Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Ásgeir H Ingólfsson (1976-2025)

Vinátta og verkefni (Kári Tulinius skrifar)

Við Ásgeir kynntumst á nýnemakvöldi bókmenntafræðinema á Skuggabarnum, snemma hausts árið 2001. Það segir eitthvað um bókmenntafræðinema að við vorum fá, nýnemarnir sem mættu. Ásgeir settist hjá mér, sagðist vera eini meðlimurinn í stjórn Torfhildar, félags bókmenntafræðinema, og við enduðum á því að sitja saman allt kvöldið og spjalla. Inn á milli þess sem hann sagði mér upp og ofan af lífi sínu, þá fékk hann mig til að skrifa fyrir sig í tímarit bókmenntafræðinema og gerast gjaldkeri Torfhildar. Mikið af félagslífi mínu þennan vetur í háskólanum tengdist Ásgeiri, og ýmsu sem hann fékk mig út í, allt frá partíum til skipulagsfunda. Ásgeir var alltaf að setja mér verkefni, eða fá mig með sér á einhverja viðburði, alveg frá fyrstu stundu sem ég þekkti hann.

Eftir þetta fyrsta ár af vináttu okkar skildu leiðir því ég fór til Bandaríkjanna þar sem ég dvaldi meira og minna næsta áratuginn, þó við héldum alltaf sambandi. Þegar ég flutti heim aftur, með frekar gisið félagsnet, þá var hann einn sá fyrsti til að taka upp þráðinn. Fljótlega eftir að ég kom til landsins bauð hann mér með sér á barinn að horfa á Arsenal spila. Við gláptum saman svo gott sem hverja helgi, og varð það fastur punktur í tilverunni næstu árin, þangað til hann flutti til Prag. Ég hafði aldrei sérstaklega fylgst með ensku deildinni, en honum tókst að sannfæra mig um að Arsenal væri málið, og hef ég stutt þá síðan. Við ræddum venjulega alltaf eitthvað saman eftir leiki liðsins okkar.

Ásgeir hefur haft meiri áhrif á smekk minn en flestir aðrir. Fyrir utan stuðning minn á Arsenal, og margar bækur og kvikmyndir sem hann kynnti mig fyrir, þá mærði hann tékkneskan bjór svo oft í mín eyru að ég kaupi sjaldnast nokkuð annað, sé hann í boði. Í ísskáp mínum er kippa á Bohumil Hrabal-bjór, sem ég hef enn ekki haft í mér að opna. Ég geri það þó næst sem ég horfi á Arsenal-leik.

Eftir þennan fyrsta vetur minn aftur á Íslandi þá bauð hann mér að flytja inn með sér, en það hafði losnað annað herbergið í kjallaraíbúðinni sem hann leigði á Laufásveginum. Þar héldum við uppteknum hætti við að glápa á knattspyrnu. Ég man sérstaklega eftir því að við horfðum saman á Suður-Ameríkukeppni landsliða það sumar, og settum það ekki fyrir okkur að leikirnir voru oft um miðja nótt á virkum dögum. Við hrifumst báðir af úrúgvæska liðinu, og vorum skínandi glaðir þegar þeir unnu svo mótið.

Við horfðum líka á kvikmyndir saman, bæði heima og í bíóhúsum. Oftar en ekki vorum við sammála, en stöku sinnum vorum við á öndverðum meiði, og oftar en ekki komu skoðanir hans mér á óvart. Hann tók eftir smáatriðum sem mér hafði yfirsést, og gat sett þær í samhengi sem ég þekkti ekki. Ein mynd sem við ræddum mikið, sem ég hafði elskað og hann hatað, var Winter’s Bone í leikstjórn Debru Granik. Það var aldrei erfitt að vera ósammála Ásgeiri, hann tók því ekki illa, og hafði gaman að því að rökræða kvikmyndir, bækur, fótboltamenn og hvað sem er, sem við gerðum mikið gegnum árin. Þess vegna þá bað ég hann að lesa yfir handrit mín, og voru athugasemdir hans yfirleitt óvæntar, og fengu mig alltaf til að sjá það sem ég hafði skrifað í nýju ljósi.

Hinsta skiptið sem við hittumst í eigin persónu, sem var síðastliðinn nóvember í Helsinki, þar sem ég bý á veturna, þá sammæltust við einmitt um að horfa saman við gott tækifæri á Winter’s Bone og Leave No Trace, eftir sama leikstjóra, en sú síðari var ein af hans uppáhaldsmyndum, en ég ekki séð hana, og athuga hvort að við nálguðumst hvorn annan í skoðun á Winter’s Bone. Það kom mér dálítið á óvart að hann væri til í þetta, því hann treysti yfirleitt eigin skoðunum, enda voru þær vel ígrundaðar. Ekki það að hann hafi ekki verið opinn fyrir öðrum sjónarhornum, ég vissi að ég hefði sagt eitthvað gáfulegt þegar hann svaraði einhverju sem ég sagði með orðunum: þú meinar.

Þetta var reyndar dálítið skrítinn hittingur. Hann flaug nokkuð reglulega í gegnum Helsinki á ferðum sínum um Evrópu, í þetta skiptið til og frá kvikmyndahátíð í Tallinn, og við mæltum okkur alltaf mót. Það hafði staðið til að við hittumst á leið hans til Eistlands, en hann hafði verið í einhverju svefnleysismóki, ekki getað fest svefn á hótelinu fyrr en undir morgun, og sofið svo þangað til það var kominn tími til að fara í ferjuna.

Við náðum þó að hittast á kaffihúsi í aðalbókasafni borgarinnar á leið hans til baka. Það var eftir að hann hafði fengið aðsvifið sem reyndist vera fyrstu merki um að eitthvað væri að heilsunni. Hann vildi meina að hann hefði hrasað, en lýsing hans hljómaði dálítið undarlega, og við ræddum það að hann ætti að líta til læknis þegar hann kæmi heim til Prag, þó hvorugan okkar grunaði að hann væri með krabbamein. Hann virkaði þreyttur á mig, en það gleymdist meðan við samkjöftuðum um heima og geima, hvað við höfðum lesið og horft á nýlega.

Eins og svo oft þá gaf hann mér bók sem hann var nýbúinn að klára, í þetta sinn nýja skáldsögu eftir Brynju Hjálmsdóttur. Við ræddum auðvitað talsvert mikið um titilmöguleika Arsenal á þessu tímabili, sem hann var bjartsýnn á, en ég síður. Svo kom vinur hans og kollegi Harri Römpötti og þeir fóru saman á sýningu á Kristnihaldi undir jökli. Ég þurfti að ná í börnin mín, en sé mikið eftir því að hafa ekki komist með honum á eina kvikmynd í viðbót.

Síðasta verkefnið sem hann setti mér var að finna handa sér galdralækni. Hann þurfti reyndar að biðja mig um tvisvar. Hann nefndi það fyrst strax eftir að hann hafði fengið að heyra að hann væri dauðvona, sem efahyggjumaðurinn ég tók sem gálgahúmor. Í seinna skiptið vorum við að spjalla gegnum Skype, eða eitthvað annað slíkt forrit, og hann var að fara yfir það hverjir væru að taka að sér ýmis verk fyrir hann. Þegar hann var búinn að fara yfir listann, þá spurði ég hvort það væri hlutverk sem ég gæti stigið inn í, þá sagði hann: galdralæknirinn, auðvitað.

Aftur hélt ég að þetta væri gálgahúmor, en þegar ég tók eftir því að hann glotti ekki, sagðist ég myndu finna út úr því. Svo héldum við áfram að spjalla, um hversdagslífið, knattspyrnu, kvikmyndir og bækur. Hann spurði mig um Armeló, sem hann hafði verið að lesa í Prag á spítalanum, en bað mig um að spilla ekki fyrir sér endinum. Næstu daga reyndi ég að finna út úr því hvernig ég ætti að leysa úr því verki sem Ásgeir bað mig um að taka að sér. Ég komst fljótt að því að ég myndi ekki geta gert það einn.

Síðustu vikuna sem Ásgeir lifði var ég að taka þátt í sýningu á hátíð sem Hús textans hér í Helsinki skipuleggur. Ég sá þar tækifæri til að fá skáldskapinn í lið með Ásgeiri. Eftir að ráðfæra mig við fólk sem kann meira fyrir sér en ég, þá bjó ég til galdraferning úr akörnum, og á hvert þeirra hafði ég skrifað einn bókstaf úr finnska orðinu fyrir vélindakrabbi. Ég bað svo finnsk skáld, og annað orðlistafólk, um að einbeita sér að einu akarni í einu, og brjóta það. Ég gerði galdurinn þrisvar sinnum alls, áður en ég vissi að hann hafði ekki virkað. Ég er, í grunninn, efnishyggjusinni, og legg ekki trúnað á galdra, en ég skildi þegar mér var sagt að Ásgeir væri dáinn, að innst inni hafði ég trúað því að það myndi verða kraftaverk.

