Heimurinn er ömurlegur staður, fullur af illsku. Þetta er ekki bara niðurstaða demantasala nokkurs í Before the Devil Knows Your Dead heldur flestra þeirra bíómynda sem frumsýndar hafa verið hérlendis undanfarnar vikur. Daniel Day-Lewis fékk Óskar fyrir hlutverk Daniels Plainview, olíubaróns sem hefur þetta að segja um mannkynið: „Ég lít á fólk og sé ekkert sem mér líkar.“ Hans helsti keppinautur var líklega Johnny Depp sem djöflarakarinn Sweeney Todd, sem söng svo fallega um London að hún væri full af fólki sem væri fullt af skít. Besta myndin á hátíðinni var svo No Country for Old Men þar sem allar aðalpersónurnar (sem og áhorfendur) eru allan tímann innst inni sannfærðar um að illskan muni hafa sigur að lokum, skúrkurinn er einfaldlega óstöðvandi. Bíógestir öðluðust máski smávon þegar Friðþægingin breska virtist ætla að enda vel, en svo kom í ljós að endirinn góði var hvít lygi, örlítil hvíld frá hinni óumflýjanlegu illsku.

Dökkar bíómyndir og ofbeldisfullar eru vissulega ekkert nýtt en það var ekki algengt – fyrr en núna – að heimsósóminn sé keyrður svona algerlega í botn. Að Atonement undanskilinni er hvergi að finna neina hetju, ekki einu sinni andhetju, í þessum myndum. Hvað þá von. Líklega er vonbesta myndin í bíóhúsum þessa dagana Into the Wild, en jafnvel þar er aðalpersónan svo úrkula vonar um samfélag mannanna að hann segir sig úr lögum við það samfélag og bíður dauðans í óbyggðum Alaska.

Er þetta tilviljun eða er þetta raunverulega stemningin í Vesturheimi eftir átta ár með Bush yngri í Hvíta húsinu? Ég notaði tækifærið þegar ég tók viðtal við bandaríska hljóðmanninn Mark Berger, fjórfaldan Óskarsverðlaunahafa með 150 myndir á ferilskránni, og spurði hann um stemninguna vestra. Hann staðfesti grun minn.

„Andrúmsloftið er lævi blandið, kaldranalegt. Flestir geta ekki beðið eftir næstu kosningum, fólk er sárt og reitt vegna þess að því finnst orðspor þjóðarinnar vera í rúst, trúin á efnahaginn og stjórnvöld er engin og á öfugsnúinn hátt eru bíómyndirnar að birta okkur síðustu daga heimsveldis. Bandaríkjamenn hafa misst trúna á eigið siðferði, enda horfa þeir upp á ríkisstjórn sem gerir okkur ekkert betri en Sómalíu eða eitthvert annað einræðisríki þriðja heimsins.“

Og Berger er ekki í vafa um hver sé hinn raunverulegi skúrkur. „Ástæðan fyrir því að Bush og Saddam voru svona nánir var að þeir skildu hvor annan. Bush var að miklu leyti eins og Saddam, hann starfaði eins og hann, hann hefur breytt landinu í eigin leikvöll þar sem hann myndi stjórna til æviloka ef hann gæti. Það grunaði engan hversu hratt Bandaríkin gætu breyst úr því að vera táknmynd vonar, frelsis, lýðræðis og málfrelsis í heiminum, í það að vera hrein andstæða þessara gilda.“

Hann segir endalok There Will Be Blood til merkis um það hvernig fólki líður í þessu hrynjandi heimsveldi: „Daniel Plainview er forríkur en algjörlega eyðilagður sem manneskja, hol skel án nokkurra siðferðisgilda eða lífsgleði, býr í risastóri glæsivillu sem gerir ekkert nema einangra hann enn meir.“

Og nýkrýnd besta mynd ársins, No Country for Old Men, fjallar um veröld þar sem fulltrúi laganna hefur játað sig sigraðan. Tommy Lee Jones leikur velviljaðan lögreglumann sem hefur litla trú á að réttlætið sigri í lokin og sú trú minnkar bara þegar á myndina líður. Hann skilur ekki lengur þessa illsku, hann er orðinn þreyttur á henni. „Rétt eins og þjóðin er orðin of þreytt til þess að kljást við glæpamanninn sem situr í Hvíta húsinu og á líklega eftir að komast upp með sína glæpi.“ Hinn 63 ára Berger segir þetta sannarlega ekki vera land fyrir gamla menn.

„Það þarf orku, dugnað og kæruleysi æskunnar til þess að æða áfram og breyta hlutunum, þeir gömlu hafa séð of margt og upplifað of margt. En því miður vantar einmitt það í myndina.“

Þessi ungmenni finnast ekki í bíói þessa dagana en er enn nógu margt ungt fólk í áhorfendaskaranum sem er tilbúið til þess að breyta hlutunum? Eða munu skúrkarnir halda áfram að komast upp með sín fólskuverk á meðan við dæsum einu sinni enn og bætum enn einni hrukkunni í safnið.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 27. febrúar 2008.