Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

KVIFF, Þriðjudagsbíó

Að vera fær um ást

„Þetta var eins og að fara út úr líkamanum, þetta ævintýri allt saman. Þetta var alveg geggjað. Ég átti alls ekki von á að við fengjum fimm verðlaun. Ég var farin til Lissabon, á leiðinni var hringt – ég kom til Lissabon og var þar í þrjá tíma og sneri svo til baka, ég var búin að sofa í klukkutíma þessa nótt – þetta var æðislegt,“ segir Lilja Ingólfsdóttir mér stuttu eftir að mynd hennar Elskuleg, eða Elskling eins og hún nefnist á norsku, sópaði upp verðlaunum á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í sumar.

Verðlaun minni dómnefndanna voru tilkynnt fyrr um daginn – nánar tiltekið verðlaun gagnrýnendasamtakanna FIPRESCI, verðlaun Europa Cinemas Label og verðlaun kirkjudómnefndarinnar – og Elskling fékk þau öll. Um kvöldið voru svo aðalverðlaunin og þar var Helga Guren valin besta leikkonan og myndin sjálf fær sérstök dómnefndarverðlaun, í raun silfurverðlaunin, og er fyrsta myndin í nærri sextíu ára sögu hátíðarinnar til að vinna heil fimm verðlaun. Og aldrei hef ég heyrt jafnlangt uppklapp eftir mynd í stóra salnum í Karlovy Vary, og ég hef verið fastagestur síðustu tólf ár.

Ég hitti Lilju fyrst í boði sem norska kvikmyndamiðstöðin hélt eftir sýninguna og eyddi auðvitað mestöllu boðinu í að sannfæra norska vini mína um að Lilja væri auðvitað fyrst og fremst íslensk – hún væri bara í nokkurra áratuga fríi í Noregi. En varð svo að spyrja Lilju hverra manna hún væri til að fá þetta á hreint. „Ingólfur Margeirsson [ævisagnaritari og blaðamaður] var pabbi minn og mamma mín er norsk, heitir Tone Myklebost, en þau hittust fyrst í íslenska sendiráðinu í Ósló.“

Áður hafði þó Tone búið á Íslandi í nokkur ár, þegar faðir hennar var sendiherra Noregs á Íslandi. „Mamma talar mjög góða íslensku, betri en ég og var að fá fálkaorðuna um daginn fyrir að þýða íslenskar bækur yfir á norsku. Sjón og Laxness og allt saman. Svo er hálfbróðir minn Jónas Margeir Ingólfsson, sem vinnur við sjónvarpsseríur heima. Ég á líka stjúpmóður og frænkur og frændur á Íslandi, var þar í leikskóla og svo bæði í sjö ára bekk og níu ára bekk í Austurbæjarskóla.“

Rými möguleikanna

Foreldrarnir höfðu vel að merkja bæði líka lagt stund á nám tengt kvikmyndagerð og leiklist, þótt starfsferill þeirra hafi að mestu snúist um blaðamennsku, ævisagnaritun og þýðingar. Lilja sjálf lærði kvikmyndagerð í London og Prag um aldamótin, þannig að Tékkland og England eiga alveg smá í henni líka.

„Það var mjög spennandi – og mjög mismunandi. Fyrst var ég í London í þrjú ár og það var svo æðisleg stemning í London í lok tíunda áratugarins. Við vorum í Soho að læra í Covent Garden. Allir listaskólarnir saman. Frá öllum heiminum, mjög opið, sveigjanlegt og lífrænt. Í Prag var miklu meiri hefð, þyngra, og mjög djúpt, og það var mjög gott jafnvægi að hafa bæði, rými möguleikanna, innsæi og fantasía, gott kombó.“

Það sem gerðist ekki

Og þótt þetta sé fyrsta myndin hennar í fullri lengd þá er hún engin nýgræðingur, er búin að gera fleiri stuttmyndir en hún hefur almennilega tölu á. Tuttugu hafði ég heyrt einhvers staðar. „Eða kannski fleiri, ég er ekki búin að telja – 20–25 stuttmyndir sem ég hef fengið styrk fyrir frá Kvikmyndasjóði. Og svo fleira án styrkja. Ég hef gert um eina stuttmynd á ári síðan ég kláraði nám. Þannig að þegar fólk spyr: hvernig gastu gert svona frumraun? Þá hugsa ég með mér að ég hef þegar leikstýrt samanlagt meira en þremur myndum í fullri lengd, ef ég tek mið af heildarmínútufjöldanum. En stóri munurinn er hvernig maður nær út til fólksins með langa mynd. Ég hef verið með stuttmyndir á alls konar festivölum, en það er svo erfitt að ná til áhorfenda utan hátíða.“

