Kvikmyndakompa

Stjörnustríð og heilagt stríð, hryðjuverkamenn og gervileikarar.

„Einu sinni fyrir langa, langa löngu í vetrarbraut langt, langt í burtu.“ Svona byrjaði þetta, svona byrjar þetta alltaf. Þið þekkið þetta. Þetta er loforð ævintýrisins, hér getið þið gleymt ykkur, gleymt samtímanum, gleymt grámóskulegum raunveruleikanum og upplifað heim með alvöru hetjum og skúrkum.

En nýlega varð smá truflun í mætti ævintýrisins, sumir harðsvíruðustu stuðningsmenn nýkjörins Bandaríkjaforseta fullyrtu að nýjasta Stjörnustríðsmyndin væri árás á Trump og kölluðu eftir að menn sniðgengju myndina. Loforð ævintýrisins hafði verið svikið og þeir ætluðu sko ekki að taka þátt í þessu.

JynCassian
Aðalpersóna Rogue One er Jyn (Felicy Jones) – dóttir mannsins sem smíðaði Helstirnið. Henni til aðstoðar (og stundum trafala) er Cassian (Diego Luna).

Chris Weitz, annar handritshöfundur myndarinnar, kynnti bálið þegar hann tísti: „Vinsamlegast athugið að keisaraveldið er stofnun sem byggir á hugmyndinni um yfirburði hvíta kynstofnsins,“ og Rian Johnson, leikstjóri Stjörnustríðsmyndar næsta árs (já, það lítur út fyrir að nýtt Stjörnustríð verði árlegur viðburður í nánustu framtíð), bætti nýlega um betur þegar hann varði hinn alræmda forleiks-þríleik Stjörnustríðs-myndanna með orðunum: „Forleikurinn er 7 tíma löng barnamynd um hvernig óttinn við missi breytir góðmennum í fasista.“

Gremja öfgahægrimannana er í sjálfu sér að einhverju leyti réttmæt – það er alveg skotið á þá í nýjustu myndinni – jafnvel meira en áður. Enda svíkja ævintýrin alltaf þessi loforð. Þessi svik eru innbyggð í þau, við semjum þessi ævintýri. Þetta loforð er bara trójuhestur til þess að fá okkur til þess að hugsa öðruvísi um heiminn. En það geta ýmsir fengið far með þessum trójuhesti.

Jihad-pláneta Che Guevara

Upprunalega var Stjörnustríð óður til gamalla barnaævintýra í æsku George Lucasar. En myndirnar sóttu líka í mannkynssöguna; myndmálið virtist einfalt við fyrstu sýn – keisaraveldið sótti innblástur sinn til nasistanna og Jedi-riddararnir voru samúræjar himingeimsins. En um leið viðurkenndi Lucas að hafa verið undir áhrifum frá stríðsmyndum æskunnar – um heimstyrjöldina síðari, síðasta „góða“ stríðið. Það stríð mundi Lucas þó varla nema í gegnum bíómyndir (hann var eins árs þegar því lauk) – stríðið sem hann ólst upp við var Víetnam-stríðið, „vonda“ stríðið sem fylgdi í kjölfarið – fyrir heimsveldi Bandaríkjanna altént, sem máttu láta í lægra haldi fyrir lítilmagnanum, alveg eins og í Star Wars, þar sem veikleiki risans felst í grandaleysi hans og hroka.

SawGerrera
Óskarsverðlaunaleikarinn Forest Whitaker leikur uppreisnarforingjann Saw Gerrera.

Þetta hefur vissulega alltaf verið undirliggjandi í Stjörnustríðsmyndunum – en aldrei jafn augljóst og í Rogue One. Orðfærið allt er kunnuglegt úr fréttatímunum og uppreisnarmennirnir leynast í þetta skiptið í hersetinni borg sem minnir helst á hersetna Bagdad eða Kabúl.

Leiðtogi herskáustu skæruliðanna heitir svo Saw Gerrera og leynist á plánetunni Jedha, við erum bara örlítilli misheyrn frá því að heyra Che Guevara og Jihad. Pólitíkin er nær Che en fagurfræðin nær Íslamska ríkinu eða Al-Kaída. Á meðan ógnar heimsveldið þeim með dauðageisla sem minnir til skiptis á kjarnorkusprengjuna sem Bandaríkjamenn notuðu til að ljúka síðari heimstyrjöldinni og ofurnákvæma drónana sem þeir fjarstýra núorðið öllum sínum stríðum með. Ofurná- kvæm drónaárás með kraft kjarnorkusprengju.

Sumsé, höfuðandstæðingar bandaríska heimsveldisins fá hér að verða hetjur í allra stærstu bíómyndum peningamaskínunnar Hollywood og Kanarnir sjálfir eru orðnir skúrkarnir – hvað kemur til?

Veikleikinn í vélinni

Myndin snýst um það að uppreisnarmennirnir komast yfir teikningarnar af Helstirninu – en þar má finna veikleikann sem Logi, Leia og Han Solo áttu eftir að nýta sér í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni (sem gerist skömmu á eftir þessari). Þessi veikleiki er ekki þarna óvart, honum var komið fyrir af pabba aðalpersónunnar, sem virðist hafa gengið úr þjónustu keisaraveldisins aðeins til þess að svíkja svo uppreisnarmennina – að því er virðist. Hann reynist þó vera gagnnjósnari í raun, innanbúðarmaður sem svíkur heimsveldið, Edward Snowden sinnar vetrarbrautar.

En hver er þá veikleiki bandaríska heimsveldisins? Gæti það mögulega verið Hollywood? Menningin og popplögin, poppkúltúrinn sem hjálpaði þeim að sigra heiminn? Það kom í ljós fyrir ekki svo löngu að CIA sá hálfpartinn um listamannalaunin í Bandaríkjunum á tímum kalda stríðsins, studdi (eftir órekjanlegum krókaleiðum, vissulega) nútímalist eftir listamenn sem voru margir hálfgerðir kommúnistar – af því þeir trúðu því að þannig ynnu þeir áróðursstríðið við Sovétmenn. Verk þessara listamanna yrðu sönnun þess að frjáls markaður og amerísk gildi tryggðu málfrelsi, ólíkt hinni kommúnísku ritskoðun. Þetta reyndist hárrétt hjá CIA – en um leið er auðvitað spurning hvort listamennirnir hafi ekki komið fyrir alls kyns veikleikum í kerfinu sem hægt væri að sprengja upp hvenær sem er.

Listamenn eru nefnilega sjaldnast mjög leiðitamir kapítalismanum, ekki einu sinni þeir sem eru næst meginstraumnum. Þeir þurfa vissulega að semja reglulega við djöfulinn, Björgólfa og Medici-fjölskyldur allra tíma – en það er oft tvísýnt um hver fær meira út úr þeim samningum.

Nú eru örugglega margir byrjaðir að hrista hausinn fyrir löngu yfir öllum þessum oftúlkunum, Star Wars er jú bara poppkornsskemmtun og djúp alvöru pólitísk skilaboð þurfi að leita uppi í fullorðnisbíómyndum handan meginsstraumsins, alvarlegum bókmenntum og spekingslegri gáfumannatónlist. Það er að vissu leyti alveg rétt – en að vissu leyti kolrangt líka. Ekki bara vegna þess að grasrótin nærir lággróðurinn (hingað til hafa flestir leikstjórar Star Wars verið tiltölulega nýbúnir að gera hræódýrar, óháðar myndir skömmu fyrir sitt Stjörnustríð), heldur líka vegna þess að hápólitískar óháðar bíómyndir ná sjaldnast almannahylli – metsölumyndirnar eru trójuhestarnir sem kynna alls kyns heimspeki og pólitík fyrir fjöldanum. Vissulega í einfölduðu – eða vandlega dulbúnu – formi, enda þarf þess til þess að komast í gegn, til að fá myndina frumsýnda í mörg þúsund bíósölum samtímis.

Þá er alþjóðavæðingin líka að breyta leikreglunum. Hollywood hefur drottnað yfir kvikmyndamarkaði heimsins frá seinni heimstyrjöldinni – en lengst af voru samt tekjur myndanna að langmestu leyti fengnar heima við. Það hefur gjörbreyst síðustu tvo áratugi – svo mjög að ein vinsælasta mynd síðasta sumars, Warcraft, var risastórt flopp í Bandaríkjunum og mestöllum hinum vestræna heimi. En hún sló í gegn í Kína – og það var nóg. Þetta hefur valdið óvæntum breytingum á leikaravali í stórmyndir – fjölbreytnin þegar kemur að öðrum kynþáttum en þeim hvíta er, samkvæmt rannsóknum, töluvert meiri í metsölumyndum heldur en óháðum. Ekki endilega til þess að friða bandaríska minnihlutahópa, heldur til þess að selja heiminum öllum myndina. Þannig er leikaravalið í Rogue One til þess fallið að selja myndina betur í Englandi, Mexíkó, Ástralíu, Kína og Danmörku – svona ef ske kynni að Star Wars sé ekki nógu vinsælt fyrir í þessum löndum.

Keisaraveldið snýr aftur

DarthVader
Steve Bannon sér Svarthöfða sem hetju – ásamt Dick Cheney og Satan.

En auðvitað gekk þetta ekki upp, myndin varð jafn stjarnfræðilega vinsæl og allir bjuggust við og meint sniðganga öfgahægrimanna virtist ekki hafa nein áhrif. Enda er nóg fyrir þá í Stjörnustríði líka. Fegurðin er í auga sjáandans og mögulega eru illmennin bara misskilin. Steve Bannon, einn alræmdasti ráðgjafi Donald Trump, er til dæmis búinn að finna sér sína hetju í myndunum, en hann sagði nýlega í viðtali: „Myrkrið er gott. Dick Cheney. Svarthöfði. Satan. Það er vald.“ Svo má ekki gleyma því að fyrir 33 árum viðraði Ronald Reagan hugmyndir að varnaráætlun í geimnum sem samstundis var uppnefnd Stjörnustríð, eitthvað sem virtist vera hans varnarsinnaða útgáfa af Helstirninu.

Uppreisnarmennirnir gætu líka alveg verið Trumpistar úr Biblíubeltinu. Í upphafsatriði myndarinnar kemur erindreki keisaraveldisins til Íslands, ég meina plánetunnar Lah‘mu, til að handtaka uppreisnarmanninn Galen. Hann horfir í kringum sig, í stífpressuðum einkennisbúningnum, horfir svo á skítugan uppreisnarmanninn og segir með fyrirlitningu; „sveitastörf, í alvöru?“ Þarna er kominn veraldarvani borgarbúinn og hans fyrirlitning á sveitalubbanum, þessu salti jarðar sem mun færa Ameríku, ég meina vetrarbrautinni, sinn gamla mikilfengleik.

Galen
Danski stórleikarinn Mads Mikkelsen leikur Galen, vopnasmiðinn sem reynir fyrir sér við landbúnaðarstörf

Þá er hin trúarlega hlið máttarins mun sterkari hér en í öðrum Stjörnustríðsmyndum. Þar er alltaf einhver sem býr yfir þessum mætti – sem gerir máttinn hluta af raunveruleikanum, byggðan á staðreyndum frekar en trú. Hér er enginn útvalinn, Svarthöfði er eina persónan sem án nokkurs vafa hefur máttinn – annars eru þetta bara venjulegar manneskjur og aðrar geimverur – sem trúa á máttinn, án þess að hafa nokkra sönnun fyrir honum. Ein aðalpersónan telur sig að vísu búa yfir mættinum – en ekki einu sinni besti vinur hennar trúir honum. Í nokkrum lykilatriðum myndarinnar heldur svo aðalhetjan okkar, hún Jyn, fast um verndargripinn sinn (sem er úr sömu kristölunum og geislasverð jedi-riddaranna) á meðan samherjar hennar reyna að dýrka upp lása með hjálp tækninnar – og við fáum aldrei að vita fyrir víst hvort það var trúin sem flutti fjöll eða bara gamla góða hyggjuvitið. Þannig eru trúarstef lykilþáttur í myndinni – en þau eru galopin og heittrúaðir múslimar og heittrúaðir kristnir menn geta túlkað myndina sér í hag – og trúleysingjarnir líka.

Loksins almennilegt stríð

Myndin er skilgreind sem hliðarsaga – hún er ekki formlegur hluti af aðalbálknum sjálfum, þótt að vísu mætti alveg kalla hana Episode 3.5. Þetta þýðir að flestar persónurnar fá bara þessa einu mynd, það þarf ekki að halda neinum á lífi fyrir framhaldið eða vísa í forverana. Þetta gefur heilmikið frelsi – en í þessu eru líka innbyggðir veikleikar – Stjörnustríðsmyndirnar gefa sér ekki mikinn tíma í persónusköpun, sem reddast þegar við höfum þrjár myndir til að kynnast karakterunum – þannig voru til dæmis Logi og Svarthöfði orðnir góðkunningjar bíógesta þegar menn komust loks að því að þeir voru feðgar.

En plottið í myndinni má finna í opnunartexta upprunalega Stjörnustríðsins, þetta eru uppreisnarmennirnir sem stálu teikningunum, þetta eru fótgönguliðarnir, þeir sem allir eru búnir að gleyma á meðan Logi, Leia og Han fengu allt hrósið. Hingað til hefur Stjörnustríðið nefnilega meira snúist um stjörnur en stríð, stjörnurnar tákna fantasíuna – þar sem allir eiga sér sitt sérsniðna hlutverk, sín persónulegu örlög.

(Og hér kemur Höskuldarviðvörun fyrir ykkur þessi fáu sem eigið eftir að horfa – geymið lokaorðin þangað til eftir bíóferð)

Í stríði hins vegar eiga allir sér sama hlutverk – að berjast, og mögulega deyja – fyrir málstaðinn. Þau deyja fyrir vetrarbrautina – en fyrir okkur, sem búum ekki í þessari vetrarbraut – þá deyja þau fyrst og fremst fyrir Loga, Leiu og Han. Galli myndarinnar er að marga þessa stríðsmenn skortir karakter – því til hvers að byggja upp persónuleika ef þú ert að fara að deyja fyrir málstaðinn á morgun?

Pixlarnir stela sálinni

Það er gömul hjátrú að ljósmyndavélin steli í manni sálinni. Annað hvort er það bábilja eða við höfum öll verið sálarlaus í meira en öld – en hins vegar er nýlegri hjátrú að það steli sannarlega sálinni í manni að vera tölvuteiknaður.

TheCongress
The Congress Robin Wright er tölvuteiknuð í heimi sem þarf ekki alvöru leikara lengur

Um þetta fjallar raunar ein besta vísindaskáldsagnamynd síðustu ára, The Congress, þar sem Robin Wright leikur sjálfa sig, leikkonu sem fær sitt hinsta hlutverk – og þarf ekki að leika það nema í klukkustund. Hún er skönnuð inn í tölvukerfi sem varðveitir allar hennar tilfinningar og tjáningu – og eftir það er hún orðin ódauðleg og getur leikið í bíómyndum til eilífðarnóns. En um leið er hún orðin fullkomlega gagnslaus – hún getur hér eftir setið heima á meðan leikstjórar heimsins „downloada“ henni eftir hentisemi.

Þessi fantasía átti sér stoð í raunveruleikanum; höfðum alvarlegra leikara var skeytt á höfuð klámmyndaleikara í Nymphomaniac og höfði aðalleikkonunnar í Málmhausi var skeytt á atvinnugítarleikara í erfiðustu tónlistaratriðunum. En fantasían byrjar þó fyrst að verða raunveruleiki í Rogue One, þar sem Peter Cushing stígur upp úr sinni 22 ára gröf og hin sextuga Carrie Fisher verður skyndilega nítján ára á nýjan leik. Fisher dó á meðan þessi pistill var skrifaður – dó um leið og henni var tryggt eilíft pixelarað líf, orðin ódauðleg og óþörf, fyrsta leikkonan sem tölvutæknin léði eilífa æsku. Það skiptir ekki öllu að glöggir bíógestir hafi séð að ekki var allt með feldu, tæknin á bara eftir að batna.

PrincessLeia
Carrie Fisher er nýlátin. En hún lifir enn – þótt tölvuteiknuð sé. Hún verður þó í alvöru í næstu mynd, sem var tekin upp áður en hún lést.

Þetta er óþægileg og lítt könnuð siðferðisklípa. Hvað ef þetta verður nýtt í ævisögulegum myndum, hvað ef andlitið á Jackie Kennedy hefði til dæmis verið tölvuteiknað ofan á andlit Natalie Portman í væntanlegri ævisögu? Mörk skáldskapar og raunveruleika verða fljót að þurrkast út í slíkum heimi, heimi handan alls sannleika. Heimi þar sem raddhermar eru orðnir svo fullkomnir að við getum ekki bara lífgað Carrie Fisher við, heldur líka Bowie, Cohen, Prince og George Michael. Við erum um það bil að læra að ljósrita manneskjur almennilega – og það þýðir að við getum fengið okkar Stjörnustríðsmyndir áfram næstu fjörutíu árin – og nú þarf ekki einu sinni að skipta um leikara lengur. Hin eilífa endurtekning nær fullkomnun sinni og stjörnur bernskunnar þurfa aldrei að deyja. Um leið endurnýjar keisaraveldið sig alltaf aftur, uppreisnarmennirnir eru ávallt fengnir til að vinna fyrir keisaraveldið á einhvern nýjan hátt. Þannig endurnýjar kerfið sig alltaf og snýr á listamennina – jafnvel það kerfi sem þeir sjálfir sköpuðu.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 6. janúar 2017.