtt líf. Skyndilega kemst hann ítrekað á séns, fær hlutverk í leikriti – og allt virðist í himnalagi. Þangað til Oswald birtist. Oswald er leikinn af Adam Pearson, sem ólíkt Sebastian Stan er í alvörunni með þennan sjúkdóm – lítur út eins og jafnvel enn ýktari útfáfa af fílamanninum – og það án nokkurs farða.

En ólíkt Edward virðist ástandið ekki hafa eyðilagt sjálfstraust Oswalds, sem þvert á móti er hrókur alls fagnaðar. Þeir verða vinir, en hægt og rólega fer Oswald að taka yfir líf Edwards – sem fer hægt og rólega að átta sig á að sjálfstraust, sjálfsmynd og persónuleiki skiptir ekki síður máli í samskiptum fólks en útlitið – en þar sem hann hefur afneitað sínu fyrra sjálfi finnur hann að sjálfstraustið er falskt, sjálfsmyndin bjöguð og persónuleikinn týndur. Á sama tíma hefur nágrannastúlkan Ingrid skrifað leikrit um Edward, sem hún telur látinn, og kannski er helst hægt að finna hans sanna sjálf þar? Allavega þangað til Oswald hristir upp í handritinu þar líka.

Og þessar tvær myndir, The Substance og A Different Man, eiga í áhugaverðu samtali – en þótt báðar séu á sinn hátt skemmtilegar gerir A Different Man svo miklu forvitnilegri og dýpri hluti við efnviðinn.

Fegurðardís lærir mannfræði

En nóg af ljótleika – bregðum okkur til suðrænna sólarstranda – nánar tiltekið til Napólí. Parþenópa var grísk sírena í goðafræðinni og seinna meir gríska nafnið á Napóli, á meðan borgin var grísk nýlenda fyrir tæpum þrjú þúsund árum. Um miðja síðustu öld fæðist svo nafna hennar, stúlkubarnið Parþenópa, titilpersóna nýjustu myndar Paolo Sorrentino, Parthenope.

Parþenópa, sem er leikin af Celeste Dalla Porta, er fegursta stúlka borgarinnar – það virðist einfaldlega vera viðtekinn sannleikur, nánast eins og það hafi verið vottað af einhverjum alsjáandi töfraspegli – og það falleg að jafnvel bræður hennar tortímast vegna fegurðar hennar og eigin vafasömu tilfinninga þar að lútandi.

Parþenópa er þó enginn vitleysingur, hún lærir mannfræði og verður uppáhald prófessorsins, áður en hún verður mannfræðiprófessor sjálf. En þótt ég hafi engar mannfræðigráður þá get ég nú samt fullyrt eitt; ég veit miklu meira um mannfræði en Parþenópa og prófessorinn hennar, svo ég tali ekki um Sorrentino sjálfan – af því að þau virðast ekki vita nokkurn skapaðan hlut um fagið.

Yrkisefni Sorrentinos er eins og svo oft áður fegurðin – en þetta er fegurðin eins og hún birtist í lélegu tískublaði og hugmyndir persónanna eru álíka grunnar. Erfiðleikarnir og vandamálin sem þau glíma við eru það líka – og myndin er skelfilega illa skrifuð. Snemma í myndinni sést Parþenópa lesa bók eftir ameríska rithöfundinn John Cheever, og þá kviknar smá áhugi á að kynna sér verk hans – og seinna birtist hann í meðförum Gary Oldman, en greyið Cheever er enginn greiði gerður með því – miðað við hvað öll ljóðræna myndarinnar er kitsuð hugsar maður ósjálfrátt hvort Cheever sjálfur sé álíka slæmt skáld.

Það þarf þó ekki að vera, og Sorrentino getur miklu betur – eins og sást síðast í Hendi Guðs, hann er alltaf að yrkja um fegurðina og ósjaldan um Napólí – en þá náði hann einhvern veginn að finna ljóðrænuna og ófullkomleikann í fegurðinni, náði að stefna ákveðnum ljótleika og grótesku gegn henni á köflum líka – sem hann reynir hér, en fer nánast alltaf flatt á því. Þannig að, sleppið Parþenópu. Það eru góðar líkur á að það séu allavega betri greinar í nýjasta Vogue – og jafnmikið af fallegu fólki.

Tinder gifta fólksins

En komum okkur nú að tækninni og ástinni. Fingernails gerist í nálægri framtíð þar sem er búið að hanna nákvæma aðferð til þess að komast að því hversu vel fólk á saman – það þarf einfaldlega að taka eina fingurnögl af sér og láta í þar til gerða vél með fingurnögl maka síns. Vélin sér svo um að reikna hvort þeim sé skapað að eigast eða að skilja.

Þau Jessie Buckley og Riz Ahmed leika Önnu og Amir– sem vinna í hálfgerðum nándarskóla, þar sem þróaðar eru mismunandi aðferðir til þess að gera pör nákomnari, til þess að hjálpa þeim við að ná þessu blessaða prófi. Sem eru samt bara tvær fingurneglur í einhvers konar örbylgjuofni. Anna sjálf er í sambandi með Ryan, sem Jeremy Allen White úr The Bear leikur, og þau hafa staðist prófið nú þegar. Þótt Önnu dauðlangi að prófa aftur – líklega aðallega út af því hún er orðin skotin í samstarfsmanni sínum.

