Hann horfir sorgmæddum augum á líkin. Hann grípur í bílbeltið um leið og sálin hættir við að yfirgefa líkamann. Hann horfir hissa og örvæntingarfullur á blóðsletturnar þar sem örstuttu áður stóðu tvær ungar stúlkur. Undir listrænum tökunum hljóma angurværir tónar nýjasta indíbandsins.

Þetta er ekki lýsing á einni auglýsingu heldur þremur sem allar voru á undan bíómynd sem ég sá forsýnda nýlega. Og þótt skelfilega margir deyi í umferðinni ár hvert og myndböndin hafi flest verið haganlega gerð og boðskapurinn virst mikilvægur gat ég ekki annað en hugsað: Af hverju? Af hverju eru ekki auglýsingar gegn öðrum dauðdögum og slysum sem koma má í veg fyrir? Eru bílslys eina tækifæri íslenskra auglýsingaleikstjóra til þess að veita listamanninum í sér útrás? Eða getur verið að þetta snúist minna um forvarnargildi og meira um það hvað við séum upptekin af skrjóðunum okkar?

Svo byrjaði myndin, Death Proof , sem að stórum hluta er hreint bílaklám. Lykilpersónurnar eru þrír áhættuleikarar, tvær stúlkur sem hafa gaman að því að hætta lífi sínu með bílakúnstum og Stuntman Mike, gamall áhættuleikari sem hefur gaman að því að taka líf ungra stúlkna með dauðhelda bílnum sínum, en af honum fær myndin nafn sitt. Leikstjóri myndarinnar, Quentin Tarantino, er fullkomlega meðvitaður um hversu klámfengnar bílasenurnar eru. Um miðja mynd kemur til sögunnar lögreglustjóri sem virðist hafa þann tilgang einan að koma með þá kenningu að nýskeð bílslys – sem hann einn áttar sig á að hafi verið kaldrifjað fjöldamorð – hafi verið kynlífsathöfn, eina leið hins aldna ökuþórs Stuntman Mike til þess að fá fullnægingu með því að myrða hóp ungra stúlkna á einu og sama augnablikinu. Flottur bíll er ekki lengur leiðin til þess að ná í stelpu, hann er takmark í sjálfu sér, eina leið Bandaríkjamanna með lítið undir sér til að öðlast karlmennsku sína á ný.

Um það leyti sem ég sat inni í myrkvuðum bíósalnum gerðist svo sá fáheyrði atburður að á götum Reykjavíkur var hópur fólks að ganga. Það var víst að mótmæla einhverju en það var algert aukaatriði –það var fyrir bílunum! Vitaskuld var lögreglan fljót á staðinn til þess að hafa hendur í hári glæpamannanna, sú lagaklausa sem fólk nefndi aðgerðunum til varnar var oftast þessi: “Lögreglu er heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu [… til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings […]”

Hér virðast borgararnir ennþá vera borgarar en einstaklingar sem og almenningur virðast vera orðnir að bifreiðum. Bílarnir eru rétthæstu einstaklingar þjóðarinnar, um þá snúast morgunþættir útvarpsstöðvanna, auglýsingar snúast flestar um að lofa fegurð þeirra á milli þess sem þær vara við hversu undirförul flögð þeir séu. Á meðan verja borgarfulltrúar vont strætókerfi með því að fullyrða að borgarbúar hafi valið einkabílinn.

Jafnvel þeir sem eru sammála málstað mótmælendanna fordæma aðferðir þeirra, og á meðan ég skil að háværir prestar fari í taugarnar á launheiðinni þjóðinni þykir mér merkilegra hversu snögg hún er að fordæma allar aðfarir gegn bílunum, sömu bílum og menga umhverfi borgara Reykjavíkur af engu minna kappi en álver menga Austurland.

Og gangandi heim úr bíóinu gat ég skilið hvernig hægt var að elska bíla, átti erfiðara með að skilja hvernig hægt væri að hafa þá að blæti og gat engan veginn skilið hvernig hægt væri að dýrka þá og tilbiðja svona takmarkalaust. Svo leit ég í kringum mig og sá að ég var eini maðurinn úti að ganga.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Birtist upphaflega í Morgunblaðinu 26. júlí 2007.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson