Kvikmyndakompa

Um Arrival, Baskavígin og Sigurð Pálsson

„Er líf á öðrum hnöttum?“ er aldagömul spurning — en ef svarið er jákvætt er tímabært að spyrja líka; hver á að taka á móti geimverunum þegar þær loksins lenda? Það hefur lítið upp á sig að berja á þeim, geimverur með tækni til að ferðast á milli sólkerfa verða varla í vandræðum með íslensku víkingasveitina.

Þess vegna er best að reyna að skilja þær — og þá sendir maður auðvitað þýðanda. Sigurð Pálsson til dæmis, enda er hann með ræðuna tilbúna: „Kannski getum við líka lært ýmislegt af innflytjendum, meira en okkur grunar. Þá er fyrsta skrefið að sýna þeim áhuga, forvitnast um þeirra hag og hugmyndir og reynslu. Eiga við þá samtal. Allt byrjar á samtali, ekkert hefst án þess.“

Svo mælti Sigurður í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu — og um leið og þetta talar inn í samtímann þá á þetta merkilega vel við tvær ný­ legar bíómyndir; geimverudramað Arrival sem og um Baskavígin, heimildamynd um löngu liðna fortíð.

Í Baskavígunum koma útlendingar á einangraða eyju, í Arrival koma geimverur á einangraða plánetu. Íslendingar/jarðarbúar hafa sínar efasemdir á aðkomumennina/verurnar, þeir deila hvorki tungumáli né hugmyndaheimi með þeim. Hvað vilja þessar geimverur, þessir Baskar? Hvað vilja þeir okkur?

Málvísindamaðurinn Viola Migliom orðar þetta ágætlega í Baskavígunum: „Skilningur milli manna var mjög mikilvægur en misskilningur var enn mikilvægari, því afleiðingar misskilningsins urðu átök.“

Við horfum á tvo Jóna, þá sér Jón Grímsson og Jón lærða, taka á móti Böskunum þegar þeir koma í land. Andlit Jóns Grímssonar lýsir tortryggni og styggð — en andlit Jóns lærða lýsir forvitni og vilja til að skilja. Jón lærði kunni hrafl í latínu, sem þýddi að hann gat átt í meiri samskiptum við Baskana en flestir. Jón lærði vildi skilja Baskana — á meðan nafni hans Grímsson leitar að átyllu til þess að ráðast á þá.

Staðan er ekki ólík þegar dularfullar geimverur lenda í Arrival. Málvísindakonan Amy Adams reynir að skilja geimverurnar — sem líta út eins og skringilegir kolkrabbar og tjá sig á ritmáli sem minnir helst á ( ) — svigaplötu Sigur Rósar. Sem er viðeigandi, þessar geimverur virðast tala einhverja útgáfu af vonlensku og það má örugglega finna textatengsl á milli þeirra og Sigur Rósar, svona fyrir utan það að tónskáld myndarinnar, Jóhann Jóhannsson, er af sömu kynslóð íslenskra tónlistarmanna og Sigur Rós, neðanjarðarhetjur íslensku tónlistarsenunnar undir lok síðustu aldar, sem nú eru að sigra heiminn. En geimverurnar skilja tíma og rúm allt öðruvísi en við — og það gera þær ekki í gegnum tækni sem er okkur hulin, heldur í gegnum tungumál sem við skiljum ekki.

Að koma í friði

Hvar varst þú þegar geimverurnar lentu? Þetta er fyrsta spurningin sem Arrival svarar — við sjáum Louise kenna fyrir hálftómum sal og þegar þeir fáu nemendur sem eru mættir fara að fá tölvupósta og skilaboð fara þau að átta sig á hvað er að gerast. Þetta er lúmskt líkt upplifun flestra okkar af heimsvið­ burðunum — flest vorum við bara í vinnu eða skóla, að horfa á sjónvarpið — einhvers staðar í hversdeginum þegar mannkynssagan bankaði upp á. Hún bankar hins vegar fljótlega bókstaflega upp á hjá Louise, þegar hún er fengin til þess að tala við geimverurnar.

Þessar geimverur eru ekki að gera neitt, vel að merkja, risastóru ílöngu geimskipin þeirra sitja bara í mestu friðsemd á tólf mismunandi stöðum í heiminum. Geimskipin minna helst á bautasteina Steinríks — nema þau virðast algjörlega þyngdarlaus þar sem þau svífa rétt fyrir ofan jörðina og eru á stærð við háhýsi stórborganna.

Geimverurnar sjálfar sýna engin merki þess að þær ætli að gera árás — en þessi stóru og mikilfenglegu skip sá ótta í huga manna og maður hefur miklu frekar áhyggjur af því að manneskjurnar ráðist á geimverurnar, frekar en að þær ráðist á okkur. Enda gengur ríkjum heimsins illa að vinna saman, sumar þjóðir vilja halda áfram að reyna að skilja geimverurnar á meðan aðrar vilja gera árás. Og þegar sama dýrategundin getur ekki treyst hvor annarri — jafnvel þótt hún hafi þýðendur og túlka í öllum helstu tungumálum — þá er varla hægt að búast við að þær treysti óskiljanlegum geimverum.

En Louise er fengin í verkefnið af því hennar vinna er sú að skilja. Hún þarf að brjóta flestar öryggisreglur hersins til þess að ná markmiðinu, enda byggja þær reglur allar á tortryggni, vantrausti og skilningsleysi. Misskilningur er eitt það mikilvægasta sem þýðendur heimsins reyna að yfirstíga. Flestir sem hafa raunverulega reynt að eiga samskipti við fólk sem talaði ekki sama tungumál vita þó flestir að fólk finnur leiðir til að skilja.

En fólk finnur líka leiðir til þess að misskilja, sérstaklega þegar ótti og tortryggni eru komin í spilið. Þannig upplifir maður til dæmis flestar kalda stríðs bíómyndir sem sögur af skilningsleysi; það var enginn að fara að sprengja kjarnorkusprengju – það héldu bara allir að hinir væru árásárgjarnari, blóðþyrstari og vanstilltari en þeir sjálfir.

Samtalið sem þarf að eiga

Þegar hoppandi skepnur með afkvæmi í poka hoppuðu fram hjá nýkomnum Evrópubúum í Ástralíu spurðu þeir frumbyggjana hvaða skepna þetta væri eiginlega. Svarið var kengúra – en það var ekki fyrr en löngu seinna sem landnemarnir komust að því að „kengúra“ var orð frumbyggjanna fyrir „ég skil ekki.“

Þetta er vel að merkja lygasaga — sem Louise selur hershöfðingjunum til þess að kaupa sér tíma, en hún sýnir þó ágætlega hvernig misskilningur getur einkennt fyrstu samskipti á milli fólks (og geimvera) á meðan við erum að læra tungumál hvers annars. Seinna virðast margir halda að geimverurnar séu að tala um vopn — á meðan orðið „vopn“ gæti allt eins verið tæki eða tól, jafnvel gjöf — og maður rifjar upp fræðitexta Louise fyrr í myndinni, þar sem hún talar um að tungumálið væri eitt öflugasta vopn mannskepnunnar.

Eins er rétt að geta þess að leikstjórinn Denis Villeneuve er frá Quebec-fylki, frönskumælandi svæði í þeim hafsjó enskunnar sem megnið af Norður-Ameríku norðan Mexíkó er. Hann er vanur að flakka á milli tungumála — og gerði það raunar á eigin ferli; hann hafði leikstýrt þremur lítt þekktum myndum á frönsku áður en sú fjórða sló í gegn. Sem þýddi það að Hollywood — og enskan — kallaði.

Villeneuve kemur okkur líka iðulega á óvart með því að leika sér með tungumál kvikmyndanna — og ef maður hugsar um það þá á það kannski við um flesta óvænta endi í skáldskap; þeir eru augljósir þegar maður veit af þeim, þegar maður er búinn að læra lykilinn að tungumáli sögunnar.

Það sama á mögulega við um mannkynssöguna — jafnvel þótt það megi læra af henni þá breytist málfræðin sífellt og orð falla í gleymsku og dúkka upp aftur, við virðumst þrátt fyrir allt alltaf þurfa að fá lykilinn eftir á.

Arrival lenti hins vegar í mannkynssögunni miðri — hún var frumsýnd í bandarískum bíóum tveimur dögum eftir að Trump var kjörinn forseti og þegar dómar þarlendra kvikmyndarýna um myndina eru lesnir þá finnst manni nánast að myndin hafi reynst þeim sú áfallahjálp sem þeir þurftu á að halda akkúrat þá. Amy Nicholson hjá MTV orðar þetta einna best þegar hún segir aðalpersónuna Louise „neyða okkur til þess að spyrja hversu mikið við erum tilbúin til að leggja á okkur til þess að tala hvert við annað. Það að læra tungumál hetapódana virðist nefnilega auðvelt, samanborið við þær erfiðu samræður sem við Bandaríkjamenn þurfum að fara að eiga hver við annan.“

Það er nefnilega ekki nóg að deila tungumáli, það þarf líka að tala saman. Meira að segja við þá sem eru ósammála þér um flest og týnast í bergmálsklefanum sem algóryþmar samfélagsmiðlana búa til í kringum okkur — og birtast okkur svo bara sem vafasöm skrímsli í endursögn já-bræðra okkar.

Ari í Útlendingastofnun

Þegar Baskarnir komu fyrst í land á sínum stóru hvalveiðiskipum þá hefur upplifun afskekktra eyjaskeggja á Vestfjörðum örugglega ekki verið svo ólík upplifun jarðarbúa framtíðarinnar þegar geimverurnar lenda. Þó tekst að halda friðinn um stund og það myndast meira að segja vísir af sameiginlegu tungumáli. En það er enn á því stigi að vera viðkvæmt fyrir misskilningi og mistúlkunum.

Baskavígin
Baskneskir sjómenn horfa til Íslandsstranda — og grunar varla að þar muni þeir beinin bera

Það er svo sýslumaðurinn Ari í Ögri — sem var svo valdamikill að hann var uppnefndur Vestfjarðakóngur — sem sá sér hag í því að losna við Baskana til að breiða yfir sínar eigin syndir. Hann æsir upp útlendingahatrið og óttann í heimamönnum og ber út lygar og hálfsannleik um Baskana, sem teljast eftir það réttdræpir. Sem varð til þess að tugum þeirra var slátrað grimmilega.

Embættismennirnir Ari í Ögri og séra Jón Grímsson virðast þannig hafa gegnt hlutverki Útlendingastofnunar síns tíma — vissulega spilltari og blóðþyrstari — en rétt eins og Útlendingastofnun nútímans virðist leita allra mögulegra og ómögulegra glufa í regluverkinu til þess að hrekja alla óæskilega útlendinga úr landi.

Það er þó sleginn vonbetri tónn í lok myndar — þegar kemur fram að þrátt fyrir þessa skelfilegu atburði hafi baskneskir hvalveiðimenn haldið áfram að sigla til Íslandsstranda og merkilegt nokk átt friðsamleg samskipti við Íslendinga eftir þetta.

Að læra á tímann og hvalveiðar

„Að læra önnur tungumál skapar möguleika á fjölbreyttara viðhorfi til veraldarinnar og fjölbreytileiki vinnur gegn hvers kyns einsleitni.

Þetta er lykilatriði. Því einsleitni er ekki bara hvimleið og óspennandi, hún er hættuleg, hún getur leitt til einangrunar, ótta og haturs. Með því einu að læra erlend tungumál setjum við okkur í annarra spor og getum þannig skilið þá dýpri skilningi.

Tungumálanámi fylgir ekki bara nýr orðaforði heldur annar hugsunarháttur, annar minningaforði, önnur heimssýn, annað menningarkapítal.“

Þessi tilvitnun er líka í áðurnefnda ræðu Sigurðar Pálssonar — og þetta virðist vera einmitt það sem geimverurnar í Arrival hugsuðu þegar þær héldu til Jarðarinnar. Þær vildu kenna okkur nýjan hugsunarhátt og aðra heimssýn.

Vegna þess að þótt hægt sé að berja á geimverum og útlendingum er líka hægt að læra ýmislegt af þeim. Baskarnir koma inn í bændasamfélag sem er umkringt hvölum en kann ekki að veiða þá, geimverurnar lenda í mannheimum sem kunna ekki enn að ferðast um fjórðu víddina, tímann, hvers straumi við velkjumst hjálparlaus í.

En við lærðum á endanum að veiða hvali (og svo ennþá seinna að selja þá útlendingum lifandi) — hver veit nema okkur takist næst að læra bæði af fortíðinni sem og af framtíðinni?

Bókmenntakompan

Ariasman

Það mætti líka auðveldlega skrifa bókmenntakompu um þetta efni. Arrival er byggð á smásögunni „Story of Your Life“ eftir Ted Chiang og þótt lengstum hafi lítið verið talað um Baskavígin hefur það breyst mikið á síðustu árum. Finnski Íslandsvinurinn Tapio Koivukari skrifaði bókina Ariasman: frásaga af hvalföngurum, en Ariasman var nafnið sem Baskarnir gáfu Ara í Ögri. Þá var Jón lærði fyrirmynd aðalpersónu Rökkurbýsna Sjóns og núna fyrir þessi jól fékk hann sína eigin ævisögu, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson, sem var nýlega tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Kvikmyndakompa Þjóðviljans

Ingibjörg Haraldsdóttir, ljóðskáld og þýðandi, lést í nóvember síðastliðnum. En ég komst að því eftir að hún dó að hún var líka kvikmyndarýnir á sínum yngri árum og skrifaði fyrir Kvikmyndakompuna í Þjóðviljanum sáluga. Því þótti tilvalið að endurvekja þann dagskrárlið í nýju blaði – sérstaklega núna, þegar það eru tvær myndir í bíó sem snúast í mörgu um þýðingar og tungumál, enda færði Ingibjörg okkur rússneskar bókmenntir og menningu á árum þegar Rússar voru oftast skilgreindir sem hið varhugaverða heimsveldi í austri, burtséð frá allri þeirri ríku menningu og sögu sem rússneska þjóðin á.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 16. desember 2016.