Það er draugur á upptökutækinu mínu, rödd nýlátins manns. Hún á ekkert að vera þarna, þetta gerðist allt óvart, þetta var óvænt ánægja. Ég hafði bókað viðtal við leikstjóra og aðalleikara sænsku myndarinnar Hinn alvarlegi leikurDen allvarsamma leken, en Pernilla August leikstýrir henni og hinn íslenski Sverrir Guðnason leikur aðalhlutverkið á móti Karin Körlof. Og eftir að ég var búinn að tala við þau þrjú þá hélt ég að aðstoðarkona þeirra væri að sýna mér leiðina út – en nei, hún beindi mér að sófa þar sem skeggjaður maður á miðjum aldri sat. Ég hafði aldrei bókað þetta viðtal, en hún kynnir Michael fyrir mér og ég reyndi að hugsa eins hratt og ég gat; jú, þetta er auðvitað ritstjórinn – yfirmaður blaðamannsins sem Sverrir lék. Þetta er auðvitað líka sænsk stórstjarna, Michael Nyqvist sjálfur, sem lék aðalhlutverkið í Karlar sem hata konur og framhaldsmyndum hennar – en hann er óþekkjanlegur síðan þá. Hann hefur elst hratt á fáum árum – eða er hann kannski bara einn þeirra leikara sem er slíkt kamelljón að þekkjast varla á milli mynda?

NyqvistAllvarsamalekan

Hausinn á mér er hins vegar ennþá fullur af spurningum fyrir Pernillu og ég er auðvitað ekki enn búinn að semja neinar spurningar fyrir Michael. Ég kaupi mér tíma með því að spyrja hann hvernig var að vinna með Pernillu. Hann og Pernilla eru gamlir og góðir vinir segir hann og bætir við:

„Ég lék með henni sem leikari og þetta var í fyrsta skiptið sem hún leikstýrði mér. Það var merkileg reynsla.

Hún er með sömu einbeitingu, hún er mjög gjafmild, ekkert snobb, bara yndisleg að vinna með. Hún þekkir mig svo vel sem leikara að manni finnst maður mjög öruggur – hún leyfir meira að segja vondan leik, hún dæmir aldrei.“

Hann rifjar upp vinskap sinn við Pernillu – en þegar ég hlusta aftur á upptökuna þá hugsa ég aðallega um þennan hósta. Þetta er ekki alvarlegur hósti, ég tók örugglega ekki eftir honum þegar ég tók viðtalið fyrir einu og hálfu ári síðan – en nú get ég ekki annað en hugsað: „Er feigðin í þessum hósta? Krabbameinsbakteríur sem á enn eftir að uppgötva?“

Sa sam i himmelen

Því Michael Nyqvist er nýlátinn. Hann var einn þekktasti leikari Svía, lék stór hlutverk í myndum eins og Tilsammans og Så som i himmelen, öðlaðist heimsfrægð sem Mikael Blomkvist í Millenium-þríleik Stieg Larsson og sérhæfði sig í skúrkum þegar hann fór til Hollywood, þar sem hann reyndi til dæmis að drepa Tom Cruise – og hálfan heiminn með – í Mission: Impossible. Númer 4 ef ég taldi rétt.

Mér er ákveðin huggun í þessu viðtali, enda er sorgarferli okkar menningarblaðamannana aðeins öðruvísi en annarra þegar listamenn deyja; á meðan flestir hugsa: „af hverju var ég ekki búinn að fara á tónleika með honum,“ þá hugsa menningarblaðamennirnir: „af hverju var ég ekki búinn að taka viðtal við hann?“

Ég hefði að vísu aldrei getað farið á tónleika með Michael Nyqvist – en í einhverjum hliðarveruleika hefði ég þó getað það. Ég spurði hann nefnilega hvernig hann leiddist út í leiklist og þá svaraði hann:

„Ég vildi bara venjulega vinnu, að vera rokkstjarna eða lögfræðingur eða eitthvað. Ég lærði heimspeki í háskóla. Var að pæla í að verða kennara eða eitthvað slíkt en þáverandi kærastan mín spurði: „geturðu ekki prófað leiklist? Þá myndirðu kannski slappa aðeins af.“

Hann  rifjar upp hvernig valið stóð á milli þess að verða rokkstjarna, lögmaður eða kennari þegar þáverandi kærasta á mála hjá leiklistargyðjunni hvatti hann til að prófa leiklistina. Hann sótti um skóla og komst inn, sem kom honum verulega á óvart.

