Þegar ég var ungur voru reglulega mini-seríur í sjónvarpinu sem voru miklar fjölskyldusögur. Þær áttu það sameiginlegt að byrja vel en enda sem algjör katastrófa, meðal annars út af því að allir aðalleikararnir voru undir það síðasta týndir undir lagi af meiköppi sem átti að láta þá líta út fyrir að hafa elst um áratugi. Síðan þá hefur bæði tæknibrellum og förðunartækni fleygt fram en mig hefur samt alltaf dreymt um að einhver geri einfaldlega mynd í rauntíma sem sýnir fólk eldast. Það eru vissulega dæmi um að fólk eldist í gegnum sjónvarpsseríur sem endast lengi og þá hafa sumir bíókarakterar elst með manni í gegnum framhaldsmyndir. Eitt besta dæmið um það er trilógía Richards Linklaters, Before Sunset, Before Sunrise og Before Midnight, þar sem við hittum ástfangið par á níu ára fresti og sjáum hvernig þau breytast úr ástföngnum unglingum í brennd ungmenni í kaldhæðin miðaldra hjón.
Og fyrir hálfum öðrum áratug réðst Linklater í það verkefni að fanga skáldaða bernsku Masons, sex ára pilts, og fylgja honum eftir í gegnum alla grunnskólagönguna sem í Bandaríkjunum tekur tólk ár. Hann kvikmyndaði hinn unga Ellar Coltrane á hverju ári í tólf ár og við sjáum hann breytast úr smástrák í stálpaðan táning fyrir augunum á okkur. Myndin heitir einfaldlega Boyhood og galdur hennar er glettilega einfaldur – að sjá fólk eldast í beinni. Ekki bara Mason heldur líka foreldra hans, fósturforeldra, systur og bekkjarfélaga. Maður hefur einfaldlega ekki séð skáldsagnapersónur eldast svona í rauntíma áður og áhrifin eru margfalt sterkari en þegar förðun, tæknibrellur eða nýir leikarar eru notaðir til þess að láta persónur eldast.
Svo bætist auðvitað við að Linklater er með betri leikstjórum samtímans og fer einkar vel að kjarna mannlegar hliðar persóna sinna. Þótt það séu ákveðnir dramapunktar þá passar Linklater upp á að bernska Masons sé til þess að gera hefðbundin, hann er hugsaður sem ósköp venjulegur strákur – en verður þó aldrei óáhugaverður, þvert á móti verður persónan forvitnilegri eftir því sem líður á. Við finnum líka fyrir tímanum, þessum nýliðna tíma sem birtist okkur í forsetakosningum og síbreytilegri tónlistinni, en að einu lagi undanskildu þá notar Linklater einfaldlega lögin sem voru í útvarpsspilun á meðan atburðir myndarinnar gerast.
Myndin hefur raunar fyrst og fremst einn galla – hún er rúmar 160 mínutur og hún er hreinlega of stutt. Kaflarnir verða lengri eftir því sem á líður en það hefði alveg mátt eyða klukkutíma í viðbót í fyrstu skólaár Masons. Og nú leyfir maður sér bara að vona að Linklater haldi áfram að fylgjast með Mason – mann langar að sjá framhaldsskólaárin, fyrstu vinnuna og allt hitt næst.
Fyrsta mynd Linklaters var hins vegar tekin á ólíkt styttri tíma. Tímamótaverkið Slacker hafa ekki margir séð en hún olli straumhvörfum í óháðum kvikmyndum í Bandaríkjunum snemma á tíunda áratugnum. Þar er myndavélin með svo mikinn athyglisbrest að hún fylgir sömu persónum í mesta lagi í eina-tvær mínútur og fylgir svo næsta gangandi vegfaranda eftir. En myndin er öll tekin í einni langri töku, þessi hverflynda myndavél er í rauninni aðalpersóna myndarinnar. Og ein tékkneska myndin á hátíðinni er skilgetið afkvæmi Slacker. Hún heitir Haný, sem mætti bæði þýða sem Hunang eða sem fleirtöluna af Hönnu, en tvær af aðalpersónum myndarinnar eru Hönnur. Myndavélin er þó ekki alveg jafn hverflynd og í Slacker – þótt hún þvælist á milli persóna þá leitar hún alltaf uppi sömu aðalpersónurnar á endanum. Ein þeirra er sérstaklega eftirminnileg – ör og skapmikill strákur sem er óþolandi í hóp en reynist hinn mesti ljúflingur þegar hann er einn með einhverjum. En svo líkur kvöldið með sprengingu – aðalpersónurnar eru skyndilega staddar í miðjum óeirðum í miðbæ Prag og þá brýst villidýrið út í ólíklegustu manneskjum.
En það eru vitaskuld fleiri tékkneskar myndir á hátíðinni. Sú klassískasta af þeim öllum, Lestir undir smásjá, var sýnd á enduruppgerðri filmu og svo var ein í aðalkeppninni. Sú heitir Fair Play og fjallar um krísu ungrar hlaupadrottningar þegar hún áttar sig á því að það dugar ekki lengur að vera fljótust að hlaupa heldur þarf hún núna að fara að innbyrða ýmis vafasöm lyf til að halda í við keppinautana. Lyf sem valda óeðlilegum hárvexti og raska tíðahringnum, lyf sem mögulega eru lífshættuleg. Það kannast allir sem muna níunda áratuginn við mýtuna um austur-evrópskar steradrottningar sem rústuðu Ólympíuleikum og litu grunsamlega karlmannlega út – þetta er hin tragíska baksaga á bak við þá stereótýpu, stúlkan sem þarf að velja á milli bernskudraumsins og framtíðarinnar – og er auk þess klemmd á milli þjálfara og móður sem gera ýmislegt vafasamt af ótta við alræðisvaldið sem vofir yfir.
Í aðalkeppninni var líka lettnesk-bandaríska teiknimyndin Rocks in My Pocket. Sýningin hófst á eftirminnilegan hátt þegar að leikstýran Signe Baumane henti léttum máluðum steinum til áhorfenda en svo hófst myndin sem reyndist vera nokkurs konar lettnesk útgáfa af Persepolis. Ekki jafn dramatísk en hún segir fjölskyldusögu Signe sjálfrar sem í raun speglaði skemmtilega tuttugustu aldar sögu Lettlands. Það er djúpur harmur undirliggjandi en leiftrandi húmor breiðir lengst af yfir þann harm – og myndskreytingar Signe eru leiftrandi skemmtilegar.
Svo eru alltaf nokkrar myndir á hverri hátíð sem maður veit ekki alveg hvað manni á að finnast um. Pólska myndin Orðið eða Obietnica er besta dæmið um slíka mynd. Framan af er þetta ansi hreint ruglingslegt unglingadrama, vel leikið en plottið er afskaplega illskiljanlegt. En í miðri mynd breytist myndin í glæpadrama og skyndilega er fyrri hlutinn settur í allt annað samhengi, það sem virtist bara vera hefðbundin táningadramatík gæti hugsanlega hafa verið undirbúningur að morði. Myndin heldur manni lengst af í óvissu, maður áttar sig illa á hvort hin fjórtán ára Lila hafi raunverulega verið meðsek um morð eða hvort hún hafi verið saklaus leiksoppur.
Á lokadegi hátíðarinnar sá ég svo mynd um ævintýri hinnar ungu Kumiko í Kumiko, the Treasure Hunter. Kumiko er afskaplega hæglát skrifstofustúlka í Tókýó sem hefur þó skýran tilgang í lífinu. Hún hefur nefnilega fundið eldgamla vídjóspólu með Coen-bræðra myndinni Fargo og veit að þar eru mikilvægar vísbendingar um falin fjársjóð, enda kemur fram í upphafi myndarinnar að allt sem í henni gerist sé sannsögulegt. Kumiko fer á endanum á greiðslukorti fyrirtækisins til Bandaríkjanna og kemst alla leið til Fargo með hjálp hjálpsamrar aldraðrar konu og kostulegrar löggu. Þetta er afskaplega lágstemmd og launfyndin mynd, minnir um margt á Jim Jarmusch en er jafnvel enn lágstemmdari. Og jú, svo minnir hún vitaskuld um sumt á Coen-bræðurna sjálfa. En síðast en ekki síst er þetta fallegur óður til þeirra menningarverðmæta sem VHS-spólan er.
Lokamynd hátíðarinnar var svo Hefndarsögur frá Argentínu eða Relatos salvajes. Almodóvar-bræður eru meðal framleiðanda myndarinnar en hér eru sagðar sex mismunandi sögur sem allar eiga það sameiginlegt að snúast á endanum um hefnd. En þótt myndin loki ekki augunum fyrir því hvað hefndin getur verið tortímandi og ömurlegt afl þá eru kvikmyndagerðarmennirnir þó uppteknari af því hvað hefndin er kjánaleg og kómísk. Myndin hefst í flugvél þar sem fólk er að spjalla og kemst fljótlega af því að öll þekkja þau Pasternak nokkurn. En ekki bara þau tvö sem hefja spjallið – heldur reynast allir í vélinni hafa þekkt téðan Pasternak. Og öll hafa þau gert eitthvað á hlut hans. Og ekkert þeirra hafði þurft að borga sjálft fyrir flugmiðann. Á örskotsstundu átta allir sig á klípunni sem þau eru í en í kjölfar hefndar Pasternaks sjáum við sögur um mann í heilagri krossferð gegn stöðumælavörðum Buenos Aires-borgar, tvo menn berjast til dauða á þjóðvegum eftir að hafa móðgað hvorn annan í umferðaræði og tvær þjónustustúlkur deila um hvort þær eigi að setja rottueitur í matinn hjá kúnna sem reyndist hafa valdið annarri þeirra miklum miska á bernskuárum. Myndinni líkur svo á brúðkaupi þar sem margs þarf að hefna og margt þarf að fyrirgefa.
Myndin nýtir hefndarþemað glettilega vel til þess að sýna fram á margbrotið eðli mannsskepnunnar og velta fyrir sér spillingu og öðrum löstum – en fyrst og fremst er þetta einfaldlega einhver fyndnasta mynd sem maður hefur séð lengi, lengi.
En hvaða máli skipta svona hátíðir? Ég er að hugsa um að leyfa Hafsteini Gunnari og Helga Björns að eiga lokaorðið þar.
(Hljóðupptaka)
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Sýnishorn úr myndunum:
Boyhood – stikla
Hany – stikla
Rocks in My Pocket – stikla
Fair Play – stikla
Kumiko, the Treasure Hunter – stikla
Orðið – stikla
Hefndarsögur – stikla
Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 fimmtudaginn 25. júlí 2014.