Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Ásgeir H Ingólfsson (1976-2025)

Sara Níelsdóttir skrifar

Ég kynnist Ásgeiri fyrir rúmum tuttugu árum þegar nokkrir einstaklingar töldu það snjallan gjörning að kenna eitt ár í Fjölbraut á Króknum. Ásgeir varð góður félagi okkar hjóna, frábær enskukennari, skapandi, frjór og þorinn.

Það skipti engu hve langt leið á milli funda- alltaf eins og við hefðum hist í gær. Við kíktum oft á Ásgeir þegar hann bjó á Öldugötunni rétt hjá æskuheimili mínu og margoft í bóksölunni.

Ég hitti Ásgeir síðast í Prag fyrir ári síðan. Það hvarflaði ekki að mér að fara í gegnum borgina hans Ásgeirs án þess að heyra hvort hann hefði tíma fyrir gamlan félaga. Við náðum að hittast nokkrum sinnum en endurfundirnir voru svo dæmigerðir fyrir manneskjuna Ásgeir; notalegir, áreynslulausir, gefandi og umfram allt skemmtilegir. Það var í eitt skiptið að Ásgeir þurfti að erindast á skandinavískri kvikmyndahátíð og fékk ég að hitta hann í vinnunni. Þar var Ásgeir í essinu sínu – upplýsti mig um strauma og stefnur og hélt smá fyrirlestur í framhjáhlaupi um sögu kvikmyndahússins – og reyndar allt sem fyrir augu bar. Því Prag var borgin hans. Ásgeir taldi svo að miðaldra borgaralegar konur væru best geymdar á kampavínsbörum og lóðsaði mig á ofurlítinn stað í gamla bænum. Það kumraði í honum glettnin og hláturinn var smitandi, afskaplega hlýr. Frábær kvöldstund og nú dýrmæt minning.Með Ásgeiri höfum við misst einn af okkar bestu pennum um menningarmál og einn þann hæfasta kvikmyndagagnrýnanda við höfum á átt á íslenskri tungu. Hann var maður sem þorði að fara eigin leiðir. Hans er saknað.Ég votta fjölskyldu Ásgeirs og vinum hans mína dýpstu samúð.