Smygl og flandur í barbaríinu / / Ásgeir H Ingólfsson smyglar

Af öðrum vettvangi, Blaðamennska, Kritík - Helgarblað

Byltingin myndar börnin sín

Myndafrásögn eftir Francesco Alesi

Myndafrásögn eftir Francesco Alesi

Hvað gerir fólkið þegar fjölmiðlar bregðast? Það segir söguna sjálft. Þetta hefur lýst sér á margvíslegan hátt í gegnum aldirnar. Fólk hefur ávallt hvíslað sín á milli og skipst á sögum, í Austur-Evrópu kommúnismans var handritum umdeildra verka smyglað á milli landa og núna höfum við internetið, stafrænar myndavélar og myndavélasíma. Þegar ljósmyndarar dagblaðanna halda sig heima eða eru ekki nógu fljótir á staðinn tekur almenningur við.

Sprenging, myndavélasími stendur upp úr reykjarmekkinum. Stúlka notar aðra hendina til þess að halda trefli fyrir vitum sér (táragas?) og hina til þess að taka mynd. Gamall maður heldur á nýrri myndavél. Og á móti öllu þessu fólki hlaupa brynvarðir lögreglumenn í tuga- ef ekki hundraðatali. Þessu tók Fransesco Alesi myndir af í Róm á þriðjudag. Alesi er atvinnuljósmyndari en honum fannst tímabært að taka myndir af fólkinu sem skrásetur söguna þegar hinir formlegu sagnaritarar eru ekki lengur til staðar eða komnir í vinnu hjá valdinu, en það er vitaskuld ein af rótum þessara mótmæla – Ítalir eru að upplifa á eigin skinni hvað gerist þegar stærsti fjölmiðlamógúllinn verður forsætisráðherra – og hefur þar með stjórn á ríkisfjölmiðlunum til viðbótar við sína eigin – og þá er fátt eftir.

Berlusconi varðist naumlega vantrausti í þinginu þennan dag og óánægjan vex dag frá degi, rétt eins og sorpfjöllin sem hann virðist seint ætla að koma böndum á. Hann hefur ítrekað verið dæmdur fyrir fjármálamisferli og spillingu og fréttir um kaup á vændiskonum hafa veikt stöðu hans – og þetta tvennt saman varð að slagorði í munnum mótmælenda: „Þú hefur keypt atkvæði eins og þú kaupir þér konur!“

Það var ekki bara barist heldur var líka dansað – fréttir bárust af því að Berlusconi hefði tapað og þá var dansað og faðmast. En svo komu staðfestar lokatölur og augnablikssigur varð að tapi – þótt stjórnmálaskýrendur telji margir að sú staðreynd að einungis munaði þremur atkvæðum séu vísbending um að stuðningur við Berlusconi á þinginu sé of lítill til þess að hann geti starfað sem forsætisráðherra mikið lengur.

Borgarablaðamennska

En þessar myndir segja sem fyrr segir ekki sögu Berlusconi heldur sögur af mótmælum sem almenningur skrásetti, hver með sínu nefi. Slík borgarablaðamennska (e. citizen journalism) hefur verið að ryðja sér rúms með betri tækni og aukinni tækjaeign, það er nóg að vera nettengdur til þess að geta twittað og Facebookað fréttir til hundruða vina og það er nóg að eiga sæmilega góðan myndavélasíma til þess að vera á undan stóru fréttamiðlunum með myndina sem skiptir öllu máli.

Gott dæmi eru mótmæli í Moldóvu í apríl 2009. Það var ýmist talað um Vínviðarbyltinguna eða Twitter-byltinguna í vestrænum miðlum, enda var máttur samskiptasíðna svo mikill í þessu fátækasta landi Evrópu að stjórnvöld sáu sér þann kost vænstan að loka fyrir sjálft internetið. Það dugði þó ekki til að fela fortíðina og tenglar á vídjó, myndir og aðra linka af mótmælunum voru enn uppi og sögðu manni ýmislegt um ástandið, þótt flest væri á rúmensku. Fyrr þennan sama vetur höfðum við gert okkar Búsáhaldabyltingu og þótt hún hafi verið kennd við potta og pönnur þá var hlutur internetsins þar ekki síðri, ófáar aðgerðir voru auglýstar fyrst (og sumar bara) á Facebook og tjáningarþörfin sem gömlu miðlarnir, laskaðir af uppsögnum og lamaðir gagnvart nýrri heimsmynd, gátu ekki annað fann sér hinn fjölbreyttasta farveg á netinu.

Besta dæmið er þó líklega heimildamyndin Burma VJ, þar sem nafnlausir ljósmyndarar og myndatökumenn hætta frelsi sínu og jafnvel lífi til þess að ná myndum sem er harðbannað að taka. Það þarf þó ekki að fara alla leið til Búrma til að finna dæmi um slíka þöggun, hina umdeildu netsíðu Wikileaks mætti til dæmis vel kalla borgarablaðamennsku (þótt einstaka menn séu þar í vinnu) og þar mega menn óttast um bæði líf sitt og frelsi ef marka má hótanir bæði stjórnmálamanna og öfgasamtaka.

Borgarablaðamennska er oft viðbragð við sárri neyð – hún leysir hefðbundna blaðamennsku ekki af hólmi og á í raun alls ekki að vera ógn við hana, heldur frekar samstarfsgrundvöllur. Samstarfsgrundvöllur þar sem borgararnir hjálpa blaðamönnum við efnisöflun – því hversu vel meinandi sem blaðamenn kunna að vera geta þeir ekki verið alls staðar í veröldinni einmitt þegar eitthvað fréttnæmt gerist – um leið og þeir veita fjölmiðlum dýrmætt aðhald. Ef fjölmiðlar reyna að ljúga að fólki fá þeir sannleikann í hausinn, beint úr síma Rómverja sem var á staðnum. Það þarf enn fjölmiðla til þess að setja fréttirnar í samhengi, en þeir tímar sem fjölmiðlar ákváðu einhliða hvað væri fréttnæmt og hvað ekki væri hægt og rólega að líða undir lok. Núna hefur almenningur dýrmætt tækifæri til þess að taka þátt, tækifæri til að hafa eitthvað að segja um þær sögur sem eru sagðar af hans eigin samfélagi. Það er samvinnuverkefni okkar allra, til þess þurfum við öll að vera með augun opin – og smella af.