Blindur lögfræðingur, spæjari með áfallastreituröskun og skotheldur uppvaskari í ofurhetjusjónvarpi
„Occupy er ekkert nema hópur durga, þjófa og nauðgara, óstýrilátur múgur sem lifir á Woodstock-nostalgíu og rotnandi falskri réttlætiskennd. Þessir trúðar gera ekkert nema að skaða Ameríku.“
Þessi orð hljóma eins og einhver óvenju virkur í athugasemdum – og ef svo hefði verið þá hefðu þau líklega farið hljótt eins og annað álíka rant á internetinu. En þetta var ekki hver sem er, þetta var einn virtasti myndasöguhöfundur okkar tíma að fæla frá sér marga sína heitustu aðdáendur. Frank Miller hafði lengi skrifað sögur þar sem góðir menn og slæmir þurftu að passa sig að verða ekki fasisma að bráð, en nú virtist hann sjálfur vera orðinn bullandi fasisti. Sjaldan hafa hetjur listheimsins fallið jafn hátt út af einu bloggi – og líklega skoða menn ýmsar sögur Millers með öðrum gleraugum í kjölfarið.
Miller var á sínum tíma lágt settur teiknari hjá Marvel en stjarna hans reis hratt og þegar hann fékk tækifæri til að skrifa Daredevil-sögurnar fór allt að gerast. Blinda ofurhetjan var með veigaminni karakterum Marvel en Miller breytti honum í eina af forvitnilegri persónum myndasagnana – og þetta varð til þess að höfuðkeppinautarnir í DC keyptu hann yfir og fengu hann til að bjarga sjálfum Leðurblökumanninum endanlega frá kjánalegum kitsuðum ævintýrum sínum, þar sem Miller fékk þess í stað að endurbyggja hina myrku og drungalegu Gotham-borg sem Blaki fæddist í.

Miller þróaði stíl sinn áfram í sögum á borð við Sin City og 300 og gerðist meira að segja svo framsækinn að skrifa myndasögu um Mörthu Washington, unga svarta konu sem bjargaði heiminum frá tortímingu í öðru borgarastríði Bandaríkjanna um miðja 21. öld. En um leið þá kristallar sagan ágætlega þá krafta sem togast á í Miller; ævintýri þessarar svörtu frelsishetju eru nefnilega að stórum hluta byggð á Atlas Shrugged, öfgafrjálshyggjuútópíu Ayn Rand – sem margir myndu kannski frekar kalla martröð.
En þótt myndasagan yxi að virðingu þá var hún ennþá á jaðrinum, lykilhluti sívaxandi nördamenningar en varla hluti af meginstraumnum nema þegar Superman og svo seinna Batman slógu í gegn í Hollywood. Þangað til auðvitað að holskefla ofurhetjumynda ríður yfir í byrjun þessarar aldar, holskefla sem stendur enn yfir.
Peningabrenna fyrir hrun
Það var svo sumarið 2008, sumarið fyrir hrun, sem ofurhetjubíómyndin náði hápunkti sínum; þegar Jóker þá nýlátins Heaths Ledgers varð einhver eftirminnilegasti skúrkur kvikmyndasögunnar og líka einn sá forspáasti, þegar hann brennir heilt fjall af peningum, fáeinum mánuðum áður en við komumst að því að fjárglæframenn heimsins höfðu verið að gera einmitt það í alvörunni – og það með okkar eigin peninga.
Þessi Batman, rétt eins og aðrir bíó-Blakar, sótti mikið í smiðju Millers – og nafnið The Dark Knight er frá honum komið. Honum hafði förlast sem myndasöguhöfundi en gömlu sögurnar hans voru, óbeint, að öðlast nýtt líf á hvíta tjaldinu. Um það leyti sem hann birti svo bloggið umdeilda var framhald The Dark Knight á leiðinni, The Dark Knight Rises, og hún rímaði óþægilega vel við örlög Occupy-hreyfingarinnar – en það voru þó aðallega skúrkarnir sem minntu á Occupy.
„There is a storm coming, Mr. Wayne,“ hvíslar kattakonan í eyra Blaka og þessi frasi varð svo seinna fyrirsögn á grein um Panama-skjölin og íslensku ríkisstjórnina í Süddeutsche Zeitung.
