Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Ásgeir H Ingólfsson (1976-2025)

Óli Gneisti Sóleyjarson skrifar

Óli og Ásgeir í júlí 2004.

Óli og Ásgeir í júlí 2004.

Fyrstu kynni á körfuboltavellinum

Um fyrstu kynni okkar skrifaði Ásgeir (þó ég muni þetta aðeins öðruvísi):

Í körfubolta á Lundarskólavelli fyrir margt, margt löngu. Þú varst alltaf að kveinka þér í bakinu ef maður kom eitthvað smávegis við þig

Við Ásgeir kynntumst kannski ekki bókstaflega á körfuboltavelli en þar byrjaði samband okkar og þar byrjuðum við að rífast. Það var Gunnlaugur Starri frændi minn sem kynnti okkur. Ég var líklega tólf ára en þeir um þremur árum eldri.

Rúntað, spjallað og sungið

Seinna voru spjallstundir okkur í bílnum hans Ásgeirs (foreldra hans) að kvöld- og næturlagi. Stundum tveir en gjarnan nokkrir saman og auðvitað Starri oftast. Tónlistin spilaði stórt hlutverk í þessum bíltúrum. En hátalarinn öðru megin í bílnum var lélegur þannig að þegar Bohemian Rhapsody fékk að hljóma, sem var oft, heyrðist mjög lítið í annarri hljóðrásinni þegar raddirnar áttu að kallast á. Mig minnir að frændi minn hafi verið sérstaklega vel æfður í syngja hátt á réttum tímapunktum til að bæta upp fyrir það.

Við rúntuðum um allan bæ og stundum nærsveitir. Aðalmálið var samt þegar við fórum á Rúntinn (mig langar að útskýra hve underleg lykkja Rúnturinn var í miðbæ Akureyrar á þessum árum en ég get bókstaflega ekki komið því í orð). Hvers vegna að fara á Rúntinn? Til að sjá fólk? Til að láta sjá okkur?

Þegar leið á næturnar tók Ásgeir oft að sér að skutla heim fólki sem hann, ég eða hvorugur okkar þekkti. Það var oft skrautlegt. Við heyrðum undarlegustu sögur. Fólk sem er virðulegt í dag gubbaði útum bakdyrnar á bílnum hans Ásgeirs á tíunda áratugnum.

Vetrarævintýrið (1996)

Eitt vetrarkvöld árið 1996, líklega í febrúar, bankaði Ásgeir upp á hjá mér og spurði hvort ég vildi rölta með honum út í Glerárhverfi (við vorum á Brekkunni). Tilgangurinn var að ná í bílinn sem mamma hans hafði skilið þar eftir vegna færðar. Ásgeir ætlaði ekki láta snjó og snjókomu stoppa sig.

Þannig að við gengum uppeftir og meðfram Hlíðarbrautinni. Þegar við komum á áfangastað reyndum við að koma bílnum af stað en hann var vel fastur. Eftir nokkrar atrennur vorum við orðnir frekar kaldir. Þannig að við reyndum að koma okkur inn til ættingja í nágrenninu en enginn svaraði bjöllunni. Þó náðum við að hita okkur aðeins í anddyrinu.

Við gerðum því aðra atlögu til að koma bílnum af stað. Og það tókst. Til þess að vera öruggur reyndi Ásgeir að velja fjölfarnar götur. Sem endaði á því að við festumst rétt hjá þánefndu Gellunesti (nú Ak-Inn).

Það varð okkur þó til gæfu að bíllinn teppti umferð þannig að tveir gaurar í næsta bíl fyrir aftan voru tilneyddir að hjálpa mér að ýta. Það var komin nótt þegar við hetjurnar komumst loks heim eftir mjög tilgangslítið en eftirminnilegt ævintýri.

H – ekki H.

Ásgeir breytti nafninu sínu, á undan mér, einhvern tímann um aldamótin. Hann felldi niður millinafnið sitt og setti í staðinn bókstafinn H (enginn punktur, hann var harður á því) sem var vísun í Hrefnu mömmu hans. Seinna varð lögformlegt nafn hans Ásgeir Hrefnuson Ingólfsson.

Ferðalangurinn

Stundum hafði ég áhyggjur af Ásgeiri þegar hann byrjaði að ferðast um af alvöru. Mig rámar í að vegabréfinu hans verið stolið einhvers staðar á flakki um Austur-Evrópu.

Ég man líka alltaf eftir þessu sms’i sem ég fékk frá Ásgeiri 27. september árið 2002.

ERTU VID TOLVUNA?

GETURDU FARID A www.cdrail.cz STILLT A ENSKU OG FLETT UPP FROM: PRAGUE – TO: ZLIN, TEKKAD SVO HVENÆR HUN KEMUR TIL ZLIN – OG EF TAD KEMUR FRAM HVENÆR TIL OLOMOUC

ég sendi svar með umbeðnum upplýsingum og fékk til baka:

TAD TYKIR MER GRUNSAMLEGT, EG ER EKKI ENN KOMINN TIL OLOMOUC – TAR SKIPTI EG UM LEST – OG KLUKKAN HER ER 20:45

Ásgeir náði samt greinilega tökum á ferðalögunum þó ævintýrin hafi verið mörg.

Það eru fá póstkort sem við [Eygló] skoðum meira en þau sem við fáum frá honum Ásgeiri þegar hann er að ráfa um heiminn. Þegar við höfum loksins skoðað það eins og við getum þá setjum við það á ísskápinn í von um að Ásgeir muni að lokum líta í heimsókn og segja okkur hvað í ósköpunum stendur á því.


-Óli Gneisti 11. maí, 2008

Sumarið 2014 hafði Ásgeir samband við mig og spurði hvort ég vildi leigja með honum bás í Kolaportinu. Hann var að flytja til Prag og þurfti að losa sig við óþarfa. Ég þáði boðið og við eyddum deginum saman í Kolaportinu. Við seldum eitthvað en spjölluðum mikið, við hvorn annan og alla sem komu að heilsa upp á okkur.

Í fyrra fór ég til Kísinev í Moldóvu, með smá stoppi í Berlín. Ásgeir útskýrði fyrir mér að ég hefði valið mér hótel í snarvitlausu hverfi í Berlín og kom með ráðleggingar um hvað ég ætti að skoða í Moldóvu. Af því að auðvitað hafði hann komið á undan mér í eitt minnst heimsótta landið í Evrópu.

Í Kísinev hugsaði ég reglulega til Ásgeirs og hans ferðaafreka, aðallega þegar ég átti erfitt með að athafna mig í landi þar sem nær enginn talaði ensku eða önnur tungumál sem ég get skilið. Hann kunni þetta.

Bloggið

Við Ásgeir tilheyrðum íslenska bloggsamfélaginu sem var öflugt á fyrsta áratug þessarar aldar. Þegar ég byrjaði fyrst að skrifa sagði ég í gríni við Ásgeir að ég bloggaði ekki heldur héldi dagbók á vefnum. Þetta pirraði hann svo mikið að ég hélt áfram að neita að ég væri bloggari í einhver ár. Allavega þar sem Ásgeir gat heyrt eða lesið.

Les Jude Law blogg? : bloggið verður sífellt vinsælla
Ásgeir H. Ingólfsson 1976-2025 höfundur
bls. 52-53 Tækni og vit 2007 :

Í yfirferð minni á gömlum skrifum Ásgeirs fann ég eftirfarandi línu um mig, ekki man ég um hvað við vorum að rífast.

Aldrei þessu vant þá hafði Gneistinn rétt fyrir sér með upphaflegt atriði rifrildisins og ber að taka þann fáheyrða atburð fram.

Þegar við vorum báðir fluttir til Reykjavíkur skutlaðist ég stundum með Ásgeir í búð (ég man varla eftir honum við stýrið eftir aldamótin). Það hefði verið auðveldast að fara í Bónus en það vildi hann ekki af því þá væri hann að styðja Jón Ásgeir Jóhannesson. Í staðinn fór hann í 10-11, sem var auðvitað líka í eigu Jóns Ásgeirs. Ég reyndi að ræða þetta við hann en frá hans sjónarhorni var þetta rökrétt. Eða var hann að leika sér að því að pirra mig?

Stúdentaár

Margir muna eftir Ásgeiri úr Bóksölu Stúdenta þar sem hann starfaði um árabil. Hann kynntist líka breiðum hópi fólks þegar ég plataði hann með mér í stúdentapólitíkina þar sem hann endaði í framboði fyrir Háskólalistann. Að mörgu leyti var það framboð nátengt því bloggsamfélagi sem við Ásgeir tilheyrðum. Margt sama fólkið.

Það voru plottfundir, bústaðaferðir og partí. Heima hjá félögunum en líklega oftast í Stúdentakjallaranum gamla.

Það var í tengslum við stúdentapólitíkina sem ég endaði í partíi á kaffistofu Bóksölu stúdenta. Eftir að hafa komið drukknu fólki heim hafði ég áhyggjur af hverjum yrði kennt um draslið, bjórflöskur og sígarettustubba. Ég kallaði til Ásgeir sem var með lyklavöld og tilbúinn að koma með mér í tiltekt um miðja nótt til að þess að félagar okkar lentu ekki í veseni.

Mogginn og hirð Davíðs

Ásgeir starfaði fyrir Árvakur þegar tilkynnt var að Davíð Oddsson hefði verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Af því tilefni skrifaði hans grein í Lesbókina undir titlinum „Fjölmiðlalög hin nýju“. Niðurlagið var:

En við þurfum að setja fjölmiðlalög á Davíð og alla hans hirð, en um leið þurfum við að setja fjölmiðlalög sem tryggja að eitthvað betra komi í staðinn

Þannig lauk störfum hans hjá Mogganum. Ég var ákaflega stoltur af honum.

Bíónördinn

Það sem var staðfast í sambandi okkar Ásgeirs í gegnum árin var kvikmyndaáhugi. Við vorum samt ekki alltaf sammála. Við höfðum ólíka nálgun. Ég endurnýjaði Kvikmyndahandbók Maltins nær árlega en hann las hið virta kvikmyndatímarit Empire. Ásgeir hafði einmitt töluverða andúð á skoðunum hins vinalega Leonards. Það er helsta ástæðan fyrir því að ég vísa reglulega í einkunnagjöf Maltins þegar ég skrifa um kvikmyndir.

Kannski var það af því að við kynntumst svona ungir að við hættum aldrei að stríða hvor öðrum.

Stundum hélt fólk að Ásgeir væri bara hrifinn af „listrænum“ bíómyndum. Svo var auðvitað ekki. Hann var fyrst og fremst móttækilegur fyrir að horfa á allskonar kvikmyndir á hvaða tungumáli sem er. En hann var alveg tilbúinn til að hrífast af stórum Hollywood-kvikmyndum líka, bara ekki hverju sem er. Þegar ég sagði honum að ég hefði keypt Breakfast Club á DVD hneykslaðist hann á mér og kallaði hana „Morgunverðarleiðindin“ sem varð sá titill sem við notum á myndina á mínu heimili.

Eftirminnilegasta bíóferðin

Við áttum nokkrar eftirminnilegar bíóferðir. Einu sinni hafði Ásgeir samband við mig og spurði hvort ég vildi ekki koma með honum í Bæjarbíó að sjá eina af hans uppáhaldsmyndum: Der Himmel über Berlin. Ég sló til sem þýddi ég þurfti að skutla honum út í Hafnarfjörð.