Ég hafði heyrt af því að ein stuttmyndin fjallaði lauslega um pabba hennar. „Hún er byggð á því, en hún er ekki um pabba. En er byggð á okkar sambandi. Hún er ekki svo ólík þessari mynd, þetta eru tilfinningalegir raunveruleikar, eitthvað sem hefði getað gerst en gerðist ekki. Hvernig hefði verið ef ég hefði verið svona þegar ég hitti hann þegar ég var yngri, ég er að vinna í herbergi möguleikanna. Sorg og fjarlægð. Ég er skilnaðarbarn og hann flytur til Íslands og við til Noregs og ég sá hann bara tvisvar á ári, þetta var mynd um það.“

Tilfinningar sem erfast

Og Elskling er mynd um skilnað – eða öllu heldur möguleikann á skilnaði. Erfiðleikana. Þegar það hriktir í stoðunum. Hún er létt og leikandi í byrjun – við fáum rómantíkina þegar þau Maria og Sigmund eru að draga sig saman, það er hún sem á frumkvæðið, Maria er óörugg og frökk um leið, einhver einkennileg blanda sem Helga Guren lætur ganga upp. Síðan spólum við sjö ár og nokkur börn fram í tímann. Hamingjan virðist enn til staðar, en það er eitthvað farið að falla á hana.

„Ég vildi takast aðeins á við hefðbundin skilnaðardrömu. Maður hefur séð svo mörg klassísk samböndsdrömu. Hvað gerist? Jú, hann heldur fram hjá eða hún heldur fram hjá, eða eitthvað álíka – hverjum er um að kenna – en ég vildi frekar dýpri ástæðurnar. Þetta byrjar sem hefðbundin narratífa, en síðan eru mörg sjónarhorn og það er ekki beint neinum að kenna, það er dýnamík og hlutir sem þú sérð ekki. Sem þau sjá ekki strax. Kannski heldur einhver fram hjá, en maður heldur ekki fram hjá nema það sé eitthvað brotið í sambandinu. Mögulega akkúrat það sem maður vill ekki vita um sjálfan sig og vill ekki ræða. Þetta ómeðvitaða efni var það sem ég vildi finna og sýna.“

Tráma í erfðaefninu

Hún segir okkur sjá litlu hlutina hægt og rólega verða stóra. Og óyfirstíganlega. „En við skynjum líka að það eru ákveðnir hlutir sem við sjáum ekki – af því Maria vill ekki sjá þá sjálf. Þetta er fyrst og fremst hennar saga, hennar ferðalag – og þegar á líður fer hún að átta sig betur á hversu djúpt þetta ristir allt saman. Þetta snýst um miklu meira en bara sambandið. En hún reynist svo heppin að lenda á virkilega færum sálfræðingi sem virðist vita hvað hún er að gera, en hefði vissulega betur leitað til hennar miklu fyrr. „Það var fyrst og fremst dramatúrgískt skref. Ég nota þerapistann til að kanna dýpið, hennar innri díalóg. Hún er persóna sem hjálpar henni að spyrja spurninganna sem hún hefur ekki þorað að spyrja sig sjálf.“

Og þá blandast móðir aðalpersónunnar inn í. Nýlegar rannsóknir um tilfinningar sem erfast, að það sé tráma í erfðaefninu okkar, bergmála í hausnum upp úr miðri mynd.

„Það er kjarni sögunnar, erfðasyndin. Þess vegna finnst mér hún vera hetja, sem getur farið í samtal um þetta og stoppað þessa lest sem fer í gegnum allar kynslóðirnar – og segir bara; ég ætla ekki að halda áfram að gera þetta. Ég ætla að reyna að skilja hvað þetta er og af hverju ég geri það sem ég geri, af hverju ég kem fram við fólk eins og ég geri. Það er mikil vinna og kostar mikið hugrekki. En hún skilur þetta ekki fyrr en langt er liðið á mynd.“

Að vinna með eiginmanninum

Sem fyrr segir vann myndin verðlaun fyrir bestu leikkonuna – og það var held ég nánast sjálfgefið fyrir öllum í salnum að svo myndi fara eftir myndina. Helga er algjör náttúrukrafur sem tekst auðveldlega að halda manni föngnum allan tímann, með andlit sem gerbreytist reglulega, jafnvel í sömu senu, eftir því sem tilfinningarnar flökta.

„Ég sá Helgu fyrst í stuttmynd árið 2018. Hún var rosalega náttúruleg og ekta og æðisleg og ég hringdi í hana og bauð henni í kaffi og var alveg búin að ákveða að hún myndi leika í myndinni. En svo tók svo langan tíma að fá styrk, við gerðum fyrst stuttmynd þar sem eru nokkrar senur úr myndinni, ég var að horfa núna, hún er svo miklu yngri þá, það eru sex ár síðan. Síðan fengum við ekki styrk og þá gafst ég eiginlega upp með þetta verkefni og fór að gera eitthvað annað. En framleiðandinn minn vildi ekki gefast upp, sagði að þetta væri æðislegt efni og við ætluðum að gera þessa mynd. En þegar við fengum styrk að lokum þurfti ég að opna allt aftur, endurskrifa og þá þurfti ég að halda nýjar prufur. En Helga var enn þá til í þetta og eftir smáprufur sá ég að þetta var málið. Hún er ekki mjög þekkt í Noregi, hefur ekki verið í aðalhlutverkum í bíómyndum áður né í stórmyndum, ekki aðalleikarinn heldur, hann Oddgeir Thune. Þau voru bæði frekar óþekktir kvikmyndaleikarar. Þannig að þetta var fólk sem maður hefur ekki séð það oft, þannig að fólk sér vonandi bara fyrir sér alvöru par, frekar en leikara.“