Daginn fyrir jarðarförina hans sat ég akureyrskum íþróttapöbb, sem var tómur utan mín og japansks ferðalangs sem deildi aðdáun okkar Ásgeirs á Arsenal, og horfði á liðið okkar sigra Manchester City. Hugur minn setti ósjálfrátt saman skilaboð sem ég hefði sent Ásgeir. Ég gladdist yfir því að hefði ég sent þau, væru það allavega ekki fussið og sveiið sem hann fékk svo oft frá mér eftir leiki. Hann kom mér iðulega í opna skjöldu með bjartsýni sinni og trú á liðinu. Ég velti svo fyrir mér hvort hann hefði horft á leiki inni á þessum stað. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði komið til Akureyrar á þessari öld þar sem eitt af mínum fyrstu verkum var ekki að senda honum skilaboð um það. Meðan ég var á Akureyri þá velti ég sífellt fyrir mér hvað hann hefði getað sagt mér um það sem fyrir augu bar.

Við hittumst aldrei fyrir norðan, sem hefði gerst hefði hann lifað í nokkra daga í viðbót, en í staðinn varð ferðin sem var keypt til að heimsækja hann nýtt í að mæta í jarðarförina. Á ferð minni norður fékk ég mörg skilaboð frá fólki sem hafði kynnst Ásgeiri, og var að minnast hans. Eitt af því örfáa sem hefur verið gleðilegt við dauða hans hefur verið að heyra hve eftirminnilegur hann var. Í brúðkaupinu mínu í Helsinki var eitt borðið fyrir fólk sem hafði búið í Prag, og öll þau sem sátu þar muna vel eftir honum og minnast hans með hlýju. Eitt þeirra hafði spurt mig daginn eftir andlát hans hvort ég ætlaði í jarðarförina, sem ég var ekki á þeirri stundu kominn svo langt að hafa velt fyrir mér, og svaraði að fyrst hann mætti í brúðkaupið mitt þá væri það minnsta sem ég gæti gert fyrir hann að mæta í jarðarförina. Allra síðasta verkefnið.

Þegar nánir vinir deyja þá rifnar gat á tilveruna sem hugsanir og tilfinningar leka út um. Ég mun líklega aldrei horfa á Arsenal spila án þess að velta fyrir mér hvað hann hefði að segja um leikinn. Næst þegar ég fer í bíó veit ég að hugur minn mun finna orðin sem ég hefði notað til að tjá honum hvað mér þætti um myndina. Ég hef enn ekki tekið skáldsögu Brynju Hjálmsdóttur úr hillunni, því ég gaf honum alltaf skýrslu um bækurnar sem hann gaf eða lánaði mér, og mun ekki geta lesið hana án þess að skissa hana upp í heilanum. Og ég er enn að bíða með að vita hvað honum finnst um lokapartinn á Armeló. Það er svo margt sem ég var vanur við að spjalla um við hann, sem heldur áfram að vera hluti af hversdagslífinu sem hann hefur yfirgefið.

Útvarpið í bílnum var stillt á Rás eitt þegar ég keyrði inn í Reykjavík daginn eftir jarðarförina. Fyrsta innslag í Lestinni var minning Kristjáns þáttastjórnanda um Ásgeir, og voru spiluð brot úr erindum sem hann hafði flutt, og viðtali vegna ljóðabókar hans Framtíðin. Þar sagði hann eitthvað um ljóðlist sem ég var ósammála, og ég byrjaði ósjálfrátt að rökræða við hann í kollinum, og var enn að því þegar ég lagði bílnum, kominn á áfangastað. Allt í einu skildi ég að hann myndi aldrei svara þessum röksemdum mínum.

Ég hafði svo sem vitað það, en allt í einu kom skilningurinn til mín. Þá heltist yfir mig fáránleikatilfinning, Ásgeir hefði eitthvað haft að segja um kvikmynd eða bók þar sem persóna snýr aftur úr jarðarför og heyrir af tilviljun þann dána tala í útvarpinu sem leiðir til uppljómunar. En ég veit ekki hvað hann hefði sagt um það, því í öll þessi tuttugu og eitthvað ár sem við þekktumst kom hann mér sífellt á óvart. Svo sat ég í bílnum, hlustaði á hann lesa kvæðið sitt um Svartþrastaland, og grét.