Það eru hörmulegar fréttir að Ásgeir H Ingólfsson sé látinn úr krabbameini, langt fyrir aldur fram. Svo ótímabært og óréttlátt. Að sama skapi er þó fallegt hvernig hann kaus að mæta síðustu dögum sínum, með Lífskviðu, samkomu vina þar sem listinni, vináttunni og lífinu skyldi fagnað.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast Ásgeiri, og féll alltaf ákaflega vel við hann, enda var hann miklum mannkostum búinn. Hann var eldklár, fróður og áhugaverður, skemmtilegur og mesti öðlingur. Hann var listaspíra og heimsborgari í besta skilningi, húmoristi og mannvinur, frábær penni, skarpur greinandi, með sterka félagshyggju og réttlætiskennd og brann fyrir menningu og listir. Íslenskt lista- og menningarlíf hefur nú misst einn sinn besta og ötulasta penna, skarpasta greinanda og helsta málsvara. Fjölskylda hans og vinir hafa misst góðan dreng.
Mér þótti vænt um Ásgeir og mun sakna skrifanna hans, að hitta hann á förnum vegi og að spjalla við hann um daginn og veginn á netinu.
Takk fyrir vinskapinn, Ásgeir.
Fjölskyldu Ásgeirs og vinum votta ég mína innilegustu samúð. Blessuð sé minning Ásgeirs H. Ingólfssonar. ![]()