„Og ég hugsaði með mér að þeir hlytu að vera bæði heimskir og blindir . Ég hélt að þetta ætti allt saman bara að vera fyndið. En eftir tvær vikur voru kennararnir við það að fá nóg af mér.“

Einn kennarinn var sannarlega kominn með nóg af þessum baldna nemanda sem lagði ekkert á sig og setti honum því afarkosti, hann yrði að leika fyrir þau 5 mínútna senu úr Glæpi og refsingu og hann átti að vera aleinn á sviðinu. Nyqvist tók verkefnið alvarlega, undirbjó sig vel – og það átti eftir að teygjast á þessum fimm mínútum.

„Ég byrjaði, þetta átti að endast í fimm mínútur. En eftir 45 mínútur sagði kennarinn mér að stoppa. Ég sagði „ha?“ Þetta var vendipunkturinn fyrir mig. Eftir þetta var lífið bara leikhús, leikhús, leikhús, leiklist, leikslist, leiklist.“

Fimm mínúturnar urðu af 45 mínútum – líklega af því þarna varð einhver í fyrsta skipti bergnuminn af leik Michael Nyqvist. Það hefur gerst ósjaldan síðan. Hann á raunar stórleik í viðtalinu þegar ég spyr hann af því hvort hann hafi haft baksögu í huga fyrir hlutverk ritstjórans í myndinni – því það leiðir af sér bernskuminningu og skyndilega er sextán ára útgáfan af Michael Nyqvist fyrir framan mig, með alla komplexa unglingsárana í þessari litlu sögu:

„Þegar ég var unglingur var besti vinur minn fáránlega myndarlegur. Ég varð að vera nálægt honum og mér leið ömurlega. En svo vorum við á leið í partí og ég var bjartsýnn, það var von í lofti. En þar sem við stóðum og biðum eftir lest kom stelpa aðvífandi og sleikti andlitið á honum og fór í burtu. Ég fór bara heim og hugsaði með mér að þetta væri tíminn til að fremja sjálfsmorð. Þetta væri vonlaust.

Það er mikið af þessari týpu í Markel. Hann verður að sjá að það sé von. Hann þarf að vera nálægt, þá nær hann kannski að fjúka með.“

Hann rifjar upp unglingsárin þegar myndarlegi vinurinn var alltaf myndarlegri en hann – og fékk allar stelpurnar. Markel, persóna hans í myndinni virðist hafa upplifað sig í sömu stöðu gagnvart Arvid, unga sjarmörnum sem Sverrir Guðnason lék.

Þeir Arvid og Markel voru upphaflega persónur í hundrað ára gamalli bók eftir Hjalmar Söderberg, sem myndin er byggð á. Þegar ég spyr Michael um bók Söderberg þá átta ég mig fyrst á hve vel hann er lesinn, bæði í skáldskap sem og mannkynssögunni.

Hann var að lesa bók frá tímabilinu þegar þau byrjuðu í tökum og segir mér upptendraður frá öllu því sem var að gerast í Svíþjóð á þessum árum á milli 1910 og 20. Stéttarkerfið var að gerbreytast, konur fengu að kjósa 1921. Hann rifjar upp að menn hefðu talað öðruvísi, menn hefðu talað eins og þeir skrifuðu. „Með talandanum kemur þú upp um sjálfan þig og stétt þína, auðæfi eða fátækt,“ segir hann mér, eitthvað sem við gerum ekki lengur.

En hvernig dagblaði vinna þeir félagar á í myndinni? Og hvernig ritstjóri er persóna hans?

