Kvikmyndakompa

Bráðum verður nafn leikstjórans Kenneths Lonergans á allra vörum. Hann verður tilnefndur til Óskarsverðlauna og Hollywood-stúdíóin munu keppast um undirskrift hans. Held ég. En kannski verður hann bara enn eitt nýstirnið sem flýgur of nálægt sólinni og brennir af sér vængina.Ég veit það ekki, það sem er vitað fyrir víst er þetta; hann og nýjasta myndin hans, Manchester by the Sea, eru talin með líklegustu sigurvegurum komandi Óskarshátíðar – en um réttmæti þess getum við lítið fullyrt, það er ekki byrjað að sýna myndina hérna megin Atlantshafs og ekki búið að sýna hana nema á kvikmyndahátíðum vestanhafs.

En það er líka vitað að hann hefur nú þegar brennt sig á að fljúga of nálægt sólinni, í einhverri einkennilegustu Hollywood-sögu síðari ára, þar sem við sögu koma ótal útgáfur af sömu mynd, Martin Scorsese og brostnar vonir – og þegar nánar er að gáð, 11. september og Donald Trump.

Kenneth Lonergan er ekkert unglamb – og var þegar búinn að sanna sig sem eitt færasta leikskáld Bandaríkjamanna þegar hann leikstýrði sinni fyrstu bíómynd, You Can Count on Me, árið 2000. Örlögin höguðu því þannig að ég fór með systur minni á myndina, sem var viðeigandi, vegna þess að þótt það séu til ógrynni bíómynda um náin sambönd bræðra og nokkrar líka um náin sambönd systra þá eru systkini hvort af sínu kyninu furðu afskipt í Hollywood.

Myndin var þrælgóð og það var talað um ungan aðalleikarann, Mark Ruffallo, sem næsta Brando. Það rættist svosem ekki, þótt Ruffallo sé frábær leikari – og þó, hefði Brando ekki líka endað á að leika Hulk ef hann hefði fæðst hálfri öld síðar?

Lonergan
Lonergan leikur fjarstaddan föður Lisu í Margaret, hér er hann í símanum að tala við dótturina.

En Lonergan varð í kjölfar myndarinnar einn eftirsóttasti leikstjóri Hollywood – en þið þekkið mýtuna úr tónlistarheiminum um hvað plata númer tvö sé erfið? Prófið að margfalda það með tíu og þá fáið þið út Margaret – næstu mynd Lonnergans.

Myndin var ofur metnaðarfullt viðbragð hans við 11. september – og tökum lauk árið 2005. En myndin kom hins vegar ekki út fyrr en sex árum síðar, árið 2011, og fæstir fengu svo mikið sem tækifæri á að sjá hana. Lonnergan lenti í basli við að klippa hana og lagaflækjur fylgdu í kjölfarið, Lonnergan reyndist bara eiga rétt á lokaklippi ef myndin yrði undir tveimur og hálfum klukkutíma að lengd. Martin Scorsese og hans frægi klippari, Thelma Schoonmaker, hjálpuðu til við eitt klipp af mörgum og Scorsese lýsti því yfir að myndin væri meistaraverk.

En þegar myndin kom loksins út, 160 mínútur að lengd, var ómögulegt að segja hvort þetta væri útgáfan sem Scorsese elskaði eða ekki; lagaflækjur komu í veg fyrir að aðstandendur ræddu myndina að ráði og stúdóið vildi sem minnst af henni vita, sýndi hana í örfáum bíóum og sendi ekki einu sinni út diska með henni til meðlima Óskarsakademíunnar fyrr en eftir ítrekaðar óskir nokkurra gagnrýnenda sem fannst myndin eiga betra skilið.

Hún var þó sannarlega umdeild meðal gagnrýnanda – og mynd sem varð hreinlega fræg fyrir það hve fáir hafa séð hana. Ef hún hefði komið út á réttum tíma hefði hún mögulega náð á skottið á uppgjörinu við 11. september – fjögur-fimm ár eru ekki svo mikið í tilfelli Hollywood þegar þarf jú að skrifa handrit, finna fjármagn og leikara og taka upp og klippa. En árið 2011 var farið að fenna yfir atburðina og enn frekar núna þegar ég sá hana loksins, helgina áður en Ameríka kaus Trump. En mögulega var það bara betra – það er þráður sem tengir báða atburði og Margaret er hluti af þeim þræði.

Hvar varst þú þegar turnarnir féllu?

Margaret fjallar um Lisu, unglingsstúlku í einkaskóla í New York. 11. september er í nálægri fortíð myndarinnar – það er rifist um atburðina í tveimur kennslustundum en annars koma þeir ekki við sögu, ekki beint. En líf Lisu tekur stakkaskiptum þegar hún ætlar að kaupa sér kúrekahatt. Hún sér strætóbílstjóra, leikinn af áðurnefndum Mark Ruffallo, með einmitt slíkan hatt á hausnum.

Margaret2
Lisa fær tiltal frá stærðfræðikennaranum sem hún er skotin í.

En strætóhurðin skellur á andlitið á henni, hún reynir að ná sambandi við hann – kallar í gegnum glerið á meðan strætóinn fer af stað: „Hvar keyptirðu þennan hatt?“ Strætóinn stoppar ekki en hún nær athygli bílstjórans, mögulega eru þau að daðra hvort við annað, mögulega er hann bara að reyna að segja henni að láta sig í friði. Við fáum aldrei botn í það, því það er komið rautt ljós.

Bílstjórinn sér það ekki og keyrir á konu sem er að ganga yfir gangbraut. Lisa er fyrst á vettvang, heldur á alblóðugri konunni í örmum sínum á meðan líf hennar fjarar út. Konan kallar á Lisu, ekki þó þá Lisu sem heldur á henni, heldur á nöfnu hennar, löngu látna dóttur sína.

Lisa er skiljanlega í losti. Mögulega upplifir hún líka einhverja samsekt og vorkennir bílstjóranum – og lýgur því í skýrslutöku að ökuljósið hafi verið grænt. Hún verður sífellt skapverri og óútreiknanlegri í kjölfarið, hvort sem er í samskiptum við einstæða móður sína, strákana í skólanum eða kennarana. Á endanum snýr hún svo við blaðinu og vill breyta frásögn sinni.

Það er þá sem einhver sérstakasti kafli myndarinnar hefst. Lisa fer í herför. Herför fyrir sannleikanum, herför til þess að koma strætóbílstjóranum af götunni, herför fyrir hefnd. Hún er á löngum köflum algjörlega óþolandi – en þökk sé rafmögnuðum leik Önnu Paquin og því hvað persónan er óþægilega kunnugleg getur maður ekki annað en haldið áfram að horfa.

Það sem er óþægilega kunnuglegt er þessi árátta Lisu til að láta þessa atburði snúast um sig sjálfa. Þrátt fyrir að hún hafi aldrei þekkt konuna og dauði hennar hafi ekki haft nein bein áhrif á líf hennar, fyrir utan blóð í fötum og ör á sál. Hún tengir fljótlega við bestu vinkonu látnu konunnar – en fljótt verður munurinn á þeim skýr; leitin að réttlæti er bara hluti af sorgarferli vinkonunnar – jafnvel hálfgert aukaatriði, aðalatriðið er að hún á aldrei eftir að sjá bestu vinkonu sína aftur og úrskurðir dómstóla munu engu um það breyta. Þetta er eðlileg sorg, sorg sem maður ber virðingu fyrir.

Sorg Lísu verður fljótlega eitthvað andstyggilegt, sorg sem breytist í ofsa og hefndarþorsta. Hún er við öll, við þessi stóri meirihluti, sem sáum turnana hrynja, sem sáum fréttir af innrásinni í Bataclan tónlistarhöllina í París – við öll sem þekktum enga sem dóu – en fannst þetta samt persónulegt. Af því að þetta var í fréttunum, af því að við höfðum komið sem túristar til Parísar eða New York, jafnvel búið þar.

En þetta er ekki okkar sorg, þetta snýst ekki alltaf um okkur. Jafnvel þótt það sé manneskja í harmleiknum miðjum sem við rákumst á í örskotsstund og önnur sem heitir sama nafni. Við oftúlkum heimsviðburðina eftir eigin nefi, setjum okkur sjálf í aðalhlutverkið – hvar varst þú þegar turnarnir féllu?

Þetta er saklaus spurning fyrir flesta, mögulega status á Facebook og franskur fáni í prófílmynd. En sumir þurfa meira. Sumir þurfa hefnd eða réttlæti, hvað sem það kostar – í bræði yfir örlögum fólks sem því fannst það eiga að þekkja.

Fjarri heimsins harmi

Það er auðvelt að sjá Lísu sem Ameríku – unga þjóð á gelgjunni sem lætur allt snúast um sjálfa sig og særir alla í kringum sig, sleginn blindu gagnvart afleiðingum eigin gjörða. Eða sem Vesturlönd öll, sem eru orðin svo fjarri verstu hildarleikjum heimsins að þau grípa öll hálmstrá til þess að halda í þá mennsku og göfgi sem við tengjum ennþá við þjáninguna, það eru allir að leita að sínu Víetnam, sínu Auschwitz, til þess að glæða líf sitt merkingu – þótt vitaskuld viljum við bara hugmyndina um þjáninguna, ekki öll óþægindin sem fylgja alvöru stríðum og alvöru hungursneyðum.

Þetta er mynd um okkur, sem líður stundum illa en skortir alvöru harm, harm sem við getum komið orðum að. Þess í stað heimtum við hlutdeild í sársauka annarra, förum að eigna okkur sársaukann – umfram heilbrigða hluttekningu og samúð. Leitum að réttlæti út fyrir gröf og dauða, jafnvel þótt það gagnist engum. Hefnd fyrir aðra, útrás fyrir eigin hefndarþorsta.

Og þótt Donald Trump hafi bara verið bisnessmaður með asnalega klippingu þegar myndin var gerð þá bergmálar hún samt í hausnum á manni eftir kosningar. Því Lisa er líka bara týnd lítil stelpa í heimi þar sem allir tala í kross. Hér hlustar enginn, fólk bíður bara færis að fá tækifæri til að tala sjálft. Heimur þar sem við kunnum ekki lengur að tala saman er heimur þar sem lýðræðið er ónýtt og borgir hatast við sveitir og sveitir og Vesturlönd hatast við Austurlönd og gamall rasismi og karlremba húkka sér far með öllum þessum óhugnaði.

Úlfurinn og Borgari Kane

En Trump er víða. Hann er til dæmis fjarverandi lykilpersóna í síðustu mynd tékkneska leikstjórans Jan Nemecs, Úlfurinn við Vínviðargötu. Ég gæti sagt ykkur að ég búi rétt hjá þessari götu – en þá væri ég að láta þetta snúast um sjálfan mig, þannig að ég segi bara í staðinn sögu Nemec. Hann var með frægari leikstjórum tékknesku nýbylgjunnar – en á meðan kollegar á borð við Milos Forman og Jiri Menzel öðluðust áframhaldandi frægð, annar í Ameríku og hinn í Tékkóslóvakíu, þá yfirgaf Nemec heimalandið og týndist hálfpartinn í Bandaríkjunum.

WolfOfVineyardStreet
Jan Nemec fer frá því að snúa sig út úr yfirheyrslu hjá kommúnistaleiðtoga yfir í að betla peninga frá kapítalistanum Ivönku Trump.

Þessi lokamynd hans, sem aðrir kláruðu, er ævisögulegur bútasaumur – og við sjáum meðal annars þegar Nemec reynir að nota Tékka-kortið til að fá fund með Ivönku, hinni tékknesku þáverandi eiginkonu Trump. Fyrsti fundurinn gengur nógu vel til þess að fá annan fund – en þá lætur Ivanka hann fá eintak af The Art of the Deal, áletrað af Donald sjálfum. Þegar hann spyr svo um fjármögnunina þá svarar Ivanka að Trump hafi engan áhuga á bíómyndum.

Nemec hendir bókinni vitaskuld í ruslið á leiðinni út – og í senunni kristallast bæði hvernig listamenn þurfa að sleikja valdið upp og hvað valdið getur verið kúltúrlaust. Það er þó ekki alveg sannjarnt gagnvart Trump – sem reyndist þegar á reyndi ágætis kvikmyndagreinandi.

CitizenTrump
Það eru ekki bara kvikmyndagagnrýnendur heimsins sem elska Citizen Kane, Donald Trump gerir það líka.

Heimildamyndagerðarmaðurinn Errol Morris ætlaði einu sinni að gera bíómynd þar sem hann filmaði fræga einstaklinga á borð við Mikhaíl Gorbatsjof að tala um klassískar bíómyndir. Myndina kláraði hann aldrei – en það er samt hægt að finna myndband á youtube af Trump að tala um Citizen Kane. Meira segja af sæmilegri visku, mun meiri visku en birtist í kosningabaráttunni. Hann talar um að myndin fjalli í raun um söfnun auðs – og eftirköstin af því.

„Ég held myndin kenni þér að auður er ekki allt. Því hann hafði auðinn en hann öðlaðist ekki hamingjuna,“ segir Trump og heldur áfram: „Senan þar sem borðið verður stærra og stærra og það verður lengra og lengra á milli hans og konunnar hans, ég get skilið það. Í raunveruleikanum einangra auðæfi þig frá öðru fólki. Þetta eru varnarviðbrögð,“ bætir hann svo við – eða eins og fráfarandi forsætisráðherra Íslands orðaði það; „Það er flókið að eiga peninga.“

En það er eitthvað ljóðrænt við að uppálhaldsmynd auðjöfursins Trump sé mynd sem í raun er gagnrýni á menn eins og hann, mynd sem var þögguð niður á sínum tíma. Svo er bara að sjá hvað Trump mun takast að þagga niður næstu fjögur árin.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 26. nóvember 2016.