En á meðan bíó-Batman hefur þróast út í ískyggilega fasíska hetju þá hefur fyrsta ofurhetja Millers, Daredevil, orðið einn öflugasti talsmaður lítilmagnans. Ofurhuginn sá er blindi lögfræðingurinn Matt Murdock á daginn en ofurhetja þegar dimmir – hann „sér“ á sinn hátt í gegnum einhvers konar radarskynjun, en líka í gegnum ofurmannlega heyrn.
Sjónvarpsserían gerist í kjölfar fyrstu myndarinnar um Hefnendurna (e. Avangers) – þar sem hetjurnar björguðu heiminum en skildu stóran hluta New York eftir í rjúkandi rúst. Hér eru skúrkarnir hins vegar ekki með ofurkrafta, heldur fasteignabraskarar sem reyna að notfæra sér eyðilegginguna til þess að græða peninga með því að kaupa upp lóðir og fæla fátæka íbúa frá svæðinu.
Þannig tengja þættirnir bæði hrun turnanna og bankahrunið – eyðilegging í bland við þá skefjalausu græðgi sem varð keikja Occupy hreyfingarinnar, sem og þá plágu sem uppavæðing (e. gentrification) hefur verið fyrir New York. Glæpamennirnir minna oft miklu frekar á bisnessmenn eða pólitíkusa – og margir þeirra starfa einnig sem slíkir – og fela sig á bak við órekjanlegar pappírsslóðir og kennitöluflakk. Það er vissulega nóg af hasar – en inn á milli hasaratriða sjáum við Foggy og Karen, samstarfsmenn Matts á lögmannsstofunni, berjast við kerfið – oft í samstarfi við rannsóknarblaðamanninn Ben Urich – og sú barátta reynist ekki síður erfið en barátta Daredevil og kallar ekkert síður á hetjudáðir og fórnir.
Þessar aukapersónur eru líka afskaplega vel skapaðar; Foggy virðist í fyrstu bara vera fyndni, þybbni félaginn og Karen virðist hin dæmigerða kona í kröggum – en bæði brjótast rækilega út úr þeim staðalmyndum og þurfa ósjaldan að berja bófa sjálf þegar Daredevil er upptekinn annars staðar. Ben Urich er svo hreint stórkostlegur karakter, ef einhver skáldaður blaðamaður á Pulitzer-verðlaunin skilið þá er það hann.
Alþjóðavæddir skúrkar

Senuþjófur þáttanna er þó glæpaforinginn sjálfur, Wilson Fisk, sem Vincent D‘Onofrio leikur og það hefur einfaldlega ekki sést betri skúrkur í ofurhetjuheimum síðan Heath Ledger dó. Fisk er tröll að burðum og styrk, án þess þó að vera með eiginlega ofurkrafta – en hann er með alla borgina í vasanum. Hann vill líka vel á sinn hátt, hann vill byggja þessa borg upp á ný í eigin draumsýn – og það er hann en ekki hetjan sem fær eftirminnilegustu ástarsöguna. Hann er þó ekki eini skúrkur fyrstu seríunnar – alþjóðavæðingin þýðir að rússneska, kínverska og japanska mafían koma allar við sögu og sagan teygir sig á köflum til heimahaga þeirra.
En hver er munurinn á þessum ofurhetjuþáttum og bíómyndunm sem flestir þekkja? Jeph Loeb hefur umsjón með sjónvarpsheimi Marvel og hann orðar þetta ágætlega: „Hefnendurnir eru hér til að bjarga alheiminum en Daradevil er mættur til að bjarga hverfinu.“ Það felur í sér miklu meiri nánd; í heimi bíómyndanna er venjulegt fólk oftast bara statistar – það sést í fjarskanum á meðan ofurhetjurnar fljúga yfir. Það þarf að bjarga þeim – en þessar hversdags manneskjur minna samt stundum óþægilega á maura í mergð sinni.
Fólkið sem Daredevil berst við að bjarga er miklu nær honum. Hann reynir að bjarga fólki úr þrælakistum kínversku mafíunnar sem og týndu fólki sem er misnotað í læknisfræðilegum tilgangi – og svo bara alls konar fólki sem vill bara fá að lifa í friði en getur það ekki út af kapítalistum og glæpamönnum sem gera þeim lífið óbærilegt.
Dáleiðandi freki kallinn
Daredevil er þó ekki eina hetjan í þessum sjónvarpsheimi. Planið er að gera þætti um Verndarana, The Defenders, í fyllingu tímans – en meðal þeirra verða Daredevil og þau Jessica Jones og Luke Cage, sem bæði eru komin með eigin þáttaseríu. Það er vissulega margt líkt með þeim og Daredevil – þetta eru jarðbundnar ofurhetjur með jarðbundin vandamál. En kyn Jessicu og litarhaft Luke breytir þó öllu. Jessica Jones er drykkfelldur einkaspæjari með ofurkrafta. Hún notar þá samt ekki til að hjálpa fólki í upphafi þáttanna – hún virðist aðallega sátt við að lifa hvern dag af og eiga næga penniga fyrir leigu og búsi. En það breytist skyndilega þegar hún fær veður af því að illmennið Kilgrave sé komið til borgarinnar. Ofurkraftar Kilgrave eru hreinlega hvað hann er sannfærandi, hann getur stjórnað hverjum sem er með sinni dáleiðandi rödd.

Hann er í raun freki kallinn holdgerður – er vanur því að fá allt sem hann vill, allt frá barnæsku – og fljótlega kemur í ljós að hann hafði fengið Jessicu líka á sínum tíma, þvert á vilja hennar. Við förum að átta okkur á því hvers vegna Jessica er jafn drykkfelld og andfélagslynd og raun ber vitni – þessir þættir fjalla í raun öðru fremur um áfallastreituröskun fórnarlambs nauðgunar, sem og annarra fórnarlamba Kilgrave.
Þessir ofurkraftar Kilgraves reynast þannig metefóra fyrir misnotkun – þar sem hann rænir fólk bókstaflega vilja þess, yfir bæði eigin gjörðum og eigin líkama. Hjálparleysið gegn valdinu er þannig lykilþema þáttana um Jessicu, rétt eins og í Daredevil, þótt í annarri mynd sé.
Skotheldur blökkumaður
Ofurhetjur Marvel urðu flestar til á sjöunda áratugnum og hingað til hafa bara gagnkynhneigðar hvítar karlkynshetjur fengið sína eigin bíómynd – þótt það muni fljótlega breytast, bíómyndir um afrísku hetjuna Svarta pardusinn og kvenhetjuna Captain Marvel eru í bígerð. En sjónvarps-Marvel tóku þó frumkvæðið – fyrst með Jessicu Jones og þar kynnumst við einnig einum elskhuga hennar, hinum þeldökka Luke Cage – manninum sem kúlurnar hrynja af. Cage er ósæranlegur og nautsterkur – en í hálfgerðum felum.

Skýringarnar á því koma í ljós í hans eigin þáttaröð sem frumsýnd var nú í haust á Netflix. Eftir að hafa dvalið með Daredevil og Jessicu í Hell‘s Kitchen á neðri hluta Manhattan-eyju erum við kominn upp í Harlem, mekka bandarískrar blökkumenningar – og eiginlega er serían óður til menningar blökkumanna fyrst og fremst, barátta ofurhetjunnar fellur þar í skuggann.
Cage og félagar hans á rakarastofunni skiptast á skoðunum um svarta rithöfunda á borð við James Baldwin og Ralph Ellison og aðrar hetjur úr Harlem. Það er máski ekki farið djúpt í skáldskap þessara manna, en það breytir aðeins heimsýninni þegar minna þekktir blökkuhöfundar eru neimdroppaðir á jafn hversdagslegan hátt og við bleiknefjarnir erum vön með Hemingway og Fitzgerald.
Sú menning sem skiptir mestu máli hér er tónlistin. Cage vinnur á kvöldin sem uppvaskari í Harlem‘s Paradise – þar sem helstu skúrkarnir seríunnar hafa líka aðsetur. En þangað mæta líka ótal flinkir tónlistarmenn – og flestir skotbardagar seríunnar eru klipptir saman við fantafína músík.

Aðalskúrkurinn framan af, Cottonmouth, situr svo á efri hæðinni og er ítrekað myndaður með risastórt málverk af Biggie Smalls í bakgrunni – þannig að kórónan á höfði Biggie endar á höfði hans. Maðurinn sem skapaði þættina, Cheo Hodari Coker er einmitt tónlistarblaðamaður að upplagi, skrifaði fyrir Rolling Stones og skrifaði lykilbók um rapparann Biggie – mann grunar þannig á köflum að hann sjái sig frekar í skúrknum með píanófingurna en í aðalhetjunni.
Cottonmouth er þó ekki eini skúrkur seríunnar. Frænka hans, pólitíkusinn Mariah, gæti mögulega reynst kaldrifjuðust af þeim öllum þótt hún sé alltaf að reyna að lifa réttu megin við lögin. Yfirskúrkurinn Diamondback vitnar svo til skiptis í 48 Laws of Power og Biblíuna, svona rétt eins og erkitýpískur nýfrjálshyggjumaður úr Biblíubeltinu. Fyrrnefnda bókin er raunar ágætt dæmi um snertifleti glæpa og stjórnunarfræða, enda ein vinsælasta bókin í bandarískum fangelsum. Í skugganum leynist svo Shade, náfölur bleiknefur – og í þessari nánast alsvörtu seríu er eitthvað einkennilega ógnandi við þetta náhvíta andlit.
En hvað stendur Cage sjálfur fyrir? Nafnið segir sitt – og rétt eins og Malcolm X valdi hann það sjálfur. Á tímum hreyfingar á borð við Black Lives Matter, þegar sífellt fleiri fréttir berast af lögreglumönnum að myrða blökkumenn, þá er svipmynd af blökkumanni í hettupeysu sem kúlur falla af ansi áhrifamikil – eða eins og Coker orðar það í einu viðtali: „heimurinn er tilbúinn núna fyrir skotheldan blökkumann.“ Um leið er þetta þó líka saga um gengjakúltúr og blökkumenn í stríði hvor við annan – eða eins og rakarinn í hverfinu orðar það: „Þeir eiga allir byssur. Engin þeirra á pabba.“
Borgin sem var
En þótt þetta séu nokkuð jarðbundnar nútímaofurhetjusögur þá gerast þær í New York sem er löngu horfin. Sú New York var vissulega til einu sinni, á áttunda og níunda áratugi síðustu aldar þegar borgin var ein sú hættulegasta í heimi sökum skuggalega hárrar glæpatíðni.
Það hefur gjörbreyst og þótt ennþá megi finna hættuleg hverfi í útjöðrum borgarinnar er Manhattan núna heimur hinna ríku, uppavædd hverfi sem fæstar aðalpersónur þáttanna hefðu ráð á að búa í. Manhattan sem varð uppavædd fyrir löngu. Fyrir utan að sá risastóri vígvöllur sem Hell‘s Kitchen virðist vera er aðeins á stærð við Seltjarnarnes.
Þetta er þó leyst ágætlega með því að láta glæpamennina vera hálfgerða staðgengla bissnessmanna og pólitíkusa, iðulega með lögguna í vasanum, venjulegir borgarbúar búa ennþá við ofríki, þótt eðli ofríkisins sé öðruvísi.
Áðurnefndur Frank Miller man þó vel þá New York sem hann orti um á sínum tíma í Daredevil sögunum. Hann flúði borgina eftir að hafa verið rændur þrisvar á einum mánuði og þessi ótti við þessa vofeiflegu borg gegnsýrir sögurnar hans. En þegar maður rifjar upp hversu fasísk skrif hans eru orðin í seinni tíð þá veltir maður óneitanlega fyrir sér hvort það þurfi mögulega alvöru fasista til þess að skrifa almennilegar sögur um fasisma nútímans.
Sögur um blindan mann, svartan mann og kvenmann að berjast gegn kapítalisma og spillingu á síðustu árunum fyrir Trump, fólk sem er að berjast við að ná endum saman í ómennsku og gjörspilltu kerfi.
Ásgeir H Ingólfsson
greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 24. nóvember 2016.