Málamiðlanalaust. Mætti ekki segja það? Var það ekki meira eða minna málamiðlanalaust sem þú lifðir? Ég á ekki við að þú hafir ekki rekist á heiminn og þurft að komast að samkomulagi við hann, þannig virkar það víst ekki, en þú vissir hverju þú varst tilbúinn að slá af (fasteignum) og hverju ekki (sannleikanum).
Höfum sannleikann innan sviga svona í fyrstu, en verum því viðbúin að hann brjótist út. Innan sviga því hann er vandmeðfarinn, það er vandmeðfarið, orðið. Orðin gera ekki annað en að ljúga, auðvitað, til þess eru þau, ritmálið í öllu falli. Þú vissir það áreiðanlega betur en ég að elstu dæmin um ritmál eru bókhaldsfærslur úr Mesópótamíu, hver á hvaða hveitibing eða skuldar hverjum hvað. Ef eign er þjófnaður þá er bókhald lygi. Til þess eru orðin.
En sannleikurinn, hann er sögn. Eða það finnst mér ljósara eftir því sem líður á ævina, sem verður stutt, auðvitað, hvort sem skeikar árum eða áratugum til eða frá, hún verður alltof stutt, okkur langar að sjá hvernig sagan endar en ekkert okkar fær lifað það. Sögn, ég á við: maður eltir ólar við hann.
Maður ber sig eftir honum. Eða: Hann er þetta sem ber sig eftir manni. Fálmar eftir manni. Hreyfing í áttina að eða frá, eitthvað sem dregur.
Það er skítlétt að hunsa hann og kostar mann bara lífið.
Það er líka skítlétt að ruglast á honum og sírenuvæli, sem kostar annað eins.
En mér sýnist að það sé ennþá léttara að hlýða honum. Það er annar léttleiki. Það kostar þig allan fjandann í þessum heimi. Það er streð. Það eru næturvaktir við að hreinsa svelgi í sturtubotnum sem aðrir njóta. Samt er það létt, léttara en fiður, hin blíðasta uppgjöf. Að leyfa því að eiga mann, þetta sem ýtir eða dregur, kemur eða fer, vill eitthvað upp á dekk, ónáðar, gerir þetta hljóða, hunsanlega tilkall.
Kannski skjátlast mér. Ég þykist vita að fátt í lífi þínu var svo einfalt að þú viljir verða aksjónfígúra eftir dauðann. Ég vil ekki líkja þér við He-Man. Ekki við Han Solo.
En, þú veist. Þú heyrðir vel. Þú lagðir þig eftir því og þú fylgdir því. Þess vegna varð leiðin þín ekki sjálfsögð. Og þess vegna langar mig að mega benda börnunum á þig, að minnsta kosti sumum börnum, þegar þau vita ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga, segja þeim: sjáið Ásgeir, hann vissi að það skiptir ekki máli, svo lengi sem maður arkar af stað með augun á veginum, sem allra lengst burt frá hættunni á fasteignaláni.