Þetta byrjar alltaf á appelsínugula pardusnum.
Ég veit ekki hvort hann er skyldur þeim bleika, það eina sem ég veit er að hann er í skottinu á svörtum bíl þegar tveir vopnaðir ribbaldar koma og skjóta hann í tætlur. Í kjölfarið koma skýr skilaboð: Vinsamlegast slökkvið á farsímanum. Velkomin á kvikmyndahátíðina í Karlovy Vary.
Einhverjir hlustendur þekkja þessa tékknesku borg sjálfsagt betur undir þýska nafninu Carlsbad. Borgin er fræg fyrir heilsulindir sínar og dregur helst til sín rússneska túrista þessi misserin.
En í eina sumarviku á ári hverju þá taka bíónördarnir bæinn yfir. Bransalið, bíóstjörnur og blaðamenn sem og ótal bíóþyrst tékknesk ungmenni. Það er skemmtileg útihátíðarstemmning yfir öllu, grillað á torgum langt fram á nótt og hestavagnar og hjólataxar veita hefðbundnari samgöngutækjum verðuga samkeppni. Þetta er frægasta kvikmyndahátíð gömlu Austur-Evrópu og verðlaunagripur hátíðarinnar er krystalshnöttur, sem nú í seinni tíð er haldið á lofti af nakinni konu.
Á hverju ári er svo frumsýnd ný stuttmynd þar sem hnötturinn leikur á móti heiðursverðlaunahafa síðasta árs, þessar stuttmyndir eru svo sýndar strax á eftir appelsínugula pardusnum. Ég er búin að sjá krystalshnöttinn hrella Helen Mirren, ég hef séð Danny DeVito nota hann til að slökkva á símanum sínum á meðan Milos Forman notar hann til þess að bryðja pillurnar sínar.
Heiðursverðlaunahafi þessa árs var hins vegar John Travolta. Það borga sig ekki margir inná myndirnar hans þessi misserin en það breytir engu um það að kallinn er enn bíóstjarna fram í fingurgóma. Hann flutti stutta ræðu fyrir frumsýninguna á Killing Season og tók vitaskuld fram að hann elskaði okkur öll. Salurinn endurgalt ástina enda skrúfaði Travolta frá sjarmanum – mann langaði helst að fara upp á svið og knúsa hann.
Mig langaði meira að segja ennþá að knúsa hann eftir myndina, þótt hún hafi verið langversta myndin á hátíðinni hingað til. Travolta sjálfur er með skelfilegan serbneskan hreim og fáránlega hárgreiðslu, þegar maður er kominn yfir það er hann svosem ágætur, og Robert De Niro skilar sínu vel – en leikstjórinn Mark Steven Johnson er hins vegar með öllu ófær um flest þau fínni blæbrigði sem þarf til að búa til góða bíómynd.
En tölum frekar um góðu myndirnar, það er nóg af þeim.
Tvær bestu myndirnar sem ég hef séð til þessa eiga það sameiginlegt að vera svart-hvítar og heita eftir mergjuðum konum. Báðar eru listakonur, báðar eru þjakaðar af efasemdum um eigin ágæti en búa um leið yfir óbrjótandi lífskrafti sem allt yfirvinnur að lokum. Munurinn er hins vegar sá að önnur er millistéttarstelpa í Brooklyn og hin er pólsk sígaunakona.
Við skulum byrja í Brooklyn. Þar býr dansarinn Frances Ha, sem er í sífelldu harki, ýmist við að redda sér vinnu eða redda sér nýju leiguhúsnæði. Sumsé ósköp dæmigerð 27 ára stelpa á Vesturlöndum. En Frances er samt svo miklu meira, hún er einn af þessum göldróttu karakterum sem tendra upp heilu bíómyndirnar upp á sitt einsdæmi með rafmögnuðum persónuleikanum, mér dettur helst í hug að bera hana saman við Amelie eða Lisbeth Salander – en rétt eins og þær er Frances þó algjörlega einstök og gæti vel gert aðalleikkonuna Gretu Gerwig að stjörnu.
En um hvað fjallar myndin, annað en hark og dans? Hún fjallar vissulega um að finna sjálfa sig, uppgötva hvað maður getur – en fyrst og fremst fjallar hún um vináttuna. Hugtakið brómans hefur verið notuð töluvert undanfarin ár um platónskar ástarsögur tveggja karlkyns leikara, hér er komin kvenkynsútgáfan af þeirri kvikmyndagrein þótt enn vanti gott nafn.
Eitt stuðaði mig þó við myndina. Þegar kreditlistinn rann upp þá ætlaði ég að sjá hver lék Sophie, vinkonu Francesar, en þótt þetta væri næststærsta hlutverkið leið langur tími áður en það kom annað kvenmannsnafn en Greta Gerwig í leikaralistanum.
En þegar ég komst í netsamband áttaði ég mig á mistökum mínum. Mickey er nefnilega kvenmannsnafn, að minnsta kosti heima hjá söngvaranum Sting, en það er dóttir hans Mickey Sumner sem fer með hlutverk Sophie.
En færum okkur frá Brooklyn til Póllands. Þar bjó ljóðskáldið Papusza á síðustu öld og var eitt þekktasta sígaunaskáld allra tíma. Við fylgjumst með Papuszu og sígaunahópnum sem hún tilheyrir í róti tuttugustu aldarinnar og myndin, sem heitir eftir aðalpersónunni, stekkur fram og til baka í tíma. Þetta er veröld sem var, sígaunar í litríkum klæðum og búsettir í hjólhýsum – ólíkt afkomendum þeirra sem hýrast flestir í illa kyntum blokkaríbúðum og ganga í notuðum lörfum af gadjeum.
Gadje, það erum við. Hinir. Þeir sem eru ekki sígaunar. Jerzy Ficowski var pólskur gadje sem dvelur um skeið meðal sígaunanna og það er hann sem uppgötvaði Papuszu, sem fram af því hafði ort á laun.
Sígaunarnir eru flestir tortryggnir yfir öllum þessum skrifum og þegar einn þeirra spyr Ficowski af hverju hann yrki ljóð þá svarar hann: „Til þess að muna á morgun hvernig mér leið í dag.“ Þetta þykir sígaunanum hins vegar kyndugt og svarar á móti: „Á okkar máli notum við sama orð yfir daginn í dag og morgundaginn.“
Þetta verður helsta ástæða skrifa bæði Ficowski og Papuszu, bæði vilja hjálpa sígaununum að muna. En þegar ljóðin færa svo Papuszu óvænta frægð þá bregst sígaunahópurinn vægast sagt illa við, telja Papuszu svikara sem hafi sagt gadjeunum öll þeirra leyndarmál og hún verður að lokum útlæg gerð úr eigin samfélagi.
Þetta er mögnuð saga og ægifögur bíómynd, hin horfni heimur flökkusígaunanna hefur sjaldan birst manni jafn ljóslifandi. En þegar maður kemur heim og forvitnast aðeins betur um þessa sönnu sögu eyðileggur internetið vissulega ýmislegt fyrir manni.
Það er nefnilega töluverð einföldun í myndinni að bannfæring Papuszu hafi snúist um ímugust sígaunanna á hinu ritaða orði. Upp úr miðjum sjötta áratugnum sögðu kommúnistastjórnvöld í Póllandi nefnilega flökkulífi sígauna stríð á hendur og neyddu þá til þess að setjast að í hefðbundnum húsum og fá sér hefðbundna vinnu – og nágrannalöndin fylgdu í kjölfarið. Þar með voru aldagömlum lífsháttum í raun rústað í einni svipan.
Og áðurnefndur Ficowski var einn helsti talsmaður þessara laga, og notaði ósjaldan ljóð Papuszu til þess að styðja málstað sinn. Þetta var hin raunverulega ástæða bannfæringarinnar, þótt rétt sé að halda því til haga að Papusza sagði að Ficowski hefði tekið textana sína úr samhengi.
En höldum okkur við kvenhetjur og bregðum okkur til Kína. Þaðan kemur Stórmeistarinn eftir kvikmyndameistarann Wong Kar-Wei. Þetta er líklega listrænasta kung-fú mynd sem sést hefur og fjallar um bardagameistarana sem réðu ríkjum sitt hvorum megin við seinni heimstyrjöldina. Þetta er mynd um mennina sem Bruce Lee leit upp til.
En satt best að segja náði ég ekki almennilega að lifa mig inní innbyrðis pólitík kung-fú meistaranna framan af. En um miðbikið breytist fókusinn og Gong Er, dóttir fallins stórmeistara, tekur að sér aðalhlutverkið. Og reynist ósigrandi kúng-fú meistari. Þessi einmana kona í karlaheimi er frábærlega túlkuð af Zhang Ziyi, sem sló svo eftirminnilega í gegn fyrir áratug síðan í annarri listrænni slagsmálamynd sem þið kannist kannski við, Krjúpandi tígur, dreki í leynum.
En höldum nú aftur heim til Íslands. Fyrir tveimur árum var þar frumsýnd prýðileg bíómynd um vegavinnu á Vestfjörðum, Á annan veg. Ég sá hana um frumsýningarhelgina í Háskólabíó og var einn í salnum. En myndin spurðist vel út og tveimur árum síðar var ég staddur í troðfullum sal hér í Tékklandi að horfa á amerísku endurgerðina, Prince Avalanche.
Þar eru vegavinnumennirnir komnir til Texas og torræður titillinn, Snjóflóðaprinsinn, eina tengingin við Vestfirði. Á tökustað í Texas höfðu hins vegar geisað skógareldar stuttu áður sem gefur myndinni afskaplega sérstætt útlit, og ekki sakar að á köflum daðrar myndavélin við náttúruna á ekki ósvipaðan hátt og í myndum meistara Terence Malick.
Ef Terence Malick myndi leikstýra brómans gæti niðurstaðan orðið eitthvað í líkingu við þessa mynd. Ein helsta stjarna brómansanna er Paul Rudd og hann fer með aðalhlutverkið hér á móti Emile Hirsch.
Leikstjórinn David Gordon Green fylgir um margt íslensku frummyndinni en nær þó að glæða söguna sjálfstæðu lífi. Persónugalleríið er líka aðeins fjölbreyttara þó karakterarnir séu jafn margir, dularfulla konan fær nefnilega stærra og bitastæðara hlutverk í endurgerðinni. Þá ljær brunnið Texas-skóglendið myndinni framandleika sem við Íslendingar upplifum síður við að horfa á Vestfirðina, en á móti kemur að eitís-nostalgía þessarar myndar er manni öllu meira framandi en sú íslenska.
En nú er tíminn á þrotum og ég á ennþá eftir að segja ykkur frá ótal merkilegum bíómyndum. Þá er íslenska sendinefndin nýmætt í bæinn með XL í leikstjórn Marteins Þórssonar. Ég veit ekki ennþá hvernig sú djöflamessa alkóhólistaþingmannsins Leifs gengur í Tékkana, en ég get vonandi sagt ykkur betur frá því í næstu viku.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Útvarpspistill fyrir RÚV – upptöku má finna hér