„Ég hlustaði ekki á rokktónlist þegar ég var strákur,“ segir Thomas Logoreci þegar ég spyr hann um tónlista í Bota. „Dylan og slík tónlist var bönnuð heima – þess í stað hlustaði ég á gamlar albanskar kasettur frá pabba.“ Pabbinn hafði flúið Albaníu um það leyti sem kommúnisminn komst á við lok heimstyrjaldarinnar síðari og nú er sonurinn snúinn aftur til þess að gera bíómynd ásamt eiginkonunni Iris Elisiová, sem sömuleiðis er brottfluttur Albani. En það var þrautinni þyngra að finna tónlist bernskunnar aftur. Það var búið að eyða öllum masterunum í Albaníu og þótt einstaka upptökur hefðu fundist á youtube – eins og til dæmis lagið sem við heyrðum í byrjun – þá er megnið af tónlistinni í myndinni af sjötíu ára gömlum kasettum.
Lagið sem við heyrðum var spilað undir lokaatriðinu þar sem látin stúlka dansar alein í miðri eyðimörk. Bota þýðir einfaldlega heimurinn á albönsku og er sömuleiðis nafnið á kaffihúsi í eyðimörkinni miðri. Við erum stödd í afskekktasta stað þess lands sem lengi var hugmyndafræðilega séð það afskekktasta í Evrópu – hingað voru hinir óæskilegu sendir. Þetta er krummaskuð gamalla uppreisnarmanna – en myndin fjallar um börn þessara uppreisnarmanna sem hafa ekki enn fundið leið aftur til hinnar nýju frjálsu Albaníu.
Þetta er skemmtilega blúsuð ræma, full af af lífsgleði og harmi. Andi Emirs Kusturica svífur yfir vötnum en myndin er þó öllu jarðbundnari og raunsærri en verk brjálaða Bosníu-Serbans. Þjónustustúlkan Juli sér um flest á þessu kaffihúsi og sinnir til jafns dramanu í Nóru vinkonu sinni og alls kyns vegavinnumönnum, auðnuleysingjum, bröskurum og furðufuglum sem detta inní kaffi. Juli er yfirveguð og lætur lítið yfir sér – ólíkt flestum í kringum hana, sem skapar skemmtilega dýnamík í myndinni – enda dylst engum að þrátt fyrir að henni liggi lágt rómur þá er Juli sú þeirra sem er líklegust til þess að blómstra út í hinum stóra heimi.
Þá má ekki gleyma ömmu Juli, sem hin aldna Tinka Kurti leikur. Hún hefur leikið í 97 myndum og hefur lofað því að ná hundrað áður en hún yfirgefur þetta jarðlíf. Það gæti orðið erfitt þar sem Albanir framleiða ekki nema um eina mynd á ári en ég trúi samt ekki öðru en að henni takist það.
En bregðum okkur nú aðeins suður á bóginn en höldum okkur á afskekktum slóðum. Það er slæmur siður að alhæfa um þjóðir en það er samt freistandi að fullyrða að kúrdar séu fæddir með filmuvökva í blóðinu, enda hafa þær kúrdísku bíómyndir sem ég hef séð í gegnum árin verið hver annarri betri. Sem er sérstaklega merkilegt þegar haft er í huga að kúrdísk kvikmyndamenning er í raun í frumbernsku. Minningar á steini eða Biranen li ser keriri er svo sannarlega engin undantekning á þessari reglu. Myndin fjallar um kvikmyndaleikstjórann Hussein sem vill gera bíómynd um kúrdísku helförina, aðgerð sem kölluð var Anfal á níunda áratug síðustu aldar, en þar myrtu hermenn Saddam Husseins hátt í 200 þúsund kúrda.
En það gengur flest á afturfótunum við gerð myndarinnar. Hver aðalleikkonan á fætur annarri dettur úr skaftinu en þegar hin unga Sinur kemur til spilana þá virðast þeir loksins hafa fundið hina einu réttu. En pabbi Sinur dó á tímum Anfal og því er frændi hennar forráðamaður hennar í þessu mikla feðraveldi sem enn tíðkast í Kúrdistan – og þegar hann segir nei þá skipta hennar skoðanir litlu máli. Hún neyðist því til þess að trúlofast syni frændans til þess að láta leikkonudrauminn rætast – en það er aðeins upphafið af óförum kvikmyndagerðarmannana. Frægum dægurlagasöngvara er hálfpartinn þröngvað upp á þá í aðalhlutverkið og þótt hann sé með öllu hæfileikalaus sem leikari þá er hann búinn að lofa of miklum pening í myndina til þess að það sé hægt að reka hann.
En það er alveg stórkostlegt hvernig myndinni tekst að vera nístandi harmræn og drepfyndin – oft á einu og sama augnablikinu. Þetta er hrakfallasaga merkilegra listamanna sem eru að segja virkilega mikilvæga og magnaða sögu – en þegar alheimurinn vill gera grín af manni þá er samt engin undankomuleið. Og upphafssenan þar sem ungur drengur felur sig á svölum bíósals þar sem verið er að drepa menn fyrir að horfa á bannaðar myndir er eitt það magnaðasta sem ég hef séð.
