Fallinn er frá ástkær vinur Ásgeir H Ingólfsson. Lífskviðan hans (Lífskviða 2025) fór fram síðastliðinn laugardag þrátt fyrir það stóra högg að hann hafi látist þá um nóttina. Sú samverustund var einstök og falleg, þó kringumstæður væru aðrar en lagt var upp með. Ásgeiri tókst nefnilega ætlunarverkið, að stefna sínu fólki saman úr öllum áttum sem þekktust ekki endilega innbyrðis. Þau sem komu að skipulagningu og framkvæmd Lífskviðunnar munu aldrei fá nægar þakkir fyrir sinn part, takk þið öll. Og takk vinir Ásgeirs fyrir upplesturinn, spjallið og sögurnar.
Ég leit í eintakið mitt af Framtíðinni hans Ásgeirs þegar ég kom heim af Lífskviðunni og þar var ávarp til mín fremst. „Maðurinn sem heldur alltaf áramótapartíin“ kallar hann mig þar. Það lenti nefnilega oftar en ekki á mínu heimili hér áður fyrr að hýsa samkomur fyrir brottflutta Menntskælinga og aðra vini sem komu „heim“ í jólafríinu og vildu hittast, og þar var Ásgeir mikill aufúsugestur. „Partíin“ minnkuðu með árunum í tveggja eða þriggja manna, en alltaf var jafn gott að hitta Ásgeir. Stutt í bros og hlátur og hægt að kjafta áreynslulaust um allt og ekkert. Ég varð líka þeirrar gæfu njótandi að fara í tvígang til Prag með „minn mann“ á staðnum sem auðgaði báðar ferðir ómælt. Í þessi skipti kvaddi ég Ásgeir glaður, vitandi að við myndum hittast á ný einhvern daginn þó það gæti liðið hálft ár, eitt ár eða eitt og hálft þangað til. Nú verða fundir okkar ekki fleiri og það er ákaflega sárt. En minningin um góðan mann lifir, og mun lifa.
Ég votta fjölskyldu Ásgeirs og öllum hinum fjölmörgu vinum sem syrgja hann mína dýpstu samúð.
Það verður aldrei nóg af myndum af Ásgeiri á Internetinu þannig að ég læt nokkrar misgáfulegar fylgja með.