„Það sem hann hefur mestan áhuga á er kóngafólk, matur og stórslys. Þetta er raunverulega gul pressa, hún byrjaði um þetta leyti. Þetta er líka upphaf millistéttarinnar í Svíþjóð. Hann er birtingarmynd þess. Menntaður, hann vill breyta einhverju en er fastur á sínum bás.

En þarna var byltingin í Rússlandi 1917, þetta var mjög forvitnilegur tími.“

„Þetta er gula pressan, þetta er byrjunin á því,“ segur hann mér og segir að uppáhaldsfréttaefni ritstjórans séu kóngafjölskyldan, matur og hamfarir. Á þessum árum megi finna rætur millistéttarinnar í Svíþjóð og út í heimi hafi líka ýmislegt verið að gerast, byltingin í Rússlandi og svo hafi almennningur byrjað að lesa, fram að því höfðu bókmenntirnar mest verið lesnar og skrifaðar af prestum og læknum.

Svo förum við að tala um Svíþjóð, svona almennt, og hann reynir aðeins að sálgreina fósturjörðina.

„Það er eitthvað við Svíþjóð, þetta er mjög kyndugt land, óþolandi land, þú þarft að vera mjög pólitískt rétthugsandi en um leið erum við mjög frjálslynd.

Þannig að við eigum þessa lifandi satíru, kaldhæðni, sem er í raun óþýðanleg. Þetta minnir dálítið á Pólland, mitt á milli Þýskalands og Rússlands, við erum þar líka. Ég held þó að Svíþjóð sé nær Rússlandi þegar kemur að sagnahefð. Dostojevskí og svona. Ég man þegar við vorum í París að kynna bíómynd, við héldum stóran blaðamannafund, og ég byrjaði á að segja: „Þetta er mynd um framhjáhald.“ Og? var spurt á móti. „Og hvað? Þetta er mynd um framhjáhald.“ Þetta var menningarárekstur sem var skondið að upplifa.“

Hann segir Svíþjóð kyndugt og óþolandi land, þar sem menn þurfi að vera mjög pólitískt rétthugsandi um leið og landið sé afskaplega frjálslynt. Það leiði þó af sér sprelllifandi satíru og kaldhæðni sem sé illþýðanleg, sem og harm og sorg.

Sagnaheimurinn þeirra sé einhvers staðar á milli Þýskalands og Rússlands, þó nær Rússlandi – og hann rifjar upp blaðamannafund í París þar sem hann sagði í upphafi: „Þetta er mynd um framhjáhald.“ „Og?“ Var spurt á móti. „Og hvað? Þetta er mynd um framhjáhald,“ svaraði hann þá – menningarárekstur sem honum þótti forvitnilegur.

Ég sagði áðan sænski stórleikarinn Michael Nyqvist, það er þó kannski ekki alveg nógu nákvæm lýsing.

„Ég er hálf ítalskur, pabbi er ítalskur. Ég ólst upp á munaðarleysingjahæli. Mér finnst ég í raun hvergi eiga almennilega heima, en þegar ég er erlendis finnst mér ég mjög sænskur. Þegar ég er í Svíþjóð finnst mér ég mjög ítalskur. Ég bý líka í París, þar upplifi ég mig mjög sænsk-ítalskan. Þegar ég bjó í New York í sex ár upplifði ég mig mjög Evrópskan.“

Pabbi hans er ítalskur og hann ólst upp á munaðarleysingjahæli, og alþjóðavæðingin getur verið kyndug; í Svíþjóð upplifir hann sig sem mikinn Ítala, á Ítalíu sem Svía og í New York sem geysimikinn Evrópubúa. En hann er þakklátur fyrir að geta ferðast – og fyrir starfið sem gerir honum kleyft að lenda í öllum þessum ævintýrum.

