Hugi, leikinn af Birni Thors, hleypur í gegnum vestfirskan smábæ undir dúndrandi tónlist Prins Póló og svo koma stafirnir á tjaldið: París norðursins, en myndin var heimsfrumsýnd í Karlovy Vary. Hugi er svo varla búinn að ná andanum þegar honum er sagt upp – og er of andstuttur til þess að hreyfa mótbárum.
Já, og kannski líka of tilfinningalega heftur. Hafsteinn Gunnar heldur hér áfram að rannsaka sambönd á milli tilfinningalega heftra karlmanna – og raunar eru snertifletirnir við frumraun hans í fullri lengd, Á annan veg, ansi margir. Í báðum myndum erum við með aðalpersónu í dauðadæmdu fjarsambandi við gamla kærustu – og eini munurinn er að síminn hefur tekið við af sendibréfunum. Svo er fjölmennið öllu meira á Flateyri heldur en á vegum úti – þannig að í staðinn fyrir brómans á milli tveggja karlmanna fáum við að fylgjast með Huga eiga einlægar stundir með fjórum karlmönnum af þremur kynslóðum. Hann sækir raunar AA fundi með tveimur þeirra og í vissum skilningi er myndin öll ákveðin þerapía fyrir aðalpersónuna sem virðist hafa brotlent illilega fyrir sunnan og notar Flateyri sem flugbraut til að koma sér aftur á flug.
Þessi líkindi við Á annan veg eru þó alls ekki endilega ókostur. Hafsteinn er einfaldlega að halda áfram að rannsaka þessa hluti á stærra sviði – og þó er sviðið ennþá ansi lítið, íbúafjöldinn hefur hækkað úr 2 í 150 og með þessu áframhaldi kemst hann varla í borgina fyrr en eftir 2-3 myndir. Þetta er raunar ekkert ólíkt því ferðalagi sem Á annan veg hefur farið um heiminn, því þótt ameríska endurgerðin segði í meginatriðum sömu söguna þá gjörbreyttist hún við að koma í nýtt umhverfi og við það að eignast nýja fortíð, enda amerískt eitís alls ekki það sama og íslenskt eitís.
En af hverju París? Á blaðamannafundi kom fram að annars vegar væri verið að vísa í ástarþríhyrning þar sem feðgarnir Hugi og Veigar, sem Helgi Björnsson leikur, koma við sögu og eins þá staðreynd að Flateyri er fjölþjóðlegur bær þar sem tælenskir, pólskir og íslenskir íbúar búa saman í sátt og samlyndi. En hér komum við kannski að helstu veikleikum myndarinnar; bæði hefði mátt gefa útlendingum aðeins stærra hlutverk en að afgreiða í sjoppum og veitingastöðum og þá mætti aðalkvenhlutverkið vera burðugra. Nanna Kristín skilar hlutverki Ernu vel – en við vitum sáralítið um þessa konu og hún er um margt óleyst ráðgáta við lok myndarinnar.
En þetta er kraftmikil, launfyndin og manneskjuleg mynd með frábærri tónlist Prins Póló í bakgrunninum. Björn Thors og Helgi Björns eru skemmtilegir feðgar og Sigurður Skúlason á það til að stela senunni á þriggja manna AA-fundunum sem hann stjórnar – og tekur þar þátt með tveimur fyrrverandi tengdasonum sínum, svona til þess að undirstrika enn frekar smæð þessarar kuldalegu Parísar.
En hvernig byrjaði þetta ævintýri? Við spurðum Hafstein leikstjóra að því á hátíðinni.
(Viðtöl við Hafstein Gunnars Sigurðsson leikstjóra og Helga Björnsson leikara má heyra í meðfylgjandi hljóðskrá).
En það voru fleiri íslenskar myndir á hátíðinni. Hross í oss var sýnd í upphafi hátíðar en hún er að ljúka löngum og farsælum túr um kvikmyndahátíðir veraldar. Þá var Björk: Biophilia Live Evrópufrumsýnd á hátíðinni. Það er hins vegar fátt um myndina að segja, þetta eru einfaldlega kvikmyndaðir tónleikar sem eru konsept sem sjaldnast gengur upp. Undantekningin er skemmtilegur inngangur sem David Attenborough flytur. Og vissulega eru tónleikarnir ágætis sjónarspil en til þess að hafa virkilega gaman af þessu þarftu að vera ansi harðsnúinn Bjarkaraðdáandi.
En svo kemur bara skemmtilega á óvart hversu marga ég hef hitt sem eru vel að sér í ólíklegustu kimum íslenskrar kvikmyndagerðar. Albönsku hjónin sem leikstýrðu Bota (sem ég fjallaði um í síðasta pistli) sögðu mér að þau sýndu kvikmyndagerðarnemum iðullega Smáfugla Rúnars Rúnarssonar í tímum sem dæmi um hina fullkomnu stuttmynd og þegar ég kynnti mig fyrir bíógagnrýnanda The Prague Post var það fyrsta sem hann spurði mig um hvort Kristín Jóhannesdóttir færi ekki að gera bíómyndir – en hann var mikill aðdáandi Svo á jörðu sem á himni sem Kristín gerði fyrir meira en tuttugu árum og gladdist mjög þegar ég sagði honum að það væri loksins ný mynd á leiðinni frá Kristínu. Loks skilst mér að Reykjavík Whale Watching Massacre sé mikið költ fyrirbæri í Portúgal.
París norðursins – stikla
Í lok innslagsins heyrist lagið Hafið, nýtt lag úr París norðursins í flutningi hljómsveitarinnar Prins Póló.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 miðvikudaginn 24. júlí 2014.