Einu sinni bloggaði ég. Gott ef við gerðum það ekki flest hérna í gamla daga, þið vitið, fyrir Facebook og Moggabloggið. Síðan hætti ég – hálfnaður með óskrifaða ferðasögu sem verður vonandi kláruð einhvern tímann. Það var hérna, á kommúnu sem síðan leystist upp. Fólk flutti annað.

Ég flutti á Moggann (áður en hann skrímslaði yfir sig), þaðan á Smuguna, Kistuna, Tregawöttin tíuþúsund og Land og syni. Ekki samt í þessari röð. En það er fortíðin. Akkúrat núna er ég heimilislaus og var orðið kalt. Þannig að þetta er skúr til þess að bíða af sér storminn. Kannski byggi ég hann upp, bæti við herbergjum og bíð öðrum að gista. Kannski flyt ég annað (halló elsku Krítík!)

En samt, þetta er ekki skúr – því þá gæti hann ekki flotið út í heim. Þetta er sjóræningjaskútan mín (ég er sko að horfa á Pirates-seríuna aftur til að hita upp fyrir fjórðu myndina) og í henni er ætlunin að smygla orðum, hugsunum og menningu yfir landamæri. Kannski gleymi ég (og þið, mögulegu lesendur) skútunni við höfnina og hún kemst ekkert. En hún er þó að minnsta kosti til og ekki sokkinn á meðan einhver getur enn lesið það sem stendur akkúrat hér.