„Ég er svo heppinn að hafa getað unnið í öllum þessum löndum og hitt allt þetta stórkostlega fólk. Maður verður að taka því af auðmýkt. Ef þú ert forvitinn og vinnur þessa vinnu, fæðr að vinna með Isabelle Huppert, Jean Reno, William Hurt, það er frábært. Mark Rylance …“

En ástæðan fyrir því að hann minntist á Pólland áðan er sú að við erum þrír sem sitjum í sófanum, ég, Michael og pólskur blaðamaður. Nyqvist var nýbúinn að leika í mynd sem tekin var upp í Póllandi – og ég fæ staðfestingu á því að How do you like Iceland er ekki sér-íslensk spurning. Hvernig líkar þér við Pólland, herra Nyqvist?

„Ég er svo mikill aðdáandi pólskra kvikmynda, Wajda, Polanski, Kieslowski. Ég átti frænku sem var frá Varsjá. Hún var í andspyrnunni, pabbi hennar var liðsforingi sem var drepinn í Katyn. Þannig að ég fór inná safn, sá andlitið hans upp á vegg. En að vinna þarna, það er svo mikil þekking og hæfileikar, þetta er sannarlega kvikmyndaland. Sagan ykkar er svo blóðug og þetta er svo fallegt land. Ég var mjög snortinn.

Segir hann og rifjar betur upp örlög frænkunnar. 

„Hún bjó í ræsinu, hún var í andspyrnunni, hún var sú eina úr sínum hóp sem lifði af. Ég held hún hafi talað tólf tungumál. Hún flutti til Svíþjóðar áður en Stalín dó, í upphafi sjötta áratugarins. Hún var dálítið ofsóknarbrjáluð, stríðið hafði verið trámatískt. Hún fór út í kirkjugarð með ömmu minni og mömmu og sagði við mömmu; “Sérðu þennan mann þarna? Hann er að elta mig. Nei, hann er rússneskur, hann er rússneskur.”

Svo fóru þær aftur í lestinni, þetta var löng leið – þau stigu út og fyrsti maðurinn sem þær sáu var hann.“

Við báðum um álit á Póllandi og fengum mannkynssögu 20 aldar á fimmtán sekúndum í gegnum fjölskyldusögu, um heimstyrjöldina og paranoju kalda stríðsins sem fylgdi. Þegar ég hlusta á upptökuna dauðsé ég eftir því að hafa ekki brotið þá reglu að spyrja aldrei þeirrar annars skelfilegu spurningar How do you like Iceland?

En hann ræðir svo meira um rithöfundinn Hjalmar Söderberg. Hann segir okkur að myndin sé byggð á einni af fáum bókum hans sem gætu talist bjartsýnar á eðli manneskjunnar – og endursegir okkur svo eina skáldsögu hans á eftirminnilegan hátt, Nyqvist kann nefnilega að segja sögur:

„Hann skrifaði skáldsögu sem er hrikaleg, heitir Pelsinn – ég skal segja þér stuttlega um hvað hún er.

Hún er um mann sem líður ömurlega, á konu og nýfætt barn. Það er aðfangadagur og hann á engan pening. Það snjóar og úti er skítkalt. Hann þarf að fara og fá lánaða peninga frá ríkum vini sínum. Hann fer út og það er kalt úti og fólk stjakar við honum og hann virkar afskaplega tötralegur. Hann finnur vin sinn sem heldur á fínum pels. Þannig að hann spyr: get ég fengið lánaðan smá pening? Ég þarf að kaupa jólagjafir fyrir konuna og barnið. Já, auðvitað, og því kemurðu ekki líka í mat til mín líka? segir vinurinn. Og fáðu pelsinn minn lánaðan, þú ert alltof kuldalega klæddur.

Hann klæðist í pelsinn, fer út á götu og skyndilega fara lögregluþjónarnir að heilsa honum, hann fer og kaupir kaffi – allt hefur breyst, það er nóg að þykjast.

Svo kemur hann heim, það er myrkur í ganginum, hann segir ekkert. Konan kemur og segir: Ó, ert þetta þú elskan? Hún hleypur til hans og hann hugsar: Hún elskar mig, hún elskar mig. Hún faðmar hann að aftan og segir: Ó, ég elska þig, ég elska feldinn þinn. En við verðum að vera snögg, eiginmaður minn kemur von bráðar heim.“

Þetta kallar hann klassískt dæmi um Hjalmar Söderberg og sýn hans á lífið, sagan  um feldinn sem kom upp um framhjáhald eiginkonu aðalpersónunnar og kom sömuleiðis upp um hversu innrætt við erum öll af stéttaskiptingu sem birtist meðal annars í klæðaburði.

Ég spyr hann svo að lokum hvað væri næst á dagskrá.  Hann segir mér frá franskri mynd um ófrískar afrískar flóttakonur sem eru seldar í kynlífsþrælkun í Túnis.

„Það er hús í Túnis þar sem smyglararnir fara með konur sem eru ófrískar og við það að eiga, þeir geta ekki tekið þær með í bátinn, eða ef þær eru veikar. Þeir láta þær eiga barnið í húsinu og þaðan taka smyglararnir börnin og selja í ólöglega ættleiðingu. Og þetta hús er risa-vændishús fyrir herlögregluna. Þetta er svo spillt að það er ógeðslegt. Myndin fjallar um það. Og ég leik lækni sem raunverulega er án landamæra, frábær læknir á daginn, fer á vændishúsið á kvöldin, frábær karakter.“

Ég spyr hann betur út í flóttamannastrauminn.

„Við náum ekki utan um hann. Ég man fyrstu bylgjuna frá Albaníu til Ítalíu og ég var í Brindisi þegar þau komu á bátnum og sérhver manneskja hékk á þessum vír og þráðu bara venjulegt líf, fyrir hann eða hana eða barnið þeirra, og það er eins núna.

Og bara að vita að það sé svona mikil illska til staðar. Auðvitað snúa þeir ekki til baka, myndi ég gera það? Og enginn matur, þetta er skelfilegur tími.

Þannig að sérhver manneskja sem lifir af er sigur fyrir okkur. Auðvitað er þetta flókið, hvar á að koma öllum fyrir, en við þurfum að reyna að leysa það. Ef okkur tekst það hefur okkur tekist vel upp. En þetta hefur vakið mikið af vafasömum öflum úr læðingi, í Ungverjalandi, Póllandi og Svíþjóð.“

Blomkvist

Hann rifjar upp flóttamannastraum frá Albaníu til Ítalíu, fyrsti flóttamannastraumurinn sem hann man – en nú finn ég ekkert um þessa mynd, kannski verður hún aldrei gerð, kannski verður hún gerð án Michael Nyqvist.

Viðtalinu líkur og við verðum samferða niður stigana á þeirri risabyggingu sem Berlinale Palast er. Við eigum ágætis spjall á leiðinni og eftirá hugsa ég að hann sé máski dálítið eins og blaðamaður. Hann lék blaðamann í myndinni sem ég var að ræða við hann um, hann var blaðamaður í sínu frægasta hlutverki, sem Mikael Blomkvist, og þótt hann væri í sjálfu sér í aðalhlutverki þar þá var það Noomi Rapace, sem Lisbeth Salander, sem var stjarnan. Það var hún sem við mundum eftir. Nyqvist var til baka, fylgdist með, týndist í bakgrunninum, rétt eins og hann týndist baka til í blaðamannaherberginu. Hann kunni þá list að vera í bakgrunninum og hlusta, eins og blaðamenn gera margir.

En það að hitta hann var eins og að hitta gamlan kunningja, það var eins og maður væri á leiðinni á barinn með gömlum vini. En þó, frekar eins og maður væri að fara á barinn með gömlum vini í einhverri seventís-mynd. Ég er að hugsa um Network, enn eina blaðamannamynd – senuna þar sem tveir gamlir blaðamenn fara á barinn í upphafi myndar. Svo kveðjumst við, hann vefur treflinum utan um sig og kinkar kumpánalega kolli og gengur út í febrúarkuldann.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á Rás 1 þann 12 júlí. Það má hlusta á upptökuna hérna.