Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Ásgeir H Ingólfsson (1976-2025)

Kristján Hrafn Guðmundsson skrifar

Fallinn er frá einstakur maður. Ásgeir H Ingólfsson var nafn sem ekki ýkja margir höfðu heyrt þar til fjölmiðlar sögðu frá viðburði sem hann undirbjó síðustu tvær vikur eða svo. Viðburður sem var svo mikið í anda þeirrar manneskju sem hann hafði að geyma – að lífið ætti að vera skemmtilegt, sama þótt maðurinn með ljáinn stæði inni á kontór þar sem partíplönin stóðu yfir og starði í augu Ásgeirs einsog aðkomumaður í gömlum vestra.

Þegar fram líða stundir munum við heyra nafn þessa öðlings oftar, til dæmis mæli ég með að fólk bendi börnum og barnabörnum sínum á að gúggla nafn hans þegar þau þurfa heimildir fyrir ritgerðir og önnur viðfangsefni þar sem nauðsynlegt er að vísa til skarpra, áreiðanlegra og listilega skrifaðra greininga á ýmsu tengt menningu á Íslandi og víðar, ekki síst kvikmyndum, sjónvarpsefni og bókmenntum – en enginn Íslendingur hefur gert erlendri kvikmyndagerð betri skil það sem af er þessari öld en Ásgeir H. Ingólfsson. Og engin gervigreind mun nokkurn tímann komast með umdeildar og brothættar tær sínar þar sem Ásgeir hafði víðförla hæla sína.

Maður sem bjó víða á Íslandi og í nokkrum löndum, hvar hann sankaði að sér fróðleik um þau samfélög sem hann hrærðist í hverju sinni, setti sig inn í pólitíska og menningarlega sögu þeirra staða og fleiri – og var eflaust búinn að því löngu áður en hann kom á staðinn – sem við lesendur skrifa hans gátum og getum og munum fræðast um þegar lesnir eru textar Ásgeirs. Því þótt í forgrunni væri eitthvert listaverk á stafrænu, filmu- eða pappírsformi setti hann það iðulega í víðara samhengi sögu, heimspeki, hugmynda, mannlegrar hegðunar og eða tilfinninga svo lesenda fannst hann ósjaldan hafa lært að minnsta kosti aðeins meira um heiminn eða lífið að lestri loknum.

List hans sjálfs, aðallega í formi ljóða, verður svo enginn sem leggur sig eftir þeim svikinn af. Þau eru partí út af fyrir sig, með lítil ævintýri og umhugsunarefni fyrir lesandann – kannski litlar kvikmyndir. Og margt vitlausara væri hægt að gera en að stofna til sérstakra verðlauna á einhverri þeirra kvikmyndahátíða sem haldnar eru hér á landi, til dæmis á RIFF eða hátíðinni sem Ásgeir var fastagestur á, Skjaldborg, nú eða sérstakra menningarblaðamannaverðlauna úr ranni Blaðamannafélag Íslands, sem tileinkuð væru Ásgeiri H. Ingólfssyni. Hvað sem því líður þá mun minning góðs vinar sannarlega lifa.