Það hefðu líklega fáir búist við því fyrirfram, en öruggasta leiðin til að fá Óskarstilnefningu fyrir árið 2023 var að gera mynd um dúkku að uppgötva veröldina. Dúkku sem er innilokuð í heimi skapara síns, dúkku sem hefur lifað í lygi um eigin tilveru – þangað til hún fer út í heim að sjá veröldina.
Munurinn á Poor Things og Barbie er hins vegar fyrst og fremst sá að Bella Baxter, ólíkt Barbie, lærir í alvörunni eitthvað um heiminn – og heimurinn sem hún uppgötvar er, ólíkt ytri heiminum í Barbie, með alvöru snertifleti við raunveruleikann, þótt vissulega sé þetta stímpönk veröld sem, því miður, aldrei var.
Willem Dafoe leikur Dr. Godwin „God“ Baxter (já, nafnið er vissulega aðeins of), brjálaðan vísindamann náskyldan Victor Frankenstein sem finnur lík konu sem framdi sjálfsmorð með því að kasta sér fram að næstu brú. Hún var ófrísk og hann tekur vitaskuld líkið og setur heila ófædds barnsins í konuna, svona eins og brjálaðir vísindamenn gera. Sem þýðir einfaldlega að Bella er mæðgur, líkami móður með heila dótturinnar. Eða sonarins, ég minnist þess ekki að kyn barnsins hafi verið tekið fram – það væri raunar ekki síður forvitnilegt ef þetta er karlkynshaus í kvenlíkama.
Þetta bíður allt saman upp á forvitnilegar hugleiðingar um tengls hugar og líkama, um sjálfið og aldur þess – og getur sömuleiðis sannarlega verið problematísk; hin bernska kona í fullorðnum líkama. Sú óþægilega ára er vissulega aðeins yfir upphafshluta myndarinnar, þegar Bella er enn að læra að tala og er að mestu innilokuð á setri Godwins. En svo tekur hún einfaldlega völdin í eigin hendur. Finnur sér næsta Casanova og heldur út í heim, til að uppgötva kynlíf og fjarlægar borgir.
Það má eiginlega segja að hlutverki Ken sé skipt á milli tveggja ólíkra persóna hér. Rami Youssef leikur Max, hinn saklausa vonbiðil, og Mark Ruffalo leikur Duncan, kvennabósann sem hrífur Bellu á brott með sér.
En fljótlega fer hún að átta sig betur á því að uppreisnartalið gegn góðborgarasamfélaginu er bara í nösunum á honum og á bara við þegar hentar. Hún sjálf, hafandi aldrei lært góða hirðsiði, reynist hins vegar full af uppreisn, uppreisn sem er einfaldlega ekki búið að berja niður í henni.
Og Emma Stone skapar hér heillandi karakter, sem rétt í fyrstu virðist helst vera ódýr brella, en stækkar svo og dýpkar eftir því sem líður á, og einhvern veginn tekst henni að vera jafn sannfærandi í öllum útgáfum hinnar síbreytilegu Bellu. Þessi ólíklega persóna, ómögulega í raun, reynist prýðilegur ferðafélagi um þennan skrítna og heillandi heim myndarinnar, þar sem hún er að reyna að átta sig á mettíma á þversagnakenndum tilfinningum, óréttlátum heimi og heimsbókmenntunum.
Lissabon draumanna og París minninganna
Það sem kemur kannski mest á óvart er hversu frábær ferðasaga þetta er. London er vissulega sjálfri sér lík, það er að segja lík hinni viktoríönsku London sem við eigum að venjast úr öðrum bíómyndum. En Lissabon, Alexandría og París eru stímpönk útgáfan af þessum borgum, framtíð í fortíðinni sem því miður aldrei varð.

En þetta er líka lunkin sálfræðileg ferðasaga, allavega fyrir okkur sem munum fyrstu alvöru utanlandsferðina sem bláeyg ungmenni, fyrsta Interrailið, þar sem heimurinn kemur sífellt á óvart en veldur líka stöðugt vonbrigðum. Þegar maður skilur fyrst hvernig fegurðin er fólgin í ljótleikanum og harminum, ekki síður en fögrum dómkirkjum. Það hefur líklega engin manneskja í veröldinni upplifað þetta eins og Bella, nema menn séu nú þegar byrjaðir að flytja heila á milli líkama, en hún nær samt merkilega vel þessum hughrifum hins fyrsta alvöru heimshornaflakks. Um það að glata sakleysi, sínu eigin og heimsins.
Já, og þetta er svo fallegur heimur. Að vísu fannst mér misráðið að hafa fyrsta hluta myndarinnar í svart-hvítu, sú myndataka virkar hreinlega verr fyrir efniviðinn, en þessi Lissabon stímpönk draumsins og þessi París minningana eru ægifagrar, svo ekki sé minnst á öll furðudýrin sem ég hefði viljað fá að sjá svo miklu meira af – ég væri alveg til í heila bíómynd bara með þeim.
Merkilegt nokk er það mikið til komið frá höfundi bókarinnar. Alisdair Gray teiknaði ekki bara sjálfur myndirnar – hann var líka fyrst og fremst frægur sem myndlistarmaður þangað til hann gjörbylti skoskum bókmenntum með sinni fyrstu skáldsögu, Lanark, 47 ára að aldri. Það er enn hans frægasta og virtasta bók – og raunar líklega virtasta bókmenntaverk skoskt á 20 öldinni – en Poor Things kom svo áratug síðar og seldist ólíkt betur, og þótti góð endurkoma eftir tilraunakenndari bækur í millitíðinni, sem menn höfðu ansi mismunandi skoðanir á. Glasgow, heimaborg Gray, var iðullega miðpunktur verka hans, og hálfgerð synd að Lanthimos hafi fært upphaf myndarinnar til London, þótt það komi ekki sérstaklega að sök. En annars á ég bækurnar allar ólesnar enn – þannig að ef einhverjir Gray-hundar eru meðal lesenda, endilega kommentið hér fyrir neðan um bækurnar hans.
En aftur að myndinni. Þetta er auðvitað myndin hennar Emmu Stone, en djöfull er samt Mark Ruffalo yndislegur í hlutverki kvennabósans Duncans, sjarmerandi og brjóstumkennanlegur til skiptis – gjörólíkur öllu öðru sem maður hefur séð Ruffalo í, en það einhvern veginn virkar. Og kæra Hollywood, framleiðið nú fleiri myndir með Ruffalo í aðalhutverki, þetta er einn besti leikari draumafabrikkunar (horfið bara á You Can Count on Me ef þið efist) og á skilið hlutverk í takt við það. Brjálaði vísindamaðurinn fær svo óvæntar vendingar í meðförum Dafoe, sem og baksögu sem væri alveg efni í sína eigin mynd. Ramy Youssef hefði hins vegar alveg átt skilið bitastæðara hlutverk, vonbiðillinn er óttalega hefðbundinn karakter, en á móti kom að það var ekkert minna en yndislegt að hitta sjálfa Hönnu Schygula fyrir á bátnum, jafn yndislega fyndin og sjarmerandi og alltaf, áttræð sálusystir hinnar bernsku Bellu.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson