Aðalbygging háskólans í Texas er í miðbæ Austin. Þetta er stór turn, mikilvægt kennileiti í borginni. Úr turninum er frábært útsýni yfir háskólasvæðið – og þar kom 25 ára byssumaður sér fyrir þann 1. ágúst 1966  með riffla og afsagaðar haglabyssur og lét skotunum rigna yfir kampusinn. Hann myrti alls 17 manns og særði 31 áður en hann var skotinn til bana af lögreglumanni. Þetta var í rúm 40 ár mannskæðasta skotárás í Bandarískum skólum – þetta var líka áður en slík fjöldamorð urðu nánast árviss viðburður.

Endurtökum þessar tölur,  hann drap 17 manns og særði 31. Við tökum oftast bara eftir fyrri tölunni – en heimildamyndin Turninn, Tower, er um seinni töluna. Þá sem lifðu af. Leikstjórinn Keith Maitland tók viðtöl við rúmlega hundrað manns sem voru á staðnum, mörg meira en klukkutíma löng – myndin er fyrst og fremst byggð á vitnisburði þeirra.

Konan sem við heyrðum tala í upphafi var Claire Wilson. Hún var átján ára og ófrísk  árið 1966 – hún missti barnið sitt og kærastann í skotárásinni en lifði sjálf af. Hún er miðpunktur sögunnar, enda krystallar hún ágætlega ástandið; það sjá flestir að hún er lifandi – en hún liggur á bersvæði fyrir neðan turninn, það virtist ómögulegt að koma henni í skjól án þess að verða sjálfur skotinn.

Hér er þó rétt að vera aðeins nákvæmari – röddin í upphafi tilheyrði leikkonu sem endurtók orð Claire Wilson, sem sjálf er á sjötugsaldri núna. Svo  er skipt í rödd Claire sjálfrar undir lokin. Þetta er gert stöku sinnum í myndinni – og þá fáum við að sjá eftirlifendurna á efri árum – en myndin er að mestu leiti teiknimynd, teiknuð með svokallaðri rotoscope tækni, þar sem teiknað er ofan í hreyfingar leikara. Því er svo listilega blandað saman við fréttamyndir, tökur af vettvangi og viðtöl við eftirlifendurna áratugum síðar.

Spennan magnast og verður nær óbærileg, skotárásin stóð yfir í rúman einn og hálfan klukkutíma áður en lögreglumenn yfirbuguðu skotmanninn – og allan tímann þá er stór hluti miðbæðjarins dauðagildra. En hún er líka hjartnæm, það er augljóslega ákveðin léttir sem fylgir því að  tala um þessa atburði, sem lengi hafa verið hálfgert tabú á þessum slóðum – þótt vissulega sé atvikið vel þekkt.

Byssumaðurinn er hins vegar í algjöru aukahlutverki, ég man ekki einu sinni hvort hann var nafngreindur í myndinni. Enda er hún ekki um hann – hún er um þá sem lifðu af og þá sem yfirbuguðu hann. Þið þurfið að sjá einhverja aðra mynd til þess að kynna ykkur hugarfar fjöldamorðingja.

„Ég dæmi ykkur til dauða“

Ein slík var raunar á hátíðinni, myndin Ég, Olga Hepneróva (Já, Olga Hepneróva). Olga þessi var síðasta konan sem var tekin á lífi í Tékkóslóvakíu áður en dauðarefsingin var afnumin. Það var árið 1975, en tveimur árum áður hafði hún keyrt vörubíl upp á gangstétt og drepið átta manns sem voru að bíða eftir sporvagni. Við vitum ekkert um þessa átta, þetta er sagan hennar Olgu.

OlgaHepnerovaÞetta er ægifögur bíómynd – hér sjáum við Prag kommúnismans í svart-hvítu og það er ómögulegt að taka augun af pólsku leikkonunni Michalina Olszanska, sem leikur Olgu. Hún er andfélagslegur einfari, samkynhneigð og virðist upp á kant við allt og alla. Að hluta til er þetta hinsegin mynd, um samkynhneigðar ástir í Tékkóslóvakíu kommúnismans, sem virðast ekki hafa verið eins þvingaðar og maður hefði kannski haldið, þau eiga sér sína eigin hinsegin bari og eru ekkert að pukrast óhóflega með sambönd sín.

En þetta er þó fyrst og fremst saga um einelti, geðveiki og mannhatur. Mannhatur Olgu sjálfrar og hatrið sem hún verður fyrir. Í kveðjubréfi sínu skrifar hún:

„Ég er einfari. Eyðilögð kona. Kona eyðilögð af fólki – ég hef val, að drepa sjálfa mig eða drepa aðra. Ég kaus að hefna. Það væri of auðvelt að yfirgefa þennan heim sem óþekkt fórnarlamb sjálfsmorðs. Þjóðfélagið hefur engan áhuga á  þeim, réttilega. Þetta er minn dómur: Ég, Olga Hepneróva, fórnarlamb ómennsku ykkar, dæmi ykkur til dauða.“

Við fáum svo að sjá málsvörn hennar fyrir rétti – og það sem gerir myndina svo magnaða er að hún þorir að fara alla leið og segja söguna alfarið frá sjónarhóli fjöldamorðingjans, sem þýðir meðal annars að hafa samúð með málstað hennar. Það er stór hluti af ástæðunni  fyrir því umdeild myndin er – en fyrir mér er þetta mikilvægur hluti af því af afskrímslavæða glæpamenn, reyna að skilja þá – og átta sig á því að mögulega hafi þeir rétt fyrir sér í sumu, sjái sjúkdómseinkenni samfélagsins betur en flestir – þótt viðbrögð þeirra séu vissulega óverjandi.

Bacalareat

Það þarf þó ekki slíka stórviðburði til þess að byggja upp spennu og það veit rúmenski leikstjórinn Cristian Mungiu vel. Hann er þekktastur fyrir fóstureyðingadramað 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar. Nýjasta myndin hans, Útskrift, eða Bacalaureat upp á rúmensku, fjallar um öllu sakleysislegri hluti – nánar tiltekið svindl á prófum. Ung stúlka, afburðanemandi, lendir í líkamsárás og nauðgunartilraun rétt fyrir  mikilvæg próf – próf sem hún þarf að ná góðri einkunn í til þess að tryggja sér dýrmætan skólastyrk til Cambridge.

Skyndilega skipta þessi próf litlu máli í huga hennar,  hún á  erfitt með að einbeita sér og finnst draumurinn um enska háskóla ekki jafn mikilvægur og áður. Pabbi hennar hins vegar er ákveðinn í að þetta áfall setji ekki framtíð hennar í uppnám og reynir hvað hann getur til þess að tryggja gott gengi – og togar þá í ýmsa spotta. Þetta er svipmynd af rúmenskri fyrirmyndarfjölskyldu sem má ekki vamm sitt vita – og hversu auðveldlega hún flækist í landlæga spillingu, um það hversu blíðlega sú spilling hvíslar og hvernig við réttlætum  vafasamar gjörðir. Það eru jú allir hinir að svindla líka. Hún er um þjóðfélag sem virðist svo laskað að því er ekki viðbjargandi, að minnsta kosti ekki í augum foreldranna sem líta svo á að eina von dótturinnar á almennilegri framtíð sé að komast í burtu. Þau sjálf kusu að vera og reyna að breyta hlutunum – og finnst það ekki hafa tekist. Finnst það vera ómögulegt. En hversdagsspillingin getur dregið dilk á eftir sér og það eru ekki alltaf þeir spilltustu sem að er refsað, ósjaldan lenda smápeðin, með sínar sakleysislegu yfirsjónir, í vörðum laganna.

Skálkar í hjólastólum

Við erum stödd í fangelsi, í matsalnum nánar tiltekið – og eftir nokkrar ryskingar upphefjast slagsmál. Við höfum séð þessa senu hundrað sinnum áður í alls  konar fangelsismyndum – en þessi sena er þó töluvert öðruvísi, það eru nefnilega allir fangarnir í hjólastól.

KillsOnWhelsUngverskt bíó er í miklum blóma eftir að kvikmyndasjóðurinn þar var endurvakinn. Þeir eru nýbúnir að vinna Óskarinn fyrir bestu erlendu mynd og hér í Karlovy Vary unnu þeir aðalverðlaun hátíðarinnar fyrir  myndina Þetta er ekki besta stund lífs míns. Ég sá hins vegar myndina Tiszta Szivvel, sem kallast Kills on Wheels upp á ensku og er kannski best þýdd á íslensku með vísun í Megas; Fatlafól.

Fangelsissenan sem ég minntist á er upphafssena myndarinnar – en fljótlega kemur í ljós að hún er hugarfóstur einnar aðalpersónunnar, Zoli, unglingspilts með ónýtt bak og ennþá ónýtari fætur sem er bundinn við hjólastól og teiknar harðhausamyndasögur. Hann og herbergisfélagi hans, Barba, sem getur labbað þótt með herkjum sé, láta ekki fötlun sína hindra sig í að vera annálaðir vandræðaunglingar. Þegar þeir hitta svo Rupaszov, launmorðingja í hjólastól, þá fer mann að gruna að þeir gætu jafnvel endað inni í sinni eigin myndasögu.

Það er máski einfaldast að lýsa myndinni svona; ef Quentin  Tarantino myndi ákveða að gera hjólastólamynd þá yrði þetta líklega sú mynd – nema að hinn ungverski Atilla Till var á undan honum. Það er ákveðin tilhneiging til þess að teikna fatlað fólk upp sem einhverja engla, sem geta kennt okkur hinum ófötluðu mikilvægar lexíur um æðruleysi og hversu dýrmætt lífið er, vel meinandi fordómar sem skálkarnir þrír í myndinni þola alls ekki. Þeir þola ekki vorkunsemi og þeir þola ekki hversu meinlausir flestir telja þá vera, þótt þeir nýti sér það vissulega út í ystu æsar.

Þversögnin er svo auðvitað sú að með þessu kenna þeir manni ágætis lexíur um lífið og varpa betra ljósi á hlutskipti fatlaðra en nokkur dýrlingamynd. Hún sýnir líka vandamálin sem fylgja – það reynist launmorðingjanum til dæmis sæmilega auðvelt að plaffa niður nokkra krimma – en að koma sér upp bratta götu og yfir meinleysislegt grindverk virðist óvinnandi vegur.

Þetta er líka mynd um óendurgoldnar ástir, týnda feður og framtíðardrauma. Og um ímyndunaraflið, sem ungverskir kvikmyndagerðarmenn virðast eiga ríflegan skammt af núna þrátt fyrir vafasama fasistastjórn.

Kvikmyndasagan í beinni

En það var líka drama handan bíósalarins. Það kviknaði í grillinu í blaðamannapartíinu og slökkviliðið mætti á svæðið, á meðan við blaðamennirnir skemmtum okkur í samkvæmisleiknum að finna bestu brunafyrirsögnina, persónulega grunaði mig að þetta væri útsmogin sviðsetnig á Slökkviliðsmannapartíinu, einni frægustu mynd tékknesku nýbylgjunnar sem Milos Forman leikstýrði skömmu áður en hann flúði land.

RomanceForBugle

Það eru ýmsar gamlar myndir sýndar hér líka – bæði klassískar Hollywood-myndir og klassískar Barandov-myndir, en Barandov er tékkneska draumaverksmiðjan – og þar eru raunar ófáar Hollywood-myndir teknar líka. Ástarsaga fyrir flygilhorn (Romance pro kridlovku) er ein af þessum klassísku tékknesku nýbylgjumyndum, byggð á epísku tékknesku ljóði. Myndin fjallar um ástfangið par, kennaranema og stúlku sem stjórnar hringekjunni í farandsirkus. Sagan er ekki flókin en þetta er heillandi innsýn í veröld sem er löngu horfin, skólabókardæmi um að frábær bíómynd  snýst ekki alltaf um að segja sögur heldur stundum fyrst og fremst um að sýna okkur drauma, kasta myndum á tjaldið sem eru listaverk út af fyrir sig, eins og dans í hringekju á meðan himininn dansar síbreytilegur fyrir ofan elskendurna.

Kvikmyndasagan er líka handan bíósalanna, í lokapartíinu hitti ég kviðmág Cary Grant sem sagði mér sögur af Brando og Redford, Sidney Lumet og Michael Cimino, leikstjóra Deer Hunter, sem er nýfallinn frá. Áður hafði ég hitt aldraðan kvikmyndagagnrýnanda sem svaraði aðspurður að uppáhaldsviðtalið sitt hefði verið við þá Steina og Olla, betur þekktir á ensku sem Laurel og Hardy, þegar hann var fjórtán ára. Hann bætti svo við skelmislega; „ég talaði við Chaplin líka, en hann var orðinn ga ga þá.“

Sjálfur gisti ég á hóteli þar sem ég átti í erfiðleikum með að finna herbergið mitt – þangað til mér var bent á að ég væri ekki á fyrstu hæð, heldur fyrstu og hálfri hæð. Það rímaði ágætlega við það að einn heiðursgesta hátíðarinnar var leikstjórinn og handritshöfundurinn Charlie Kaufman, sem varð fyrst frægur fyrir Being  John Malkovich – þar sem dularfullir atburðir gerðust á sjöundu og hálftu hæð. Ég rakst nokkrum sinnum á Kaufman, sem ávallt var umkringdur lífvörðum – en hann bræddi  hjörtu tékkneskra gesta þegar hann  tók við forsetaverðlaununum á lokahátíðinni og flutti ræðu blaðalaust á tékknesku.

Skömmu síðar voru aðrir sigurvegarar tilkynntir og ég var hundfúll með sigurvegarann í East of the West flokknum – ég hafði séð þrjár ágætar myndir þar og eina drepleiðinlega – og sú drepleiðinlega vann. En ein aðalpersónan í myndinn, hinni georgísku Hús annarra (Skhvisi sakhli), er afskaplega reið á svip alla myndina og er aldrei svo mikið sem nálægt því að brosa eða gleðjast. Það var því einkennilega fallegur endir að sjá leikkonuna í kvöldkjól, brosandi út af eyrum í sigurvímunni – sem kallaðist skemmtilega á við veggjakrot eftir Bítlafróða graffara í Tallinn sem finnskur vinur minn rifjaði ítrekað upp: „Everything will be okay in the end. If it’s not okay, it’s not the end.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Skuggsjá á Rás 1 þann 11 júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna (eftir 28.30 mínútur).