ÍslenskMenningarpólitíkÁður en ég birti þessa færslu gúglaðist þetta orð bara einu sinni. Það var í rafrænni útgáfu af bók sem ég ritstýrði, Íslenskri menningarpólitík eftir Bjarka Valtýsson. Orðið þýðir einfaldlega sú aðferð sem á „að vernda listrænt frelsi fyrir kerfiseindum samfélagsins. Pólitískar nefndir og ráð ákveða því fjárhagslegan ramma og heildarmarkmið en nefndir, skipaðar atvinnumönnum í greininni, hagsmunasamtökum og öðrum sérfræðingum, taka endanlega ákvörðun um úthlutanir á forsendum gæða og virkni listamanna og menningarstofnana.“ (bls. 61)

En það er áhyggjuefni að þetta orð sé Íslendingum ekki tamara en raun ber vitni – og ég kannast ekki við að hafa heyrt neitt annað orð á íslensku svipaðrar merkingar. Vegna þess að þetta prinsipp skiptir afskaplega miklu máli í alvöru lýðræðisþjóðfélagi. Alvöru lýðræðisþjóðfélag er vel að merkja ekki þjóðfélag þar sem pólitíkusar fá alræðisvald í fjögur ár ef þeir fá nógu mörg atkvæði til að mynda ríkisstjórn. Alvöru lýðræðisþjóðfélag fúnkerar þannig að þú getur hneygst til hægri  eða vinstri eða miðju eða  ská og samt fengið vinnu hjá RÚV, fengið listamannalaun, prófessorsstöðu, vinnu í ráðuneyti, kennslustöðu eða hvaða starf annað sem þú sækir um, a.m.k. hjá ríkinu, svo framarlega sem þú ert hæfasti umsækjandinn.

Þetta skiptir öllu máli ef við ætlum að búa hérna til almennilegt verðleikasamfélag, því ef rétt flokkskírteini halda áfram að verða ávísun á bitlinga og rangt flokkskírteini verður dragbítur þá verður lítið um fagmennsku (Það versta er raunar að stundum virðist jafnvel verst að vera án flokkskírteinis, því stundum er eins og mönnum finnist best að ráða augljósan andstæðing til þess að gefa ásjónu hlutleysis).

Þess vegna er mikið áhyggjuefni þegar menntamálaráðherra vill færa völdin yfir RÚV nær Alþingi og hann notar einmitt lýðræðið sem rök í þeim efnum og segir að það sé ólýðræðisleg aðferð að Alþingi fái ekki að kjósa í stjórn RÚV. Með sömu rökum má halda því fram að allar ákvarðanir hjá ríkisfyrirtækjum sem Alþingi er ekki með puttana í séu ólýðræðislegar. Það þýðir að þegar ég fer að leita mér að vinnu um áramótin þá er væntanlega öruggast að eyða öllum vinstri sinnuðum vinum á Facebook og eyða öllum bloggfærslum og Facebook-statusum sem gætu mögulega gefið til kynna vinstrivillu. Svona svo ég sé ekki búin að afskrifa störf hjá ríkinu fyrirfram.

Auðvitað er þetta síðasta paragraf ýkt. En það hefur alveg verið vísir að þessu hugarfari á Íslandi stundum – og maður þarf ekki að vera vel að sér í alræðisríkjum heimsins til þess að vita að svona hugsunarháttur getur verið skrambi fljótur að skjóta rótum.

Það er afskaplega mikilvægt að RÚV hafi sem allra mest sjálfstæði frá Alþingi og ríkisstjórn – einfaldlega af því það er meðal annars hlutverk stofnunarinnar að veita þeim aðhald. Það er ekki óeðlilegt að Alþingi ákveði fjárútlát til RÚV í gegnum fjárlög, en það þarf hins vegar að halda því sem allra lengst frá mannaráðningum. Aðeins þannig fáum við virkt og krítískt alvörulýðræði. Ekki lýðræði sem ætíð verður á forsendum þeirra flokka sem nú þegar eru við völd, því það er lýðræði þar sem lýðurinn verður  aðeins peð í höndum flokkana sem hann kaus.

Andri Snær og samkynhneigði prófessorinn

En það er ekki nóg að koma í veg fyrir þetta skaðræðisfrumvarp sem Illugi Gunnarsson leggur fram, það þarf að auka vægi seilingarfjarlægðarlögmálsins á miklu fleiri stöðum hjá ríkisstofnunum. Vinstri stjórnin hefði raunar mátt gera miklu betur í þeim efnum – ég minnist þess til dæmis alveg að hafa heyrt sömu lýðræðisrökin hjá innanbúðarmanneskju í VG þegar síðast var skipað í útvarpsráð og sumir gagnrýndu pólitískar áherslur þar.

En svo er líka ágæt æfing að íhuga hvernig þetta myndi virka ef seilingarfjarlægðarlögmálið yrði fjarlægt þar sem við erum farin að venjast því (enda var ekki ennþá búið að framfylgja nýrri lagagrein um ópólitískara útvarpsráð). Prófum að leyfa Alþingi að ákveða Listamannalaun – þá hefði Draumalandið getað kostað Andra Snæ framtíðarritlaun – og það er einmitt til marks um að það kerfi virkar vel að höfundar sem skrifuðu jafnvel beint gegn þáverandi ríkisstjórn var ekki refsað í gegnum slíkar úthlutanir. Vissulega hafa úthlutanir Listamannalauna ekki verið óumdeildar (og ég hef sjálfur gagnrýnt þær stundum), en ég minnist þó ekki alvöru gagnrýni á að þær úthlutanir hafi verið pólitískar.

PutnaSvo má líka bara rifja upp nýlegt hneyksli í Tékklandi. Þar þarf forsetinn að skrifa undir lista yfir tilnefnda prófessora – eitthvað sem hingað til hefur verið álíka málamyndagjörningur og málsskotsréttur forseta okkar var fyrir tíð Ólafs Ragnars. En svo ákvað Miloš Zeman að neita að skrifa undir að veita Martin C. Putna prófessorstöðu, þrátt fyrir að hann hefði gengið í gegnum strangt akademískt ferli þar af lútandi. Ástæðan? Putna er samkynhneigður og hélt á umdeildu skilti á Gay Pride göngu í Prag árið 2011. Sem betur fer fékk Putna stuðning frá öðrum prófessorsefnum, sem margir neituðu að mæta á athöfnina þar sem þeim var formlega veitt nafnbótin, og mótmælin við ákvörðun forsetans varð loksins til þess að Putna verður prófessor eftir allt saman – en Zeman neitar þó eftir sem áður að taka í höndina á honum, ef svo ólíklega vildi til að Putna hafi mikinn áhuga á því. En þetta breytir því ekki að þetta gæti auðveldlega fælt tékkneska menntamenn frá því að storka valdinu í framtíðinni, enda þegar búið að veikja töluvert akademískt sjálfstæði þeirra.

En þetta sýnir líka hvað getur gerst þegar andstæðingar vondra stjórnvaldsákvarðanna standa saman. Ég ætla að vona að við getum staðið saman við að forða RÚV frá þessu vonda frumvarpi – og getum í kjölfarið komið sem flestum störfum á vegum ríkisins, sem ekki eru í eðli sínu flokkspólitísk, í örugga seilingarfjarlægð frá stjórnsömum ráðherrum.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson