Kæra ritstjórn hjá visir.is!
Þú hvattir lesendur til þess að senda ykkur ábendingar um vafasamt námsefni í íslensku skólakerfi í tengslum við frétt um vafasama myndasögu Hugleiks Dagssonar sem ku notuð í kennslu, en fréttin bar þá smellvænu fyrirsögn: „Ef aðili skuldar þá er sjálfsvíg besta lausnin.“
Mér er ljúft og skylt að verða við þessari bón, enda starfaði ég á síðasta ári við afleysingar í Menntaskólanum að Laugarvatni og kenndi ýmislegt vafasamt í enskuáföngum þar.
Meðal vafasams námsefnis var eftirfarandi – og tillaga af smellvænni fyrirsögn fylgir:
The Hobbit: „Lágvaxið fólk er kallað dvergar!“
Wuthering Heights: „Nekrófílía er eðlileg ef ástin er nógu sterk“ / „Þau eru ekki blóðskyld og þá er sifjaspell allt í lagi“
A Tale of Two Cities: „Líf yfirstéttarmanns er verðmætara en lágstéttarmanns“
Cloud Atlas: „Afgreiðslufólk eru bara klónar sem má níðast á“
Fight Club: „Hvatt til þess að berja fólk og sprengja upp höfuðstöðvar kortafyrirtækja“
Pump Up the Volume: „Hvatt til þess að stofna sjóræningjaútvarp og tala illa um skólann“
Thelma & Louise: „Það er allt í lagi að sprengja upp vörubíl ef ökumaðurinn er karlremba“
Slaughterhouse-Five: „Ekkert skiptir máli því allt er fyrirfram ákveðið“
Midnight’s Children: „Fólk verður verra af því að alast upp í fátækt“
Dead Poets Society: „Hvatt til þess að rífa síður úr kennslubókum“
12 Monkeys: „Það er allt í lagi að drepa fólk út af því heimsendir er í nánd“
Mother Night: „Það er allt í lagi að ljúga ef það er fyrir föðurlandið“
The Sixth Sense: „Dautt fólk eru betri sálfræðingar“
The Truman Show: „Allir aðrir eru að ljúga að þér“
Do the Right Thing: „Hvatt til þess að rústa veitingastöðum ef þú ert ekki sáttur við myndskreytingarnar“
The Crying Game: „Framhaldsskólanemum sýnt typpi“
Það væri hins vegar gaman ef næstu hneykslunarfrétt fylgdi smá hugleiðing um að í bókmenntatextum og bíómyndum eru skilaboðin stundum margræð og höfundar tala jafnvel þvert á hug sinn til þess að fá lesendur / áhorfendur til þess að sjá hlutina í nýju ljósi eða veita þeim tækifæri til þess að greina þá (svo eru mögulega ekkert svo slæm skilaboð í sumum fyrirsögnunum þrátt fyrir sjokkið sem þær bjóða upp á – eins og glöggir lesendur verða fljótir að sjá). Hugleikur Dagsson hefur til dæmis lengst af starfað sem listamaður og örugglega ósjaldan verið skítblankur – ef hann væri sama sinnis og aðalpersónan í myndasögunni sem vísað er til hefði hann líklega skotið sig í hausinn löngu áður en hann komst svo langt að teikna þessa sögu.
En gætu skilaboðin mögulega verið sú að vald fjármálakerfisins – bankanna, innheimtufyrirtækjanna og annarra slíkra – séu orðin slík að skuldirnar séu orðnar sumum óbærilegar? Það mætti jafnvel benda nemendum á að slík dæmi séu ófá í raunveruleikanum – og spyrja þau hvort þeim finnist það eðlilegt? Hvort þeim finnist eðlilegt að margir foreldra þeirra – og bráðum þau sjálf – bíði með kvíðahnút í maganum eftir næstu mánaðarmótum – kvíðahnút sem einhver gæti vissulega ákveðið að leysa með jafn afdrifaríkum hætti og Kisinn hans Hugleiks. Það getur jafnvel verið að raunveruleiki myndrammans sé sumum nemendum óþægilega kunnuglegur. Það þekkja það flestir kennarar að stundum verða sakleysislegustu skólaverkefni að útrás fyrir erfiða reynslu – og það er alls ekki slæmt, nemendur eru oftar þakklátir frekar en hitt fyrir að fá átyllu til að skrifa sig frá erfiðri reynslu.
Þetta er svo kjörið tilefni umræðu – og þegar list verður tilefni umræðu þá fyrst verður gaman að kenna hana. Gekk Hugleikur of langt? Eru mögulega virkilega vafasöm skilaboð í einhverjum þessara verka? Og síðast en ekki síst, hver er munurinn á þessum teikningum Hugleiks og kennslubókunum sem þið hófuð þessa greinaröð á?
Þessi greinaflokkur ykkar hófst nefnilega með annarri frétt um aðra vafasama kennslubók, þar sem börnum var kennt að kalla fólk sem var ekki nákvæmlega eins á litinn og það sjálft negra, mongóla, rauðskinna og malaja. Það dæmi er vissulega af dálítið öðrum toga – sem og framhaldsdæmið á öðrum miðli um konuna sem mætti uppstríluð og uppáklædd á fæðingardeildina. Það fyrra er svipmynd af veröld sem var, dæmi um það hvernig fáfræði getur orðið svo útbreidd og viðurkennd að hún ratar inní skólabækur. Seinna dæmið sýnir að slíkt getur ennþá gerst.
En þótt líklega séu þessar bækur ekki húsum hæfar í skólum núorðið mætti líka alveg nota þær og taka Keating, kennarann ágæta í Dead Poets Society, á orðinu og leyfa nemendum að lesa síðuna – og rífa hana svo úr bókinni. Það gæti líka verið gott efni í næstu frétt.
Ásgeir H Ingólfsson, fyrrverandi framhaldsskólakennari