Auðvitað vissi ég að myndin væri á þýsku en þegar hún byrjaði sá ég að textinn var á sænsku. Ég átti erfitt með að halda þræði, sérstaklega þegar ein persónan talaði þýsku en hugsaði á frönsku.

Ég spurði Ásgeir hvort hann hefði vitað fyrirfram að textinn væri bara á sænsku. Hann sagði ekki berum orðum að hann hefði blekkt mig, en ég dró ákveðnar ályktanir af svipnum hans.

Síðast þegar við hittumst

Síðasta sumar fékk ég Ásgeir til að koma í viðtal í mitt frekar óvirka hlaðvarp Botninn. Til þess að hafa einhvern grunnpunkt ákvað ég að horfa loksins á Before-þríleik Richard Linklater og spjalla um þær.

Before Sunrise (1995) fjallar um ungt fólk á ferðalagi um Evrópu. Þau kynnast í lest og eyða nótt saman í Vínarborg. Before Sunset (2004) gerist níu árum seinna þar sem parið endurnýjar kynnin og hefur klukkustund saman í París til að ákveða hvort þau vilji halda sambandinu gangandi. Before Midnight (2013) er aftur níum árum. Þau eru gift með börn og eiga við öll þau vandamál sem því fylgir.

Ásgeir sagðist ekki vera sérstaklega hrifinn af síðustu myndinni. Ég var ekki hissa því hann fór aðrar leiðir í sínu lífi. Hann tengdi við rómantískar stundir í Evrópu en ekki uppgefna foreldra að rífast.

Lokin

Þó Ásgeir hefði tilkynnt að hann væri með krabbamein reyndi ég að vera bjartsýnn. Þegar ég fékk skilaboðin „Vikur, mögulega mánuðir“ hrundi sá varnarveggur. Ég ætlaði að drífa mig Norður en hann sagði mér frá fyrirhuguðu ljóðakvöldi þannig að ég beið. Röð fullkomlega rökréttra ákvarðanna varð til þess að ég náði ekki að hitta Ásgeir.

Þegar ég bauð fram aðstoð mína, spurði hvað ég gæti gert fyrir hann, var Ásgeir með skýrt svar. Myndasýning á Lífsvökunni. Ég var ákaflega þakklátur að fá verkefni frá honum.

Við Ásgeir höfðum ólíkar hugmyndir um hvað væri best að hafa með í myndasýningunni. Hann vildi hafa myndir af stöðunum sem hann hefði heimsótt, viðburðunum sem hann hefði farið á og fólkinu sem hann hefði hitt. Ég sagði honum að fólk vildi fyrst og fremst sjá myndir af honum. Hann samþykkti en vildi reyna að hafa hitt líka með.

Þannig að ég setti myndir af Ásgeiri, með vinum, í speglum, á spennandi stöðum, góðar myndir og fyndnar myndir. Kettir og Karlsbrúin fengu að vera með. Á myndum sést að þegar hann setti sig í stöðu skáldsins þótti honum tilgerðin oft fyndin. Hann glotti þegar hann átti að vera svalur.

Þegar ég var að klára myndasýninguna var ég hræddur um að hún myndi valda honum vonbrigðum. Mér tókst ekki að setja saman „educational lúppur“, eins og hann stakk upp á, af því þær voru ekki áhugaverðar án útskýringa. Föstudagskvöldið 24. janúar sendi ég skilaboð þar sem ég bauð honum að fara yfir myndasýninguna og gefa sitt álit. Ég fékk aldrei svar.

Ósvali vinur minn

Ég man að Ásgeiri þótti mikið koma til einnar línu úr kvikmyndinni Almost Famous (2000) sem ég skal leyfa mér að snara á íslensku:

Eini sanni gjaldmiðillinn í þessum gjaldþrota heimi er það sem þú deilir með einhverjum þegar þú ert ósvalur.

Við Ásgeir áttum margar góðar stundir ósvalleika.