“Passið upp á að láta ekki svindla á ykkur,” heyrðist kallað þar sem ég og kona mín ætluðum að taka út nokkrar tékkneskar krónur úr hraðbanka frá ónefndum evrópskum banka. Þegar ég sneri mér við sá ég mann, lágvaxinn með ágætis bjórvömb, björtum yfirlitum með hrokkið hár og smá hýjung.
Þar var kominn Ásgeir H Ingólfsson nokkur sem ég þekkti til í gegnum internetið og af afspurn sameiginlegra vina. Hann var þannig nokkurs konar þjóðsagnapersóna í mínum huga.
Við urðum samferða frá flugvellinum og niður í miðbæ Prag og mæltum okkur mót þegar á leiðarenda var komið. Fengum við okkur bjór á Kasana Karlin, gömlum herbúðum sem fengið hafði nýtt líf sem nokurs konar menningarmiðstöð þar sem gjarnan fara fram tónleikasýningar og sýndar eru kvikmyndir og umfram allt, þar er hægt að sötra góðan bjór innan um iðandi mannlíf.
Ásgeir og ég áttum ýmislegt sameiginlegt, þá helst dálæti okkar á Tékklandi og var alltaf gaman að spjalla við hann um allt milli himins og jarðar, allt frá fótbolta til tékkneskra bókmennta.
Eftir að heim var komið héldum við Ásgeir sambandi í gegnum messenger-spjallforritið og vorum við í reglulegu sambandi. Vegna einhvers tæknilegs klaufaskapar varð spjall okkar innrammað Spiderman-þema og hélst það þannig enda þótti okkur báðum það frekar fyndið. Hann dúkkaði reglulega upp með spurningar á borð við á hvaða handanheimabar Muggur og George Orwell drykkju sorgum sínum eða hvort Elon Musk væri kominn til Mars á SpaceX flauginni sinni þegar ekkert heyrðist í þeim manni.
Kynni okkar voru stutt en góð, ég hitti hann í síðasta skipti á fyrirlestri á bókmenntahátíð í Reykjavík
2023 sem hann skrifaði um af mikilli kostgæfni á Menningarsmyglið og líkt og oft áður barst tal okkar um víðan völl (þó eðli málsins samkvæmt væri það helst efni fyrirlestrarins.)
Núna í janúar bauð hann mér í partí til að fagna lífinu sem fór að taka enda hjá honum. Ég lagði því norður til þess að hitta hann í síðasta skiptið en örlögin gripu snaggaralega í taumana og kvaddi hann þennan heim áður en að við gátum hitt hann í eitt síðasta skipti.
Lífskviðan, sem hann eyddi síðustu dögum í að skipuleggja fór engu að síður fram. Þó sárt væri að missa af Ásgeiri var gott að hitta allt fólkið sem hann taldi til sinna vina. Tregablandin gleði einkenndi kvöldið. Ásgeir var sannarlega með í anda en öll höfðum við tekið með okkur lærdóm frá honum til að vinna með í áframhaldandi lífi okkar.
Ég færi fjölskyldu hans og nánustu aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.