Örlítið um albanskan skáldskap og albanskan raunveruleika, um hershöfðingja dauða hersins, höfund hans og afskekktasta land Evrópu

Við horfum á bakið á litlum dreng sem horfir út í myrkrið. Út í nóttina og snjóinn. Hann heldur á tuskudýri sem virðist eini vinur hans í heiminum. Við þekkjum orðið flest söguna á bak við þessa eftirminnilegustu fréttaljósmynd síðasta árs; Kevi Pepoj var langveikur albanskur piltur sem átti að vísa úr landi.

En við vissum flest lítið um hvaðan hann og fjölskylda hans komu, oft ekki nema nafnið á landinu – Albaníu, innilokaðasta landi Evrópu um aldir sem er helst þekkt hérlendis fyrir að hafa verið kommúnískara en Kreml og svo seinna fyrir stéttskipt heilbrigðiskerfi sem óvænt varð fyrirmynd þeirra sem vildu meiri einkavæðingu í íslensku heilbrigðiskerfi.

Bota
Bota Albönsk mynd um staðinn sem hinir óæskilegu voru sendir.

Menning landsins hefur sjaldan ratað til Íslandsstranda, en það er þó aðeins að breytast. Fyrir tveimur árum sýndi RIFF albönsku myndina Bota, sem gerðist á afskekktasta stað þessa lands sem svo lengi var hugmyndafræðilega séð það afskekktasta í Evrópu. Hún gerist þar sem hinir óæskilegu voru sendir á tímum kommúnistaleiðtogans Envers Hoxha – og þeir eru þar enn. Eða öllu heldur börnin þeirra. Þetta er krummaskuð gamalla uppreisnarmanna og barnanna sem hafa ekki enn fundið leið aftur til hinnar nýju, frjálsu Albaníu.

Bota þýðir „heima“ á albönsku og þeirra heima er hið afskekkta heima. Jafnvel þótt heimað sé annars staðar. Ég ræddi við annan leikstjórann á sínum tíma, Thomas Logoraci, sem er Albani sem hafði alist upp í Bandaríkjunum, og hann sagði mér að nýbakaða nóbelskáldið Dylan hafi verið bannað á hans heimili, sem og önnur álíka músík. Þess í stað fékk hann að hlusta á gamlar kasettur frá foreldrunum – sem reyndust svo vera einu tiltæku útgáfurnar af þessum albönsku dægurlögum sem hægt var að nota í myndinni, spilaðar af 70 ára gömlum kasettum.

Einn af þeim sem var talinn ekki síður líklegur Nóbelsverðlaunahafi en Dylan var Ismaïl Kadaré, höfuðskáld Albaníu, og núna á dögunum kom út Hershöfðingi dauða hersins, bókin sem gerði hann frægan. Bókin sem núna er orðin fyrsta albanska bókin á íslensku að mér vitandi.

Handbendi kommúnista eða andspyrnuhöfundur?

Staða Kadaré er einstök í albönskum bókmenntum – og það má þakka þessari bók. Hann var ekki nema 27 ára þegar hún kom út en sjö árum seinna kom hún út á frönsku og við það öðlaðist Kadaré heimsfrægð – og var mögulega frægastur allra Albana ef forsetahjónin alræmdu, Enver og Nexhmije Hoxha, voru undanskilin. Mögulega var frægðin ástæðan fyrir því að hann gat haldið áfram að skrifa bækur sæmilega óáreittur, aðrir segja þá staðreynd að hann sé gamall nágranni Envers Hoxha frá borginni Gjirokaster hjálpi líka til. Svo eru einnig sumir sem telja að hann hafi verið handbendi kommúnistastjórnarinnar og hafi njósnað um aðra höfunda – sem þykir þó almennt hæpin kenning.

Kadare
Skáldið Kadaré les úr verkum sínum.

Sjálfur neitar Kadaré öllum slíkum ásökunum en segist þó ekki hafa verið andófsmaður, enda hafi andófsmenn eins og þeir sem þekktir voru í öðrum kommúnistaríkjum aldrei verið til í Albaníu, enda hefðu slíkir menn verið leiddir fyrir aftökusveit áður en þeir gætu stundað mikið andóf, eins og segir í formála bókarinnar, þar sem einfaldlega er haft eftir Kadaré: „Við urðum öll einhvern veginn að lifa af.“

Skrifin segir hann hafa verið sitt eina andóf – og það andóf þurfti að dulbúa vandlega á tímum kommúnismans. Það er forvitnilegt að velta fyrir sér Hershöfðingja dauða hersins út frá þeirri ritskoðun sem hún varð að forðast; bókin fjallar um ítalskan hershöfðingja sem kemur til Albaníu áratugum eftir heimstyrjöldina síðari til þess að grafa upp bein ítalskra hermanna.

En áður en við förum nánar út í söguna sjálfa er rétt að rifja örsnöggt upp sögu Albaníu fram að atburðum hennar. Landið hefur ávallt verið einangrað og á sinn hátt afskekkt, þrátt fyrir nálægð við lönd á borð við Grikkland, gömlu Júgóslavíu og Ítalíu. Ástæðurnar eru margþættar. Þetta er mikið fjallaland sem er erfitt yfirferðar, tungumálið er lítið sem ekkert skylt nágrannatungunum og ólíkt flestum kristnum nágrönnunum sínum tóku margir þeirra upp íslamstrú þegar Tyrkir réðu yfir svæðinu.

Zog

Albanía varð svo loks sjálfstæð árið 1912 og áratug síðar varð Ahmed Zogu fyrsti konungur Albaníu og tók sér nafnið Zog I. Hann var einræðisherra af ekkert svo ólíku sauðahúsi og Hoxha síðar, þótt stjórnarfarið væri allt annað. Það var hann sem gerði Tírana að höfuðborg sökum staðsetningar hennar inni í miðju landi, eitthvað sem var alls ekkert sjálfgefið enda áttu borgir á borð við Dürres og Shköder ekkert síður tilkall til höfuðborgartitilsins.

En Zog var ávallt í skugga landsins handan hafsins, Ítalíu, og hélt þeim góðum með því að beina öllum viðskiptum landsins til Ítalíu. En það dugði ekki Mússólíní til lengdar og á föstudaginn langa vorið 1939 barst seinni heimstyrjöldin til stranda Albaníu.

Í bók Kadaré er rifjað upp hvernig einsamall fjallabúi hljóp að ströndinni og barðist daglangt einn við innrásarherinn, vel staðsettur í byssuhreiðri sínu. Við fáum ótal slík endurlit, upprifjun á löngu gleymdum hluta hildarleiksins sem við þykjumst flest kunna nær utanbókar.

Hershöfðingi safnar líkum

Aðalpersónur bókarinnar eru ítalskur hershöfðingi og prestur sem er samferða honum. Þeir eru komnir þangað til þess að grafa upp lík ítalskra hermanna sem féllu í stríðinu – og í gegnum þær sögur fáum við alls kyns svipmyndir af þessu löngu liðna stríði. Við lesum ljóðræna dagbók hermanns sem gerðist liðhlaupi og vinnumaður hjá malara og varð ástfanginn af malaradótturinni, okkur er tjáð hve hávaxin líkin eru sem verið er að grafa upp, við fáum að heyra sorgarsögu aldraðrar ekkju og við fáum að heyra um hóruna sem var drepin, eiganda einu kvenkyns beinanna sem þeir grafa upp.

Ef við horfum fram hjá sögusviðinu sjálfu er galdur sögunnar helst sá að spegla tilgangsleysi stríðsins í iðju sem virkar jafnvel enn tilgangslausari. Hershöfðingi með mannabein í skottinu sem dreymir um að endurlífga þennan löngu dauða her og vinna allar þær orustur sem í raun töpuðust. Um leið eru þeir alltaf hálfpartinn týndir í þessu ókunna landi sem þeir skilja illa og fá oft takmarkaðar upplýsingar frá heimamönnum. „Gömlu mennirnir rugluðust á atburðum og bardögum ólíkra stríða. Það var ekki vissa í neinu. Aðeins forin geymdi sannleikann.“

En það er hins vegar ómögulegt að líta fram hjá sögusviðinu. Það má velta fyrir sér þeirri ákvörðun Kadaré að horfa svona á land sitt út frá gestsaugum – og maður spyr sig ítrekað; telur hann þessi gestsaugu vera glögg? Hershöfðinginn er frekar óviðkunnanleg persóna, hann er gamaldags karlremba, þjóðremba og stríðsæsingamaður.

Það má vel vera að Kadaré hafi einfaldlega viljað rifja upp sögur úr stríðinu og skyggnast um leið aðeins inn í sálarkima gamla óvinarins – og bókin gengur alveg upp ef hún er lesin þannig. En mann grunar þó óneitanlega að hann noti hershöfðingjann í raun sem fjarvistarsönnun til þess að segja ýmislegt um Albaníu sem Albani gæti aldrei sagt. Þannig fer lesandi ósjálfrátt að reyna að greina að hversu miklu leyti tal hershöfðingjans og fylgdarmanna hans um Albani er fordómfullt raus hrokafullra útlendinga og að hversu miklu leyti það er ádeila Kadaré á heimaland sitt.

Hershöfðingjunum er tíðrætt um ofbeldisáráttu Albana. Þeir segja þeir þá hrjúfa og vanþróaða og „vart fæddir þegar byssa er látin í vögguna til þess að vopnið verði óaðskiljanlegur hluti af lífi þeirra.“ Þeir spá því að þetta tortími þjóðinni að lokum, samanber þetta samtal:

„Einmitt. Albanir hafa alltaf haft dálæti á því að drepa og láta drepa sig. Þegar þeir gátu ekki sameinast gegn utanaðkomandi óvini þá drápu þeir hverjir aðra. Hefurðu heyrt um blóðhefndina hjá þeim?“

„Já.“

„Það er meðfædd eðlisávísun sem rekur þá í stríð. Eðli þeirra heimtar stríð, hrópar á stríð. Á friðartímum þrífast þeir ekki og eru í dvala eins og snákar að næturlagi. Lífskraftur þeirra kemur bara í ljós í ófriði.“

Það er raunar merkilegt hve gagnrýnir þeir eru á ofbeldishneigð Albana, þar sem hershöfðinginn sjálfur er hertur í stríði og hugnast friðurinn illa. Hann nær litlu sambandi við heimamenn, þótt hann sé í landinu í meira en ár, og fullyrðir að þótt það sé „nógu auðvelt að leita í jörð þeirra en að leita í sál þeirra, nei, aldrei.“

Sökin á því liggur þó ekki síður hjá hershöfðingjanum sjálfum, hann er jafn hrokafullur og innrásarherinn hafði verið og virðist ennþá líta á Albanina sem óvini sína þótt hann njóti aðstoðar þeirra og fyrirgreiðslu við uppgröftinn og fái oftast höfðinglegar móttökur. En ávallt leitar hugurinn aftur að meintri grimmd þjóðarinnar og presturinn greinir þá grimmd á einum stað með bókmenntafræðina að vopni:

„Morðin sem þeir fremja eru alltaf framin samkvæmt aldagömlum lögum. Blóðhefndin er eins og leikrit, samið samkvæmt lögmálum sorgarleiksins,“ leikrit sem hann segir Albani njóta „í fagurfræðilegri fullnægingu.“ Þessi fagurfræði sækir í kanún-lögin, ævafornar siðareglur sem lengi skiptu meira máli en landslög og trúarbrögð og skipta enn töluverðu máli á afskekktustu svæðum Albaníu.

Mögulega eru þau ástæðan fyrir því hve landið er einangrað, ekki síður en tungan og trúin og gamli kommúnisminn. Blóðhefnd þeirra minnir um margt á Íslendingasögurnar – og bókmenntir þeirra virðast raunar gera það líka, ef marka má orð rithöfundarins Joseph Roth, sem skrifaði greinar um Albaníu á millistríðsárunum og sagði allar bókmenntir þeirra „ættbálkasögur úr sveit.“

Valdasjúkur bókaormur

Aðrar sögur Kadaré eru margar tímalausar staðleysur sem flakka um völundarhús valdsins, völundarhús sem kunna að tákna Albaníu og kunna að tákna eitthvað allt annað. Einu sinni gekk hann of langt og var refsað fyrir, ástæðan var skáldsagan Draumahöllin – sem fjallar um stofnun sem safnar draumum þegnanna og túlkar þá til þess að finna andófið áður en það birtist í vöku. Albanía er aldrei nefnd en allegorían var of augljóst til að fara framhjá yfirvöldum.

Enda gat einræðisherrann Enver Hoxha komið auga á slík bókmenntatrikk þegar hann sá þau, hann var víðlesinn og átti risastórt bókasafn – og er skemmtilega lýst í formála Jóns Guðna Kristjánssonar sem bókaormi, en um leið sem valdasjúkum, siðblindum og vænisjúkum fjöldamorðinga.

Hans Albanía var ekki undir hælnum á Sovétríkjunum eftir að Stalín var allur – hann og rúmenski einræðisherrann Nicolae Ceaușescu áttu það sameiginlegt að þykja Kremlarkommúnisminn ekki nógu svæsinn og slitu því sambandi við Moskvu og fóru sínar eigin óhugnanlegu leiðir (það gerði Tító raunar líka í Júgóslavíu, en sá kommúnismi var ólíkt geðugri). Albanía var flestum Evrópuríkjum lokaðra – það var helst að Kínverjar væru algengir gestir enda voru flest milliríkjasamskipti við Peking eftir að Moskvu var hafnað. Þá hikaði Hoxha ekki við hreinsanir að hætti síðasta Sovétleiðtogans sem honum hugnaðist, Jóseps Stalíns.

Örlögin höguðu því svo þannig að um það leyti sem bókin kemur loks út á íslensku tilkynna stjórnvöld í Albaníu að þau ætli að hefja leit að jarðneskum leifum 6000 manna sem hurfu sporlaust á tímum Hoxha. Þannig endurtekur mannkynssagan sig, fyrst í skáldskap og svo í raunveruleikanum.

Sú Albanía sem hann tók við var þó afskaplega frumstæð – iðnbyltingin kom ekki til Albaníu fyrr en með Hoxha og 80 prósent landsmanna stunduðu landbúnað fyrir heimstyrjöldina, jafnstór prósenta var ólæs – og það má bókaormurinn Hoxha eiga að hann kenndi þeim að lesa. Hins vegar hafði hann vafasöm áhrif á hártísku karlmanna þjóðarinnar. Þegar ljósmyndir í Þjóðminjasafninu í Tírana eru skoðaðar þá eru albanskir karlmenn upp til hópa afskaplega vígalegir með sítt skegg og enn síðari makka, en eftir að Hoxha tók við urðu karlmenn að gera svo vel að skera hár sitt og skegg til að vera yfirvöldum þóknanlegir.

Kapítalistaklaufar og gnarrískur borgarstjóri

En hvernig rímar þetta allt saman við nútímann, við landið sem Kevi litli fæddist í tæpum aldarfjórðungi eftir að kommúnisminn leið undir lok? Albanía hefur vissulega opnast og hún er ólíkt frjálsari en áður, en hún er þrátt fyrir það á vissan hátt ennþá eitt lokaðasta land Evrópu og landlæg spilling getur gert landið óbærilegt að búa í fyrir þá sem lenda upp á kant við vitlausa aðila. Þjóðin keppir við Moldóvu um titilinn fátækasta land álfunnar og er enn að súpa seyðið af kapítalisma og kommúnisma fortíðarinnar.

Tirana
Litríka Tírana Litaglaðar kommúnistablokkir í miðbæ Tírana

Já, kapítalisma, því eftir að kommúnisminn féll tóku nefnilega við einhverjar misheppnuðustu frjálshyggjutilraunir í gervöllu austrinu. Pýramídasvindl og stjórnlaus kapítalismi réðu ríkjum í tæpan áratug, oft að undirlagi stjórnvalda, og svo bættist við flóttamannastraumur í kjölfar Kósóvóstríðsins, sem snerti Albaníu á margvíslegan hátt.

Ástandið hefur batnað síðan – en spilling grasserar ennþá og landið er ennþá bláfátækt og stéttaskipting mikil. Þegar ég kom þangað fyrst fyrir tæpum áratug virtist forneskjan í fyrstu mikil – í Shköder sá maður jakkafataklædda menn á hjólum og fyrir utan fúrgoninn minn (litlar rútur sem sjá um almenningssamgöngur Albaníu) voru sárafáir bílar á götunum.

Það breyttist þó þegar maður kom til höfuðborgarinnar, Tírana, en þar mátti sjá handbragð Edi Rama út um allt. Hann var myndlistarmaður áður en hann varð borgarstjóri upp úr aldamótum og lýsti borgarstjórastarfinu svona: „Þetta er ein mest spennandi vinna í heimi, af því ég get skapað og barist fyrir góðum málefnum á hverjum degi. Það að vera borgarstjóri í Tirana er hæsta stig konseptlistar, það er list í sinni tærustu mynd.“

Sem listamanni tókst Rama að breyta ásýnd Tirana þrátt fyrir að borgin væri á kúpunni. Hann greip til einfalds bragðs sem hann hafði lært í listinni; að mála. Húsin voru grá og guggin, gráminn var yfirþyrmandi. Þannig að hann gaf íbúum niðurníddustu og gráustu blokkanna litríka málningu. Það var enginn peningur til að leggjast í miklar framkvæmdir, ráða innanhúsarkítekta, skipta um innbú og hvað þá að byggja upp á nýtt. En þess þurfti ekki nauðsynlega, í bili var meira en nóg að fá bara smá lit. Grámygluleg hverfi breyttust í litrík og glaðleg hverfi, full af röndóttum, marglitum og fallegum húsum.

Þetta virtist smitast út í borgarsamfélagið, fólk fór að skapa nærumhverfi sitt upp á nýtt. Eitt dæmi er forljótur pýramídi sem arkítektinn dóttir Hoxha teiknaði upp í valdabrjálæði sínu. Núna nota börn og unglingar þennan risapýramída sem rennibraut. Aðaltorgið er fullt af klessubílum sem krakkar leika sér í og gamlar konur labba þar óáreittar í gegn á meðan krakkarnir klessa á bíla hvors annars, traustið er fullkomið.

EdiRama
Edi Rami Listamaðurinn sem varð borgarstjóri og forsætisráðherra.

Það er að segja á milli gömlu konunnar og krakkana á klessubílunum. Rama reyndist hins vegar ekki bara vera hugmyndaríkur heldur líka spilltur eins og forverar hans, með milljónir geymdar á aflandsreikningum. Hann varð þrátt fyrir það forsætisráðherra stuttu eftir að hann var borgarstjóri og er það enn.

Maður skynjar vanda Albana í dag dálítið þannig að þeir séu ennþá að læra á lýðræði og kapítalisma, þeir eru jafn óvanir hvoru tveggja, hafa litla tilfinningu fyrir því hvernig þessi kerfi virka og eru ennþá að átta sig á göllunum, sem var mögulega ástæðan fyrir því að þeir leyfðu kapítalismanum að vera nær óheftur um stund, með skelfilegum afleiðingum.

Þeir virðast líka einfaldlega vera klaufalegir kapítalistar. Fáeinir glúrnir kynningarfulltrúar færu til dæmis létt með að margfalda túrismann í landinu – þetta er land sem bíður þess að vera uppgötvað, en gerir ósköp lítið í því að láta vita af sér.

En ferðalangur til Albaníu upplifir gestgjafana töluvert öðruvísi en hershöfðinginn í sögu Kadaré. Á móti honum tekur hlédrægt en hlýlegt fólk, fólk sem ennþá er örlítið hissa að sjá ferðamenn og nálgast þá af ósvikinni forvitni um þessa fáeinu gesti sem rata til þeirra.

 

Þýðing úr fangelsi, þýðing á disklingi

Við fyrstu sýn virðist bókin berast okkur í gegnum ansi mörg tungumál. Persónurnar tala flestar ítölsku, en sú ítalska er þó aðeins til í ítölskum þýðingum, enda bókin frumsamin á albönsku – og þaðan þýdd á frönsku og eftir henni er íslenska útgáfan gerð. En líkt og með Milan Kundera hefur Kadaré löngum haft búsetu í Frakklandi og starfar það náið með þýðanda frönsku útgáfunnar að bæði hann og Kundera líta á frönsku útgáfuna sem næsta bæ við frumtextann – og Kadaré hefur raunar stundum breytt albönsku útgáfunni því honum þótti franska útgáfan vera betri. Þýðandinn var raunar albanskur sjálfur. Jusuf Vrioni lærði frönsku í Frakklandi fyrir stríð en snéri aftur og ætlaði að hjálpa til við enduruppbyggingu Albaníu eftir stríð. Það fór ekki betur en svo að honum var kastað í fangelsi – þar sem hann stytti sér stundir við að þýða albanskar bókmenntir yfir á frönsku, eitthvað sem hann sagði að hefði hjálpað honum að halda geðheilsunni. Þar á meðal var Hershöfðingi dauða hersins, sem seinna átti eftir að rata til Frakklands og gera Kadaré heimsfrægan.

Hrafn E. Jónsson heitinn þýddi söguna á íslensku fyrir aldarfjórðungi síðar og var hún lesin í útvarpi í upphafi tíunda áratugarins – en kom aldrei út á bókarformi fyrr en nú. Handritið var raunar eingöngu til á gömlum úreltum tölvudisklingi, sem Ólafi Hrafnssyni tölvufræðingi, syni þýðandans, tókst að flytja á nothæft form.

Albaníuvinurinn Byron lávarður

ByronPasha
Byron lávarður í heimsókn hjá Ali Pasha.

Þótt Albanía hafi lengi verið lokað land hafa þó alltaf einhverjir ferðalangar skrifað um dvöl sína þar. Illugi Jökulsson rifjaði upp í útvarpsþætti í vor pistla sem Joseph Roth skrifaði frá Albaníu á millistríðsárunum, barnabókahöfundurinn Edward Lear og frú Edith Duram skrifuðu ferðabækur frá Albaníu á 19. öld og sá frábæri ferðasöguhöfundur Leslie Gardiner þvældist um landið á svipuðum tíma og Kadaré var að semja Hershöfðingjann. Þekktasti Albaníuvinurinn er þó líklega Byron lávarður, sem orti svo eftir heimsókn sína:

Fierce are Albania‘s children!

Their native fortresses not more secure

Than they in doubtful time of troubles need:

Their wrath; how deadly! But their friendship sure

Karlmennskueiður

SwornVirgin
Alba Rohrwacher í Karlmennskueið.

Kanún-lögin snúast ekki bara um blóðhefnd. Albanía er mjög karlægt þjóðfélag, þar sem erfiðisvinna lendir oft mest á konum og þær höfðu lengi lítið um það að segja hverjum þær giftust. En þar bauðst þó konum eitt sem þeim bauðst hvergi annars staðar; að gerast karlar. Til þess þurftu þær að sverja karlmennskueið sem og skírlífseið – og með því gátu þær bjargað sér frá ástlausu hjónabandi ef svo bar undir og öðlast allt það frelsi sem konum var annars neitað um. Þessar karlakonur máttu drekka raki, reykja sígarettur og skjóta af byssum eins og hver annar karlmaður. Þær klæða sig líka eins og karlar og klipptu sig eins og karlar og tóku sér karlmannsnafn.

Nýleg ítölsk-albönsk kvikmynd, Karlmennskueiður (Vergine giurata, Sworn Virgin á ensku) lýsir þessu hlutskipti ágætlega, en hún fjallar um karl-konu sem ákveður eftir fjórtán ár sem karl að gerast kona aftur.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 25. nóvember 2016.