Danspíra
„Ég þarf að halda ryþmanum, ég þarf að halda áfram að dansa, annars gæti hjartað stoppað. Síðan hvenær klæðast hinir dæmdu lökkuðum skóm? Síðan hvenær dansa þeir undir diskókúlum, á milli litríkra skúrka, undir neonljósum innan um reykinn af rústunum.“ Svo mælir vampíran Zanó, danspíra sem kemur til Aþenu á köldum vetrardegi árið 1984 í myndinni Noregur eða Noriyia og þykir mæla svo skáldlega að hann er spurður hvort hann sé vampíra eða ljóðskáld – eins og eitt útiloki hitt. Zano gistir í kvistherbergjum gistiheimila sem bjóða uppá líkkistur á háaloftinu og þvælist um skuggalega bari þar sem grískt júródiskó er spilað í botni. Þar hittir hann fyrir fláráða flagðið Lísu og sakleysislega Norðmanninn Pétur – þeim er skemmtilega lýst á einum stað sem Lísu í Undralandi og Pétri Pan. Þessi mynd er æðislega stýlíseruð og skemmtileg, mætti mögulega kalla hana Drive vampírumyndanna – hún er að vísu ekki nærri jafn blóðug, merkilegt nokk, en þær eiga það sameiginlegt að gera gamalt og gleymt eitís aftur töff. Ég er of ungur til þess að muna þessa bari á vesturlöndum en þeir voru ennþá til í gamla austrinu fyrir 15 árum. Þeir eru örugglega til einhvers staðar ennþá – þessir tragísku örlagabarir þar sem feigðin svífur yfir vötnum.
Það sem er sérstakt við þessa vampírumynd er hins vegar helst tvennt: annars vegar eru flestar vampírurnar komnar nokkuð á aldur, þótt þær séu ódauðlegar þá er æskublóminn löngu farinn. Hitt er að vampírurnar eru hetjurnar hér – það eru mannsskepnurnar sem vilja setja allt á annan endann.
Myndin var hins vegar ansi umdeild hér á Karlovy Vary. Ég og Laurence kollegi minn mynduðum tveggja manna aðdáendaklúbb myndarinnar – allir hinir voru ekki að fatta snilldina. Mögulega var hún á vitlausri hátíð, Laurence grunaði að hún hefði plumað sig betur á sérstökum hryllingsbíóhátíðum – og mig dreymir um að einn daginn verði hún sýnd hér heima á Svörtum sunnudegi eða í álíka sýningum.
Sunnudeginum lauk svo með bresku fangelsisdrama, Starred Up eftir leikstjórann David Mackenzie, sem áður gerði hinn magnaða óð til Hitchcock sem Hallam Foe var. Ef íslenskir bíómógúlar myndu íslenska heiti myndarinnar yrði titillinn vafalaust Feðgar í fangelsi. En ólíkt fangelsisfeðgunum í In the Name of the Father eru þessir sekari en syndin – raunar virðast þeir varla geta hreyft sig án þess að gera óskunda. Sonurinn er raunar hreinlega hálfgert villidýr þegar hann kemur í fangelsið þótt einn næmur fangavörður nái aðeins að róa hann með tímanum. Myndin er sannarlega í melódramatískari kantinum af fangelsisræmum að vera – sem er undirflokkur bíómynda sem hefur raunar boðið uppá ansi margar magnaðar myndir undanfarin misseri – en myndin heldur allan tímann þótt ég sé ennþá að melta það hvert Mackenzie sé að fara með þetta allt saman. Í eina röndina þá virkar þetta eins og gagnrýni á hvernig fangelsin séu að standa sig sem betrunarstofnanir – en þótt það séu ákveðin merki þess þá fær maður snemma á tilfinninguna að með jafn snælduvitlausa fanga og hér eru sýndir sé betrun fyrirfram töpuð barátta. En sú barátta var þrátt fyrir allt farin að skila töluverðum árangri – en einmitt þá gáfust fangelsisyfirvöld upp.
Ég endaði svo á öllu bókstaflegri hrollvekju kvöldið eftir. Myndin sú heitir It Follows og er eftir leikstjórann David Robert Mitchell, sem áður gerði The Myth of the American Sleepover, lágstemmda unglingamynd sem sór sig í ætt við klassíkera á borð við American Graffiti og Dazed & Confused. Helsti kostur It Follows er að hún heldur í sömu stemmninguna og í fyrri myndinni og bætir hrollinum bara við, þannig að unglingarnir eru alvöru karakterar en ekki bara hentug fórnarlömb. En þetta „It“ sem titillinn vísar til er dularfull vera, oft dulbúin sem tvífari fjölskyldumeðlima eða vina, og virðist smitast við kynmök og þannig er bókstaflega hægt að ríða óvættinn í burtu. En það er skammgóður vermir, um leið og veran drepur þá leitar hún aftur í næsta bólfélaga á undan. Myndin kallast að þessu leyti um sumt á við þá frábæru myndasögu Black Hole, þar sem eyðnifaraldur áttunda áratugarins er tekinn fyrir en í staðinn fyrir banvænan sjúkdóm þá færðu bara einhverja óútreiknanlega afskræmingu ef þú sefur hjá vitlausri manneskju. Sú bók var einkennilega falleg og lýrísk – It Follows spilar hins vegar nokkuð skemmtilega á einhvern órökréttan ótta og þótt konseptið sé í raun óttalega kjánalegt þá virkar það merkilega vel.
En nú fer að líða að innrásinni frá Íslandi, meira um hana á morgun.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 þriðjudaginn 23. júlí 2014.
Sýnishorn úr myndunum:
Bota – stikla
Minningar á steini – stikla
Noregur – stikla
Starred Up – stikla
It Follows – stikla