Þegar ég var lítill var Ásgeir besti vinur minn. Foreldrar okkar voru góðir vinir og við náðum mjög vel saman, svona eins og börn á leikskólaaldri gera svo sem oftast. Ég var þó aldrei í neinum vafa að einmitt hann væri besti vinur minn af mörgum góðum og ég var orðinn nokkuð eldri þegar ég áttaði mig á því að það hefur líklega ekki verið gagnkvæmt. Ég bjó enda í Reykjavík og hann á Akureyri og ekki hittumst við oft.
Svo liðu árin og vinatengslin urðu sífellt minni, leiðir okkar lágu einfaldlega ekki saman. Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég hætti að hugsa um hann sem besta vin minn, en einhvern tímann fyrir unglingsárin var það. Löngu seinna tók ég eftir Ásgeiri sem blaðamanni, menningarrýni og skáldi. Ég fylgdist með honum á Facebook, las Menningarsmyglið, styrkti Framtíðina á Karolinafund og fékk þessa skemmtilegu kveðju í kaupbæti. Þetta gerði ég í mörg ár og hafði bæði gagn og gaman af. Endurkynnin voru einhliða, en mikið voru þau ánægjuleg.
Og nú er þeim skyndilega lokið. Eftir situr sorg, samúð með þeim sem elskuðu hann og falleg undrun á því hversu sterk þessi taug mín til hans var eftir allt saman. Ásgeir var einu sinni besti vinur minn og ég sakna hans.