Myndin fer langt á góðum leikurum – sérstaklega aðalleikkonunni Jessie Buckley, sem fer létt með að halda manni við efnið – en vandinn við svona vísindaskáldskap er að það þarf að selja manni tæknina. Maður þarf að trúa því að fólk vilji nýta sér hana, maður þarf að skilja freistnina – því þetta virðist ekki vera neitt skylduboð að ofan. Og satt best að segja dettur manni helst í hug að þetta sé það sem gerist þegar harðgiftur maður ætlar að skrifa handrit innblásið af Tinder eða álíka stefnumótamiðlum.

Af því að, jú, það er skiljanlegt að fólk nýti sér tæknina – jafnvel vafasama tækni – til að leita að ástinni. En þegar það er búið að finna hana, þá er ekki sérstaklega sannfærandi að það sé svona spennandi að nota einhverja nýmóðins tækni til að eyðileggja þessa sömu ást. Ef það eru alvarlegir brestir í sambandinu, jú, sannarlega – en langflest pörin í myndinni virðast afskaplega hamingjusöm, allavega þangað til þau fá niðurstöðurnar. Og myndin leikur sér ósköp lítið með þetta gróteska próf – það vantar alveg naglalausu persónuna sem fellur á prófinu aftur og aftur – og maður þarf meira að segja að fara á internetið til að vita hvað neglurnar á fingrunum vaxa hratt aftur. Svarið er hálft ár.

Að deyja á þýsku

En nú erum við búin að eyða alltof mörgum mínútum í að tala um vondar myndir – nú er kominn tími á að minnast á eina bestu mynd ársins. Hún er þýsk, sléttir þrír tímar á lengd og heitir Sterben. Að deyja. En höldum okkur samt við þýskuna, þetta er svo sterkt orð: Sterben!

Það er erfitt að súmmera myndina upp í stuttu máli – en þó auðvelt að því leyti að hún fjallar svo sannarlega fyrst og fremst um dauðann, í öllum sínum myndum. Fyrst um yfirvofandi dauða foreldra aðalpersónanna tveggja, en síðar meir um annars konar dauða nálægt þeim. Dauðaþránna, hvernig við höndlum það að standa andspænis dauðanum. Já, eða andspænis lífinu.

Myndinni er skipt í fimm kafla – og það er bara eitt af mörgu sem minnir dálítið á Lars von Trier. Aldraðir og dauðvona foreldrar eru í forgrunni í fyrsta kaflanum, en næstu kaflar snúast um uppkomin börn þeirra, Tom og Ellen. Og eitt magnaðasta atriði myndarinnar er þegar Tom og móðir hans trúa hvort öðru fyrir því að mögulega þyki þeim ekki neitt mjög vænt um hvort annað. Svona nálgast myndin dauðann, tilfinningarnar eru aldrei einfaldar eða fyrirsjáanlegar.

Tom er hljómsveitarstjóri sem virðist vera með flest sitt á hreinu – en þegar betur er að gáð þá er hann hálfgerður sýndar-pabbi nýbura sinnar gömlu kærustu, sem hann hætti með fyrir tíu árum. Þá á hann í mjög erfiðu sambandi við tónskáldið sem semur verkið sem hann er að flytja. Sá talar oft fjálglega um sjálfsmorð – og er það óþolandi að sjálfsagt óska þess einhverjir í laumi að hann láti verða af þessum fyrirætlunum sínum – en einhvern veginn nær hann að halda öllum föngnum í eigin dauðaþrá og óánægju með eigið verk. Hann er sínálægur dauði sem Stokkhólms-heilkenni.

Síðan birtist okkur systirin Ellen, sem fær hóstakast á frumsýningu bróður síns og virðist ávallt vera með stillt á sjálfstortímingu, en kemur samt alltaf niður á fótunum. Hún syngur eins og engill – en bara þegar hún er ofurölvi, sem er vissulega ansi oft. Hún vinnur líka á tannlæknastofu og þegar hún tekur saman við einn tannlækninn er það ávísun á nokkrar fyndnustu og gróteskustu tannlæknasenur sem sést hafa í bíó lengi, lengi.

En það er erfitt að festa fingur á galdur myndarinnar – hún er svo sannarlega morbid og sorgleg, en líka merkilega fyndin og skemmtileg. Einhvern veginn tekst henni að nálgast dauðann og vera samtímis grimm og hlý, heit og köld, öguð og tilfinningarík. Þetta síðasta er lykilatriði þegar klassísk tónverk eru flutt – og má vel yfirfæra á myndina sjálfa. Og lokatileinkun leikstjórans í kreditlistanum súmmerar myndina ágætlega upp; „til fjölskyldu minnar, bæði þeirra lifandi og þeirra dauðu.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum 18. júlí 2024.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson