Sangaile dreymir um að fljúga
Sangaile dreymir um að fljúga

„Allt sem þú þarft í bíómynd er stelpa og byssa.“ Þetta krotaði franski leikstjórinn Jean-Luc Godard eitt sinn í dagbókina sína eins og frægt er orðið. Þarna ritar augljóslega gagnkynhneigður karlmaður – en engu að síður er sannleikskorn í þessu, einhvers konar ástarsaga getur verið ágætis drifkraftur fyrir bíómynd svo framarlega sem eitthvað annað drama flækir málin – og hvað er betri ávísun á drama en skammbyssur?

Sleeping With Other People
Sleeping With Other People

En margir hafa þó fundið ástina fjarri byssuhvellum og vígvöllum og því er oft langt á milli bíó-ástar og hversdagslegri ástar handan bíósalarins – bil sem ýmsir hafa reynt að brúa með ágætis árangri. Richard Linklater lætur til að mynda Before-þríleikinn – Before Sunrise, Before Sunset og Before Midnight – snúast fyrst og fremst um ástir tveggja einstaklinga án þess að nokkur skotvopn komi við sögu og mynd á borð við When Harry Met Sally … fjallar fyrst og fremst um sambönd og vináttu karls og konu og hvort því geti verið haldið aðskildu. Ég minnist á Harry og Sally því að lokamyndin á Karlovy Vary, Sleeping With Other People, vill greinilega vera grófari nútímaútgáfa af ævintýrum þeirra Sally og Harry – og er það í sjálfu sér, bara miklu lélegri. Aðalpersónurnar eru skelfilega sjálfhverfar og ósympatískar og þótt myndin eigi sín móment þá er þetta í grunninn indí-mynd sem trúir samt í hjartanu á allar verstu Hollywood klisjurnar.

Chemo
Chemo

Hins vegar voru miklu forvitnilegri ástarsögur sýndar á hátíðinni þar sem metafórískar skammbyssur Godards breyttust í krabbameinsmeðferð, lofthræðslu og Júgóslavíustríð. Byrjum á hinni pólsku Chemia, eða Lyfjameðferð. Framan af er þetta ofur-flippuð ástarsaga, um sumt krúttleg en líka nánast eins og ástin í auglýsingabæklingum, en það gerir bara u-beygjuna í miðri mynd öflugri. Í öllu flippinu þá hafa bæði Lena og Benek talað um eigin dauðaþrá, en tónninn er alltaf svo léttur og leikandi að það er lítill háski í þessum meinta dauða. En þegar óvænt ólétta blandast við krabbamein og lyfjameðferðir þá hrannast óveðurskýin upp – og þá dýpkar ástin um leið og hún trosnar upp. Hinn heilbrigði Benek fullorðnast og verður bara ástfangnari eftir því sem Lena verður veikari, missir hárið og sinn fyrri styrk. En Lena missir líka sjálfstraustið – þótt hún beri sig vel þá er henni ómögulegt að trúa því að Benek elski sig ennþá, hún leikur sterka og sjálfstæða sjúklinginn óaðfinnanlega fyrir myndavélarnar, en það er þó aðeins gríma fyrir það óöryggi sem fær hana til að ýta öllum nákomnum frá sér. Myndin er borin uppi af mögnuðum leik aðalleikaranna tveggja –í byrjun virðast þau kannski ekki vera neinir þungaviktarleikarar en um leið og á reynir er ómögulegt að taka augun af þeim.

Sangaile og Aste
Sangaile og Aste

Litlu norðar, nánar tiltekið í Litháen, gerist svo fallegasta mynd hátíðarinnar, Sangaile. Hún heitir eftir aðalpersónunni Sangaile, ungri táningsstúlku sem uppgötvar eigin samkynhneigð með Auste. Þetta er ægifögur mynd sveipuð nostalgíu æskunnar – minnir helst á My Summer of Love sem gerði Emily Blunt að stjörnu í upphafi aldarinnar. Þetta er mynd sem fer langt á fagurfræðinni – báðar eru stúlkurnar með svipsterk andlit sem hægt er að stara lengi á og myndin öll er sveipuð nostalgískum ljóma horfinnar æsku. Það er einfaldlega unun að horfa á myndina – en framan af saknaði maður sterkari sögu – en sú saga kemur þó í ljós þegar á líður. Sangaile dreymir nefnilega fyrst og fremst um eitt –að fljúga. Flugsýningar eru vinsælt sport í Litháen og við sjáum Sangaile í byrjun myndar horfa til himins, dreymandi. Flugið gleymist þó um stund á meðan ástin tekur völdin – en hægt og rólega kviknar flugmannsdraumurinn á ný – og þá fáum við loksins að vita hvað hindrar Sangaile í að láta drauminn rætast; hún er logandi lofthrædd. Leikstýran segir nafnið Sangaile þýða styrk á litháísku og myndin fjallar í raun fyrst og fremst um unga stelpu sem er bæði að finna sjálfa sig og að finna sinn innri styrk síðasta sumar æskunnar. *

ZvizdanEn  máski er krabbamein og lofthræðsla ekki nægileg áskorun fyrir ástina – er ekki best að fara bara alla leið og setja elskendurna í mið stríðsátök? Mögulega er það tilfellið, ef hægt er að draga lærdóm af bestu myndinni sem ég sá á hátíðinni. Hún heitir Sólbruni, eða Zvizdan, og er sögð króatísk-serbnesk-slóvensk samframleiðsla – en þegar umfjöllunarefnið er haft í huga er kannski bara best að kalla hana Júgóslavneska, þótt það land sé ekki lengur til. Þetta er þreföld ástarsaga, þar sem segir frá serbneskum strák og króatískri stelpu – eða var það öfugt? Það var víst króatískur strákur og serbnesk stelpa – en sú staðreynd að ég þurfti að fletta því upp segir sitt um hversu fáránlegt þetta stríð var.

En sumsé, við sjáum þrjá elskendur með áratugs millibili, 1991, 2001 og 2011. Alltaf jafngamla, alltaf leikna af sömu leikurum. Engin þeirra gerist beinlínis í stríðinu – en Júgóslavíustríðin geysuðu með hléum á árunum 1991 til 1999. Það er líka sáralítið minnst á stríðið – en það er þó alltumlykjandi. Við byrjum í sakleysi ársins 1991 – stríðið er vissulega yfirvofandi en þótt óveðurský séu byrjuð að hrannast upp þá veit enginn raunverulega hversu voveiflegur hildarleikurinn yfirvofandi mun verða. Árið 2001 er stríðið búið en það blæðir enn úr flestum sárum – þetta er heimur fullur af brotnum manneskjum sem reyna af veikum mætti að fyrirgefa, sættast við fortíðina og halda áfram með lífið, sem þau eiga þó enn, ólíkt sumum. Árið 2011 hafa svo mörg sáranna gróið – en þó alls ekki öll.

Þetta þýðir að ástarsögurnar þrjár eru í raun gjörólíkar – þrátt fyrir að maður hafi á tilfinningunni að leikararnir séu í raun alltaf að túlka sömu manneskjur, bara manneskjur sem fæddust inní mismunandi aðstæður. Þannig sjáum við hvernig þau bæði virðast ágætlega heilsteyptir karakterar fyrir stríðið – enda hafa þau væntanlega sloppið við alvarleg trámu í æsku – en svo er hún brotin og eyðilögð árið 2001 og hann brotinn og eyðilagður árið 2011. Mótlætið bregður sér nefnilega í mismunandi líki og við brotnum ekki öll við sams konar mótlæti – hún ársins 2001 virðist hafa bugast við mótlæti stríðsins á meðan hann komst sæmilega heill í gegnum það, hann ársins 2011 virðist hins vegar hafa bugast við allt öðruvísi mótlæti, eftirköst stríðsins og foreldra sem geta ekki fyrirgefið.

Tihana Lazovic, aðalleikkona Sólstings í hlutanum sem gerist 2001
Tihana Lazovic, aðalleikkona Sólstings í hlutanum sem gerist 2001

Við sjáum þau sem par í einni sögunni, í annari eru þau að kynnast og í þeirri þriðju er hann að reyna að vinna hjarta hennar aftur. En undirliggjandi er ávallt tíðarandinn, tíðarandinn sem gjörbreytist þótt ásýnd þorpsins geri það ekki, tíðarandinn sem mótar örlög þeirra.

Það voru þó ekki allir jafn hrifnir af myndinni og ég. Ég hitti vini mína eftir sýningu sem voru alls ekki sáttir og við rifumst um myndina alla leið á blaðamannabarinn. Þar var ekkert laust en við fengum að setjast til borðs hjá manni og konu sem við þekktum ekki neitt – og þau leyfðu okkur að rífast í nokkrar mínútur í viðbót áður en þau játuðu fyrir okkur að þau væru leikstjóri og framleiðandi myndarinnar. Sem var hressilegt, enda snúast kvikmyndahátíðir ekki síður um að rífast um bíómyndir heldur en að horfa á þær – og það var óvenju mikið rifist um sumar myndir á þessari hátíð. Það var líka happafengur að geta rætt við einhverja um hvernig best væri að þýða titilinn. Hún er þýdd sem The High Sun á ensku, Zvizdan þýðir bókstaflega Járnsól á serbó-króatísku – og allar þýðingarnar ganga út á einhverja ógnarsól – hugtak sem er varla til á íslensku, enda sólin oftast frekar meinlaus í landi þar sem jafnvel söguleg hitamet er vel undir þolmörkum okkar flestra. Þannig urðum við sammála um að líklega væri Sólstingur skásta íslenskunin á titlinum – og ég rifjaði upp með þeim að síðast þegar ég fékk sólsting var það einmitt í 38 stiga hita í Belgrad, þar sem ég ráfaði um hallargarðinn Kalamagden og endaði að lokum inní stríðssafninu sjálfu í hálfgerðu óráði og skyldi skyndilega ágætlega hvernig fólk gæti orðið hættulega ört og pirrað í þessum svakalega hita.

Ítölsk ævintýri og ungverskir munaðarleysingjar

Tale of Tales
Tale of Tales

Allar þessar sögur sem ég hef sagt ykkur frá eiga þó rætur sínar að rekja til ævintýranna. Og ævintýrið verður ljóslifandi í Tale of Tales, sem er lauslega byggt á ævintýrum sem Giambattista Basile skráði, en hann var ítalskur forveri Grimms-bræðra. Ég var skeptískur fyrirfram, enda leiddist mér heil ósköp á Gomorrah, frægustu mynd leikstjórans Matteo Garrone – en það voru óþarfa áhyggjur, því þessi mynd er stórskemmtileg. Þetta eru algerlega óritskoðuð ævintýri – hér sjáum við drottningu eignast eingetið barn eftir að hafa borðað hjartað í sjávarskrímsli, við sjáum forljótar systur daðra við flagarakonung með klækjabrögðum og við sjáum Fríðu sem lendir á klónum á Dýrinu og verður barasta alls ekki ástfanginn, en má hafa sig alla við til að losna úr prísundinni.

Myndinni tekst að fanga sál ævintýranna ágætlega, hún skilur þennan galdur sem veldur því að við endursegjum þau aftur og aftur, en henni tekst líka að fanga óhugnaðinn og gróteskan húmorinn sem alltof oft er ritskoðaður í burtu.

Miðvikudagsbarnið
Miðvikudagsbarnið

Á sama tíma var það hins vegar líkast til mesta raunsæisdramað sem vann önnur aðalverðlaun hátíðarinnar, East of the West-flokkinn, sem helgaður er myndum frá gömlu Austur-Evrópu. Það var ungverska myndin Miðvikudagsbarnið, en það virðist raunar margt stefna í blómaskeið í ungverskum kvikmyndum ef marka má uppgang síðustu ára. Miðvikudagsbarnið Maja ólst upp á munaðarleysingjahæli – og á nú sjálf barn á þessu sama hæli, barn sem hún berst við að fá heim til sín á ný.

Myndin fjallar um vítahringinn sem vandræðaunglingar geta lent í – og hversu stórir litlir draumar geta verið. Maja tekur þátt í frumkvöðlaprógrammi og dreymir um að opna þvottahús með heilum þremur þvottavélum – jarðbundinn draumur fyrir okkur flest en lykillinn af veröldinni fyrir hana, lykillinn af því að geta orðið syni sínum móðir á ný og eignast alvöru framtíð.

Og talandi um raunsæið – á almennilegum kvikmyndahátíðum eru stundirnar utan bíósalarins oft göldróttastar. Við blaðamennirnir blöndumst saman við kvikmyndahátíðarprógrammera hvaðanæva úr heiminum og pródúsera og leikstjóra þar sem við rífumst um bíómyndir og skiptumst á meðmælum, skiptumst á sögum, hittum gamla vini frá síðustu hátíð og eignumst nýja, tökum þrjár sturtur á dag í 35 stiga hita einn daginn og verðum hundblaut í þrumuveðri þann næsta – og öfundum svo innst inni alla menntaskóla- og háskólakrakkana sem flykkjast hingað hvaðanæfa að og virðast ótrúlega hamingjusöm í því endalausa harki sem fylgir biðröðum upp á von og óvon um að komast inn á næstu bíómynd.

Þetta, einmitt þetta, er sá galdur sem bíóið glatar aldrei hvað sem öllum heimabíóum líður – galdur sem trompar alla þrívíddartækni og stafrænu heimsins.

Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Víðsjá á Rás 1 þann 4. ágúst. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 11.00 mínútur).

Stiklur:

Sleeping With Other People

Lyfjameðferð

Sangaile

Sólstingur

Tale of Tales

Miðvikudagsbarnið