Um áramótin 2006-7 kom kvikmyndin Children on Men í íslensk bíó. Þá var Snorri Másson 9 ára. Kannski var þetta fyrsta bannaða myndin sem hann sá. Kannski sá hann hana seinna, kannski sá hann hana aldrei. En hann hefur allavega miklar áhyggjur af umfjöllunarefni hennar. Í framtíðarheimi Börnum mannana hafa engin börn komið í heiminn í heil átján ár – og Snorri virðist hafa áhyggjur af því að við siglum hraðbyri inní þann veruleika.
„Hvers konar hrokasvar er þetta?“ var meðal viðbragðanna, enda í framboði fyrir flokk sem auglýsir sig sem eina flokkinn sem geti komið skikki á meint stjórnleysi sem ku ríkja við landamærin.
Sá barnlausi veruleiki sem lýst er í Börn mannana er vissulega fjarri því að rætast á heimsvísu, en það eru þó staðir í heiminum þar sem þetta er orðin kunnugleg saga. Í búlgarska þorpinu Peshtera hafði ekkert barn fæðst í heilan áratug, skv. sjö ára gamalli grein frá BBC – og sú stúlka og móðir hennar eru löngu fluttar til Kýpur. Stoyan Evtimov er stoltur þorpsbúi og vill hvergi annars staðar búa, en verandi á fertugsaldri veit hann að það er óumflýjanlegt ef hann vill stofna fjölskyldu; í þessum bæ eru einfaldlega engir jafnaldrar. Allir æskuvinir hans eru löngu fluttir í burtu.
Þetta er algeng saga í búlgörskum þorpum, þar sem aldraðir kjörbúðarstarfsmenn fá nánast bara viðskiptavini sem eru yfir sextugt, ef það er á annað borð kúnnum til að dreifa. Og þótt flestir fari mögulega í stærri búlgarska bæi og borgir, til Sofiu og Plovdiv, þá flýr fólk þaðan líka. Það bjuggu níu milljón manns í Búlgaríu við lok kommúnismans, árið 1989. Nú búa þar sex og hálf milljón –hefur fækkað um hálfa milljón bara frá umræddri Guardian-grein. Í lok aldarinnar er spáð að fjöldinn verði orðinn minni en 3,5 milljón.
Búlgaría sker sig úr í Evrópu; þar hefur ekkert stríð verið síðastu áratugina og landið er í Evrópusambandinu, en aðeins nágrannalandið Rúmenía kemst nálægt Búlgaríu í fólksfjölgun meðal landa EES.
Ríkisstjórnin er vissulega að reyna sitt, með að niðurgreiða frjósemisaðgerðir, bjóða upp á barnapössun og hjálpa til við húsnæðislán. Og biðla til brottfluttra Búlgara um að snúa aftur. En engra annarra.
„Búlgaría þarf ekki ómenntaða flóttamenn,“ segir varaforsætisráðherrann Valeri Simeonov, leiðtogi Sameinaðra þjóðernissinna, í áðurnefndri Guardian-grein. Hann bætir svo við: „Búlgaría þarf heldur ekki menntaða og reynda innflytjendur. Menning þeirra er öðruvísi, trúarbrögðin, jafnvel daglegir siðir. Sem betur fer eru fá lönd jafn vel vernduð og Búlgaría,“ segir hann og á þar við gaddavírsgirðingu sem þekur 260 kílómetra löng landamærin við Tyrkland – og á árunum 2015-17 tók Búlgaría bara inn 50 flóttamenn.
„Bæði Guð og yfirvöld hafa yfirgefið okkur,“ segir Bojan frá Kalotinsi, þrettán manna þorpi sem eitt sinn var 600 manna þorp. Enda hefur Guð vit á að yfirgefa þá sem yfirgefa aðra. Í framtíðarveröld Children of Men er lítil virðing borin fyrir lífinu, innflytjendur eru sagðir mestu og hættulegustu úrhrök allra fyrir þá sök eina að hafa ekki fæðst í Bretlandi og eina vonin virðist vera goðsagnakennd samtök sem nefnast The Human Project. Verkefni um mennskuna. Því börnum er ætlað að fæðast til þess að verða á endanum manneskjur, það er ekki spennandi hlutskipti að fæðast inn í hatur og óréttlæti. Okkar eigin náttúra gerir uppreisn gegn eigin náttúruleysi, börnin hafna að lokum illsku og flónsku hinna fullorðnu.
Dauðaköltið sem Snorri Másson hefur áhyggjur af er dauðaköltið sem hann er nýlega genginn í, Miðflokkurinn og aðrir flokkar allra landa sem standa ekki vörð um lágmarksmennsku, vilja þvert á móti loka náungann úti. Þetta eru költ sem skilja ekki kall tímans, þau skilja kannski hvert vindurinn blæs en þeir skilja ekki undirölduna, þá heimssögulega atburði sem móta okkar tíma, loftslagsbreytingar, flóttamannastrauminn, stríðin, og það mun á endanum annað hvort tortíma þeim – eða verða til þess að þeir hjálpa okkur við að tortíma sjálfum okkur, ef við ösnumst til að kjósa þessi dauðakölt.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson