Frank Capra í Heilsulindarbíó
Frank Capra í Heilsulindarbíó

„Kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary leiðir saman framsækna kvikmyndagerðarmenn úr öllum heimshornum, þar sem þeir eiga í orðræðu um hvernig kvikmyndalistin geti orðið vopn í baráttunni fyrir friði og hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til að auka skilning og samvinnu þjóða á milli.“

Svona var fimmtu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary lýst í Rudé právo, Rauða sannleikanum, málgagni tékkóslóvakíska kommúnistaflokksins. Á bak við þessi orð geisaði áralöng barátta á milli fagurfræði kvikmyndanna og hugmyndafræði ríkjandi afla, barátta sem einkenndi hátíðina lengi vel – og í gegnum árin hefur hátíðin farið í gegnum ótal hæðir og lægðir, eftir því hversu mikið stjórnvöld þrengdu af listrænu frelsi hverju sinni.

Fyrstu árin var hátíðin um margt sýningargluggi fyrir sovéskar bíómyndir en seinni hluta sjötta áratugarins og lengst af þeim sjöunda var hátíðin hægt og rólega alþjóðlegri og tök Moskvu linuðust, auk þess sem kvikmyndagerð Tékka sjálfra blómstraði sem aldrei fyrr með tékknesku nýbylgjunni sem skiluðu þeim tveimur Óskarsverðlaunum og leikstjórum á borð við Jiří Menzel, Miloš Forman og Věru Chytilovu. Og á þessum kaldastríðsárum gat að einhverjum ástæðum bara verið ein A-hátíð austan járntjalds árlega – sem þýddi að árin 1959 til 1993 skiptust Karlovy Vary og kvikmyndahátíðin í Moskvu á – sem skýrir af hverju þessi 69 ára gamla hátíð var haldin í fimmtugasta skiptið núna fyrir skemmstu. Í tilefni þess var sýnd heimildamyndin HeilsulindarbíóFilmová lázeň – þar sem saga hátíðarinnar var rifjuð upp.

Þar er rakið hvernig hátíðin blómstraði stuttlega í kringum vorið í Prag en lægðin var líka dýpst í kjölfar þess að skriðdrekarnir völtuðu yfir þetta skammlífa vor, þegar tak kommúnistaflokksins á menningunni var rækilega hert og óæskileg list lifði aðeins neðanjarðar. Einmitt þess vegna reyndist hátíðin 1990 ein sú eftirminnilegasta – þangað mætti sjálfur Miloš Forman á hjólinu sínu og þá gat hátíðin loks sýnt nokkurra áratuga skammt af tékkneskum stórvirkjum sem höfðu sum verið bönnuð um áratuga skeið.

Henry Fonda, Rita Hayworth, Tony Curtis og aðrar erlendar bíóstjörnur komu þó ósjaldan til Karlovy Vary þegar þýða var í samskiptum austurs og vesturs og eftirminnilegasta sena myndarinnar er þegar tékkneskur blaðamannaspéfugl – einhvers konar forveri Ali G og Johnny National – tekur viðtal við leikstjórann goðsagnakennda Frank Capra, sem frægastur er fyrir jólaklassíkina It‘s a Wonderful Life. Fyrir framan þá er hringborð sem hægt er að snúa og allan hringinn eru vínglös – og tékkneski spyrillinn tekur Hollywood-leikstjórann gjörsamlega á taugum með því að teygja hendina reglulega fram fyrir hann til þess að ná sér í nýtt og nýtt vínglas til að tæma, áður en Capra getur svarað nokkurri einustu spurningu af viti.

Núorðið eru kalda stríðs átök fortíðarinnar hins vegar víðs fjarri þegar þessi annars rólegi heilsulindarbær troðfyllist af bíógestum. Það er ennþá þrengra á þingi en fyrri hátíðir sem ég hef sótt, enda er þetta afmælishátíð í 35 stiga hita og svo er þriggja daga helgi sökum þess að slétt sexhundruð ár eru síðan siðbótamaðurinn Jan Hus var brenndur á báli. Hússítastríðin sem fylgdu í kjölfarið eru ein af ástæðum þess að tékkar eru trúlausasta þjóð Evrópu – en maður fer að efast um trúleysið um leið og maður fer í bíó.

Guðsdóttirin Ea í Splunkunýja guðspjallinu
Guðsdóttirin Ea í Splunkunýja guðspjallinu

Guð er nefnilega til og hann býr í Brüssel. Þetta fullyrðir altént ung belgísk stúlka í myndinni Splunkunýja guðspjallið (Le Tout Nouveau Testament) – og hún ætti að vita það, Guð er nefnilega pabbi hennar. Þessi Guð er hins vegar óttaleg liðleskja, hann er vondur pabbi, ennþá verri eiginmaður og fullkomlega vonlaus sem almætti. Hann nýtur sín best órakaður á sloppnum fyrir framan tölvuna að ákveða vofeiflega dauðdaga fyrir manneskjurnar sem hann skapaði í eigin mynd.

Þetta er vissulega passlega galið konsept fyrir bíómynd – en þetta þrælvirkar lengstum, þökk sé hugvitsamlegu handriti og líflegri leikstjórn Jaco Van Dormael. Myndin minnir helst á verk franska leikstjórans Jean-Pierre Jeunet, sem er hvað þekktastur fyrir ævintýri Amelie, og guðdóttirinn Ea er afskaplega heilsteyptur karakter og eftir ráðleggingar frá bróður sínum Jesú – sem er auðvitað látinn en birtist henni í gegnum kriststyttu – þá ákveður hún að leita að sínum eigin postulum og skrifa ný guðspjöll. Planið er að finna sex postula til viðbótar við þá tólf sem Jesú hafði fundið og skrifa nokkur viðbótarguðspjöll til þess að hrista upp í hlutunum. Áður en hún sleppur úr íbúð pabbans í gegnum þvottavélargöng þá hafði hún sent öllum jarðarbúum dánardægur þeirra í textaskilaboðum – sem virðist hafa merkilega frelsandi áhrif á þá flesta, þegar fólk þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af dauðanum þá fyrst getur það farið að lifa lífinu í þessu nýja guðspjalli.

Guð sjálfur í Splunkunýja guðspjallinu
Guð sjálfur í Splunkunýja guðspjallinu

Fyrst finnur Ea róna til að skrásetja guðspjöllin og fyrstu lærisveinarnir eru einhent kona og lífsleið skrifstofublók. Það er undurfallegt að fylgjast með guðsdótturinni finna kjarnann í óuppfylltum lífum þessa fólks og fyrri hluta myndarinnar er þetta eiginlega hin fullkomna bíómynd – þetta var guðspjall sem maður  var albúin að boða um leið og maður myndi yfirgefa bíósalinn. En hinir lærisveinarnir fjórir eru hins vegar öllu misjafnari, kynlífsfíkillinn og launmorðinginn ná ekki til manns og þótt Catherine Deneuve standi sig vel sem hin lífsleiða yfirstéttarkona Martine þá er það í gegnum hennar sögu sem myndin tekur að glata þessum heillandi jarðbundna tóni sem hafði gætt þessa ólíkindalegu sögu lífi. Hún lifnar þó aðeins við á nýjan leik með komu síðasta lærisveinsins, dauðvona jafnaldra Eu, sem vill klæða sig upp eins og stelpa síðustu ævidagana. Myndin verður þó aldrei leiðinleg – en það er bara synd hvernig hún klúðrar tækifærinu til þess að verða hreinræktað meistaraverk.

Albönsk karlakvendi og hvíti frelsarinn

Það má hins vegar finna aðrar siðareglur í Evrópu en þær kristilegu, til að mynda kanúninn, ævafornar siðareglur sem Albanir hafa löngum farið eftir og skipta enn töluverðu máli í dreifðari byggðum landsins. Þessar reglur boða blóðhefnd ekki ólíka þeim sem finna má í Íslendingasögunum, en öllu óvenjulegra er ákvæði um það hvernig konum hefur um aldir leyfst að gerast karlmenn – að því gefnu að þær sverji karlmennskueið – sem í þeirra tilfelli þýðir ævilangt skírlífi. Á móti fá þær öll önnur réttindi karla, geta drukkið raki, reykt sígarettur og notað byssur eins og þeim lystir og sleppa við ýmsar íþyngjandi kvenlegar kvaðir. Myndin Karlmennskueiður (Vergine giurata) fjallar um konu sem eftir fjórtán ár sem karl vill endurheimta kvenleikann. Það gerir hún þegar hún heimsækir systur sína til Ítalíu, en í endurliti sjáum við hvernig þær systur höfðu flúið aðstæður sínar, hvor á sinn hátt. Önnur elti ástina til Ítalíu – og forðaðist um leið ástlaust hjónaband – á meðan hin hafnaði kvenleikanum.

Hana / Mark (Alba Rohrwacher) í myndinni Karlmennskueiður
Hana / Mark (Alba Rohrwacher) í myndinni Karlmennskueiður

Til að forðast misskilning þá er þetta ekki mynd um kynskiptinga eða  klæðskiptinga í þeim skilningi sem við erum vön, því þótt vafalaust fylli einhverjar þessara albönsku karl-kvenna þann flokk þá er jafnvel algengara að þetta séu einfaldlega uppreisnargjarnar konur sem sætta sig ekki við réttleysi sitt – og fórna kvenleikanum og kynlífinu fyrir frelsi til … alls annars. Það á nokkuð augljóslega við um aðalpersónuna Hönnu – sem flestir kalla Mark – og í gegnum hana má jafnvel segja að myndin finni rætur feðraveldisins alræmda í forneskjulegri nútíð. Eins fjallar hún um það hvernig rækilega bæld kynhvöt Hönnu brýst út og þótt karlarnir í sögunni séu að vissu leyti skúrkarnir þá eru þeir margbrotnir sem slíkir. Pabbinn birtist manni til dæmis á köflum sem óttalegur durgur – en fljótlega áttar maður sig á að hann er á sinn hátt að vernda dætur sínar fyrir forneskjulegu þjóðfélaginu og hefur þrátt fyrir allt merkilega glögga sýn inní sálarlíf þeirra. Þá er kostuleg og um leið hjartnæm jarðarfararsena þar sem karlarnir bera kistu látins félaga og söngla hressilegan karlasöng á meðan kistan er látin síga niður í gröfina. En þetta er þó fyrst og fremst mynd um konur – mynd um tvær sjálfstæðar og lífsglaðar systur sem þurfa svo sannarlega að berjast fyrir sjálfstæðinu og lífsgleðinni, hvor á sinn hátt. Hún er líka um næstu kynslóð, sem furðar sig á forneskjunni, og um móðurina sem talar til systranna tveggja handan grafar.

Að lokum er rétt að bregða sér hálfa leið heim til Íslands. Hátíðarstjórnendur á Karlovy Vary virðast í góðum tenglsum við landann – þriðja árið í röð var Íslendingur í aðaldómnefnd hátíðarinnar, leikarinn Ólafur Darri Ólafsson, sem vann einmitt leikaraverðlaun hátíðarinnar fyrir tveimur árum, og þá voru bæði Hrútar og Fúsi sýndar á hátíðinni auk stuttmyndarinnar Hjónabandssælu. Myndirnar gengu vel í gesti hátíðarinnar – og meðal annars sagði finnskur kollegi minn að hann hefði sent aðdáendabréf til Dags Kára, en slíkt hafði hann ekki gert í fimm ár.

Jakob Oftebro leikur hinn bláeyga Wulff í fyrstu leiknu mynd Daniel Dencik í fullri lengd, Gullströndinni
Jakob Oftebro leikur hinn bláeyga Wulff í fyrstu leiknu mynd Daniel Dencik í fullri lengd, Gullströndinni

Í aðalkeppninni keppti svo gamall samverkamaður Dags Kára, daninn Daniel Dencik sem klippti á sínum tíma Nóa albínóa. Hann kynnti fyrir okkur Gullströndina, Guldkysten, um dönsku Gíneu – sem nú er hluti Ghana, og átti það sameiginlegt með Íslandi að vera nýlenda Danaveldis. En meðferð Dana á þessum þegnum sínum var þó margfalt verri en á Íslendingum. Þegar myndin hefst árið 1837 er þó nýbúið að leggja þrælasölu af, í orði kveðnu hið minnsta. En þegar Wulff, bláeygur náttúrufræðingur með göfugar hugsjónir, ferðast til Afríku þá kemst hann að því að ýmislegt er ennþá rotið í þessum suðræna afkima Danaveldis.

Myndin er fantavel gerð – þetta ferðalag er sótthitadraumur saklaus bleiknefs í innstu myrkur svörtustu Afríku og maður upplifir vel sótthitann og brjálæðið í gegnum örlagasögu Wulff. Leikstjórinn hefur líka einlægan áhuga á mögnuðu landslagi álfunnar og skilar því vel til áhorfenda, sem og grimmd og ómennsku hinna hvítu nýlenduherra. En um leið hefur myndin einn stóran – og alltof algengan – galla, þann að hetjan er þrátt fyrir allt enn einn bleiknefurinn og svartir íbúar álfunnar eru nær algjörlega fastir í aukahlutverkum. Þetta er uppgjör hvíta mannsins við eigin illsku – sem að venju fer fram á hans eigin forsendum. Með þessa galla í huga er þó óhætt að mæla með Gullströndinni sem magnaðri kvikmyndaupplifun – þótt hún sé vissulega óþarflega hvít.

Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 þann 30 júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 22.22  mínútur).

Stiklur:

Heilsulindarbíó

Splunkunýja guðspjallið

Karlmennskueiður

Gullströndin