Vinna saman á innsæinu

En hvað voru þau annars að þvælast til Portúgal? „Við Øystein [Mamen] giftum okkur hérna fyrir tíu árum síðan. Øystein er kvikmyndatökumaðurinn minn og við eigum líka fjögur börn eins og í myndinni. Og ég var búin að lofa börnunum að þegar við værum búin að vera gift í tíu ár myndum við koma aftur hingað og fagna.“

En hvernig er að vinna með eiginmanninum?

„Það hefur verið æðislegt en ekki laust við átök. Það eru plúsar og mínusar að vinna með einhverjum sem maður þekkir svona vel. Stundum getum við bara unnið saman á innsæinu og vitum alveg hvernig á að gera þetta saman, en stundum er ekki fagleg fjarlægð sem þú hefur gagnvart öðrum, og þá getur þetta verið ansi krefjandi. En við erum enn þá saman og erum að hugsa um að gera aðra mynd saman. Þannig að þetta hefur gengið vel.“

„Hvernig þekkir þú mömmu mína?“

Og myndin er að einhverju leyti persónuleg. „Allt sem ég geri er byggt á einhverri reynslu sem ég á. Ég get ekki unnið öðruvísi. Það er bara þannig sem ég hugsa og vinn og skrifa, er alltaf að vinna með mína reynslu á einhvern hátt. En þetta er ekki ævisögulegt, ég hef ekki lifað þessar senur, ég er búin að skrifa þessar senur – en þetta er byggt á krísu sem við vorum í, fyrir mörgum árum síðan, ég er búin að reyna að vinna með alls konar innsæi og hugmyndir sem ég hef fengið síðustu tíu árin og reynt að sauma þetta saman og finna skáldskapinn í því. Þegar maður vinnur svona þá man ég ekki lengur hvað er mitt og hvað er þitt og hvað er skáldskapur. Og svo koma leikararnir inn og þau eru með sitt.“

Og fólk er að tengja. „Hvernig þekkir þú mömmu mína? Varstu heima hjá mér? spurði kona sem ég hitti um daginn og bað kímin um prósentur, „Þetta var mitt líf,“ sagði hún. Mér finnst það mjög gaman. Á endanum er þetta efnið okkar allra.“

Ádeila á hvernig við lifum í dag

Talandi um þjóðfélag – það er alveg þráður í myndinni að þetta sé einfaldlega ómögulegt púsluspil, þetta hljóti alltaf að klikka. Ströglið sé of mikið, sérstaklega fyrir tvo listamenn sem bæði eru verktakar. „Já, þetta er líka bara ádeila á hvernig við lifum í dag. Nútímaparið er undir svakalegri pressu. Konur eiga að vinna eins og þær eigi ekki börn og eiga börn eins og þær þurfi ekki að vinna. Og rækta eigin mat og nota taubleyjur og eiga feril og fara í ræktina og eiga félagslíf. Og það er bara ekki hægt. Þetta er líka bara svo lítil eining. Í gamla daga var þetta sveitabýlið, stórfjölskyldan. Núna eru þetta bara tveir foreldrar, eða jafnvel bara einstætt foreldri. Ég held það sé ekki mjög heilbrigt fyrir manneskjur að lifa svona og það er eitthvað við hugmyndir í poppkúltúr, þar sem okkur finnst eins og þessi eina manneskja eigi að uppfylla allar þínar þarfir. Allt það sem stórfjölskyldan gerði áður, það er lagt á eina manneskju. Þetta allt speglast svo í skilnaðartölfræðinni. Þessar óraunhæfu kröfur.“

Hvað er svo næst á dagskrá?

„Ég er alltaf með einhver verkefni. Bara í flugvélinni á leiðinni komu einhverjar nýjar hugmyndir. En ég er ekki með eitthvað niðurneglt og ákveðið næsta verkefni. En ég hef áhuga á nútímakonunni, krafti konunnar og ójafnvæginu í samskiptum karla og kvenna í okkar þjóðfélagi. Það er eitthvað sem ég vil kafa dýpra í.“

Þegar við ræðum saman er myndin ekki enn komin með nafn á íslensku. Heitir Elskling á norsku og Loveable á ensku. „Ást er æðislegt orð. Elskling og Loveable eru ekki sama orð, Love og elsk, sem er líka að elska, Loveable á norsku myndi vera elskelig – það sem ég fíla við Loveable er skiptingin: love able. Að vera fær um ást. En ég veit ekki hvað yrði góð þýðing á íslensku, ég þarf að spyrja mömmu.“

Viðtalið birtist upphaflega í Heimildinni þann 27. september 2024.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson