T2: Trainspotting, Django og fleiri bíóævintýri á Berlinale kvikmyndahátíðinni

Svona byrjar þetta: við sjáum eltingarleik við undirleik gítars, músíkin er gleði- og tregablandin í senn. Þetta eru nasistar á sígaunaveiðum – og á senan endar á því að gítarleikarinn fær kúlu í hausinn.

Við erum stödd á Berlinale, kvikmyndahátíðinni í Berlín, og þetta er opnunarmyndin: Django. Byrjunaratriðið súmmerar myndina ágætlega upp; hún er aðallega um hin gleymdu fórnarlömb helfararinnar sem sígaunar eru, þeir hafa haldið áfram að vera ofsóttir allt fram á okkar daga, og svo er hún um tónlistina. Enda eigum við enn eftir að kynna til leiks aðalpersónuna – gítarleikarann Django Reinhardt.

Kvikmyndagestir nútímans voru kynntir fyrir honum í myndinni Sweet and Lowdown, þar sem Sean Penn leikur hinn uppskáldaða gítarleikara Emmet Ray, sem á að vera bestur allra gítarleikara. En hann dregur þó aðeins í land með það þegar hann segir: „Menn telja mig besta gítarleikara sem uppi hefur verið, sannarlega hérlendis. En það er þessi sígauni í Frakklandi – og tónarnir hans eru það fallegasta sem ég hef nokkurn tímann heyrt.“

Hann er að tala um Django – gítarleikara sem er svo goðsagnakenndur að ekki einu sinni skáldskapurinn getur keppt við hann. Það sama á við um Django, ævisögulegar bíómyndir finna oftast leikara sem eru nokkrum númerum fallegri en fyrirmyndirnar – en þótt leikarinn Reda Kateb sé myndarlegur maður á hann ekkert í Django og hans goðsagnakennda yfirvaraskegg.

Django birtist ekki heldur í næsta atriði – þar sem troðfullur salur fólks í París bíður eftir honum og hljómsveitarmeðlimir gera dauðaleit að honum, maður hefur á tilfinningunni að þetta hafi gerst áður. Við hittum hann fyrst þar sem hann er að dorga í mestu makindum við Signu. Þetta er maður sem er staðráðinn í að láta ekki stjórnast af oki tímans og það birtist einnig í tónlistinni, svokölluðum heitum djassi sem brýtur allar reglur.

MammaDjango
Umboðsmaðurinn  Mamma Django er sömuleiðis umboðsmaður hans – og stelur myndinni með húð og hári

Slíkt stjórnleysi fellur hins vegar lítt að smekk þýska innrásarliðsins sem nýlega hefur hertekið París. Þeir vilja endilega fá Django í tónleikaferðalag til Þýskalands og bjóða honum gull og græna skóga. En skilyrðin eru hins vegar nánast galin; sóló má ekki vera lengri en fimm sekúndur, það er bannað að hreyfa lappir í takt og svo framvegis og svo framvegis; með öðrum orðum – komdu til Þýskalands en spilaðu einhverja allt aðra tónlist en þessa sem þú kannt og gerði þig frægan.

Þaðan sprettur svo klípan sem drífur plottið áfram; ferðast til Þýskalands eða flýja til Sviss? Hvoru tveggja er lífshættulegt, menn eru farnir að finna lyktina af útrýmingarbúðunum þótt enginn viti um þær enn. Plottið er samt ekki það skemmtilegasta við myndina, þótt það kalli alveg á nokkur hugvitsamleg hasaratriði þar sem tónlistin er oft hluti af hasarnum, heldur miklu frekar persónugalleríið í kringum Django – og ber þar fyrst að nefna svipmikinn apaköttinn sem reglulega sést á öxl Django framan af mynd. Það er að vísu leiðinlegur galli að ljóshærða aríska viðhaldið fær töluvert meira pláss en sígaunaeiginkonan – en á móti kemur að mamma Django stelur myndinni með húð og hári. Hún er einnig umboðsmaðurinn hans og er allt í senn vitur, ákveðinn, glöð og harmræn – og á endanum er það ekki tónlistin sem skilyrðir hvernig manni líður þegar maður horfir á myndina, heldur svipurinn á mömmunni.

Túristar í eigin æsku

Ef einhver hefði tekið að sér að gera skoðanakönnun um uppáhaldsmyndir menntskælinga fyrir tuttugu árum síðan hefðu líklega bara tvær myndir komið til greina; Pulp Fiction og Trainspotting. Groddalegir uppdópaðir glæpakrimmar með orðheppnustu aðalpersónum beggja megin Alpafjalla, bestu tónlistinni og sýrðustu myndskeiðunum.

Núna, tuttugu árum síðar, flykkjumst við svo í bíó til að sjá tvo miðaldra skoska menn standa úti í náttúrunni og syrgja gamlan vin. Við könnumst við þá, hittum þá síðast í þessum gervum fyrir tuttugu árum; þetta eru Sick Boy og Renton, aðalpersónurnar í Trainspotting – og núna líka aðalpersónurnar í T2: Trainspotting. Renton er sá tilfinningasamari af þeim tveimur – en Sick Boy gefur lítið fyrir tilfinningasemina og segir kaldhæðnislega: „Þú ert bara túristi í eigin æsku.“

Hann er auðvitað að tala við okkur líka, okkur sem fórum á nýjustu Star Wars og urðum yfir okkur glöð yfir því að sjá sömu mynd og fyrir þrjátíu árum, kynslóðina sem fann sitt sterkasta dóp í nostalgíunni og er ennþá háð henni.

Þessi meðvitund er bæði akkilesarhæll myndarinnar og hennar helsti styrkur – og þau eiga ekkert síður við um kvikmyndagerðarmennina sjálfa; þeir flýja aldrei orginalinn, vísa reglulega í hann, jafnvel í fortíð handan hans – það eru þónokkrar senur af aðalpersónunum barnungum.

Framhaldið er sumsé niðurtúrinn. Niðurtúr aðalpersónanna snýst helst um það að dópfíknin – hvort sem þeir hafa sigrast á henni eður ei – hefur orðið til þess að þeir hafa staðnað, þeir eru ekki komnir neitt lengra í lífinu en fyrir tuttugu árum, en þeir eru hins vegar ekki ungir ennþá. Okkar niðurtúr er hins vegar sá að framhaldið verður aldrei jafn töff og orginallinn.

En þótt myndin sé ekkert meistaraverk er hún alveg skemmtileg áhorfs ef maður ber hana ekki saman við frummyndina (sem er að vísu ómögulegt, svo reglulega erum við minnt á hana). Snemm-miðaldrakrísan verður dýpri þegar maður man þá unga og þótt myndin takist ekki á við nútímann á sama hátt og sú fyrri gekk á hólm við sinn samtíma, þá er besta atriði myndarinnar ógleymanlegt söngatriði á breskri knæpu uppfullri af hlustendum sem við vitum alveg hvað kusu í Brexit.

Ein vídd bætist þó við myndina sem var ekki til staðar í þeirri fyrri – og raunar vísar titillinn skemmtilega til þess. T2 stóð nefnilega þangað til núna fyrir allt aðra mynd í hugum bíónörda, Terminator 2: Judgement Day. Það merkilega er að sá titill hefði alveg gengið líka fyrir þessa. Fyrri myndin endaði jú á að Renton sveik sína gömlu vini – og þegar hann kemur aftur (eftir áratugi í Amsterdam) er komið að skuldadögum. Sick Boy er ekkert sérstaklega glaður að sjá hann – en Renton lifir þó þær barsmíðar af. En þegar brjálæðingurinn Begbie losnar úr fangelsi og kemst á snoðir um að Renton sé kominn aftur þá breytist myndin hægt og rólega í Terminator-mynd, þar sem Begbie er ódrepandi og ósigrandi morðvélin sem er sífellt á hælunum á þeim. Það að hann sé miðaldra og löngu dottinn úr tísku gerir hann bara meira ógnvekjandi.

Er rokkið dautt – eða bara orðið of krúttlegt?

Eitt að lokum um Trainspotting: þegar Begbie snýr aftur úr fangelsinu hittir hann son sinn í fyrsta skipti sem stálpaðan ungling. Menntaskólastrákur, hreinn og strokinn, á leiðinni í hótelstjóranám. Þetta er dálítið eins og öfug spegilmynd hippakynslóðarinnar og foreldra hennar, herta í heimstyrjöldinni; hér eru það börnin sem eru hrein og strokin og foreldrarnir lúðalegir í gamla uppreisnargírnum. Ef þú spyrðir menntaskólakrakka nútímans um uppáhaldsmynd væru þau jafnvel vís til þess að nefna einhverja teiknimynd, í besta falli Hringadróttinssögu eða Star Wars. Minni unglingadrykkja þýðir mögulega saklausara og jafnvel bernskara fegurðarskyn – eða máski einfaldlega eitthvað sem við hin eldri skiljum ekki?

WolfAlice
Bitlausir úlfar Wolf Alice er snoppufrítt og áheyranlegt band – en bitlaus í viðtölum.

Sem leiðir okkur að næstu mynd, mynd sem í gamla daga hefði fjallað um kynlíf, dóp, rokk og ról en fjallar nú bara um rokk og kynlíf. Kvikmyndahátíðir geta nefnilega verið ágætis tækifæri til að ná viðtölum við alls konar kvikmyndagerðarmenn sem venjulega væri nánast ómögulegt fyrir íslenska blaðamenn að nálgast. Það getur verið mjög gaman – en vandinn er að það þarf að bóka viðtölin með góðum fyrirvara – og þegar myndin er vond geta viðtölin verið frekar pínleg fyrir alla aðila. On the Road eftir Michael Winterbottom var dæmi um þetta. Hún er ekki byggð á samnefndri bók Kerouac, heldur vísar bókstaflega í það að vera á túr. Þetta er heimildamynd sem fylgir bandinu Wolf Alice eftir á túr um Bretlandseyjar. Winterbottom var eitthvað aðeins seinn fyrir – en aðalleikarinn James McArdle var mættur og það var í raun forvitnilegasti hluti spjallsins. Aðalleikarinn já, þetta er nefnilega bræðingur heimildamyndar og leikinnar, að því leyti að Winterbottom býr til hliðarsögu þar sem einn rótarinn á í ástarsambandi við aðstoðarkonu bandsins.

Það var forvitnilegt að heyra hann lýsa því hvernig það er að leika í heimildamynd, sem kallar á allt öðruvísi nálgun. En þótt ástarsaga hans og mótleikkonu hans hafi verið það skásta við myndina (og þar er eina kynlífið – annars hefði þetta bara verið rokk) reist það ekki hátt – og þótt þetta hefði getað verið djarft útspil þá virkaði það frekar eins og það ætti að koma í staðinn fyrir þá staðreynd að við náum aldrei að komast nálægt bandinu sjálfu. Músíkin er ágæt – töluvert betri samt í tölvunni heima heldur en á tónleikaupptökunum í myndinni – en hljómsveitarmeðlimirnir virðast vera frekar karakterlausir. Þeir eru að minnsta kosti ekki sérlega gefandi þegar myndavélinni er beint að þeim. Þetta hljóta samt að vera hugsandi og skynugir krakkar fyrst þeir nefna bandið eftir sögu úr þeirri mögnuðu bók The Bloody Chamber eftir Angelu Carter, þar sem hún nær að koma blóðinu aftur inní dauðhreinsuð Grimms-ævintýrin. En manni finnst stundum að blóðið sé farið úr rokkinu við að horfa á myndina.

Dópið kom vissulega til tals – án þess að nein nöfn væru nefnd, þá fullyrti Winterbottom að það væri miklu minna dóp en í gamla daga, en það væri nú samt þarna ennþá. Og kannski voru menn bara skemmtilegri viðtals í gamla daga þegar þeir voru nógu skakkir til að láta allt flakka? Winterbottom er vissulega eldri en tveggja vetra í þessum bransa, gerði til dæmis hina mögnuðu tónlistarmynd 24 Hour Party People á sínum tíma, um miklu eldri kynslóð tónlistarmanna. En hann er einfaldlega of duglegur leikstjóri – hefur gert 26 myndir á 22 árum telst mér til – sem þýðir að hann er alltof mistækur, og jafnvel bestu myndirnar hans hefði mátt vinna betur.

Marie Curie og framhjáhaldið

Ævisögulegar kvikmyndir nútímans eru sem betur fer að mestu hættar að reyna að troða mörgum áratugum inní tvo klukkutíma, enda þýðir slíkt offlæði eingöngu að við lærum í raun ekki neitt um persónurnar. Núorðið er algengara að fókusera á einhvert lykiltatímabil, þess vegna bara stakan dag – til þess að fá góða svipmynd, frekar en heildarmynd. Vandinn er bara sá að það er alltof algengt að fókusinn sé rangur – og það sem fer mest í taugarnar á mér; þegar aðaltakmarkið virðist vera að sanna að þetta fræga fólk sé bara venjulegt eins og við hin.

MarieCurie
Koddahjal Marie Curie fjallar því miður meira um ástarsamband heldur en vísindi.

Persónulega dettur mér ekki annað í hug; ég veit alveg að þau borða og skíta og eru dónaleg og skemmtileg, rétt eins og við hin. En það er sjaldnast það sem gerir sögu þeirra merkilega. Marie Curie er ágætis dæmi, en hún er viðfang samnefndrar bíómyndar á Berlinale. Hún vann nóbelsverðlaunin tvisvar og mér skilst að hún hafi gert alls konar merkilegar vísindalegar uppgötvanir. Það er hins vegar rétt svo minnst á það í myndinni – hún snýst miklu frekar um það þegar hún verður hjákona gifts manns. Þegar það spyrst út þá verður hún skotmark slúðurblaðanna og hún bölvar því réttilega að þessu myndi enginn karlkyns kollegi hennar lenda í. Hún vill bara vera dæmd af fræðum sínum, ekki einkalífi. En myndin gerir í raun nákvæmlega það sama og slúðurblöð fortíðarinnar – einbeitir sér af skandalnum og gleymir vísindunum að mestu. Ef þetta væri eitthvað stórkostlega áhugavert framhjáhald gæti það fyrirgefist, en svo er ekki – og varpar engu sérstöku ljósi á vísindastörf Curie.

Það athyglisverðasta við myndina er hins vegar kynjapólitíkin. Curie er að berjast við að komast inn í frönsku vísindaakademíuna, fyrst kvenna – en akademían er stútfull af karlrembum sem sjá ekki að sér fyrr en eftir Nóbelsverðlaun númer tvö. Áhugaverðasta kynjapólitíkin er hins vegar lúmskari – og um leið það eina áhugaverða við framhjáhaldið. Það birtist okkur í rifrildi Pauls, ástmanns Curie, við eiginkonu sína. Það skín í gegn að ástæða þess að hann heldur framhjá er hreinlega sú að honum finnst hún ekki nógu áhugaverð – en það skín líka í gegn að ástæða þess er ekki sú að hún sé leiðinlegur persónuleiki, heldur að hennar heimur er heimilisverk og barnauppeldi, heimur sem hann hefur engan áhuga á og sleppur við að sinna, þökk sé henni. Marie Curie, sú fræga vísindakona, var ein fárra kvenna sem var í þeirri stöðu að geta átt börn án þess að festast í þessu hlutverki – og er því þannig strax komin í forréttindahóp að þessu leyti, þótt það taki lengra tíma að komast inní innsta hring feðraveldisins.

Ásgeir H Ingólfsson

greinin birtist upphaflega í Fréttatímanum 4. mars 2017.